Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Athyglisverð köpuryrði frá Agli Helgasyni

Í nýlegri grein, Um fordóma og fáfræði, fjallar Egill Helgason um biskup og fjaðrafokið sem hann olli með ummælum sínum í nýjárspredikuninni góðkunnu. Egill getur ekki stillt sig um að hnýta aðeins í trúleysingja í leiðinni, með sérstakri vísun í Vantrú. Eins og gefur að skilja er ekki hægt að taka því þegjandi.

Grein Egils er morandi í rökvillum. Tökum nokkur dæmi.

Hann byrjar á því að greina frá því að fordómastimpillinn sé óspart notaður sem „mælskubragð núorðið“ og er það í sjálfu sér rétt. Strax á eftir segir hann að biskup sé „sagður vera bæði fáfróður og fordómafullur“ og beitir um leið rökvillu sem er kölluð „Argumentum ad logicam“. Við á Vantrú höfum stundum kallað hana því þjála nafni, „rökvillu-rökvillan“. Fyrst bendir Egill á algenga rökvillu – semsé að nota ásökun um fordóma sem persónuárás – og síðan gefur hann í skyn að vegna þess að biskup er kallaður fordómafullur, þá sé sama rökvillan á ferðinni. Egill smeygir sér þægilega hjá því að ásakanir um fordóma Karls biskups gegn samkynhneigðum eru rökstuddar og því alls engin rökvilla!

Hvað er til marks um að biskup sé fordómafullur í alvörunni? Það liggur í augum uppi: Hans eigin orð og gjörðir. Annars vegar dregur hann sem einstaklingur lappirnar í að samþykkja að samkynhneigðir njóti sömu mannréttinda og aðrir, nefnilega að fá að ganga í sambærilegt hjónaband við þann sem þeir velja sér að lífsförunaut. Hins vegar er Karl foringi stofnunar, sem er íhaldssamari en góðu hófi gegnir, nefnilega Þjóðkirkjunnar. Um leið og hann beitir sér sem slíkur gegn téðum mannréttindum undirgengst hann sjálfviljugur innbyggða fordóma kirkjunnar. Nú, er þar með sagt að Karl Sigurbjörnsson sé hómófóbískur sjálfur? Það er rétt að taka fram að forsendurnar eru ekki nógu sterkar til að fullyrða það um hann sem einstakling. Þó höfum við sterka vísbendingu: Karl þjónar hlutverki málsvara fordóma og afturhalds. Í hlutverki sínu er hann þannig bæði fordómafullur og afturhaldssamur. Dragi fólk af því þær ályktanir sem það vill, að einn maður taki slíkt hlutverk að sér að frjálsum vilja.

Ef Karl væri það sem hann segist vera – boðberi kærleiksboðskapar og fagnaðarerindis – má telja næsta víst að hann tæki sér stöðu í fararbroddi þeirra sem vilja meiri mannréttindi, ekki minni. Það gerir hann ekki – altént ekki í þessu tilfelli – heldur eltir hann þá sem vilja fara sér hægast og hlustar, að því er virðist, af furðu miklum „skilningi“ á þá sem ólmast mest gegn mannréttindum samkynhneigðra. Grundvöllurinn fyrir þessari breytni er síðan trúarlegur. „Rökin“ gegn því að heimila hjónabönd samkynhneigðra eru þau að hann trúir því að það sé rangt. Hversu sterk eru þau rök?

Egill heldur áfram og segir: „Þetta tal um fordóma er stundum svolítið billegt, þótt erfitt sé að verjast því. Margir sem hafa látið hátt um þetta mál telja sig ekki einu sinni vera kristna, sumir mundu vart hafa áhuga á kirkjunni í öðru samhengi en neikvæðu - eru jafnvel herskáir trúleysingjar* eins og virðist vera dálítið í tísku meðal ungra karlmanna þessa dagana.“ ( Vísun hér breytt úr „.net“ í „.is“; leturbreytingar V.V.)

Skyldi Egill halda að þetta „herskáa trúleysi“ muni fara úr tísku eins og sítt-að-aftan hárgreiðslan gerði, sem var dálítið í tísku meðal ungra karlmanna fyrir nokkrum árum? Erum við, ungu karlmennirnir sem höldum úti Vantrú.is, bara með einhvern ungæðishátt sem eldist af okkur? Það mætti skilja af orðum Egils, þegar hann slær upp tveim í einu, lítt dulinni ad hominem-rökvillu (sem á góðri íslensku heitir persónuárás) og strámannsrökvillu – billegum báðum tveim, nema hvað.

