Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kabarett

Ég hef verið fenginn til að leysa af í sýningunni Kabarett í Íslensku óperunni næsta föstudagskvöld. Af því tilefni sá ég báðar sýningar síðustu helgar.

Eftir sýninguna á föstudaginn var gekk ég í flasið á biskupi þjóðkirkjunnar, þar sem hann var á leið baksviðs, væntanlega til að heilsa upp á aðstandendur. Þessi viðvera hans á sýningu sem fjallar um það sem kallað hefur verið dekadent tíðarandi, í bland við fasisma, veldur mér forvitni og heilabrotum.

Hvort skar dekadensinn eða nasisminn meira í augu biskups? Í sýningunni fylgjumst við með lauslátu fólki, hommum og hórum sem hefja t.d. hópsex og munnmök á stall og aðhyllast í raun hagnýta tómhyggju (lífið er kabarett). Við fáum samúð með þessu fólki og látum uppgang ofríkisins fara í okkur. En hvað var að gerast í hugskoti Karls Sigurbjörnssonar á meðan?

Það er ekkert launungarmál að biskupinn hefur leynt og ljóst staðið í vegi fyrir því að samkynhneigðir öðlist sömu lýðréttindi og annað fólk. Þessu viðhorfi deilir hann með nötturum á borð við Gunnar í Krossinum meðan flestir aðrir innan Þjóðkirkjunnar eru á öndverðum meiði.

Hin frjálslega Berlín var athvarf homma og lesbía á þriðja og fjórða áratugnum, eða allt þar til Hitler og félagar byrjuðu að ofsækja fólk fyrir þennan alternatíva lífsstíl. Og þar sem Karl hefur horn í síðu þessa fólks spyr maður sig hvort honum hafi kannski fundist hreinsun í því að nasisminn hafi náð yfirtökunum þarna. Varð Hitler til þess að bæta menningarástandið í Berlín, Karl? Hafði partíið verið siðlaust og svívirðilegt? Var listin sem hann fordæmdi úrkynjuð?

Flestir prestar Þjóðkirkjunnar sem tjá sig um málefni samkynhneigðra eru staddir milli steins og sleggju. Þeirra eigin siðferðissjónarmið stangast á við Biblíuna sem þeim ber að fylgja. Upp á síðkastið hefur tugmilljónum verið varið í að endurskoða boðskap hennar undir merkjum nútímalegrar þýðingar og versunum þar sem ástir karla eru fordæmdar hefur verið snúið upp á barnaníðinga. En það dugir reyndar ekki til að leiðrétta réttleysi hinna samkynhneigðu, því Þjóðkirkjumenn bera enn því fyrir sig að hjónabandið felist í skuldbindingu karls og konu. Guðinn er semsagt ekki umburðarlyndari en það að sönn ást tveggja karla á ekki upp á pallborðið hjá honum, jafnvel þótt hin margtúlkuðu vers um slíkar ástir hafi verið afgreidd sem misskilningur. En hvað með ástir karls og tveggja kvenna, Karl? Er guðinum það ekki þóknanlegt? Og er þá söngur MC um tvær konur þá bara viðbjóður?

Hagnýta tómhyggjan mín fordæmir hvorki hópsex né munnmök meðan það fer fram með upplýstu samþykki þátttakenda og enginn ber skaða af. Eina skaðlega athæfið í Kabarett eru umsvif nasistanna. Ef biskupinn fordæmir nasismann þarf hann að gera það á þeim forsendum líka að þar var gengið freklega á rétt einstaklinganna til að haga lífi sínu eins og þeim sýnist.

Samfélag fjölbreytileika er ríkt samfélag. Karlar í kjólum auka bara á fjölbreytileikann, hvort sem það eru prestar eða aðrir transvestítar. Sama gildir um margvíslega kynhegðun og fjölbreytt sambúðarform. Kirkja sem einblínir á fjölskyldumynstrið karl-kona-barn er engu skárri en nasismi Hitlersþýskalands.

Ég óska félagsmálaráðherra og samkynhneigðum til hamingju með framfaraskrefið sem við heyrðum af á dögunum og vona svo sannarlega að biskup Þjóðkirkjunnar fagni því líka. Hann þarf að fara að slaka á umburðarleysi sínu og mætti alveg sjálfur prófa eins og einn góðan trekant.

