Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Penn & Teller

Fyrir ári sá ég í fyrsta sinn Bullshit!-þætti með Penn & Teller. Það var á föstudaginn langa, þegar Vantrú sýndi Life Of Brian í Snarrót sem þá var til húsa við Garðastræti. Ágætur vinur okkar Vantrúarfólks mætti með nokkra þætti á þessa sýningu og við renndum tveimur í gegn eftir að Monty Python hafði lokið sér af.

Þessi kunningi okkar kynnti okkur fyrir þessu með þeim orðum að þarna væri um að ræða bráðskemmtilega þætti sem réðust gegn bábiljum á svipaðan hátt og Vantrúarvefurinn hafði gert, af harðneskju og á stundum ljótu orðbragði. Og enginn þarna varð svikinn af því. Miðlar voru kallaðir moðerfökkerar, viðmælendur asshóls og þar fram eftir götum. Þótt þeir félagar gengju lengra en við höfðum nokkurn tíma þorað á Vantrú gladdi það mig ósegjanlega að horfa á þetta. Loksins loksins þorðu einhverjir að tala um þessa hluti af fullkomnu hispursleysi og það í Bandaríkjunum. „Djöflull hljóta þeir að vera búnir að pissa marga off,“ hugsaði maður.

En þrátt fyrir óheflað orðbragð og kómíska framgöngu eru þessir þættir síður en svo nein froða. Her manns rannsakar hið rétta á bak við hvert málefni og mjög góð rök færð fram fyrir hverju því sem þarna er haldið fram. Þættirnir eru einfaldlega fullkomlega málefnalegir.

Málefnaleiki snýst nefnilega alfarið um það að færa góð rök fyrir máli sínu og halda sig við málefnin, burtséð frá orðbragði. Og þótt hæðst sé að viðmælendunum dregur það ekki úr málefnaleikanum ef góð rök fylgja. Það er einungis þegar áherslan er alfarið færð af málefnunum yfir á persónur manna sem botninn dettur úr hlutunum. Og það gerist aldrei hjá Penn & Teller.

Ég hef átt þess kost, á þessu ári sem liðið er frá þessu kvöldi, að sjá allnokkra fleiri þætti. Sumt þarna kemur ekki sérlega á óvart heldur er þar að finna nákvæmlega sömu rök og færð hafa verið fyrir hinum og þessum málum hér á Vantrú. En einn og einn þáttur hefur fjallað um efni sem maður hefur annað hvort ekki velt mikið fyrir sér, ellegar tekið órökstudda afstöðu til í einhverri hugsanaleti, einfaldlega fylgt fjöldanum og trúað lygaáróðrinum. Og það er ansi frískandi að þurfa að horfast í augu við eigin fordóma og fáfræði, þurfa að endurskoða skoðanir sem maður taldi að væru góðar og gildar.

Vissuð þið til dæmis að endurvinnsla er algert kjaftæði? Hafið þið velt því fyrir ykkur að allt þetta tilstand í kringum flokkun sorps hefur ekkert með umhverfisvernd að gera, en kostar samfélagið aftur á móti óheyrilegar upphæðir? Hvað á t.d. endurvinnsla á pappír að fyrirstilla? Það er ekki eins og þetta sé ekki endurnýjanleg auðlind. Út um víðan völl eru trjábúgarðar standa þeir vel undir þeirri eftirspurn sem er á timbri. Endurvinnsla á pappír gerir ekki annað en grafa undan lífsviðurværi trjáframleiðenda og svo kostar það fé og fyrirhöfn að koma öllu þessu pappírsflóði í endurvinnlustöðvar og gera það aftur nýtilegt.

Penn & Teller er fátt óviðkomandi. Þeir hakka niður hindurvitni á borð við trúarbrögð, miðla, Feng Shui, dáleiðslu til lækninga, heilagleika fólks á borð við Móður Theresu, Gandhi og Dalai Lama, ráðast gegn þeim sem selja okkur líkamlegt atgervi, þeim sem halda á lofti fullyrðingum um skaðsemi óbeinna reykinga, Þeir sýna okkur fram á gagnsleysi 12 spora kerfisins, uppræta ranghugmyndir um fjölskyldugildin, Stóra Bróður, bann við byssueign og -burði, verja af hörku ákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar um málfrelsi og gefa skít í þá sem vilja hefta aðra í að nota munnsöfnuð. Og er þá fátt eitt upptalið.

Kjaftæðið í Bandarísku þjóðfélagi er yfirþyrmandi. Það eru ekki bara Biblíubrjálaðir sköpunarsinnar sem eru að rugla í menntakerfinu, heldur eru stjórnvöld og stofnanir sífellt að hefta réttindi borgaranna á öllum sviðum, ellegar að gera þá upptekna af tímasóandi rugli á borð við endurvinnslu. Skaðsemi þessa er sláandi, eins og kemur t.d. fram í þættinum um baráttuna gegn fíkniefnum. Allt eru þetta málefni sem bandarískt þjóðfélag verður að fá tækifæri til að ræða af alvöru og hispursleysi. Bullshit!-þættirnir njóta sífellt meiri vinsælda og hafa jafnvel verið tilnefndir til Emmy-verðlaunanna. Bandarískur almenningur er farinn að taka eftir þessum þáttum og leggja við hlustir.

Það er gott til þess að vita. Penn & Teller eru einfaldlega, með óbilgjarnri dirfsku sinni og heiðarleika, að stíga fyrstu skrefin í þá átt að afrugla Bandaríkin. Ef einhverntíma er hægt að tala um frelsara heilla samfélaga, þá eru það þeir.

Eins og Vantrúarlesendur vita er mikið af óstjórnlegu rugli í íslensku þjóðlífi líka. Í bráðum þrjú ár hefur þessi vefur helgað sig því að benda á skaðsemina sem hlotist hefur og hlotist getur af því að borgararnir gangi um með hausinn fullan af hindurvitnum og bulli. Og það hve málflutningur okkar hér á margt sameiginlegt með því sem birtist í Bullshit!, hve margar greinar hér hafa tekið á sömu málum með sömu áherslum, jafnvel löngu áður en þessir þættir fóru í loftið, ber því einfaldlega vitni hversu margar þær niðurstöður sem efahyggjufólk kemst að eru hinar sömu. Þegar menn sjá í gegnum kjaftæðið í umhverfinu og hugsa sig frá því verða sömu hlutirnir augljósir og það án þess að nokkur samgangur nái að smita hugmyndunum. Fíkniefnabann, ljótt orðbragð, tjáningarfrelsi allra skoðana, ástin, jóga, 12 spora kerfi, göfgun, fjölskyldugildi og kjaftæðið kringum miðla er t.d. allt saman eitthvað sem ég sjálfur var búinn að komast að niðurstöðu með eigin gagnrýninni hugsun. Byssueign Bandaríkjamanna, endurvinnsla, dáleiðsla, genabreytirngar á matvælum VS lífrænt ræktað og hráát, óbeinar reykingar og samsæriskenningar eru aftur á móti málefni sem ég hafði haft um einhverjar ranghugmyndir þar til ég fékk að kynnast málefnalegri og rökstuddri umfjöllun þessarar samherja minna.