Í næstu efnisgrein skýrir Egill frá sínum eigin fjölskylduhögum og umgengni við margt kristið fólk. Rökvillingur mundi núna sæta lagi og gera árás á hann vegna aðstæðna og saka hann um að bera blak af biskupi aðeins til að þóknast sínum nánustu, en ekki af því að væri svona ötull stuðningsmaður kirkjunnar í alvörunni. En að sjálfsögðu ætla ég Agli ekki slíkan óheiðarleika, svo ég læt nægja í staðinn að benda á þessa skondnu tilviljun!

Hvað skal segja um ummæli Egils um Þjóðkirkjuna og biskup hennar, í samanburði við kaþólsku kirkjuna? Ekki stendur á okkur að taka undir með Agli um að kaþólska kirkjan sé asnalega íhaldssöm – en bætir það málstað þjóðkirkjubiskups? Nei, ekki hót! „Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað“ er haft að orðtaki, og á það við hér. Karl biskup er kannski ekki eins afturhaldssamur og páfinn í Róm – en það eru heldur ekki margir!

Næstu rökglöp fremur Egill þegar hann segir: „Fyrir margt samkynhneigt fólk hefur þessi réttindabarátta líka orðið sjálft inntak tilverunnar; það er ekki sá kimi sem hún nær ekki út í - á þá hliðina getur líka skort umburðarlyndi.“ Er mannréttindabarátta ekki nógu verðugt viðfangsefni til að helga sig henni eða eru menn kannski haldnir einhverri þráhyggju ef þeir krefjast sömu réttinda og aðrir? Jæja, látum það liggja milli hluta hvort þessi staðhæfing er sönn í sjálfu sér eða ekki. Í því samhengi sem hún stendur í greininni er hún að minnsta kosti rökleysa – Egill gefur í skyn að hjónabandið sé „kimi“ í lífinu. Nú er ég, sem þetta skrifa, ókvæntur – en tel mig þekkja til nógu margra hjóna til að geta fullyrt að hjá giftu fólki er hjónabandið sjaldan einhver „kimi“ í lífinu. Ég vona líka að því sé ekki þannig farið hjá Agli sjálfum!

Egill hefur ekki lokið máli sínu. Hann segir að það þyki „allt í lagi að lemja kröftuglega á trúuðu fólki“ og þykir mér það koma úr hörðustu átt. Hafa trúleysingjar sem slíkir beitt trúmenn sem slíka ofbeldi? Hitt hefur nú verið algengara hingað til, eftir því sem ég kemst næst, að því hafi einmitt verið öfugt farið. Það er enginn hörgull á dæmum þess að menn hafi verið lamdir bókstaflega (og þaðan af verra) fyrir að aðhyllast ekki „rétta trú“. Það blasir við, hver munurinn er á því að veitast að manni og að gagnrýna skoðanir hans. Er það kannski bannað? Ofbeldis-aðdróttunum þessum fylgir Egill eftir þegar hann talar um Richard Dawkins, sem hann kallar „átrúnaðargoð“ okkar Vantrúarmanna, og segir frá því þegar Dawkins „líkir trúnni við veirusýkingu og flokkar barnatrú með misnotkun á börnum“. Þessu fylgja engar skýringar, og því falla ummæli Egils um sjálf sig sem enn ein rökvillan, er hann „höfðar til tilfinninga“ lesandans og reynir að hneyksla hann. Svo vill til að hér á Vantrú hefur einmitt verið gripið til sömu líkinga (samanber „Sölumenn dauðans“, hér og hér). Fólk getur því sjálft kynnt sér hvað býr að baki þessum óneitanlega þungu dómum. Það hefði verið drengskaparbragð af Agli við lesendur sína að láta skýringarnar fylgja, en ekki bara hástemmdar fyrirsagnirnar slitnar úr samhengi. Vonandi að hann læri af ábendingu okkar. Í leiðinni hefði hann mátt fara rétt með titilinn á þáttum Dawkins, sem heita ekki „Rót alls ills“ heldur „Rót alls ills?“ með spurningarmerki fyrir aftan, sem gerbreytir merkingunni. Því er nefnilega ekki haldið fram í þáttunum að trúarbrögð séu „rót alls ills“, enda er Dawkins ekki sá einfeldningur að halda að „allt illt“ eigi sér eina rót. Dawkins bendir hins vegar (réttilega) á að trúarbrögð eru ástæðan fyrir mörgu illu. Ég spyr mig, ætli Egill hafi horft á þessa þætti áður en hann gagnrýndi þá?