Og ég skora á alla að sjá þessa hreint ágætu sýningu þarna í Gamla bíói.

Birgir Baldursson 23.08.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


danskurinn - 23/08/05 00:55 #

Ég held að þú sért að flækja líf þitt um of Birgir. Þú gerir fólki upp skoðanir og fordóma sem það hefur ekki. Hagnýta tómhyggju notar þú til að draga fólk í dilka og mælir eftir stiku hentugleika, fáfræði og eigin mannfyrirlitningar. Þú gerðir betur með að bæta sjálfan þig í stað þess að verða þér stöðugt til minnkunar með því að bera og viðhalda skólastrákslegum viðhorfum þínum til náunga þíns. Þau viðhorf væru vissulega skiljanlegri hjá einhverjum sem er yngri en þú ert.

Mér finnast háværar yfirlýsingar þínar um eigið fordómaleysi vera sérkennilegar. Sá sem er í raun fordómalaus hefur enga einlæga þörf á því að gera hróp að öðru fólki eða stæra sig af sínu eigin fordómaleysi. Í þessu eru mótsagnir sem vekja grunsemdir um skort á heilindum.

Sonur biskups leikur í sýningunni og stendur sig afbragðs vel. Vonandi tekst þér jafn vel upp með þitt hlutverk í Kabarett.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/08/05 01:15 #

Sá sem er í raun fordómalaus hefur enga einlæga þörf á því að gera hróp að öðru fólki eða stæra sig af sínu eigin fordómaleysi.

Segir hver? Eru þeir bara fordómalausir sem þegja um það?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/08/05 01:16 #

Þú gerir fólki upp skoðanir og fordóma sem það hefur ekki.

Hvar geri ég biskupi upp skoðanir sem hann hefur ekki? Hann leggst að sönnu gegn fullum lýðréttindum samkynhneigðra með Biblíuna á lofti.

Mér finnast háværar yfirlýsingar þínar um eigið fordómaleysi vera sérkennilegar. Sá sem er í raun fordómalaus hefur enga einlæga þörf á því að gera hróp að öðru fólki eða stæra sig af sínu eigin fordómaleysi.

Ertu að tala um þetta hér?

Hagnýta tómhyggjan mín fordæmir hvorki hópsex né munnmök meðan það fer fram með upplýstu samþykki þátttakenda og enginn ber skaða af.

Þarna er ég aldeilis ekki að stæra mig af neinu, heldur einungis að bera saman tómhyggjuna sem ég aðhyllist og opinbera stefnu Þjóðkirkjunnar sem fordæmir ýmsa kynhegðun á forsendum þeirra fordóma sem finna má í Biblíunni.

Vertu svo ekkert að draga son biskups inn í þetta. Þessari grein er í engu beint gegn honum, enda þekki ég ekki viðhorf hans til þessara hluta.


Kalli - 23/08/05 02:53 #

Þetta er skemmtileg og vel skrifuð grein þar sem margt mikilsvert kemur fram. Forsendurnar eru sniðugar en ég velti samt fyrir mér hvort umrædd afturhaldssemi biskups ætti að hindra hann í að njóta lista? Reyndar er þarna fjallað um ýmsa hluti sem standa væntanlega gegn hans sannfæringu (ég tek fram að ég hef ekki séð Kabarett í neinu formi) en hefur nafni minn biskupinn sýnt að hann sé á móti slíkri umfjöllun?

Mér finnst reyndar hart að leggja nasisma 4. og 5. áratugarins að jöfnu við íslensku þjóðkirkjuna þó síðarnefnda apparatið heilli mig lítið. Þrátt fyrir þá mismunun sem þjóðkirkjan stundar hefur hún ekki enn smalað fólki í gasklefa. Mér vitanlega a.m.k.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/08/05 03:06 #

Ég hef verið að lesa mig til á netinu um biskup og viðhorf hans til samkynhneigðra og ég fæ ekki betur séð en að danskurinn hafi rétt fyrir sér. Ég er hér að gera Karli upp skoðanir sem hann hefur kannski ekki.