Efahyggjan á eftir að frelsa samfélögin fyrir rest. Um það er ég sannfærður og því ætla ég að trúa alveg órökstutt um sinn.

Birgir Baldursson 25.04.2006
Flokkað undir: ( Efahyggja , Samherjar )

Viðbrögð


Khomeni - 25/04/06 11:01 #

Fín grein Birgir. Ég hef oft velt fyrir mér spurningunni með að lögleiða dópið. Ég meina fólk fær sér dóp hvort sem það er löglegt eða ekki. Dópistinn reddar sínu.

Hinsvegar: Ef dóp er löglegt, væri ekki þá næsta sjálfsagða krafa að fá að auglýsa dópið í fjölmiðlum landsins? Hvað ætti mögulega að stoppa það? Þetta er jú lögleg vara. (ég er reyndar þeirrar skoðunar að bann við áfengisauglýsingum sé rugl)

Væri ekki soldið ábyrgðarlaust að gefa margramiljóna ímyndarfyrirtækjum lausan tauminn í því að markaðssetja dóp (segjum Heróín) fyrir aldurshópinnn 18 - 25?

Ég held að það sé nauðsyn á reglum, en við sjálfan Allah. hafið þær skýrar og fáar.


Siggi Örn (meðlimur í Vantrú) - 25/04/06 11:24 #

...þeim sem halda á lofti fullyrðingum um skaðsemi óbeinna reykinga...

Ég hef nú alla tíð haldið að óbeinar reykingar væru ekki eingöngu óþægilegar (persónulegt álit) heldur einnig skaðlegar (gæti mótast af áðurnefndu persónulega áliti) :S Gætirðu útskýrt þetta nánar, ef ekki hér þá á spjallinu?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/04/06 11:45 #

Maggi í gvuðanna bænum.

Ég er ósammála Penn&Teller um óbeinar reykingar en verð að játa að þátturinn var sannfærandi.

Finnst samt sem litið hafi verið framhjá ýmsum faraldsfræðilegum gögnum í umfjöllun þeirra og of mikið talað um að hitt og þetta hafi ekki verið sannað. Það eru skaðleg krabbameinsvaldandi efni í tóbaksreyk og makar reykingamanna eru líklegri til að fá ýmsa sjúkdóma en þeir sem ekki búa með reykingarmanni. Ég held að þessar fullyrðingar mínar séu ekki umdeildar.

Maggi, ef þú ætlar ekki að segja neitt gagnlegt skaltu sleppa því að kommenta.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 25/04/06 12:04 #

Penn & Teller hafa tekið fram að þeir hafi núna séð nægilega góðar rannsóknir til þess að þeir séu sannfærðir um skaðsemi óbeinna reykinga. Ég veit að planið hjá þeim var að gera "við höfðum rangt fyrir okkur" þátt.


jonfr - 25/04/06 12:58 #

Ég á Penn & Teller Bullshit! season 1 á DVD. Það er á áætlun hjá mér að kaupa season 2 á DVD fljótlega, og síðan season 3 þegar þar að kemur. Þetta eru áhugaverðir þættir. Þetta eru skemmtilegir þættir, þó svo að ég sé ekki alltaf sammála þeim.


Blublu - 25/04/06 14:14 #

Jamm, þetta eru skemmtilegir þættir. Svo má nefna að Penn Jillette (þessi stóri sem talar í sífellu) er líka með útvarpsþátt og það er meira að segja podcast: farðu á http://www.pennradio.com/ og klikkaðu á subscribe.

Fyrri upptökur (áður en podcastið fór í gang) er svo hægt að nálgast á http://www.pennfans.net/ (klikkaðu á "audio archive"). Þetta er ekki bara trúleysingjaútvarp, hann talar líka um allt annað sem honum dettur í hug, þar á meðal trúðaklám, Britney Spears, stjórnmál og allt þar á milli.


Blublu - 25/04/06 15:25 #

Þeir viðurkenndu reyndar að það væri fínt að endurvinna til dæmis áldósir. En málið var sem sagt að það þarf ekki að láta fólk endurvinna dósirnar vegna þess að markaðurinn sér fyrir því út af því að það er hægt að græða á því. Fólk sem safnar dósum er ekki að gera það vegna þess að þeim er annt um unhverfið, þeir eru að því til að græða pening. Ég held að P&T hafi aðallega verið að mótmæla því að það sé verið að nota skattfé Bandaríkjamanna í endurvinnslu sem skilar sér svo ekki til baka í neinum sparnaði.

Það má auðvitað ekki gleyma því að þessi þáttur er bandarískur, og það sem á við í Bandaríkjunum á ekki endilega við annars staðar, og alls ekki endilega hér á landi. Til dæmis er fínt að endurvinna plast á Íslandi. (allavega plastflöskur, eða það held ég allavega)


maría - 25/04/06 15:29 #

Hef ekki séð þessa þætti en það sem mér leiðist afskaplega með óbeinu reykinga áróðurinn er að það gleymist alltaf að ræða loftmengun úti fyrir. Það er hægt að velja veitingastaði reyklausa eða ekk ien það er ekki hægt að velja hreint ómengað loft í borgum. Í Reykjavík fer loftmengun 30 sinnum á ári yfir hættumörk en ekkert er gert!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/04/06 15:44 #

Ég vil minna á það sem fram kemur fyrir ofan athugasemdarformið hér fyrir neðan, við krefjumst þess að fólk noti gilt tölvupóstfang.


Sævar Helgi - 25/04/06 16:19 #

Ég hef aldrei skilið það hvernig einhverjir geta verið á ósammála staðreyndum? Ef einhverjar staðreyndir falla ekki að skoðun minni, þá breyti ég skoðun minni.

Í sambandi við óbeinu reykingarnar þá finnst mér sígarettureykurinn og lyktin af þessu algjörlega viðbjóðsleg. Það er næg ástæða til þess að banna þennan viðbjóð.

Loftmengun fer alltof oft yfir hættumörk á Íslandi en þá verðum við bara að taka af skarið og gera eitthvað í því. Keyra til dæmis minna...


Sindri Guð - 25/04/06 16:57 #

Vegna greinar á bls 6 í nýlegu Stúdentablaði sem ég er með undir höndunum, sem heitir "Fjöldamorðin 11.sept, 2001. Vorum við blekt?", eftir einhvern Elías Davíðsson, vil ég benda á þennan Bullshit! þátt: http://bareknucklepolitics.com/?p=1198


maria - 25/04/06 17:07 #

Sammála með að keyra minna stend mig ágætlega í því takk þrátt fyrir að ég eigi bíl get ég alveg skilið hann eftir heima flestum finnst það nú alveg út í hött það er eins og það þurfi að viðra bíla eins og hunda. Með loftmengunina þá held ég að hún sé farin að bitna mest á börnum hér í borginni því þau eru oft meira úti við en fullorðnir. Enginn reykir lengur yfir börnin en leyfir sér að skilja bíla eftir í lausagangi við barnavagna og leikskóla er ekkert tiltökumál. Bendi einnig á aukningu á asmatilfellum hjá börnum.


khomeni - 25/04/06 17:59 #

Hví þarf "gilt netfang" til þess að pósta á þenna þráð? Er khomeni@gmail.com "gilt netfang"?

