Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hunsun

Eins og ég tala um í pistli mínum undir "Um vefinn" hér á tenglabarnum þá er engin leið að segja af eða á um hvort yfirnáttúrlegar verur, guðir, álfar eða draugar eru til. En það eru til óbeinar aðferðir til að hrekja það.

Ég hef í nokkrum greinum mínum hér komið inn á slíkar óbeinar afsannanir, t.d. hér, hér og hér. Stóri punkturinn í þeirri umfjöllun er sá að staðhæfingin um Guð er algerlega órökstudd og aukin þekking okkar mannana á heiminum hrekur þær fullyrðingar um íhlutun hans.

Helstu rökin eru örsakarökin sem nota má gegn tilgangsfullyrðingunni. Maðurinn er afrakstur náttúruvals, sem er í raun lítið annað en viðbrögð hins lífræna efnis við breytilegum aðstæðum. Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að maðurinn hafi verið fenginn fram samkvæmt plani, heldur sýna allar niðurstöður okkar að hann er alfarið afrakstur aðstæðna og væri ekki til ef mál hefðu þróast öðruvísi í veröldinni.

Í raun ættu þessi rök ein og sér að duga til að fólk myndi í stórum stíl falla frá hugmyndinni um skapara. En af einhverjum orsökum virðast menn upp til hópa hafa þörf fyrir að stilla þessu almætti upp sem staðreynd í kollinum á sér og láta það svo dilla hégómagirndinni. "Ég trúi á Guð og því er ég útvalinn til að lifa að eilífu í náðarfaðmi hans," baula menn eins og kjánar.

Þetta kallast meðvituð ásókn í fávisku og er afrakstur hugarfars sem mér er gersamlega óskiljanlegt. Hví vilja menn ekki hafa það sem sannara reynist? Af hverju hanga menn í forneskjulegum skýringum á tilurð og framvindu veraldar, þegar búið er að sýna fram á að þær eigi ekki við nokkur rök að styðjast?

En tökum aðeins til handargagns fleiri óbeinar sannanir fyrir tilvistarleysi guða:

  1. Upplifanir manna af guðum má kalla fram með því að erta gagnaugablöð heilans með rafstraumi eða segulmagni. Það gefur okkur tvo möguleika, annað hvort hafa slíkar upplifanir ekkert með guði að gera, eða þá að þessir guðir eru ofurseldir fikti vísindamanna með tól sín og verða alltaf að skreppa inn í hausinn á tilraunadýrum þeirra eftir pöntun.

  2. Þau gervivísindi sem nú eru mest í tísku og þykjast leiða út gáfaða frumorsök gleyma að geta þess að það er ekkert gáfulegt við "intelligent design". Hafi gáfuð vera skapað heiminn væri hann öðruvísi. Fyrir nú utan þá alkunnu staðreynd að ef heimurinn þarf gáfaða frumorsök þá þarf hún að eiga sér enn gáfaðri slíka, því annars er ekkert vit í fullyrðingunni.

  3. Ef kraftaverk eru staðreynd táknar það að öll vísindi mannanna eru unnin fyrir gíg. Allt vísindastarf reiðir sig á það að náttúrulögmálin haldi alltaf. Ef skaparinn er eitthvað að hnika þeim eftir þörfum hafa vísindamenn ekki lengur neitt til að byggja á. En á móti kemur auðvitað að aldrei hefur nokkurntíma verið sýnt fram á kraftaverk, heldur fellur allt slíkt tal undir vitnisburð, óáreiðanlegustu tegund rökstuðnings.

  4. Óheyrilegur fjöldi trúarbragða hefur verið stundaður gegnum árþúsundin og gífurlegur fjöldi guða verið tilbeðinn. Hver sá sem í dag trúir, hafnar öllum þessum guðum nema þeim sem tilheyra hans eigin trú. Ef allir þessir guðir áttu sér ekki tilvist, þrátt fyrir alla þessa tilbeiðslu er eðlilegast að álykta sem svo að þeir guðir sem tilbeðnir eru í dag séu líka tilvistarlausir. Og auðvitað eru hver og einn þeirra í mótsögn við alla hina - heimurinn getur ekki bæði verið skapaður af guði Biblíunnar og öllum sköpurunum í hinum trúarbrögðunum.

