Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Í hvaða heimi lifa þeir?

Ímyndum okkur að við séum á ferðalagi um Ísland og með í för sé sprenglærður jarðfræðingur sem leiðir okkur í allan sannleika um það sem fyrir augu ber. Þegar ekið er norður Kaldadal bendir hann okkur á að líta til hægri og segir: „Þarna er fjallið Skjaldbreiður, sem Jónas orti um á sínum tíma. Þessi dyngja varð til í löngu og stöðugu gosi fyrir tíu þúsund árum og telst því nokkuð ung.“

Allir í rútunni kinka kolli og virða fyrir sér fagrar útlínur þessarar rúmlega þúsund metra háu þúfu, allir nema sköpunarsinninn í öftustu sætaröð. Hann hugsar með sér: „Hvílíkt kjaftæði, jörðin er ekki nema sex þúsund ára.“

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig sköpunarsinnar í samfélagi okkar geti þolað við í öllu þessu nútímaupplýsingastreymi sem er á skjön við heimsmynd þeirra. Þær forsendur sem liggja heimsmyndinni til grundvallar hjá þeim eru líka með þeim hætti að flest allt það sem traust má kallast í niðurstöðum vísindanna er í þeirra augum villuráf og blaður.

Jarðfræðin hlýtur að vera einn stór misskilningur, hafi sköpunarsinnar rétt fyrir sér. Tíu þúsund ár þykja ekki mikið í jarðsögulegu tilliti og flest það berg sem vér stöndum nú á er margfalt eldra, eða svo segja okkur í það minnsta þær rannsóknir sem þessi fræðigrein flaggar.

Og jarðfræðin er í fullu samræmi við niðurstöður líffræðinnar sem skiptir jarðsögunni niður í tímabil með flottum nöfnum og tiltekur hvaða lífverur voru upp á hverju þeirra. Júra, trías og tertíer, kannast sköpunarsinnar við þessi hugtök? Hvað tákna þau fyrir þeim? Misskilning? En af hverju stangast þarna ekkert á við niðurstöður jarðfræðinnar sem rannsakað hefur setlög, á hve löngum tíma þau myndast og þar fram eftir götum?

Þróunarfræðin geta ágætlega útskýrt ýmis mannabein sem ekki eru alveg mannabein, heldur úr skyldum tegundum sem ekki þrífast lengur. Neanderdalsmenn, hómó erektusar og hómó habílis, hvaða lið er þetta í augum sköpunarsinna? Svik og fals eins og piltdown? Eða bara ljótt fólk og vanskapningar sem dóu fyrir fáeinum þúsundum ára? Og er þá erfðafræðin, sem rekur erfðaþætti okkar sem nú lifum saman við þetta fólk, gegnum sameiginlegan forföður, þá bara getgátur og fálm út í loftið?

Mannfræðin ætti þá líka að vera byggð á rugli meira og minna. Líka eðlis- og efnafræðin með sinn helmingunartíma geislavirkra efna. Sköpunarsinnar þurfa í raun að hafna nær öllu vísindastarfinu eins og það leggur sig, hreinlega að hafna vísindalegri aðferð sem slíkri, fyrst ekki gengur betur að henda reiður á heiminn en þetta.

Hvernig ætli sé að vera sköpunarsinni og geta ekki flett í gegnum Lesbók Moggans, Lifandi vísindi og jafnvel Mannlíf án þess að rekast á fræðandi greinar þar sem gert er ráð fyrir einhverju sem er fullkomlega á skjön við heimsmyndina? Er þetta ekki óþolandi ástand, að búa í samfélagi sem er á jafnmiklum villigötum og raun ber vitni? Ég get vel ímyndað mér frústrasjónina, því daglega orga ég innra með mér yfir einhverju hindurvitnakjaftæðinu sem flæðir yfir mann úr útvarpi og öðrum miðlum. Síðast í dag hristi ég hausinn yfir konu sem sagðist trúa því að María mey hefði örugglega bara verið venjuleg stelpa sem hafi fíflast í Jesúbarninu, en væntanlega samt verið glöð yfir að hafa eignast annað eins barn.