Ég var að festa kaup á þessum Bullshit-þáttum. Ég hlakka afar mikið til að berja þá augum.

-o-o-o-o-o-

Annars er Khomeni á leiðinni á miðilsfund á næstunni... Ætti hann að vera með falda myndavél? Þetta er víst agalega "fínn" miðill sem hann er að fara til.

Ekki þessi Þórhallur flautaþyrill sem er svo leiðinlegur. Það væri gaman að sjá hvað hann er með i tekjur af þessari sviksamlegu starfsemi.

-o-o-o-o-

Ef Khomeni væri atvinnulaus aumingi sem nennti ekki að sjá sjálfum sér farborða á heiðarlegan hátt, þá færi hann að spá fyrir fólki. Þetta er fín innivinna og maður getur sofið út eins mikið og maður getur. Ég yrði sennilega "spámiðill" en það er auðvirðilegasta grein hinnar ömurlegu svikahrappastéttar sem kallar sig miðla.

Ef maður er "spámiðill" þá þykist maður fara í trance og teiknar einhverja vitleysu sem maður svo sjalfur túlkar sem skilaboð frá "verndurum" mans (sem oftast eru indíjánar af Cherokee-ættflokkinum). Ég hef alltaf furðað mig á þvi þegar miðlar og svoleiðis hyski er með skilaboð frá verndurum manns að þeir notast allaf við þekktustu indíjána ættflokkana í Norður Ameríku. Cherokee og Apache.

Nú er það svo að hundruðir ef ekki þúsundir indíjána ættflokka voru og eru til í Ameríku. Því notast spámiðla-hyskið ekki við alla hina 999 sem eru ekki eins þekktir?

Þetta er af sama meiði að allir sem þykjast hafa upplifað fyrri líf vour alltaf eitthvað dramatískt í fyrra lífi. "ég var norn" segir vinkona min. "og var brennd á báli"...

Því kemur aldrei fram á þessum fyrralífsfundum að einhver var morkinn básúnuleikari í þýskri lúðrasveit? "Ich bin Biemann Und Ich spiele Basunen".

Nei.. miklu frekar "ég var gyðingur sem dó í Auschwitz"...(það er sko dramatískara en að drepast í bílslysi)

þetta hyski kemur upp um þekkingarleysi sitt á fyrstu metrunum. Vesalings fólkið.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/04/06 18:04 #

Hví þarf "gilt netfang" til þess að pósta á þenna þráð? Er khomeni@gmail.com "gilt netfang"?

Gilt póstfang er póstfang sem hægt er að senda tölvupóst á, flóknara er það ekki.

Annars er Khomeni á leiðinni á miðilsfund á næstunni... Ætti hann að vera með falda myndavél?

Hvet þig a.m.k. til að hafa diktafón og taka upp það sem miðillinn segir, held það sé tiltölulega algengt að það sé gert.

Annars er það þannig að þegar maður hefur heyrt í einum miðli hefur maður heyrt í þeim flestum! þetta er allt eins.


Turkish - 25/04/06 18:13 #

Því kemur aldrei fram á þessum fyrralífsfundum að einhver var morkinn básúnuleikari í þýskri lúðrasveit? "Ich bin Biemann Und Ich spiele Basunen"

Það væri spurning að fara til miðils og þegar að hann/hún kemur með sorgarsöguna úr manns fyrra lífi að segjast vera miðill sjálfur og halda þessu fram.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 25/04/06 19:56 #

Þú þyrftir líklega ekki að fela dictafónin. Miðlarnir leyfa venjulega slíkt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/04/06 21:28 #

Penn & Teller hafa tekið fram að þeir hafi núna séð nægilega góðar rannsóknir til þess að þeir séu sannfærðir um skaðsemi óbeinna reykinga. Ég veit að planið hjá þeim var að gera "við höfðum rangt fyrir okkur" þátt.

Frábært! Svona á að umgangast sannleikann. :)


Gunnar - 26/04/06 00:39 #

Miðlar voru kallaðir moðerfökkerar, viðmælendur asshóls og þar fram eftir götum … Þættirnir eru einfaldlega fullkomlega málefnalegir.

Þar sem þættirnir voru fullkomlega málefnalegir að þínu mati, þá hafa þeir væntanlega sýnt fram á það á óyggjandi hátt að miðlarnir hafi haft mök við mæður sínar. Einhvern veginn tókst þeim að eiga tjáskipti við viðmælendur sína þrátt fyrir það að þeir hefðu ekki talfæri (það væri áhugavert að sjá hvernig tjáskipti við endaþarm fara fram - förum ekki nánar út í það - gæti bara misskilist).

Er ég sá eini hér sem finnst menn gjaldfella málflutning sinn með fúkyrðaflaumi? Hefði höfundum fyrsta viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna tekist betur upp ef þeir hefðu bætt við hann "Málfrelsi skal meira að segja ná til spámiðla, þótt þeir séu auðvitað hálfvitar"? Hefði það verið rúsínan í pylsuendanum á afstæðiskenningu Einsteins ef lokaorðin væru "Newton var fífl"? Væri þróunarkenningin betri ef Darwin hefði bætt við svona til gamans að eina undantekningin á kenningunni væru hindúar, því að það væri með ólíkindum að vitleysingar sem tryðu svona rugli væru ekki löngu útdauðir? Væri þingræða fullkomlega málefnaleg ef þingmaðurinn færði góð rök fyrir máli sínu og endaði síðan á "Þess vegna er háttvirtur menntamálaráðherra þvílíkur fæðingarhálfviti að það má undrum sæta að hann geti gert þarfir sínar hjálparlaust.

Það er einungis þegar áherslan er alfarið færð af málefnunum yfir á persónur manna sem botninn dettur úr hlutunum.

Ókei, þannig að málflutningur er alfarið málefnalegur alveg fram að þeim tímapunkti þegar farið er alfarið að tala um eitthvað annað? Kveikt eða slökkt. Gott að búa í svarthvítum heimi.

Og það gerist aldrei hjá Penn & Teller.

Svarthvíta hetjan mín, hvernig ertu í lit?

Vissuð þið til dæmis að endurvinnsla er algert kjaftæði?

Tókst þeim sem sagt með óyggjandi hætti að sýna fram á að ekkert vit sé í neinu sem kalla má endurvinnslu? Ég segi fyrir mitt leyti að þegar fólk talar svona afdráttarlaust fer ég að efast um að það viti um hvað það er að tala. Ég er hjartanlega sammála Darwin þegar hann segir "Ignorance more frequently begets confidence than does knowledge".

Penn & Teller eru einfaldlega, með óbilgjarnri dirfsku sinni og heiðarleika, að stíga fyrstu skrefin í þá átt að afrugla Bandaríkin.