Nægir þetta? Eða kjósið þið að hunsa alla þá vitneskju sem til reiðu er og halda áfram að hugsa eins og hirðingjar í árdaga? OK, verið þá meðvitað fávís en látið ykkur ekki þá bregða þótt ég kalli ykkur moðhausa.

Birgir Baldursson 19.04.2004
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Hreinn Hjartahlýr - 20/04/04 23:00 #

Birgir minn. Hann Þórhallur miðill er búinn að afsanna allar helstu kenningar eðlisfræðinnar og býð ég þér að vera viðstaddur á morgun milli kl. 17 og 18 þegar Raunvísindastofnun Háskólans verður sprengd í loft upp. Léttar veitingar verða í boði og boðið upp á kynlíf með framliðnum í gegnum Tóta sjálfan. Framvegis þurfa allir nemendur að taka stöðupróf í dulspeki og Maggi Skarpi hefur tekið að sér að semja stúdentsprófið sem mun framvegis þurfa í faginu. Aukastig eru gefin fyrir svindl á þessum prófum, ef ekki er hægt að útskýra það.


hanni - 21/04/04 02:00 #

sýnist þessi pistill hafa verið illa hunsaður!! :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/04/04 12:34 #

Ég bíð eftir mótrökum við þessu. Kannski eru engin. Átt þú einhver?


hanni - 21/04/04 15:00 #

sagði að ég ætlaði að mótmæla þessu...bara að undistrika hversu vel titlaður pistill þetta var hjá þér :)


Hreinn Hjartahlýr - 21/04/04 15:56 #

Birgir! Ég er bara benda þér á að hætta að skjóta á rykmý með hitasæknum flugskeytum. Mýflugurnar hunsa svoleiðis. Erfitt er að berja menn til skynsemi með rökum. Enginn verður óbarinn byskup. Hugsaðu frekar um vonbrigðin sem þeir verða fyrir þegar þeir hitta þann sem ræður á efsta degi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/04/04 16:19 #

Aha. Ég á semsagt bara að sitja og þegja meðan ríkisstyrkt, rándýrt bákn boðar hindurvitni og ekur sér í munaði á sama tíma og heilbrigðiskerfið er að sligast og fólk á ekki fyrir mat.

Liggur ekki forsenda framfara í vakningu? Þykir þér það ekkert verðmætt að ég og hinir hér á Vantrú skulum gera okkur far um það, með heilmikilli vinnu og á eigin kostnað, að vekja fólk til vitundar um hve forheimskandi þetta afl er sem komið hefur sér svona þægilega fyrir eins og sníkjudýr í samfélagi okkar?

Trúin er hugsanavilla sem smitast líkt og veira. Trúarbrögðin eru sjúkdómseinkennin (afkáraleg hegðun í krafti óraunsærra hugmynda) og boðunin er smitleiðin. Mér þykir mikilvægt að benda fólki á þetta - aftur og aftur.


hanni - 21/04/04 17:01 #

tjékkaðu á þessum birgir, hann verður örugglega trúarnöttari...en samt!!! http://www.andrewnewberg.com


Hreinn Hjartahlýr - 21/04/04 17:28 #

Nei NEI, bara nota önnur vopn en rök. Háð, grín, hnífa, byssur. Allt virkar betur en rök á menn með graut í höfðinu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/04/04 17:36 #

Það má vel vera, hanni, að þessi gaur hafi rétt fyrir sér og mannsheilinn sé lænaður upp til að gera endalaust ráð fyrir guðum. En það sannar ekki tilvist guða, heldur yrði það okkur aðeins ábending um eitthvað í þróunarsögu okkar sem valdið hefur þessu.

Hreinn Hjartahlýr, mér hugnast ekki aðferðir þínar númer 3 og 4. Hve langt nær hjartahlýjan?


hanni - 21/04/04 17:46 #

tók þróun þá átt að við fórum að hugsa um guði?


Hreinn Hjartahlýr - 21/04/04 17:52 #

Argh! Tala ég ekki nógu skýrt og bókstaflega? Ertu kannski að skilja mig of bókstaflega. Ertu bókstafstrúar? Lesa milli línanna og bakvið orðin leynist stundum eitthvað. Segðu mér bara raunvísindalega exact nákvæmlega fyrir hversu mörgum hefur þú komið viti fyrir með öllum þessu tali um sannanir og afsannanir?? Ég vil fá hausa per 1000 orð. Hafðu það 10.000 og þá skilurðu hvað ég er að fara. Og hvað með smá póst-móderníska sýn á þetta? Kirkjan er nú ekki það eina óskynsamlega sem viðgengst. Hver íslendingur eyðir svona 40.000 klst. í að læra að lesa, reikna og skrifa. Útskrifast svo stúdent og kann ekki neitt nema að horfa á sjónvarpið. Hvaða klikkun er það?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/04/04 18:10 #

Þetta hér útskýrir málið að einhverju leyti, hanni.