Og fyrst við erum farin að tala um að rugla saman goðsögum og staðreyndum, eins og þessi kona gerir, hvort haldið þið að það séu sköpunarsinnarnir, sem með gervivísindum sínum sveigja allt að fyrirframgefnum niðurstöðum í takt við óskhyggju sína, eða vísindamenn, sem leyfa nýjum niðurstöðum að móta heimsmynd sína, þótt þær fari í bága við viðteknar hugmyndir, sem hafa höndlað meiri sannleika um tilvist okkar og þeirra veraldar sem við hrærumst í? Er svarið ekki augljóst? Hvað veldur því að lítill hópur fólks skuli þverskallast við augljósum staðreyndum til þess að geta haldið dauðahaldi í gamlar lygasögur sem óheiðarlegasta stétt manna vinnur við að útbreiða?

Ástæðan er trú. Og öfugt við fullyrðingar lygastéttarinnar er trúin mein en ekki lausn. Sköpunarsinnarnir eru talandi dæmi um illa haldna trúarsjúklinga og tilvist þeirra ætti að vera okkur nægileg ástæða til að fordæma prestastéttina sem smitar þessari óværu í hugi okkar allra.

Birgir Baldursson 30.12.2005
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Guðmundur I. Markússon - 30/12/05 18:15 #

Ágæt grein hjá þér BB. Eitt sem sköpunarsinnar gera er að þjappa hinum trúuðu saman, herða þá í trúnni og brnyja gegn upplýsingaflæðinu--og þá einna mikilvægast að draga í efa Darwin, jarðlögin og geislakolsaldursgeiningu. Dæmi um slíkt sköpunarrallí var fyrirlestrasería aðventista í Loftsalnum í Hafnarfirði fyrir um ári sem ég hef skrifað lítillega um á Kviksögu og Glímunni:

http://www.kistan.is/efni.asp?n=3487&f=15&u=94

http://www.kistan.is/efni.asp?n=4294&f=13&u=99

En þú ert að blanda saman eplum og appelsínum þegar þú dregur presta þjóðkirkjunnar inn í þetta--hvað sem segja má kirkjunni til vansa er ekki hægt að saka þjóna hennar um að tala máli sköpunarsinna. Hér er verið að blanda saman bandarískum og íslenskum (skandínavískum) veruleika--nokkuð sem er svart og hvítt þegar kemur að trúmálum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/12/05 18:24 #

Það sem þú kemur ekkki auga á, Guðmundur, er sú staðreynd að fyrstu hugmyndir sínar um guðdóm, sköpun heimsins, eftirlíf, lausn og frelsun fá sköpunarsinnarnir af vörum Þjóðkirkjuprestanna, það eru prestarnir sem installera þessum vírus í hausinn á okkur öllum.

Það er auðvitað ekki ætlun prestanna að gera þetta fólk jafn fársjúkt og það er orðið, en ef þeir hefðu sleppt því að sá þessum ranghugmyndum til að byrja með er nokkuð öruggt að flestir myndu sleppa við að burðast með þessa rugluðu heimsmynd, hvort sem þeir trúa á ID, eða bara því að Jesús sé guð sem dó á krossinum fyrir syndir þeirra.

Þetta er allt saman sama ógeðslega ruglið og ég gagnrýni þá sem vinna við að breiða það út. Þeir eru smitleiðin, hver svo sem sjúkdómseinkennin verða.