Hitler, með óbilgjarnri dirfsku sinni og heiðarleika, tók fyrstu skrefin í þá átt að "afrugla" Þýskaland (með sínum hætti). Jájá, mér finnst ósköp þreytt að líkja öllu mögulegu við Hitler. En óbilgjörn dirfska og heiðarleiki út af fyrir sig þýðir ekki að afraksturinn sé góður. Ég hef ekki séð þessa þætti en þeir eru búnir að vera ofarlega á óskalista hjá mér um hríð. Ég mun eflaust hafa gagn og gaman af því að sjá þá og fá ákveðið kikk út úr óbilgirni þeirra. En téð óbilgirni er engu að síður að mínu mati ljóður á ráði þeirra frekar en kostur.

Nú hefur komið í ljós í fyrri athugasemdum að P&T eru ekki eins afdráttarlaust gegn endurvinnslu og með óbeinum reykingum og þú lést í ljós. Ég "nenni" þeim "tepruskap" að sleppa því að kalla þig hálfvita þrátt fyrir það.

Ef þú hreytir ónotum í barn vegna slæmrar hegðunar þess, er líklegra en ekki að það forherðist í hegðun sinni. Þú átt nú til að líta á andmælendur þína sem börn. Flest börn þurfa einhvern tíma á ærlegum skömmum að halda. En góður uppalandi er miklu oftar skilningsríkur, jákvæður og þolinmóður (samt ákveðinn). Væri ekki klókara að taka vitleysingana á sálfræðinni, sýna svolítinn skilning og umburðarlyndi, beita sókratísku aðferðinni og fá fólkið með þér í lið í stað þess að fá það upp á móti þér? Hvort er þér mikilvægara að fá klapp á bakið frá þeim sem þegar eru sammála þér, eða vinna einn "úr hinu liðinu" á þitt band?

Látum S vera Sagan, R vera Randi og V vera Vantrú. Núgildandi jafna er

V = 0.1S + 1.9R

Ég væri ánægður með

V = S+R


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 26/04/06 01:06 #

Þó svo að ég sé ekki hrifinn af því að uppnefna fólk þá sé ég lítið athugavert að kalla loddara sem svíkja peninga úr veiku fólki og leika sér að tilfinnungnum þeirra öllum illum nöfnum. Þeir kalla alls ekki alla þá sem eru ósammála sér illum nöfnum ef ég man rétt, heldur bara þessa svikahrappa.

Ef ég man rétt þá viðurkenndu þeir að sum endurvinnsla væri ekki kjaftæði (dósir og flöskur).


Sævar Helgi - 26/04/06 01:31 #

Gunnar, hefurðu séð Penn & Teller þátt? Þegar ég horfi á þessa yndislegu þætti finnst mér bara gaman af því þegar þeir tala um "motherfuckers", "assholes" og hvaðeina. Mér finnst það bara fyndið og það truflar mig ekki neitt.

Ég veit alveg að það má alveg sleppa því að tala svona en ég hugsa að þetta sé meira gert út frá skemmtanagildinu. Ef þættirnir væru ekki fyndnir og óheflaðir myndi maður tæpast hafa áhuga á að horfa á þá.

Mér finnst að þrátt fyrir óheflað orðbragð í þáttunum, þá dregur það ekkert úr upplýsingagildi þeirra. Þetta eru frábærir þættir. Stórskemmtilegir og upplýsandi sem öllum er holt að horfa á, þótt ekki væri nema til að æsa fólk upp og hvetja það til gagnrýnnar hugsunar. Sem slíkir virka þeir frábærlega. Og mér er svoleiðis alveg sama þótt þeir kalli einhverja "motherfuckers". (Kannski vegna þess að mér finnst það líka!)

Ég er mikill aðdáandi Carl Sagan og hef lesið allar hans bækur. Uppáhalds bókin mín eftir hann heitir "The Demon-Haunted World" þar sem hann fer fínt og kurteisislega í að gagnrýna bábiljur og... well, bullshit! Það er fínt að hafa svoleiðis menn líka, alveg eins og það er fínt að hafa menn eins og Penn & Teller sem tala bara tæpitungulaust um það sem þeim finnst og standa og falla með því hvort þeir hafa rangt fyrir sér eða ekki.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/04/06 01:39 #

Þar sem þættirnir voru fullkomlega málefnalegir að þínu mati, þá hafa þeir væntanlega sýnt fram á það á óyggjandi hátt að miðlarnir hafi haft mök við mæður sínar.

Horfðu bara á þáttinn og leggðu mat á það hvort moðerfökkers sé ekki bara réttnefni. Eða hvaða augum á að líta þann sem fökkast með minningu látinnar móður einhvers annars, byrjar að bera frá henni upplogin skilaboð og hvað eina? Kemur kúnnanum til að gráta og halda að hann sé að ná sambandi við móður sína og tekur svo stórfé fyrir allt samana?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/04/06 01:45 #

Það er einungis þegar áherslan er alfarið færð af málefnunum yfir á persónur manna sem botninn dettur úr hlutunum.

Ókei, þannig að málflutningur er alfarið málefnalegur alveg fram að þeim tímapunkti þegar farið er alfarið að tala um eitthvað annað? Kveikt eða slökkt. Gott að búa í svarthvítum heimi.

Er það ekki miklu frekar þú sem lifir í svarthvítum heimi? Málefnalegar árásir og háð eru í góðu lagi fyrir mitt leyti og líka málefnalegar árásir án háðs. Þú virðist hin vegar ekki sætta þig við neitt nema málefnalegar árásir án háðs. Mín veröld er litríkari en þín.


Sævar Helgi - 26/04/06 01:45 #

Þegar ég sé og hlusta á fólk sem níðist á fólki í sorg, fólk sem lýgur að öðru fólki, fólk sem heldur því fram að "pabbi hafi tekið þátt í samsæri ríkisstjórnar Bandaríkjanna um að fljúga á turna og sviðsetja dauða sinn", fólk sem plokkar peninga af öðru fólki á óheiðarlegan hátt, þá kalla ég það bara sínu rétta nafni: Hyski, motherfuckers, asnar, fífl og fávita.

Og ég skammast mín bara ekkert fyrir það!

Í mínum huga eru miðlar ekkert annað en hyski... þar til einhver hefur sannfært mig um annað. Þá biðst ég afsökunar og tek orð mín til baka.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/04/06 01:52 #

Jájá, mér finnst ósköp þreytt að líkja öllu mögulegu við Hitler. En óbilgjörn dirfska og heiðarleiki út af fyrir sig þýðir ekki að afraksturinn sé góður.

Hvað er slæmt við óbilgirni?

ó|bilgjarn L
1
• ótrauður, sem trautt bilar, er fastur fyrir
2
• ósanngjarn, sem víkur ekki né hliðrar til

Ég er að nota þetta orð í fyrri merkingunni, en kannski skilur þú það í þeirri seinni. Ég held ekki að þeir búllsjittbræður séu ósanngjarnir, né færi ég nokkurn tíma að hefja slíka hegðun upp til skýjanna.