Mér virðist helst sem ég sé fórnarlamb mýtu sem hefur litað skrif okkar trúlausra á ýmsum síðum, mýtu sem hljóðar m.a. upp á að Karl hafi sagt samkynhneigð vera synd (sjá komment Sigurðar Hólm 12. september 2004 kl. 21:10 - ekki hægt að vísa á það beint). En þegar betur er að gáð er ekkert sjáanlegt sem styður þetta, fremur að það votti fyrir hinu gagnstæða. Annars hefur hann mér vitanlega aldrei tjáð sig afdráttarlaust um þessa hluti en sagt:

"Við horfum upp á mjög róttæk viðmiðahvörf í vestrænni menningu. Kynlífshegðun, hvatir, sambúðarform og samlífsmynstur sem áður voru talin óhugsandi, jafnvel óeðli, eru nú talin sjálfsögð og eðlileg og þarna hlýtur að verða að doka við og spyrja hvort við séum á réttri leið." Þegar Karl er spurður hreint út hvort hann telji að gefa eigi samkynhneigða saman í kirkjum landsins segir hann einfaldlega að sín persónulega skoðun skipti ekki öllu heldur að málið sé hugleitt af virðingu fyrir öllum sjónarmiðum.

Það má túlka þessi óræðu orð á tvenna vegu en greinilegt er að úr þessu höfum við lesið íhaldssemi biskupsins. En það má auðvitað túlka þetta í hina áttina líka. Ef til vill er biskupinn frjálslyndur þegar kemur að samkynhneigð, en á í höggi við íhaldssöm öfl innan eigin kirkju. Kannski eru það þau sjónarmið sem hann vill bera virðingu fyrir og veigrar sér við að lýsa yfir frjálslyndi sínu út af þeim.

Ég veit það ekki.

Í þessari grein á kirkjuvefnum segir Adda Steina Björnsdóttir:

Biskup tekur ekki undir þann Biblíuskilning að samkynhneigð sé synd, sbr. Orð hans við setningu prestastefnu 2004[.]

Eftir stendur að hin opinbera stefna kirkjunnar er að líta á hjónaband sem karl/kona eingöngu. Þar er Biblían að þvælast fyrir henni og eflaust ríghalda íhaldssömu öflin í þær kennisetningar. Spurningin er bara sú hvort Karl tilheyri þeim eða ekki.

Ef það er rétt að Karl sé frjálslyndur og líti ekki á samkynhneigð sem synd gleður það mig ósegjanlega. Á forsendum þess bið ég hann þá afsökunar á þessu blaðri hér að ofan og hvet hann í baráttunni við svartstakkagengið.

Vona svo að hann hafi notið sýningarinnar.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/08/05 03:10 #

Mér finnst reyndar hart að leggja nasisma 4. og 5. áratugarins að jöfnu við íslensku þjóðkirkjuna...

Ég lagði hana ekki algerlega að jöfnu, heldur tiltók aðeins eitt atriði, þegar lagst er gegn því að fólk geti hagað lífi sínu á þann hátt sem það kýs. Kirkja sem gerir slíkt er ekkert skárri að því leyti en valdhafi sem hegðar sér þannig.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/08/05 03:23 #

...en hefur nafni minn biskupinn sýnt að hann sé á móti slíkri umfjöllun?

Greinin fjallar ekki á nokkurn hátt um skoðanir biskups á umfjöllun, heldur hvort hann hafi samúð með alternatífum lífsstíl eða ekki.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/08/05 03:32 #

Raunar er ég að höggva eftir þessu í tilvitnuninni í biskupinn hér að ofan:

Kynlífshegðun, hvatir, sambúðarform og samlífsmynstur sem áður voru talin óhugsandi, jafnvel óeðli, eru nú talin sjálfsögð og eðlileg...
- leturbreyting mín - BB

Hvaða óeðli er það sem nú þykir sjálfsagt? Hvað á biskup við þarna?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/08/05 03:36 #

Svo rámar mig í að Gunnar í Krossinum hafin sagt að samkynhneigðin sjálf sem slík sé ekki syndsamleg, en kynmökin sem af henni leiða séu það. Getur verið að Karl sé sömu skoðunnar? Er þá þetta, að hann líti ekki á samkynhneigð sem synd, slíkt undanskot?

Það er augljóslega kominn tími á að höfuð Þjóðkirkjunnar tjái sig hreint út um skoðanir sínar á þessum málum.


Kalli - 23/08/05 03:37 #

Ég er væntanlega að lesa meira en skyldi úr orðum þínum eða öllu heldur bara misskilja.