Turkish - 30/12/05 18:30 #

Thetta a alveg eins vid her thott ad islenskir thjodkirkjuprestar seu ekki alveg(ekki einu sinni nalaegt thvi) jafn fanatiskir og margir adrir vitleysingar tha man eg ekki betur en ad mer hafi alltaf verid sagt, allt fra thvi ad eg var sendur i sunnudagaskola 5 ara gamall, ad gud hafi skapad heiminn. Okkar(thvi midur) opinberu prestar ganga bara ekki svo langt i ad skilgreina einhvern tima, enda er thad mun hentugra fyrir tha ad segja ekki of mikid svo ad their geti adlagad sinn "sannleika" ad hverjum adstaedum


Guðmundur I. Markússon - 30/12/05 18:42 #

Ja, ef "smitleiðin" er Þjóðkirkjan er það merkilegt að "smitið" einskorðast við örfáa einstaklinga í amerísk ættuðum jaðarsöfnuðum (eins og 7undadags aðventista sem stóðu fyrir áður nefndu rallíi).


Dipsí - 30/12/05 19:23 #

Ástæða þess að fólk er jafn oðið fyrir slíkum öfgum eins og Guðmundur talar hér um er sú að því er haldið að fólki strax við 6 ára aldurinn að tilvera yfirnáttúrulegra vera sé sjálfsögð.

Það er þjóðkirkjan sem heldur út þeim áróðri.

Birgir hefur því rétt fyrir sér þegar hann talar um að prestar hennar séu smitleiðin.

Það þarf ekki að vera sá sem kynnir einstaklinginn fyrir hassi sem gerir viðkomandi að höktandi dópista, hann hinsvegar kemur eitrinu inn í fólk og varðar því leiðina að frekari neyslu. Hinir veiku síðan falla í öfgarnar.


Gunnar - 04/01/06 00:27 #

Þegar ég les þessa grein hér dettur mér í hug Gunnar í krossinum og hans trúaröfgar. Eftir að hafa farið á samkomu hjá þessum manni þá sannfærðist ég um það eins flestir menn með viti að hann er fæðingarhálfviti og þessi jaðarsöfnuður hans er ekkert annað en helvítis peningaplokk og bull. Svo er helvítis fáviti fordæmandi homma og annað fólk með rökum sem ekki nokkur maður með viti fær skilið. Skil ekki hvað fjölmiðlar sjá við þennan fávita.


Dipsí - 04/01/06 02:05 #

Gunnar má þó eiga það að hann er ekkert að fegra bókina góðu heldur segir bara frá því sem þar stendur eins og það er. Hann er því að mörgu leyti skárri en margir aðrir þar sem hann hræsnar ekki til að auka sínar vinsældir.

Sá sem hatar Gunnar og hans boðskap hatar í raun biblíuna og hennar boðskap.

Kristin trú eins og hún birtist í biblíunni er einfaldlega vond trú.

Ég hef það álit á Gunnari að hann sé trúr sínum málstað og að hann sé ekki bara að feika eitthvað til að hagnast, hann er einfaldlega trúaður maður og heill í því sem hann gerir.

Það er orðið frekar þreytt að væla um að hommar séu fyrirlitnir af þessum mönnum, Gunnari og Biskup. Þeir eru bara menn sem trúa á orð guðs. Það er guð sem fordæmir hommana, ekki Gunnar og ekki biskup. Ég er nokk viss um að þeir félagar séu ágætis menn sem vilji öllum vel hvort sem menn eru hommar eður ei.


Gunnar - 23/01/06 16:07 #

Ég hef ekki ennþá séð það Dipsí að Gunnar í Krossinum vilji öllum mönnum vel. Ég veit ekki betur en að fólk er að borga undir þetta helvítis trúarstarf fyrir það eitt að frelsast. Er það vilji Guðs?


Jón - 10/04/06 10:18 #

Er engin umræða hérna ,eða er þetta bara einhver klúbbur sem allir klappa hvor öðrum á bakkið


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/04/06 10:56 #

, hér er heilmikil umræða og nei hér er ekki bara verið að klappa hvor öðrum á bakið. Bendi annars á spjallið ef þú villt ræða eitthvað sem ekki tengist efni greinanna beint.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.