Og þér er velkomið að kalla mig hálfvita. Hver veit nema ég sé einmitt einn slíkur. Þú getur sýnt mér fram á það með rökum, það er ekki nóg að kalla mig það bara án alls rökstuðnings.

Já, ég kannski kallaði ég endurvinnslu kjaftæði, þótt ekki sé hún það öll. Auðvitað má til sanns vegar færa að endurnýting málma sem ekki er of mikið til af er hið besta mál. En það réttlætir ekki allt glórulausa bruðlið og ruglið í kringum sorpflokkun og aðra fyrirhöfn. Rökin gegn flest-allri endurvinnslu eru fín.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/04/06 10:18 #

Gunnar, þú ert óskaplega fljótur að stökkva upp þykir mér. Hvernig væri t.d. að horfa á miðlaþátt Penn&Teller. Ég skal redda þér honum á tölvutæku formi ef þú hefur áhuga.

Segðu okkur svo, eftir að hafa horft á þáttinn, að þú gagnrýnir þessa orðanotkun.

Hvað með þessa orðanotkun mína? Fer ég þar langt yfir strikið, má þetta?

ps. Vinsamlegast passaðu þig á lögmáli Godwin


Blublu - 26/04/06 12:06 #

Málið er líka í sambandi við málaferlin. Penn útskýrir að það er allt í lagi að kalla fólk fífl og hálfvita vegna þess að það er "skoðun" en ef þeir kalla fólk svindlara og lygara þá eru þeir að segja "staðreynd" og þá er hægt að fara í mál við þá (alveg sama hvort staðreyndin er sönn eða ekki). Allavega var það eitthvað svoleiðis, ég man ekki nákvæmlega útskýringuna. Svo er þetta líka bara fyndið. Horfið bara aftur á fyrsta þáttinn og takið eftir í byrjun þegar Penn útskýrir þetta.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 26/04/06 12:29 #

Jú rétt, ég man eftir þessu líka. Þeir geta kallað menn öllum illum nöfnum en geta ekki kallað þá lygara og svindlara því þá geta þeir farið í mál og þá þurfa P&T að sanna að þeir séu það.


Svanur Sigurbjörnsson - 26/04/06 18:50 #

Þættir Penn & Tellers eru eitt það mikilvægasta sjónvarpsefni sem hefur litið dagsins ljós á þessari öld. Þeir eru hugsandi menn og félagslega ábyrgir. Þeir hafa greinilega fengið æluna í kokið af öllu kjaftæðinu í kringum okkur og ákveðið að gera eitthvað í málunum frekar en að bölva í hljóði eins og flest okkar.

Þeir sýna mikla dirfsku og hugrekki að taka þetta að sér því að þeir hljóta að hafa eignast ansi marga óvini fyrir vikið. Það er ekkert grín að eiga byssuglaða bandaríkjamenn sem óvini. Einn frægasti trúleysingi veraldar, John Lennon ("Imagine, there is no religion) var t.d. skotinn niður af bandarískum vesaling.

Penn og Teller fyrirlíta þessa kuklara sem að þeir eru að afhjúpa og fara ekki leynt með það. Það er nú einu sinni svo að orðstír manns skapast að miklu leyti af því hvaða skoðunum maður heldur á lofti og hvers konar lífsviðurværi maður hefur. Ég fæ sömu tilfinningu og P&T gagnvart fíflum sem ginna trúgjarnt fólk og hafa af því atvinnu. Hins vegar færi ég varlega í að kalla einstaka fólk nöfnum því það þjónar ekki tilgangi. Fólk sem kuklar í ágóðaskyni og setur börn í hættu á þó skilið að vera kallað "motherfuckers" og vera dæmt til fangelsisvistar. Það er erfitt að þykja nafnaköllin ósanngjörn en í mörgum tilfellum eru þau það. Þeim ætti að duga að sýna fram á ruglið og kalla það "bullshit".

Ég er sammála öllu í season 1 og 2 hjá þeim nema þættinum um óbeinar reykingar. Þar einblína þeir á að ekki sé búið að sýna fram á á óyggjandi máta að óbeinar reykingar valdi krabbameini og telja frelsi manna til athafna mikilvægara. Þeir líkja reyknum við leiðinlega hljómsveit sem fólk verði að taka. Þeir horfa ekki á það að reykurinn valdi kostnaði vegna þrifa, ertingu í augum, fílu af fötum, ertingu í lungum lungnaveikra, eldhættu, og hugsanlega krabbmeini hjá starfsfólki veitingastaðanna. Þessi möguleiki (sem t.d. nýleg bresk rannsókn sýndi fram á) á krabba er fyrir hendi og því ættu reyklausir að njóta vafans. Að auki er reykleysi á skemmtistöðum og matsölustöðum öflugt ráð til minnkunar reykinga og hjálpar þeim sem eru nýhættir að halda það út. Mér finnst því skerðing á þessu frelsi til að reykja í lokuði rými með öðrum minna mikilvæg en réttur reyklausra til að vera laus við reykinn.

En áfram Penn og Telller! Ég hlakka til að sjá fleiri þætti með þeim.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 26/04/06 19:05 #

Gunnar segir

Er ég sá eini hér sem finnst menn gjaldfella málflutning sinn með fúkyrðaflaumi?

Mér finnst þeir gera það stundum. Þegar ég sá þá nota tilfinninga-"rök" gegn sæmsærismönnum í myndabndinu sem Sindri Guð vísaði á, þá fannst mér fúkyrðin þeirra; "áburður á engan akur". Eitthvað til þess að fylla inn í innihaldsleysið. Svo klippa þeir samtöl í nokkrar sek. sem hafa eflaust varið hálftíma, klukkutíma eða meira. Auk þess tala þeir inná viðmælendur sína þegar þeir geta enga viðreisn veitt. Það er að segja ef viðmælandin gerir pásu í tali sínu (ef þeir gera það bara ekki sjálfir setji pásu á upptökunni) gera þeir athugasemdir sem oftast gegnur út á að til viðmælandanum sé beint athugasemdir sé motherfucker eða motherfucker með einugis mismunandi áherzlum og tilfinningaþrunga. Svona fynnst mér bera keim af ofurýktri kranablaðamennsku með sirkus-ívafi.

Það er ekki að segja að þeir komi með eitthvað innihaldsríkt inn á milli eða eitthvað fyndið. En það er nefninlega það, þetta er aðallega skemmtun en ekki fræðsla. Þannig að það bera að líta á það í því ljósi. Svo að maður verður ekki vonsvikin af standardi sem ekki er og átti að vera til staðar, til að byrja með.

Sjálfur myndi ég ekki treysta mér að leyfa þeim að taka viðtal við mig, eins og þeir klippa þeirra myndupptökur til. Nema að ég hafði fleirri einkamyndavélar sem tækju samskiptin upp svo að ég gæti sýnt hvernig þeir tættu samhengi viðtalsins í sundur (ef tækju upp á því). En allt í allt held ég að það yrði ómaksins óvert.

