Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Díanetík og Vísindaspeki (Vísindakirkjan)

Dianetics_triangle.jpgÁrið 1950 var bókin Dianetics: The Modern Science of Mental Health eftir Lafayette Ronald Hubbard (1911-1986) gefin út. Meðlimir Vísindaspekikirkjunnar hafa þessa bók í hávegum og líta á hana sem heilaga ritningu, hornstein kirkju og trúarbragða þeirra og þess sem þeir álíta vera þeirra eigin vísindi. Í bókinni fræðir Hubbard lesandann um díanetík sem er „... meðferðartækni sem hægt er að nota til að meðhöndla alla andlega kvilla og alla geðvefræna (e. psycho-somatic) sjúkdóma, með fullvissu um að fullum bata verði náð.“ Hann hélt því fram að hann hafði uppgötvað „hina einu uppsprettu andlegs ójafnvægis.“ (Hubbard 6). Þrátt fyrir það má finna tilkynningu á titilsíðu bókarinnar, þar sem segir að „Vísindaspeki og undirgrein hennar, Díanetík, eins og þær eru iðkaðar af Kirkjunni.... vilja ekki taka við einstaklingum sem óska eftir meðferð gegn sjúkdómum eða geðrænum vandamálum heldur benda þeim á sérfræðinga á þessum sviðum hjá öðrum stofnunum sem geta tekið á þessum málum.“ Það virðist nokkuð augljóst að tilkynningin átti að vernda Kirkjuna gegn lögsóknum fyrir að stunda lækningar án leyfis en höfundurinn heldur því margoft fram að díanetík geti læknað hér um bil allt sem hrjáir mann. Hann heldur því einnig ítrekað fram að díanetík séu vísindi. Samt sem áður geta nær allir sem hafa reynslu af vísindaskrifum séð strax á fyrstu síðum Dianetics að bókin er ekki vísindarit og höfundurinn er enginn vísindamaður. Díanetík er sígilt dæmi um gervivísindi.

Á fimmtu síðu Dianetics heldur Hubbard því óhikað fram að þau vísindi sem fást við hugann verði að finna „hina eiginlegu orsök allra geðrænna vandamála s.s. geðveiki, kvíða, þráhyggju, bælinga og hegðunarraskana.“ Slík vísindi verða einnig að hans sögn að finna „óvéfengjanlegar vísindalegar sannanir varðandi grunneðli og virkni mannshugans.“ Einnig segir hann að þessi vísindi verði að skilja „orsakir og leita lækninga gegn öllum geðvefrænum sjúkdómum“. Þrátt fyrir það segir hann líka að ósanngjarnt er að búast við því að þessi vísindi hugans gætu fundið eina eiginlega orsök fyrir öllum geðröskunum, þar sem að sumar þeirra verða vegna „áverka, vansköpunar eða sjúkdómstengdra skemmda á heila eða taugakerfum“ og læknar valda sumum þeirra. Hann lætur þó þessa augljósu þversögn ekki trufla sig en heldur ótrauður áfram og segir að þessi vísindi hugans „verði að vera á sama stigi og eðlis- og efnafræði, hvað nákvæmni í tilraunum snertir.“ Síðan bætir hann því við að díanetík sé „...skipulögð vísindi hugans sem byggð eru á skilgreindum frumsendum: staðfestum náttúrulögmálum líkt og þau lögmál sem náttúruvísindin byggja á“ (Hubbard, 6).

