Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þau tíðkast nú hin opnu bréfin

Nokkrir prestar og þar á meðal sr. Gísli Jónasson

Sr. Gísli Jónasson prófastur skrifar merkilega grein í Fbl. 6. des. sl. þar sem hann krefur alþingisfólk um svör við nokkrum spurningum er brenna á ríkiskirkjunni þessi misserin og snúast einkum um peninga.

Pistill Gísla er reyndar orðréttur hinn sami og hann fékk birtan í Mbl. 6. okt. sl. og því má gera því skóna að enginn vorra lýðræðislega kjörnu alþingisfulltrúa hafi ómakað sig við að svara sr. Gísla. Slíkt er auðvitað ósvinna fullkomin og því tek ég undir með prófasti og beinlínis heimta svör. Áður en svörunum tekur að rigna inn er þó rétt að hnykkja á nokkrum atriðum í spurningum Gísla er leitt gætu til misskilnings, en auðvitað þarf að bera spurningar rétt og satt fram til að væntanlegir svarendur viti um hvað er spurt.

Fyrsta spurningin gæti valdið þeim misskilningi að Gísli telji að svo nefnd sóknargjöld séu einhvers konar félagsgjöld skráðra trúfélaga. Auðvitað er slíkt fjarri lagi því sóknargjöldunum er úthlutað rausnarlega af innheimtum tekjuskatti allra landsmanna. Ríkiskirkjan samþykkti meira að segja árið 1998 að sóknargjöldin væru styrkur úr hendi ríkisins. Í gamla daga þurftu sóknarnefndarformenn iðulega að betla sóknargjöldin af meðlimum safnaðarins með því að ganga hús úr húsi, oft í rigningu, til að innheimta geistlegan skatt. Slíkt er náttúrulega ótækt og því samdi ríkiskirkjan við kirkjumálaráðherra á 9. áratug síðusta aldar um að ríkið borgaði kirkjunni milliliðalaust svo sóknarnefndarformenn þyrftu ekki að blotna í fæturna og fengju jafnvel í sig einhvern óþverra. Þannig fær ríkiskirkjan og aðrir þarflegir söfnuðir sín sóknargjöld jafnvel þótt skráðir meðlimir borgi engan tekjuskatt. Reyndar ber þess að geta að um þennan meinta sóknargjaldasamning finnst ekki stafkrókur í ranni ríkis eða kirkju og því er eftir því kallað að þeir sem svara sr. Gísla láti fljóta með samninginn góða ef hann er nokkurs staðar að finna.

Hins vegar er það auðvitað hárrétt hjá sr. Gísla að sóknargjöldin hafa verið skorin mjög við nögl í seinni tíð og er jafnvel talað um þriðjungs afföll frá því á velmektarárunum fyrir hrun. Kennir prófastur þar um illviljuðum stjórnvöldum, en getur ekki hins að ríkiskirkjuþing samþykkti niðurskurðinn þvingunarlaust. Er nú í slíkt óefni komið að ríkiskirkjunum er að sögn farið að svipa til þeirrar hryggðarmyndar sem þær voru í lýsingum fyrritíðarmanna á öldum áður. Helst kvartar prófasturinn undan lekum kirkjum og það er mun alvarlegra að prestur blotni í fæturna heldur en pasturslítil sóknarnefndin. Það er dagljóst að hér verður að vinda bráðan bug að úrbótum. Í landinu eru einungis rétt rúmlega 350 kirkjur og lágreist bænahús, sem varla getur kostað nema einhverja skitna milljarða króna að halda sómasamlega við. Að sjálfsögðu á ríkiskirkjan ekki að gjalda fyrir það að sjúkrahús, heilsugæsla og önnur þurftafrek ríkisstarfsemi er snýr að búksorgum almennings rétt hangi á horriminni ef regndropar Drottins bleyta hekludúkana á altarinu Honum til dýrðar.

Annað í spurningum sr. Gísla er valdið gæti miskilningi er kirkjujarðasamkomulagið góðkunna (sjá I, II og III). Téð samkomulag er auðvitað ekki kaupsamningur í eðli sínu, eins og prófastur staðhæfir, enda finnst ekkert um virði þeirra jarða er ríkið tók að sér að gæta fyrir ríkiskirkjunni. Þrátt fyrir það innheimtir ríkiskirkjan rúmlega 1300 milljónir króna árlega af almannafé skv. þessum gjörningi til að greiða prestum sínum laun, sem eru ákaflega rausnarleg. Samningurinn er að sögn afgjald eða renta fyrir þau gríðarlegu verðmæti sem fólgin eru í jarðeignunum, en sé sú staðhæfing tekin alvarlega og reikningskúnstir brúkaðar er verð hvers fermetra dýrara en í miðbæjum tíu stærstu borga í heimi – samanlagt. Sr. Gísli er allur bólginn af vandlætingu er hann heldur því fram að ríkið leggi ríkiskirkjupresta nánast í einelti með skeytingarleysi um samninginn, en gleymir að geta þess að biskup er gæslukona þessara fjármuna og ræður hvar og hvort prestar eru settir á vetur.

Ógæfa sr. Gísla og annarra ríkiskirkjugæslumanna velsæmis, siðferðis og rétttrúnaðar er sú að alþingisfólk vill frekar frekar traktera sig á hómópatískum blómadropum og heyra sjálft sig tala frekar en að ansa réttmætum áhyggjum dándimanna. Við slíku ber að sporna og því er spurt – á ekki að svara prófasti?

Guðmundur Guðmundsson 13.12.2012
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.