Þetta eru góðir skemmtikrafar samt sem áður. En þegar þeir taka efni fyrir yfirborðslega en skemmtilega eiga þeir sjaldnast eftir að sannfæra eða sprengskemmta neinn nema þá sem eru sannfærðir um kjaftæði einhvers viðfangsefnis nú þegar.


Ásgeir - 26/04/06 19:55 #

Mér þótti þetta myndband sem vísað var á hreint ótrúlega ósannfærandi.


Sævar Helgi - 26/04/06 20:43 #

Hvað hefur þú fyrir þér að þeir klippi viðtölin sundur og saman? Mér finnst þetta hljóma eins og þeir séu að gera eitthvað óheiðarlegt en ég hef ekki orðið var við það. Nánast öll viðtöl í sjónvarpsþáttum eru klippt, eða öllu heldur stytt. Ég hef séð lengri útgáfur af viðtölum þeirra við fólk og satt best að segja er verið að gera viðmælendunum greiða með því að stytta viðtölin. Fólkið gerir sig að fíflum. Sjáðu til dæmis aukaefnið um Feng Shui hjá þeim. Sorglegt pakk.

Ég myndi þora í viðtöl hjá þeim. Ég veit að framleðendurnir og sjónvarpsfólkið munu stytta viðtölin, en þeir taka þau alls ekki úr samhengi. Ég hef bara enga ástæðu ennþá til að efast um að þetta sé heiðarlega unnið.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 26/04/06 21:51 #

Jújú, ég er heldur ekki að segja að þeir gera þetta alfarið. En samt sem áður hafa þeir mikið vald þegar þeir bæði velja einstaklinga og klippa efnið og stytta og stílfæra og tala ofan í einstaklinga. Eitthvað sem er auðvelt að misnota. Eins og þeir sem fylgdust með þegar Bashir gerðir heimildarmynina sýna og dróg fram ýkta mynd af honum Michael Jacksson með að taka viðtöl úr samhengi.


Svanur Sigurbjörnsson - 26/04/06 22:45 #

Vissulega hafa Penn & Teller valdið til að klippa og tala inná en þó að maður heyri ekki allt sem viðmælendurnir segja hafa allar setningar sjálfstætt gildi og fólk verður að bera ábyrgð á þeim. Ég sé ekki að þeir iðki einhverjar brellur á fólkinu. Mér sýnist að allir viðmælendur fái að skýra út sýn sjónarmið og fræði. Það gæti hugsast að eitthvað annað sem viðmælendurnir segja gæti verið skynsamlegra þannig að maður fengi ekki eins dökka mynd af viðkomandi en það breytir ekki innihaldi þess rugls sem birt er í þáttunum.

Hins vegar er óviðeigandi af þeima að vera með nafnaköll því sumt af þessu fólki virðist vera vel meinandi í kukli sínu. Ég er sammála mælanda hér að ofan að það er betra að móðga ekki fólk á þennan máta og reyna frekar að vinna kuklarann á sitt band. Vissulega er það erfitt og oft vonlítið en þann möguleika ætti ekki að gefa uppá bátinn. Það er hluti af baráttunni gegn kukli og hindurvitnum.


Gunnar - 26/04/06 23:17 #

Gunnar, hefurðu séð Penn & Teller þátt? Þegar ég horfi á þessa yndislegu þætti finnst mér bara gaman af því þegar þeir tala um "motherfuckers", "assholes" og hvaðeina. Mér finnst það bara fyndið og það truflar mig ekki neitt.
  1. Eins og ég sagði þá hef ég ekki séð þessa þætti
  2. Eins og ég sagði hef ég áhuga á að sjá þessa þætti
  3. Eins og ég sagði mun ég eflaust fá kikk út úr óbilgirni þeirra

Ég kom því ekki nógu vel til skila að ég fyrir mitt leyti hef örugglega gaman af þessu, sérstaklega ef ég verð einhverstaðar nálægt því jafn sannfærður um snilld og rökfestu þeirra P&T og Birgir. En það sem mig langaði mest til að sýna fram á var að eftir því sem þeir eru orðljótari og fyrirlitningarfyllri eru þeir líklegri til að vera bara "preaching to the choir", jafnvel þótt rökin haldi. Það má vera að þú og ég kunnum að meta þetta fyrir okkar parta, en ef ætlunin er að safna nýliðum (frelsa heilu samfélögin eins og Birgir orðar það), þá finnst mér líklegt að Carl Sagan nálgunin sé skilvirkari, og bullshit nálgunin geti jafnvel torveldað nýliðun. Vissulega verður nýliðunin einhver - þeir sem eru efahyggjumenn að upplagi en eiga eftir að losa sig við nokkrar hindurvitnaranghugmyndir geta frelsast, en þeir sem eiga aðeins erfiðara með gagnrýna hugsun forherðast í andstöðu sinni við hana. Ég efast um að slík pólarisering sé til bóta.

Derren Brown nálgunin liggur einhverstaðar milli Sagan og bullshit nálgunar. Derren Brown er kurteis og orðvar en kann að skemmta. Reyndar mætti hann stundum láta það koma eilítið betur fram að hann er bara að snúa á áhorfendur og hefur enga dulræna hæfileika — þeir sem ginnkeyptastir eru fyrir yfirnáttúru gætu jafnvel átt erfitt með að trúa því þó hann endurtæki það í sífellu.


Gunnar - 26/04/06 23:25 #

Horfðu bara á þáttinn og leggðu mat á það hvort moðerfökkers sé ekki bara réttnefni. Eða hvaða augum á að líta þann sem fökkast með minningu látinnar móður einhvers annars, byrjar að bera frá henni upplogin skilaboð og hvað eina?

Ágæt tilraun, en of langsótt að mínu mati. Það væri nær lagi að kalla þig barnaníðing fyrir að birta hlekk á myndir af börnum í leikskóla með fyrirsögninni "Barnaklám". En mér finnst það reyndar líka fulllangsótt og klárlega ómálefnalegt.


Gunnar - 27/04/06 00:06 #

Er það ekki miklu frekar þú sem lifir í svarthvítum heimi? Málefnalegar árásir og háð eru í góðu lagi fyrir mitt leyti og líka málefnalegar árásir án háðs. Þú virðist hin vegar ekki sætta þig við neitt nema málefnalegar árásir án háðs. Mín veröld er litríkari en þín.

Þetta stappar nærri þú líka rökvillunni. Í stað þess að hrekja mín rök, ásakarðu mig um sama glæp af öðrum ástæðum. Ég bendi á að samkvæmt orðum þínum er málefnaleiki alger alveg þar til menn eru gersamlega hættir að tala um málefnaleikann og þá verður hann enginn. Þetta kalla ég svarthvítt. Í stað þess að hrekja það (sem er svosem reynandi þar sem það er óljóst nákvæmlega hvað þú átt við með því að botninn detti úr hlutunum) þá segirðu að þar sem ég virðist ekki sætta mig við neitt nema málefnaleika án háðs sé það mín veröld sem sé svarthvít. Þetta hefur lítið með mín rök að gera.