Sterk rök hníga að því að þessi svonefndu vísindi hugans séu ekki vísindi yfirhöfuð þegar kemur að fullyrðingum þess efnis að díanetík sé byggð á „skilgreindum frumsendum“ og einnig fyrirfram gefnum skilyrðum hans um að vísindi hugans eigi að finna eina grundvallarorsök andlegra og geðvefrænna kvilla. Vísindi byggjast ekki á frumsendum og þau halda því ekki fram að þau viti fyrirfram fjölda orsaka ákveðinna fyrirbæra. Að sjálfsögðu gefa vísindin sér að regla sé í náttúrunni og gera ráð fyrir þvi að það séu undirliggjandi lögmál sem ákvarða hvernig fyrirbæri í náttúrunni hegða sér. Þau gera einnig ráð fyrir því að þessi lögmál séu nokkurn veginn stöðug. En þau gefa sér það ekki að þau geti vitað fyrirfram hver þessi lögmál eða reglur séu eða hver sé hin eiginlega skipan sérhvers fyrirbæris í náttúrunni. Sönn vísindi byggjast á varfærnislegum tilgátum sem leitast við að útskýra náttúruleg fyrirbæri eins og þau birtast okkur. Vísindaleg þekking á orsökum, þar á meðal fjölda þeirra, er eitthvað sem er uppgötvað en ekki sett fram sem skilyrði. Einnig eru vísindamenn almennt séð nokkuð rökfastir og ættu erfitt með að halda því fram í fyllstu alvöru að þessi nýju vísindi sýni fram á að til sé ein orsök allra geðveilna, fyrir utan þær sem hafa aðrar orsakir.

Margt annað bendir til þess að díanetík séu ekki vísindi. Til dæmis á kenning Hubbards um hugann lítið sameiginlegt með nútíma taugasálfræði eða því sem vitað er um heilann og starfsemi hans. Ef marka má orð Hubbards þá er hugurinn þrískiptur. „Greiningarhugurinn (e. analytical mind) er sá hluti vitundarinnar sem skynjar og varðveitir reynslu til þess að takast á við og leysa vandamál og hann stjórnar lífverunni í gegnum hin fjögur svið tilverunnar. Hann hugsar í andstæðum og samlíkingum. Viðbragðshugurinn (e. reactive mind) er sá hluti vitundarinnar sem skrásetur og viðheldur sársauka og sársaukafullum tilfinningum og leitast við að stýra lífverunni einvörðungu á grundvelli áreitis og viðbragða. Hann hugsar einungis í sjálfsímyndum. Líkamshugurinn (e. somatic mind) er sú vitund sem stjórnast af greiningar- eða viðbragðshugunum og útfærir lausnir fyrir stjórnun líkamans“ (Hubbard, 39).

Samkvæmt Hubbard þá er orsök allra geðveilna eða geðvefrænna sjúkdóma engröm (e. engram). Engrömin má finna í svokölluðum „engrama-banka“ einstaklinga, þ.e. í viðbragðshuganum. Hann segir að „viðbragðshuginn getur valdið gigt, belgmeinum, asma, ofnæmum, skútabólgum, hjartakvillum, háum blóðþrýstingi og áfram væri hægt að telja upp nánast alla skráða geðvefræna sjúkdóma og nokkrir fleiri bætast þarna við sem hafa aldrei verið flokkaðir til slíkra kvilla eins og kvef.“ (Hubbard, 51). Það er ekki hægt að fá þessar fullyrðingar staðfestar. Okkur er einfaldlega sagt: „Þetta er vísindalegar staðreyndir. Þeim ber nákvæmlega saman við niðurstöður tilrauna“ (Hubbard, 52).

Engram er skilgreint sem „ákveðið varanlegt mark sem orsakað er af áreiti á frymi vefja. Það er álitið vera klasi áreita sem hefur einvörðungu áhrif á frumur lífvera“ (Hubbard, 60 neðanmálsgrein). Okkur er sagt að engröm verði einungis til við líkamlegar eða andlegar þjáningar. Meðan að slíkt á sér stað hættir „greiningarhugurinn“ að starfa og „viðbragðshugurinn“ tekur yfir. Greiningarhugurinn hefur marga stórfenglega hæfileika, til að mynda er hann ófær um að gera mistök. Hann hefur að sögn venjulega minnisbanka andstætt viðbragðshuganum. Þessir minnisbankar skrásetja allar hugsanlegar skynjanir og eru fullkomnir, eftir þvi sem hann segir frá, þeir skrásetja nákvæmlega hvað menn sjá, heyra o.s.frv.

Hvaða sannanir eru fyrir því að engröm séu til og að þau séu „innlimuð“ inn í frumur við líkamlega eða andlega sársaukafulla reynslu? Hubbards segir ekki að hann hafi framkvæmt tilraunir á rannsóknarstofu en hann segir aftur á móti að:

í díanetík, líkt og við athuganir á tilraunastofum, uppgötvum við okkur til mikillar furðu að frumur virðast skynja hluti á óútskýranlegan hátt. Án þess að við gefum okkur það að mannssálin fari inn í sæði og egg við getnað, þá getur ekkert annað útskýrt það hvers vegna þessar frumur eru á sinn hátt skyni gæddar (Hubbard, 71).