Hreinn, ég hef ekki hugmynd um hvort einhver hafi fallið frá trú við að lesa mig. Efast reyndar um það.

En það á sér rætur í því að til að ganga af trúnni þarf að byrja á að hugsa sjálfur. Efast. Ég held að pistlaskrif mín geti hugsanlega sáð einhverjum efasemdarfræjum í höfuð einhverra og í kjölfarið taki við langur prósess sem endar í trúleysi. Sá prósess þarf alfarið að fara fram innan höfuðkúpu þess sem gengur af trúnni. Ég er ekki að boða neina hraðsoðna lausn til að taka gagnrýnislaust. Það gera aðeins boðberar trúar.

Predikarinn Dan Barker var heil fimm ár að ganga af trúnni. Ég ætla að gefa lesendum mínum að minnsta kosti jafn langan tíma, áður en ég gefst upp.


Hreinn Hjartahlýr - 21/04/04 20:48 #

Hverjum og einum er frjálst að velja sér vindmyllur að berjast við. Loftið í guðfræðideildinni vill vera dálítið staðið og fúkkalykt af því. Auðvitað styð ég þig Birgir í baráttunni og myndi leggja til áhættufé í fyrirtækið ef ég ætti!!! Áfram trúleysi! Og hvernig væri að hætta að trúa á líffræðingafíflin líka?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/04/04 21:10 #

Vindmyllur? Og hafa líffræðingar haldið einhverju fram órökstutt í fræðum sínum?


Hreinn Hjartahlýr - 21/04/04 21:19 #

Þú átt rök gegn öllu Birgir! Það er frábært, glæsilegt, en algerlega gagnslaust. Barátta gegn vindmyllum er vonlaus samkvæmt hefðbundinni málnotkun, sbr. Don Quixote þótt ég hafi, ekki frekar en aðrir, lesið þá bók. Á sama hátt mun ég nú koma með þá kenningu að fáir (aha! hve margir eru það) muni efast um trú sína af því að lesa langa pistla þar sem sannanir um tilvist guðs eru raktar sundur. Veðja 100 krónum að þeir verði færri en 10 árið 2020. Ég leyfi mér að vitna í Kurt Gödel, frægasta rökfræðing 20. aldar: "I don't believe in natural science". Allt í lagi, hann var geðveikur, og notaði þetta sem fyrstu og síðustu setninguna í einhverju matarboði honum til heiðurs. Hann var til hliðar við einhvern álíka frægan eðlisfræðing. Náttúrulögmálin eru algjört feik! Sættu þig við það.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 22/04/04 10:00 #

"Náttúrulögmálin eru algjört feik!"

Hreinn, þú ert með betri húmor en ég hélt! En ef þetta átti ekki að vera fyndið þá áttu mjög bágt.

Hefuru orðið fyrir því að þyngdaraflið sé ekki að virka eða annað sem við köllum vísindi sé ekki að virka? Virka kannski öll vísindi nema þau sem eiga sér uppruna í líffræði?


Hreinn Hjartahlýr - 22/04/04 14:46 #

Samkvæmt Birgi hef ég mjög lélega kímnigáfu. Ég á bara við það vandamál að stríða að ég er að reyna að segja of mikið í of fáum orðum. Taldi víst að menn læsu rétt í orð mín. Ef það var ekki alveg ljóst þá er ég algerlega trúlaus með öllu og finnst kristindómur sem slíkur svo hlægilegur að ég á erfitt með að tala um hann. Hitt atriðið sem ég er að reyna af vanmætti að koma á framfæri, er að vísindi eru ofmetin hér á bæ. Líffræði er ókei sem þekkingarleit en er alveg einstaklega ófær um að svara mikilvægum spurningum. Hún á kannski eftir að fágast eitthvað áður en sólin brennir úr sér en veitir samt ekki svör við því hvað ást er. Og ást er ekki heilaferli. Ekki frekar en talan 2. Samt eru bæði fyrirbærin til. Með því er ég ekki á neinn hátt að tala fyrir tilvist guðs. Bara að nefna það að smættarhyggjan virkar ekki alveg. En guð minn góður, nóg hefur verið skrifað um það í lærðum bókum og tímaritum. Og hvernig á að sannfæra trúaðan mann um að hann eigi ekki að trúa á guð, eða hvernig á að sá í huga hans fræjum efasemda. Með því að finna gloppur í guðs-sönnunum? Ég held ekki. Það er einsog að reyna að sannfæra einhvern um að Goldberg-tilbrigðin séu unaðsleg tónlist, nema hvað þessi einhver er gersamlega forfallinn Kreator aðdáandi og fúlsar og sveiar. Ef hann heyrir ekki sjálfur, þá er þetta erfitt mál. Ótal aðrar hliðstæður koma upp í hugann, en ég get ekki verið svona alvarlegur lengur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/04/04 19:14 #