Þér að segja get ég alveg sætt mig við málefnaleg rök með háði. Ég hallast bara að því að þau verði pínulítið minna málefnaleg fyrir bragðið. Það getur alveg verið gott og gilt. En ég vildi bara koma á framfæri smá antítesu við það sem mér virtist vera töluvert einsýn lýsing á ágæti þeirra félaga, og full svarthvít skilgreining á málefnaleika.


Gunnar - 27/04/06 00:28 #

Ég held ekki að þeir búllsjittbræður séu ósanngjarnir, né færi ég nokkurn tíma að hefja slíka hegðun upp til skýjanna.

Þér finnst þeir ekki ósanngjarnir, enda ertu í stórum dráttum sammála þeim og sérð ekkert athugavert við að þeir uppnefni þá sem þeir gagnrýna. Þeir sem eru ekki eins sannfærðir og þú (þeir eru margir) og hafa einhverja samúð með rugludöllunum, verða enn samúðafyllri við uppnefningarnar, fá á tilfinninguna að P&T séu ósanngjarnir og þrjóskast svo við að meðtaka rök þeirra. Ef tilgangurinn er að frelsa heilu samfélögin, þá er honum ekki náð.

Ég vil ítreka að ég hef ekki séð þessa þætti og er ekki að taka afstöðu til einstakra röksemda eða uppnefninga, heldur ræða þetta almennt.

Það skemmtilega er að mér finnst við vera í sama liði, ég held bara að það sé hollt að leika stundum málsvara djöfulsins.

Og þér er velkomið að kalla mig hálfvita. Hver veit nema ég sé einmitt einn slíkur. Þú getur sýnt mér fram á það með rökum, það er ekki nóg að kalla mig það bara án alls rökstuðnings.

Ég færði rök fyrir því. Þegar þú segir "Vissuð þið til dæmis að endurvinnsla er algert kjaftæði?" þá tekurðu of stórt upp í þig, eins og þú gengur nú sjálfur inn á. Þar sem þú fórst með ósannindi kynni einhver að líta svo á að eðlilegt sé að uppnefna þig. Ég er hins vegar ekki á því. Það er barasta ekkert á því að græða að kalla þig hálfvita. Reyndar finnst mér "hálfviti" mjög óljóst hugtak og sé engan tilgang í notkun þess nema til að gera lítið úr einhverjum. Og ég hef engan metnað til slíks. Þar fyrir utan er mér fullljóst að þú ert skarpgreindur og vel gefinn á flestan hátt. Það þarf ekki að vera neinum til skammar að hafa stundum rangt fyrir sér (eða tjá sig ekki með nægjanlegri nákvæmni).


Gunnar - 27/04/06 00:57 #

Gunnar, þú ert óskaplega fljótur að stökkva upp þykir mér. Hvernig væri t.d. að horfa á miðlaþátt Penn&Teller. Ég skal redda þér honum á tölvutæku formi ef þú hefur áhuga. Segðu okkur svo, eftir að hafa horft á þáttinn, að þú gagnrýnir þessa orðanotkun.

Matti, þú ert óskaplega orðljótur þykir mér. Bara smá ad hominem á móti. Þakka gott boð, en ég á eftir að komast í þessa þætti einhvern tímann á næstunni. Ég er viss um að ég hneykslast alveg jafn mikið og þú þegar ekta loddarar eru afhjúpaðir. En ég er bara ekki hrifinn af svona orðanotkun. Hef aldrei komist upp á lag með að blóta — hlýt að vera eitthvað bældur eða of vel upp alinn. Sé ekki tilganginn. E.t.v. geri ég meiri greinarmun en sumir aðrir hérna á því hvort loddarinn er vísvitandi að svindla á fólki eða hvort honum tekst að telja sér trú um að hann sé að gera eitthvað gagn. Hið fyrra er svívirða, hið síðara er að sjálfsögðu líka gagnrýnivert en maður hefur einhverja samúð með slíkum villuráfandi sauð, þó ekki eins mikla og með fórnarlömbum hans.

Hvað með þessa orðanotkun mína? Fer ég þar langt yfir strikið, má þetta?

Að sjálfsögðu má það, þetta er prýðileg grein. Ég hefði haft annað orðalag á stöku stað. Markmiðið á alltaf að vera að fá óvininn til að gerast liðhlaupi og "fight the good battle". Ég trúi því að það gangi almennt betur ef maður gagnrýnir en sýnir samt ákveðinn skilning og umburðarlyndi, lætur bara temmilega skína í fordæminguna.

ps. Vinsamlegast passaðu þig á lögmáli Godwin

Takk fyrir ábendinguna. Hafði ekki heyrt um lögmál Godwins. :-) Hitler samlíkingin var meðvituð hjá mér en ég hefði alveg getað sleppt henni. Eftir stendur að heiðarleiki og óbilgjörn dirfska skera ekki úr um ágæti hegðunar. Lofa að nefna Hitler ekki aftur. :-)


Gunnar - 27/04/06 01:18 #

Þeir geta kallað menn öllum illum nöfnum en geta ekki kallað þá lygara og svindlara því þá geta þeir farið í mál og þá þurfa P&T að sanna að þeir séu það.

Hér er tilvalið að rifja upp ummæli eins og Prestar ljúga að börnum, [prestar eru] óheiðarlegasta stétt manna, Ingveldur vílar ekki fyrir sér að ljúga., Já þeir ljúga, Hvort er Örn Bárður lygari eða hálfviti?

Ég minnist þess ekki að sýnt hafi verið fram á að nafngreindir prestar, hvað þá allir prestar, hafi vísvitandi farið með ósannindi. Til að ljúga er ekki nóg að segja ósatt.

Vantrúarmenn hafa sem sagt til að bera óbilgjarnari dirfsku en þeir P&T.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 27/04/06 01:47 #

Gunnar, það er líka tilvalið að kíkja á þessi ummæli:

Prestar ljúga að börnum, [prestar eru] óheiðarlegasta stétt manna

Þarna er í báðum tilfellum um sömu greinina að ræða (seinni tilvitnunin er tilvísun í fyrri greinina) þar sem fram kemur að Óli er að tala um lygar eins og þegar prestar fullyrða að Jesús hafi fæðst á jólunum. Ég sé nú ekkert að því að kalla þetta lyga, þetta er svona svipað og að ljúga því að börnum að jólasveinarnir séu til. Flokkast þetta undir að fara vísvitandi með ósannindi?

Ingveldur vílar ekki fyrir sér að ljúga.

Þarna var Birgir gagnrýndur fyrir þetta og dró þetta til baka...einnig virðist hann hafa haft skrýtna skilgreiningu á að ljúga þarna, kannski svipaða og þá sem Halldór Laxness notar í næstu greininni sem þú vitnar í, þar sem HL útskýrir vel að þarna sé verið að tala um "að fullyrða um eitthvað sem maður veit nákvæmlega ekkert um".

Hvort er Örn Bárður lygari eða hálfviti?