Tekið skal fram að staðhæfingin að Dawkins sé „eitt helsta átrúnaðargoð trúleysingja“ er dylgjur og annað ekki! Dawkins er skoðanabróðir í ritfærari kantinum og við berum virðingu fyrir honum sem slíkum, enda er hann mikill talsmaður þess – eins og við – að skynsamlegra skýringa sé leitað við áleitnum spurningum um lífið og tilveruna.

Við föllumst engan veginn á að kenningar Dawkins séu nöturlegar. Egill verður að eiga þá upplifun sína við sjálfan sig, svo fremi að hann komi henni ekki þannig á framfæri að hún ummyndist í rökvillu brunnmígsins eins og hún gerir í þessu tilfelli! „Menn eins og [Dawkins hafa] verið að boða endalok trúarbragðanna í mörg hundruð ár“ segir Egill (ég kannast reyndar ekki við það), „en ekki enn orðið að ósk sinni.“ Það er í sjálfu sér rétt að trúarbrögðin eru ekki liðin undir lok og ekki fyrirsjáanlegt að þau geri það í bráð, en þetta eru ekki rök gegn því að trúarbrögðum sé mótmælt! Til er rökvilla sem kallast „argumentum ad antiquitatem“ sem er svipuð þessu: Það hefur ekki gerst, þar af leiðandi mun það ekki gerast. (Við leyfum okkur því allavega að lifa í voninni!) Í því samhengi má minnast Edisons, sem sagt er að hafi gert einar 8000 tilraunir áður en honum heppnaðist að smíða ljósaperu sem virkaði.

Síðasta rökvilla Egils eru lokaorð greinarinnar: „Bæði kommúnismi og nasismi eru afsprengi skynsemishyggju, gerðu meira að segja tilkall til að vera einhvers konar vísindi.“ Mér er spurn, sér Egill Helgason einhver tengsl milli nasískrar kynþáttahyggju annars vegar og skynsemishyggju og vísinda hins vegar? Þótt tiltekin stefna geri tilkalltil að vera vísindi, þá verður hún auðvitað ekki að vísindum fyrir vikið. Í Encyclopædia Britannica segir til dæmis:

To it [Nazism] was added the tradition of political romanticism, with its sharp hostility to rationalism and to the principles underlying the French Revolution, its emphasis on instinct and the past, and its proclamation of the rights of Friedrich Nietzsche's exceptional individual (the Übermensch [“Superman”]) over all universal law and rules.

Auk þess:

National Socialism attempted to reconcile conservative, nationalist ideology with a socially radical doctrine. In so doing, it became a profoundly revolutionary movement—albeit a largely negative one. Rejecting rationalism, liberalism, democracy, the rule of law, human rights, and all movements of international cooperation and peace, it stressed instinct, the subordination of the individual to the state, and the necessity of blind and unswerving obedience to leaders appointed from above.

Með öðrum orðum var nasismi ekki afsprengi skynsemishyggju, hvað sem líður tilraunum nasista til að ljá stefnu sinni vísindalegan blæ. „Vísindi“ nasisma um kynþætti og annað voru meira í ætt við vísindagervinga, og auk þess má minna á arf frá Marteini Lúther og öðrum stækum gyðingahöturum innan kirkjunnar fyrr og síðar (sjá t.d. „Kristnir Nasistar“, „Um góðu verkin hans Lúthers VI: Boðskapur Lúthers í nútímanum“, „Úr jarðvegi haturs“ og „Postulasagan - mesta slys kirkjusögunnar“).

Jafnvel þótt staðhæfing Egils um rætur nasisma í skynsemishyggju væru sönn, þá væri hún engu að síður fyrsta flokks dæmi um „sök vegna tengsla“-rökvilluna – nánar tiltekið það afbrigði af henni sem kallast Reductio ad Hitlerum. Egill útskýrir ekkert orsakarsamhengi, annað en að gefa í skyn að skynsemishyggja leiði til mannréttindabrota! Með sömu rökvillu mætti segja að menn ættu ekki að vera grænmetisætur vegna þess að Hitler hafi verið grænmetisæta, en að öðru leyti er ekki frekari orðum eyðandi á þessi ummæli.

Þegar að því kemur að við gefum út kennslubók um rökvillu, þá þætti okkur vænt um að fá að birta grein Egils í heild sinni, sem sýnidæmi.