Þessi viðvera hans á sýningu sem fjallar um það sem kallað hefur verið dekadent tíðarandi, í bland við fasisma, veldur mér forvitni og heilabrotum.

Minn skilningur var sá að þú furðaðir þig á veru hans við sýninguna yfirleitt en það var auðvitað ekki það sem þú varst að fara og ég biðst velvirðingar á þeim misskilningi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/08/05 03:43 #

Einmitt, Kalli. Heilabrot mín varða upplifun hans, ekki viðveru. Kannski skrifa ég ekki nógu skýran texta.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/08/05 04:08 #

Hmm, ég hef farið fram úr sjálfum mér og mislesið orð biskupsins um óeðli, þau orð eru í samhengi við það sem á undan kemur, eitthvað sem áður var talið óeðli. Mér fannst hann vera að lýsa eigin skoðunum.

Biðst velvirðingar og hunskast í háttinn. :)


Kalli - 23/08/05 08:22 #

Þessi setning er alveg ágæt í samhengi. Það er ekki fyrr en maður les hana hroðvirknislega, já eða tekur hana alveg úr samhengi eins og ég geri í tilvitnunni, sem þetta fer að hljóma vafasamt.


danskurinn - 23/08/05 11:42 #

Matti spyr: "Eru þeir bara fordómalausir sem þegja um það?"

Fordómalausir koma skilaboðum áleiðis með framkomu sinni við náungann. Sá sem gerir hróp að fólki er ólíklegur til að vera laus við fordóma. Ég er samt ekki að segja að það sé útilokað, bara að fordómalaus dólgur sé mótsagnakenndur.

Birgir Baldursson skrifar: "Vertu svo ekkert að draga son biskups inn í þetta. Þessari grein er í engu beint gegn honum, enda þekki ég ekki viðhorf hans til þessara hluta."

Sú staðreynd að sonur biskups leikur í sýningunni gæti verið svarið við vangaveltum þínum og heilabrotum um viðveru biskups á sýningunni.

Sú staðreynd að biskup er á sýningunni er einmitt vísbending um að fordómar sem þú gefur í skyn að hann sé haldinn séu ekki til staðar. Sú staðreynd að sonur biskups leikur í sýningunni er vísbending um að fjölskylda biskups sé einmitt laus við fordóma sem að þú er líklega haldinn.

Túlkun fólks á innihaldi Kabarett leikritsins er jafnan einfeldingsleg eins og grein Birgis. Kabarett fjallar um fólk sem haldið er í helgreipum kynlífsnautnar og vímuefnafíknar, þar sem lítill Hitler í líki skemmtanastjórans fer sínu fram við fólk og menn, sem eru ófrjálsir þrælar hans. Litli Hitlerinn er síðar gleyptur af stærri Hitler, sem er að sönnu umsvifameiri í þrælahaldi sínu og óhamingju. Allir eru á einhvern hátt ófrjálsir og óheiðarlegir.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/08/05 16:06 #

Sá sem gerir hróp að fólki er ólíklegur til að vera laus við fordóma.

Hættu þá að gera hróp að mér, þú þarna fordómapúki og hræsnari. ;)

Gagnrýni mín á biskup, sem ég var viss um að hefði kallað samkynhneigð synd, er í engu frábrugðin annarri harkalegri gagnrýni og auðvitað á hún fullan rétt á sér. Eða var Þórbergur bara fordómapúki þegar hann skrifaði bréf til nasista? Er presturinn Bjarni Karlsson bara fordómafullur þegar hann ræðst á Gunnar í Krossinum fyrir andúð á samkynhneigð og kallar hann ofbeldismann?

Hafi ég gagnrýnt biskup fyrir eitthvað sem hann hefur ekki sagt og gert þá dreg ég gagnrýnina að sjálfsögðu til baka. Það á bara eftir að koma að fullu í ljós hvort biskup hefur haldið þessu fram.

Sú staðreynd að sonur biskups leikur í sýningunni er vísbending um að fjölskylda biskups sé einmitt laus við fordóma sem að þú er líklega haldinn.

Dylgjur. Segðu mér hreint út hverjir þeir fordómar eru í stað þess að fullyrða bara að um fordóma sé að ræða.

Kabarett fjallar um fólk sem haldið er í helgreipum kynlífsnautnar og vímuefnafíknar...