Þessi útskýring er ekki sambærileg „við athuganir á tilraunastofum“ heldur er hún fölsk valþröng sem gefur sér sönnunina fyrirfram. Að auki hefur kenningin um sálir sem fara inn í okfrumur minnsta kosti eitt fram yfir kenningu Hubbards: hún er ekki villandi og er hrein frumspeki. Hubbard reynir að skrýða frumspekilegar fullyrðingar sínar vísindalegum skrúða.

Frumur eru smæstu einingar hugsunar og hafa augljóslega áhrif á líkamann sem samsetta einingu hugsunar og sem lífveru. Óþarft er að smætta þennan vanda til að ákvarða frumsendur okkar. Frumurnar varðveita augljóslega engröm um sársaukafulla atburði. Það eru jú þær sem skaðast...

Viðbragðshugurinn gæti vel verið sameinuð vitund frumnanna. Maður þarf ekki að gefa sér að svo sé, en það er handhæg kenning meðan að engin rannsóknarvinna hefur farið fram á þessu sviði. Minnisbanki viðbragðshugans um engröm gæti verið efni sem frumurnar sjálfar geyma. Það skiptir ekki máli hvort að þetta sé trúverðugt eður ei sem stendur...

Það er vísindaleg staðreynd, sem hefur verið staðfest með prófunum, að við líkamlegan sársauka verður greiningarhugurinn óstarfhæfur svo að heildstæð skynjun lífverunnar verður lítil sem engin... (Hubbard, 71).

Hubbard heldur því fram að þetta séu vísindalegar staðreyndir byggðar á athugunum og prófunum. Staðreyndin er hins vegar sú að engar rannsóknir hafa farið fram á þessu sviði. Lýsingin hér fyrir neðan er dæmigerð fyrir þær „sannanir“ sem Hubbard teflir fram með engrama-kenningu sinni.

Kona er slegin niður og hún missir „meðvitund“. Það er sparkað í hana og henni sagt að hún sé með uppgerð, að hún sé til einskis nýt, að hún sé sífellt að skipta um skoðun. Stóll veltur um koll í látunum. Vatn rennur úr krana í eldhúsinu. Bíll keyrir framhjá í götunni fyrir utan. Engramið skráir allar þessar skynmyndir: sjón, hljóð, snertingu, bragð, lykt, tilfinningu, hreyfiskynjun, líkamsstöðu o.s.frv. Engramið samanstendur af allri upplifuninni sem hún varð fyrir þegar hún missti meðvitund: tónninn og tilfinningin í röddunum, hljóðið og upplifunin við fyrsta höggið og þeim sem eftir fylgdu, áferð gólfsins, skynjunin og hljóðið við það þegar stóllinn valt, skynjun höggsins, kannski blóðbragð í munni eða eitthvað annað bragð sem hún finnur, lyktin af þeim sem réðist á hana og lyktin í herberginu, hljóðin í vélum og dekkjum bíla sem keyra hjá, o.s.frv. (Hubbard, 60).

Hvernig þetta dæmi tengist geðrænum vandamálum eða geðvefrænum sjúkdómum útskýrir Hubbard á eftirfarandi hátt:

Engramið sem þessi kona hefur fengið inniheldur áreiti sem veldur taugaveiklun...Henni hefur verið sagt að hún sé með uppgerð, að hún sé til einskis nýt, að hún sé stöðugt að skipta um skoðun. Þegar að engramið er örvað aftur á einhvern hátt, en það getur gerst á marga vegu [eins og að heyra bíl keyra hjá meðan að vatn rennur úr krana og stóll veltur um koll] upplifir hún þá tilfinningu að hún sé einskis nýt, með uppgerð, og hún mun skipta um skoðun (Hubbard, 66).

Það er útilokað að prófa með reynsluathugunum svona fullyrðingar. „Vísindi“ sem byggja einvörðungu á slíkum hugmyndum eru ekki vísindi heldur gervivísindi.