Vésteinn Valgarðsson 23.01.2006
Flokkað undir: ( Klassík , Rökvillur )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/01/06 13:59 #

Egill er augljóslega fordómafullur í garð trúlausra, sér í lagi þeirra sem láta í sér heyra.

Mér leiðist þetta kjaftæði um að Dawkins sé eitthvert átrúanðargoð okkar. Hann er ekki átrúnaðargoð mitt, heldur aðeins skoðanabróðir sem skrifar bitastæðar greinar. Það er líka langt frá öllum sanni að maður taki skoðanir sínar upp eftir honum eins og t.d þetta að Dawkins kalli trúarinnrætingu barna misnotkun. Ég skrifaði t.d. grein mína um hryðjuverkamenn hugans án þess að hafa nokkurn tíma séð stafkrók frá honum eða öðrum um þau efni.

Hér er semsagt ekki verið að lepja neitt hugsunarlaust upp eftir einhverjum gúrúum. Trúleysi okkar og hugsanafrelsi gerir það einfaldlega að verkum að við komumst öll að svipuðum niðurstöðum við það að hugsa málið sjálf.

Skynsamlegum niðurstöðum.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 23/01/06 14:04 #

Það er hægt að segja það að hann Egill sé fórnarlamb "trúarvírusins" og því veit hann kannski ekki betur ;) Vantrú ætti kannski að vera með námskeið til að losa fólk undan svona rökvillu/trúar-vítahring.

Allavega finnst mér að Egill sé með skítinn langt upp á bak í þessari grein sinni. Bullandi hægri vinstri og gerir sér ekkert grein fyrir því.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 23/01/06 17:19 #

Eigum við ekki bara að kenna afa hans Egils um að hafa mengað barnshugann með öflugu kristniboði?


Snæbjörn - 23/01/06 19:16 #

Mér blöskraði yfir ömurleika greinar Egils og álit mitt á honum hrapaði.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 24/01/06 02:24 #

Ég get nú ekki sagt að álit mitt á Agli hafi lækkað við að lesa þessa grein hans, botninum var þegar náð.


Sigurður Ólafsson - 24/01/06 15:39 #

Mig minnir sterklega að hafa heyrt Egil Helgason lýsa því yfir í sjónvarpsþætti að hann væri sjálfur lítt trúaður. Ég held að hann verji kristna trú af öðrum hvötum en trúarlegum. Egill virðist telja kristni mannbætandi og að kristnar þjóðir séu betri en aðrar; að ákveðin mildi og manngæska fylgi þessum sið. Eitthvað virðist vanta upp á söguþekkingu sjónvarpsmannsins, en fáir siðir eiga eins blóði difna sögu og kristni! Mannréttindi og það frelsi sem við þekkjum á vesturlöndum hafa náð að þroskast þrátt fyrir kristni, ekki vegna hennar. Gleymum því ekki að hinar myrku miðaldir einkenndust af einu öðru fremur: Kristni.


frelsarinn@vantru.is (meðlimur í Vantrú) - 24/01/06 22:29 #

Ég held að þetta sé rétt hjá Sigurði. Mig minnir að Egill hafi haldið þessu fram í þættir hjá sér um yfirburði kristni. Ég man eftir honum gagnrýna kristnihátíðina mjög harkalega og allt biskupsdæmið. Í raun alla kristni í bak og fyrir. En nokkru síðar var hann eins og beygður Galíleó Galíleí þegar mætti og talaði í sóknarkirkju hér á höfuðborgarsvæðinu. Eftir það hefur hann verið mjög vinalegur og ógagnrýnin á allt kirkjudæmið og tekið klerka í sátt. Ég veit ekki hvað gerðist þarna í kirkjunni milli hans og prestsins. Það getur enginn svararð nema Egill sjálfur sem er fullur af vandlætingu til allra trúarbragða nema kristni. Undarlegt en satt.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 25/01/06 18:06 #

Sko... ég, fyrir mitt leyti, álít kristni hafa vissa yfirburði yfir ýmis önnur trúarbrögð, í þeim skilningi að hún er þróaðri og hentar þróaðri samfélögum en ýmis önnur trúarbrögð eru og gera. Það breytir því ekki að hún er tímaskekkja og eiginlega bara einkennilegt að hún eigi sér ennþá áhangendur. Hvað Egil Helgason varðar, þá kannast ég við það líka, að hann segist ekki vera trúaður, en hann er samt einkennilega hallur undir kirkjuna.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.