Hmm, ertu nú alveg viss um það? Skoðum þetta betur:

Það er hvergi minnst á fíkniefni í sýningunni og ekki er nokkur persóna sýnd á valdi þeirra. Sally Bowles drekkur gin ótæpilega og er sú eina sem ekki virðist hafa stjórn á neyslu sinni.

Cliff er ekki meira á valdi kynlífsnautnar en svo að þrátt fyrir að vera hommi byrjar hann með Sally og það kemur vel fram að hann er ekkert að leita útrásar með körlum. Hann veit sem er að Sally þráir endingargott ástarsamband og reynir allt til að láta það ganga upp.

En Sally er því miður ófær um að uppfylla drauma sína með Cliff, enda í djúpri þrá eftir viðurkenningu sem listamaður. Það er því í raun listin sem verður henni að falli en ekki kynlíf og fíkniefni. Hún getur ómögulega hafið nýjan feril sem móðir þegar allt kemur til alls.

Það er ekki MC sem kúgar Sally heldur eigandi klúbbsins. Hegðun MC er miklu fremur ætlað að túlka tíðarandann við uppgang nasismans fremur en vera eitthvert dæmi um ofríki hans gagnvart þeim listamönnum sem hann vinnur með. Hann kemur fram í sýningunni sem andlit þjóðfélagsástandsins, verður sífellt óhugnanlegri eftir því sem nasistastormurinn færist í aukana.

Getur verið að þessi túlkun þín á honum sé einfeldningsleg?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/08/05 16:57 #

Og hvað um gömlu skötuhjúin og samdrátt þeirra? Eru þau í helgreipum kynlífsnautnar? Og mætti þá ekki alveg eins halda því fram líka að ávaxtanautnin sé að ríða þeim á slig?

Það kemur berlega fram í sýningunni að það er í raun engin munur á léttlyndu stúlkunni Kost og Fraulein Schneider. Þær eru „systur í syndinni“ eins og það er orðað. Þetta afhjúpar í raun hræsni gömlu frúarinnar sem hefur sífellt horn í síðu Kost fyrir að njóta kynlífs. Eini munurinn á þeim tveimur er sá að Kost bindur sig ekki einum manni.

Ástin er raunverulega aðeins göfgun kynlöngunar. Ást Fraulein Schneider til Herr Schultz er fullkomlega kynferðisleg, eins og við sjáum þegar hún dregur hann inn í herbergi sitt af áfergju. Og gamli gyðingurinn er líka á höttunum eftir því sama, enda sjálfsagt og eðlilegt að aðhyllast slíkt. Samdráttur þeirra er fallegur en það er enginn eðlismunur á honum og löngun annarra þarna til að njóta kynlífs.

Ég tel túlkun þína á leikverkinu út í hött.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/08/05 19:42 #

Sú staðreynd að sonur biskups leikur í sýningunni gæti verið svarið við vangaveltum þínum og heilabrotum um viðveru biskups á sýningunni.

Sjáið þennan strámann dansksins. Ofar var einmitt búið að eyða þeim misskilningi að ég væri að furða mig á viðveru biskupsins. Ég var ekki að því. Heilabrot mín og forvitni um hugsanir hans undir sýningunni voru það sem vaknaði og um það fjallar greinin.

Og fyrst ég er kominn af stað: Þessi orðræða biskupsins í tilvitnuninni hér að ofan:

"Við horfum upp á mjög róttæk viðmiðahvörf í vestrænni menningu. Kynlífshegðun, hvatir, sambúðarform og samlífsmynstur sem áður voru talin óhugsandi, jafnvel óeðli, eru nú talin sjálfsögð og eðlileg og þarna hlýtur að verða að doka við og spyrja hvort við séum á réttri leið."

Benda í raun til þess að hann telji samkynhneigð óeðli. Það tekur tíma að skilja til hlítar hvað maðurinn er að fara, a.m.k. þegar maður er eins greindarskertur og ég, en þessi orð hans um að doka við og spyrja hvort við séum á réttri leið benda eindregið til þess að hann sé ekki sérlega hrifinn af því að það sem áður var talið óeðli sé ekki talið það lengur.

Og þá spyr ég aftur: Við hvað á biskupinn? Hvaða óeðli er það sem nú er talið sjálfsagt? Er hann að tala um eitthvað annað en samkynhneigð?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/08/05 20:27 #

Biskup telur samkynhneigð synd. Þessi orð hans fann ég hér:

Það á jafnt við um okkur öll hvað sem kynhneigð líður að við höfum syndgað og skortir Guðs dýrð.