Ég tek aftur þetta með kímnigáfuna. Hún er ekki svo galin, en innlegg þín trufla þó umræðuna hér (sem ég, í nördaskap mínum tek mjög alvarlega).

Ég kann betur við þessi skeyti þín þar sem þú tæpir beint á málefnunum. Og endilega haltu áfram að tjá þig.


Sundin - 23/04/04 22:53 #

Ég er ekki viss hvort fullyrðingin um að ekkert bendi til þess að maðurinn hafi verið fengin fram samkvæmt plani, sé rétt. Í það minnsta byggja skoðanir um tilgangsleysi í öllu ekki á neitt merkilegri “rökum” eða “niðurstöðum” en skoðanir um hið gagnstæða. Vísindatilgátur, svo dæmi sé tekið, geta með engu móti rannsakað eða sannað hvort tilgangur sé með lífinu og alheiminum, eða ekki.

Að segja að maðurinn sé afrakstur náttúruvals er einnig mjög hæpin “rök” eða “niðurstaða”, því náttúruvalið eitt og sér, í sinni eiginlegri merkingu, hefur nefninlega aldrei breytt manninum á neinn hátt.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 03/05/04 10:41 #

Að segja að maðurinn sé afrakstur einhverra orða í bók er án efa mun heimskulegra en að hann sé afrakstur náttúruvals.

Því miður virðist vera að menn sem gagnrýna líffræði með svona rökum virðast ekki vita neitt um hana. Það er mjög auðvelt að gagnrýna einhver vísindi með einhverjum bull rökum ef maður veit hvort sem er ekkert um þau.

Sundin, farðu að kynna þér hvað vísindi ganga út á og þá gætir þú lært eitthvað. Einnig ættir þú að hafa í huga að þú kemst ekki í gegnum daginn á þess að þú notir eitthvað sem byggir á vísindalegri þekkingu - pældu í þvi!


Ragnar Geir Brynjólfsson - 14/03/05 19:36 #

En á móti kemur auðvitað að aldrei hefur nokkurntíma verið sýnt fram á kraftaverk, heldur fellur allt slíkt tal undir vitnisburð, óáreiðanlegustu tegund rökstuðnings.

Er það svo? Þér hefur kannski yfirsést frásögn af 66 kraftaverkum sem sögð eru hafa gerst í Lourdes í Frakklandi:

http://www.lourdes-france.org/upload/pdf/en_guerison.pdf

Hérna er listi yfir skilyrðin fyrir því að atvik af þessu tagi sé lýst kraftaverk:

http://www.ewtn.com/library/MARY/ZLURDCUR.HTM

Hérna pistill um Lourdes ritaður af geðlækni, Dr Raj Persaud:

http://www.mult-sclerosis.org/news/Jan2002/MoreOnLourdesMiracleMSCure.html

Kveðja, RGB.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 15/03/05 02:38 #

Það að af þeim 100.000.000 manns sem hafa heimsótt þennan stað (þar sem að einhver stelpa sem dó úr berklum sá eitthvað) skuli 66 persónur hafa læknast af krónískum sjúkdómum (sem er erfitt að greina og leggjast stundum í dvala)af óþekktum ástæðum er ekki skrítið. Það gerist oft að fólk læknist án þess að við vitum orsökina. Vísindi reyna að finna orsökina, trúarbrögðin hrópa "kraftaverk".

Émile Zola sagði víst um þennan stað að hann hefði séð margar hækjur en enga gervifætur. Það sama gildir um lækningasamkomur hjá kraftaverkahyskinu

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.