Hubbard heldur því fram að óhemju mikið af gögnum hafi verið safnað saman um efnið og engin frávik frá kenningu hans hafa fundist (Hubbard, 68). Við eigum augljóslega að taka hann á orðinu fyrir þessu, þar sem að öll „gögnin“ sem hann hefur fram að færa eru annað hvort vitnisburðir eða uppskálduð dæmi eins og sjá má hér að ofan.

Annað sem bendir til þess að díanetík sé ekki vísindi, og að höfundur þeirra hafi ekki haft hugmynd um hvernig vísindi starfa, má finna í fullyrðingum eins og: „Hægt er að setja fram margar kenningar um afhverju mannshugurinn þróaðist eins og raun ber vitni, en það eru kenningar og díanetík snýst ekki um skipulag [hugarins]“ (Hubbard, 69). Þetta er hans aðferð við að segja að það komi honum ekki við þó að ekki sé hægt að finna engröm með athugunum. Þrátt fyrir að þau séu skilgreind sem varanlegar breytingar á frumum er ekki hægt að greina þær sem efnislegar myndanir. Það angrar hann heldur ekki að lækning á þessum fyrirbærum felst í því að þessi „varanlegu“ engröm eru „þurrkuð út“ úr minnisbanka viðbragðshugans. Hann heldur því að þau séu í raun ekki fjarlægð heldur einfaldlega flutt aftur í venjulega minningabankann. Hvernig þetta gerist í raun og veru virðist vera málinu óviðkomandi. Hann gerir einfaldlega ráð fyrir því að þetta sé það sem gerist, án nokkurra raka eða sannana. Hann einfaldlega endurtekur að þetta sé vísindaleg staðreynd, líkt og með því að segja það nógu oft þá verði það raunin.

Önnur „vísindaleg staðreynd“ samkvæmt Hubbard, er að skaðlegustu engrömin verða til í móðurkviði. Það reynist vera hinn hræðilegasti staður, „blautur, óþægilegur og óvarinn“ (Hubbard, 130).

Mamma hnerrar, barnið missir „meðvitund“. Mamma rekst utan í borð og höfuð barnsins merst illilega. Mamma er með harðlífi og barnið kremst í átökunum. Pabbi gerist ástríðufullur og barninu líður eins og það hafi verið sett í þvottavél. Mamma verður óttaslegin, barnið fær engram. Pabbi slær Mömmu, barnið fær engram. Eldri börnin leika sér í kjöltunni á Mömmu, barnið fær engram. Og svona heldur þetta áfram (Hubbard, 130).

Sagt er frá því að fólk geti fengið „fleiri en tvö hundruð“ engröm fyrir fæðingu og að þau engröm sem „fást á okfrumustiginu er þau alvarlegustu, þar sem þau eru fullvirk. Þau engröm sem fósturvísar fá eru mjög alvarleg og þau sem fóstur fá eru nógu slæm ein og sér til að koma fólki inn á stofnanir“ (Hubbard, 130-131). Hvaða sannanir standa að baki þessum fullyrðingum? Hvernig er hægt að prófa okfrumu til þess að sjá hvort hún gæti fengið engröm? „Allt eru þetta vísindalegar staðreyndir, prófaðar og staðfestar og svo prófaðar aftur,“ segir maðurinn (Hubbard, 133). En það verður að taka orð L. Ron Hubbards trúanleg fyrir þessum staðhæfingum. Vísindamenn gera venjulega ekki ráð fyrir því að aðrir taki orð þeirra trúanleg fyrir fullyrðingum af þessari stærðargráðu.