Samkynhneigð er semsagt synd í augm biskups, en rökleiðsla hans gengur út á að útiloka hina samkynhneigðu samt ekki, enda vill hann ekki draga úr vinsældum kirkju sinnar. Hann er fordómapúki í vinsældakapphlaupi.

Eða hvað haldið þið?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/08/05 21:17 #

Ég sé ekki betur en að við höfum fengið uppreisn æru, biskupinn telur samkynhneigð synd. Ætli hann noti svo ekki hundalógík Gunnars í krossinum; segir hata syndina en elska syndarann.


Bóas - 23/08/05 22:09 #

Sé ekki betur en að BB sé farinn að rífast við sjálfann sig til að sannfæra sjálfann sig. Annars skil ég ekki upp né niður í þessu pjatti, hvorki greininni né umræðunni. Hvar er listinn eða boðskapur hennar til dæmis. Hjá höfindinum eða áhorfandanum!!! Sitt sýnist greinilega hverjum í þeim efnum. En að depata um viðveru einstaklings á listasýningu er nokkuð langsótt að mínu viti í þessu samhengi. Eru kristnir kannski of heilagir til að horfa á bannaðar bíómyndir o.s.frv.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/08/05 22:34 #

Aftur sami strámaður og danskurinn kom með. Hvernig er það eiginlega, eru gestir þessa vefsvæðis upp til hópa ófærir um að ástunda málefnalega umræðu?


danskurinn - 23/08/05 23:45 #

Birgir skrifar: "Hafi ég gagnrýnt biskup fyrir eitthvað sem hann hefur ekki sagt og gert þá dreg ég gagnrýnina að sjálfsögðu til baka. Það á bara eftir að koma að fullu í ljós hvort biskup hefur haldið þessu fram."

Svona framkoma er einmitt ágæt lýsing á fordómum.

Birgir skrifar: "Ástin er raunverulega aðeins göfgun kynlöngunar."

Það er barnalegt að alhæfa svona Birgir. Ástina þekkir almennilegt fólk í ýmsum myndum. Það passar t.d. engan veginn að ást föður á syni sínum sé göfgun kynlöngunar. Ást karls á konu birtist einnig á ýmsan annan hátt en sem löngun til kynlífs. Og hvað sem sjálfri kynlönguninni líður þá er það haft fyrir satt að sælla sé að gefa en að þiggja.

Birgir skrifar: "Biskup telur samkynhneigð synd ... Eða hvað haldið þið?"

Mér sýnist að þú sért í vafa sjálfur Birgir. Eða hvað heldur þú?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 24/08/05 00:21 #

Svona framkoma er einmitt ágæt lýsing á fordómum.

Hvernig þá? Þegar ég skrifaði greinina var ég sannfærður um fordóma biskups gegn samkynhneigðum enda hafði ég til viðmiðunar skrif fólks um að hann teldi samkynhneigð synd. Eftir að hafa farið á stúfana til að fullvissa mig um þetta komu upp efasemdir um að þetta væri alls kostar rétt og því var ég tilbúinn til að draga þetta til baka.

En skrif félaga minna reyndust á rökum reist. Þetta var eftir allt engin mýta, þótt mig hafi grunað það um stund. Og hvar eru þá fordómarnir? Vertu ekki svona mikill rugludallur.

Ástina þekkir almennilegt fólk í ýmsum myndum. Það passar t.d. engan veginn að ást föður á syni sínum sé göfgun kynlöngunar.

Komm on Arnþór, ekki þessa útúrsnúninga. Þú veist vel að ég var að ræða kynferðislegan samdrátt fólks. Slíkt atferli upphefur fólk stundum og göfgar, sérstaklega ef menn fá manneskjuna sem þeir (vilja) komast yfir á heilann. Og jújú, væntumþykja kemur við sögu þar líka.

Nei, það passar engan veginn að tala um göfgun kynlöngunar þegar væntumþykja skyldmenna er til umræðu. En það var óvart ekki það sem umræðan snerist um, heldur þessi brennandi útgáfa sem veldur því að fólk sefur saman, þetta lífefnafræðilega ferli sem stuðlar að viðgangi tegundarinnar.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 24/08/05 00:23 #

Mér sýnist að þú sért í vafa sjálfur Birgir. Eða hvað heldur þú?