Vonandi tókstu eftir lokaorðum greinarinnar: "Varstu [Örn Bárður] kannski bara ekkert að fylgjast með?"


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/04/06 02:21 #

Ég bendi á að samkvæmt orðum þínum er málefnaleiki alger alveg þar til menn eru gersamlega hættir að tala um málefnaleikann og þá verður hann enginn.

Svo lengi sem málefnaleiki er í gangi er hann í gangi. Þegar honum sleppir er hann ekki lengur í gangi. Hvað er rangt við þetta mat? Ég notaði hvergi orðið alger um þetta fyrirbæri, það eru þín eigin orð.


Gunnar - 27/04/06 11:32 #

Ég notaði hvergi orðið alger um þetta fyrirbæri, það eru þín eigin orð.

Rétt. Það sem þú sagðir var:

… þótt hæðst sé að viðmælendunum dregur það ekki úr málefnaleikanum ef góð rök fylgja. Það er einungis þegar áherslan er alfarið færð af málefnunum yfir á persónur manna sem botninn dettur úr hlutunum.

Ég skil þig þarna svo, að málefnaleikinn sé alger þar til hann er enginn. Lái mér hver sem vill.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/04/06 14:33 #

Menn geta kryddað málefnafærslu sína háði, en háðið kemur aldrei í staðinn fyrir röksemdir. Það er nú allt sem ég er að segja þarna.


Svanur Sigurbjörnsson - 29/04/06 13:03 #

Ég held að við verðum að greina á milli þess "að ljúga" og "fara með rangindi". Lygari segir ekki satt af ásetningi. Prestar hafa lært af öðrum að goðsögninu um guð og upprisu Jésú sé sönn og þeir hafa gleypt við því. Í mínum fara þeir með ósannindi og hindurvitni en þeir eru ekki lygarar. Að sama skapi er búið að sannfæra fjölda fólks um að orkulækningar og annað slíkt kukl séu vísindi eða raunverulegar lækningar. Ég held að flest þetta fólk sé fórnarlömb ginningar og því kalla ég það ekki lygara. Hins vegar er það mikið ábyrgðarleysi að taka upp slíka hluti án þess að skoða betur sannleiksgildi þeirra. Vissa miðla gæti ég þó kallað lygara því að mér finnst deginum ljósara að þeir eru að blekkja fólk vísvitandi. Það er ólíklegt að þeir séu algerir hálfvitar og viti ekki hvað þeir eru að gera (eða hvað...?). Mér finnst einnig ljóst að hluti af þeim sem flytja inn "lækningartæki" eða "náttúrumeðöl" eru fúskarar og gróðrabraskarar. Þeir hika ekki við að ljúga að fólki til að fá skjótfengið fé.

Höldum okkur við að kalla lygara lygara og fórnarlömb kjána.


danskurinn - 29/04/06 13:20 #

Svanur skrifar: "Höldum okkur við að kalla lygara lygara og fórnarlömb kjána."

Svona birtist hin svokallaða gagnrýna hugsun ykkar. Út frá sjálfsánægju og skorti á sjálfsgagnrýni verða til slagorð og fúkyrði sem þið beinið að öðru fólki. Veistu af hverju læknar mega ekki auglýsa þjónustu sína? Er það kannski vegna þess að slíkar auglýsingar yrðu að lygi á einum degi?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/04/06 13:30 #

Hvað er að því að kalla lygara lygara? Ef einhver verður uppvís að því að fara vísvitandi með ósannindi, er hann þá ekki lygari?


danskurinn - 29/04/06 14:55 #

Birgir skrifar: "Hvað er að því að kalla lygara lygara? Ef einhver verður uppvís að því að fara vísvitandi með ósannindi, er hann þá ekki lygari?"

Jú það er rétt, en er ekki líka hægt að ljúga með því að segja ekki neitt?


anna - 29/04/06 16:18 #

vá, loksins vottuðuð þið meisturunum smávegsi virðingu.

ég er einn mesti bullshit aðdáandinn, þótt ég sé líka trúuð. það hjálpar mér og heldur mér á línunni að horfa á þættina þeirra sem snúast um yfirnáttúru. Það eru bestu þættirnir því það nær engri átt hvað fólk er tilbúið til að leggjast óstjórnlega lágt til að græða peninga á öðrum. Ég hrópa húrra yfir ljótu orðbragði penns jillette gegn miðlum, fengshui-kuklurum og dómsdagskristnum (svo örfáir séu nefndir) maður vonar bara að þetta hjálpi einhverjum í bandaríkjunum, mér finnst að ætti að sýna þá á rúv , svo að íslendingar séu ekki að falla í einhverja útþynnta freistni hins sama rugls.

það besta við penn og teller er einmitt þetta óvænta, maður fer inní þættina með vissu hugarfari og oft tekst þeim að snú manni við, t.d gerðist það hjá mér varðandi lögleiðingu vændis. Byssufrelsi er samt eitthvað sem ekki einu sinni þeir geta breytt skoðunum mínum á.


anna - 29/04/06 16:20 #

samt eru alveg einhverjir miðlar góðir...


Svanur Sigurbjörnsson - 29/04/06 18:40 #

danskurinn sagði

"Svona birtist hin svokallaða gagnrýna hugsun ykkar. Út frá sjálfsánægju og skorti á sjálfsgagnrýni verða til slagorð og fúkyrði sem þið beinið að öðru fólki."

Ótrúlegur málflutningur ef slíkan skyldi kalla. Viltu vinsamlegast vera nákvæmari danskur og benda á það sem þú átt við svo hægt sé að svara því. Áttirðu við að ég hafi skrifað slagorð og fúkyrði? eða var þessu beint almennt út í loftið að félagsmönnum í Vantrú. Félagar í Vantrú eru ólíkar persónur þó að þeir eigi það sameiginlegt að trúa ekki á hindurvitni.

Danskur, þú segir:

"Veistu af hverju læknar mega ekki auglýsa þjónustu sína? Er það kannski vegna þess að slíkar auglýsingar yrðu að lygi á einum degi?"

Þetta er loðið hjá þér. Mér sýnist þú vera að gefa í skyn að læknar séu lygarar. Fannst þér svona hart að ég skyldi halda því fram að vissir miðlarar væru lygarar að þér fannst rétt að gefa í skyn að læknar væru lygarar? Hvert ferð þú þegar þú veikist alvarlega? Ef þú fengir lungnabólgu, færir þú til læknamiðils eða heilara frekar en lækna?

Læknasamtökin hafa ekki leyft auglýsingar lækna vegna þess að stéttin hefur ekki litið á sig sem fagaðila í samkeppni um hylli sjúklinga. Þetta er einnig hluti þeirrar viðleitni að læknir upphefji sig ekki á kostnað annarra lækna. Þessi lög eru talin af mörgum úrelt og ér ég því sammála. Hins vegar mega gilda um auglýsingarnar ákveðnar reglur til að koma í veg fyrir misnotkun (sem ég tel reyndar litla hættu á hérlendis).

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.