Til að þeir sem þjakaðir eru af geðveilum geti fengið bót meina sinna þarf meðferðaraðili í díanetík að koma til skjalanna. Þeir kallast áheyrendur (e. auditor). Hverjir eru svo hæfir til að verða áheyrendur? „Hver sá sem er greindur, staðfastur og er reiðubúinn til að lesa þessa bók [Dianetics] með athygli ætti að geta orðið áheyrandi í díanetík“ (Hubbard, 173). Áheyrandinn verður að nota „díanetískt hugarreik (e. reverie)“ til að ná fram lækningu. Markmið díanetík-meðferðar er að ná fram „losun“ og „skýrleika“. Fyrra hugtakið vísar til þess þegar að mesta streitan og kvíði hefur verið fjarlægður með díanetík; síðara hugtakið á við þegar engir virkir né huganlegir vefgeðrænir kvillar eða geðtruflanir eru lengur til staðar (Hubbard, 170). „Tilgangur meðferðarinnar og eiginlegt takmark er að fjarlæga innihaldið úr minningabanka viðbragðshugans. Við losunina hverfur meirihluti streitutilfinninga úr bankanum. Þegar skýrleika er náð hefur hann verið tæmdur.“ (Hubbard, 174) „Hugarreikið“ sem notað er til að ná þessum undraverða árangri er lýst þannig að reynt er á sérstakar heilastöðvar sem allir hafa en „vegna undarlegar yfirsjónar, hefur maðurinn aldrei uppgötvað þær“ (Hubbard, 170). Hubbard hefur uppgötvað eitthvað sem enginn áður hefur komið auga á og þrátt fyrir það eru lýsingar hans á þessu „hugarreiki“ á þá lund að maður sest niður og segir öðrum manni frá vandamálum sínum (Hubbard, 168). Í fullkominni rökleysu lýsir Hubbard því yfir að áheyrnin „hefur algjöra sérstöðu miðað við núverandi aðferðir“ eins og sálgreiningu, sálfræði og dáleiðslu sem „gæti á einhvern hátt skaðað einstaklinga og samfélög.“ (Hubbard, 168-169). Það liggur þó ekki í augum uppi hvers vegna það að segja einhverjum frá vandamálum sínum sé stórfengleg uppgötvun. Það er heldur ekki á hreinu hvers vegna áheyrendur geta ekki skaðað einstaklinga og samfélög, sérstaklega í ljósi þess að Hubbard ráðleggur þeim: „Ekki leggja mat á gögnin... ekki efast um gildi þeirra. Ekki deila með öðrum efasemdum þínum“ (Hubbard, 300). Þetta hljómar ekki eins og vísindamaður sem gefur skoðanabræðum sínum góð ráð. Þetta hljómar frekar eins og gúrú sem ráðleggur lærisveinum sínum.

Það sem Hubbard boðar sem vísindi hugans skortir sárlega eitt lykilatriði sem ætlast er til af vísindum, að hægt sé að reyna þau með reynsluathugunum. Lykilatriði svokallaðra vísinda Hubbards virðast ekki vera prófanleg, þó að hann haldi því fram ítrekað að hann byggi einungis á vísindalegum staðreyndum og gögnum úr fjöldamörgum tilraunum. Það er ekki einu sinni ljóst hvernig slík „gögn“ gætu verið. Flest þau gögn sem hann hefur eru vitnisburðir og vangaveltur, líkt og þær sem hann setur fram um sjúkling sem trúir því að henni hafi verið nauðgað af föður sínum þegar hún var níu ára. „Margir geðsjúklingar halda þessu fram,“ segir Hubbard, og bætir því við að hann haldi að sjúklingnum hafi verið „nauðgað“ þegar hún var „á níunda degi eftir getnað... Þrýstingurinn og hamagangurinn við samfarir er afar óþægilegur fyrir barnið og undir venjulegum kringumstæðum er hægt að búast við því að barnið fái engram sem inniheldur kynlífsþáttinn og allt sem var sagt meðan á samförunum stóð“ (Hubbard, 144). Slíkar vangaveltur eiga við í skáldskap en ekki í vísindum. Því er hægt að segja sem svo að vísindaspeki séu trúarbrögð sem byggð eru á skáldskap, en á það ekki við annars um öll trúarbrögð?

Skeptic's Dictionary: Dianetics


Blaðsíðutöl úr bókinni Dianetics miðast við útgáfuna frá The American Saint Hill Organization í Los Angeles.

Margar heimasíður á Netinu eru tileinkaðar vísindaspeki og díanetík, sjá tengla við upprunalegu færsluna á The Skeptic's Dictionary.

Hér á landi er heitið Vísindakirkjan gjarnan notað um þennan söfnuð.

Lárus Viðar 21.09.2006
Flokkað undir: ( Efahyggjuorðabókin )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.