Orði biskups eru loðin, eins og allt sem hann segir. Ég býð hverjum og einum að leggja mat á þau fyrir sig. Mitt álit er ljóst. En þitt?


danskurinn - 24/08/05 09:57 #

Birgir Baldursson skirfar: "Og hvar eru þá fordómarnir? Vertu ekki svona mikill rugludallur."

Fordómar eru það þegar dómur er felldur áður en upplýsingar liggja fyrir eða þrátt fyrir upplýsingar sem liggja fyrir. Það að vera tilbúin að skipta um skoðun síðar reynist fordómar ekki á rökum reistir, breytir ekki skilgreiningunni.

Birgir skrifar: "Þú veist vel að ég var að ræða kynferðislegan samdrátt fólks."

Það er ekki hægt að ætlast til að lesendur geti í eyðurnar hjá þér Birgir ef þú átt svona erfitt með að skrifa það sem þú ert að hugsa. Ef þú skrifar að ástin sé göfgi kynlöngunar er hægt að ræða um það. Ef þú skrifar um kynferðislegan samdrátt fólks þá er það annað umræðuefni. Það er annars fróðlegt að lesa hvaða orð þú velur um þessi fyrirbæri Birgir. Kynferðislegan samdrátt kallar þú ást á meðan væntumþykja skyldmenna er eitthvað annað en ást. Fróðlegt vegna orðsins sem þú kýst að nota ekki. Hefur þú kannski fordóma gagnvart orðinu "kærleikur" ?

Birgir skrifar: "Orði biskups eru loðin, eins og allt sem hann segir. Ég býð hverjum og einum að leggja mat á þau fyrir sig. Mitt álit er ljóst. En þitt?"

Biskup stígur mjög varlega niður, það er satt. Mér finnst það frekar vera vísbending um að hann sé laus við fordóma sem svo margir hafa sannarlega.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 24/08/05 12:19 #

Fordómar eru það þegar dómur er felldur áður en upplýsingar liggja fyrir eða þrátt fyrir upplýsingar sem liggja fyrir. Það að vera tilbúin að skipta um skoðun síðar reynist fordómar ekki á rökum reistir, breytir ekki skilgreiningunni.

Þessar upplýsingar liggja fyrir. Það að ég hafi farið á stúfana en ekki fundið neitt í sviphendingu vakti hjá mér grun að þessar staðreyndir væru kannski ekki raunverulegar og að fullyrðingar okkar trúlausra um þetta væru fordómar. En svo er ekki, heldur byggir þessi skoðun okkar á raunveruleikanum. Og hvar eru þá fordómarnir?

Lélegt af þér að reyna svona að notfæra þér eðlilegar efasemdir mínar og vilja til að viðurkenna að skoðun mín geti reynst röng.

Ef þú skrifar að ástin sé göfgi kynlöngunar er hægt að ræða um það. Ef þú skrifar um kynferðislegan samdrátt fólks þá er það annað umræðuefni. Það er annars fróðlegt að lesa hvaða orð þú velur um þessi fyrirbæri Birgir. Kynferðislegan samdrátt kallar þú ást á meðan væntumþykja skyldmenna er eitthvað annað en ást.

Þetta eru nú meiru strámannsrökin hjá þér, danskur. Þér ætlast seint að takast að höndla málefnalega umræðu. Þú veist vel að ég er að tala um það þegar fólk verður ástfangið. Hve marga syni þekkirðu sem eru ástfangnir af föður sínum?

Ég verð a.m.k. ekki ástfanginn af öllum sem mér þykir vænt um. Veit ekki með þig.

Biskup stígur mjög varlega niður, það er satt. Mér finnst það frekar vera vísbending um að hann sé laus við fordóma sem svo margir hafa sannarlega.

Nei, skoðanir hans eru ljósar og einkennast af gamalgrónum fordómum kristinna til samkynhneigðar. Það að hann stigi varlega niður er til marks um vinsældapot. Hann vill hvorki styggja svartstakkana né hina frjálslyndu og reynir því að tala þannig að erfitt sé að setja puttann á hvort hann er.

En skoðun hans er ljós.


Turkish - 25/08/05 04:14 #

Birgir Baldursson: Hvernig er það eiginlega, eru gestir þessa vefsvæðis upp til hópa ófærir um að ástunda málefnalega umræðu?

Thetta virdist vera kroniskt syndrome hja morgum lesendum thessarar sidu. Thad skiptir eiginlega engu mali oft hvad er sagt heldur virdist folk oft ekki na innihaldinu og til ad synast meira thenkjandi en thad er gripur thad i eitthvad svo otrulega thunnt og oft eitthvad sem hefur verid svarad.

En skemmtileg grein hja ther annars


Ingunn - 26/08/05 22:08 #

þú ættir að skammast þín fyrir að tala svona um fólk. Það er betra að þegja heldur en að blaðra um málefni sem maður hefur ekki hunds vit á.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/08/05 03:51 #

Meinarðu að biskupinn sé í trekant oll ðe tæm?


JóJó - 27/08/05 23:19 #

Ingun mín, hvernig geturðu haldið því fram að menn hafi ekki hundsvit á málefninu. Lastu ekki það sem skrifað var? Án þess að hafa mikið lesið það sem hér hefur verið skrifað finnst mér Birgir hafa nokkuð til sýns máls. Hann hefur t.d. fundið það út að biskup og hyski hans eru fordómafullt pakk frá helv.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 28/08/05 16:48 #

Biskup hefur auðvitað sína fordóma eins og aðrir, en ég held að þú ofmetir þá, Birgir. Ég held að hann sé aðallega að reyna að gera öllum til hæfis, og við vitum nú hvað það hefur mikla tilhneigingu til að mislukkast. Þess vegna talar hann svona varlega – og annars væri hann jafnvel ekki biskup.

Birgir Baldursson - 23/08/05 20:27

Biskup telur samkynhneigð synd. Þessi orð hans fann ég hér:
Það á jafnt við um okkur öll hvað sem kynhneigð líður að við höfum syndgað og skortir Guðs dýrð.
Samkynhneigð er semsagt synd í augm biskups, en rökleiðsla hans gengur út á að útiloka hina samkynhneigðu samt ekki, enda vill hann ekki draga úr vinsældum kirkju sinnar. Hann er fordómapúki í vinsældakapphlaupi. Eða hvað haldið þið?
Ég sé ekki á þessum orðum að hann sjálfur telji samkynhneigð vera synd, heldur er hann einfaldlega að benda á að skv. kenningu kirkjunnar eru allir menn syndugir.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/08/05 17:05 #

Ég sé ekki betur en þetta þýði að hann líti samkynhneigð sem synd, en þar sem við erum öll syndug enívei ætti þetta eitt og sér ekki að spila stóra rullu.

En alvarleiki málsins verður ljós þegar við spáum aðeins í hvað kirkjan boðar syndugum. Til að öðlast náð drottins hinna kristnu þarf að iðrast synda sinna og gera yfirbót. Hinir gagnkynhneigðu þurfa ekki að iðrast samfara sinna, en samkynhneigðum er uppálagt að iðrast þess að hafa veitt fögrum tilfinningum sínum til þeirra sem þeir elska útrás í kynmökum.

Mér finnst ljótt af kirkjunni að ætlast til þess. En auðvitað er syndahugtakið fullkomið kjaftæði til að byrja með og ferlegt að ríkisrekin stofnun sé að boða þessa vitleysu og valda þannig sektarkennd hjá fólki. Og extra sektarkennd hjá samkynhneigðum fyrir það eitt að stunda kynlíf.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 28/08/05 18:19 #

Ég les það samt ekki úr þessum orðum að hann sé fordómafullur í garð samkynhneigðra, heldur að hann vilji ekki segja hvort hann sé það eða ekki. Hann kemur sér undan spurningunni til þess að þurfa ekki að styggja hluta stuðningsmanna sinna. Auðvitað hefði hann bara átt að segja að auðvitað væri samkynhneigð ekki synd í sínum augum, en hann þegar hann talar opinberlega er hann ekki bara Karl Sigurbjörnsson, heldur er hann aðallega biskup Íslands - hann talar í krafti embættis síns. Með öðrum orðum, þetta tipl er til komið af kirkjupólitískum ástæðum. Hvort Karl fyrirlítur samkynhneigða en vildi ekki fæla frá sér umburðarlynda presta og aðra Íslendinga, eða hvort hann umber þá en vildi ekki fæla burt íhaldssama presta og aðra Íslendinga, það vitum við ekki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.