Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um raunveruleg sóknargjöld

Monníngar

Hér á Vantrú höfum við lengi bent á að sóknargjöld séu ekki félagsgjöld, heldur framlag frá ríkinu. Ríkiskirkjufólk hefur hingað til ætíð fullyrt að þau séu félagsgjöld, en miðað við umræður á nýloknu kirkjuþingi þá virðast þau loks vera farin að átta sig á sönnu eðli þessa framlags frá ríkinu.

Hvað eru félagsgjöld?

Áður en ég fer út í kirkjuþingsummælin, þá er best að hér komi smá útskýring á því hvers vegna sóknargjöld eru ekki félagsgjöld: Félagsgjald er gjald sem að félagsmenn borga til félagsins sem þeir eru í. Sóknargjöld eru ekki þannig, og þess vegna eru þau ekki félagsgöld!

Ef ríkið tæki þá ákvörðun að það myndi árlega borga Vantrú 10.000 krónur fyrir hvern skráðan félagsmann í Vantrú þá væri það sama fyrirkomulag og er á sóknargjöldum. Ég held að engum manni myndi detta í hug að kalla þetta félagsgjöld.

Ef Alþingi myndi síðan ákveða að borga HÍ sömu uppæð fyrir hvern Íslending sem væri ekki skráður í Vantrú, þá myndi það heldur ekki breyta neinu, þessar 10.000 krónur kæmu enn ekki frá félagsmönnum í Vantrú, heldur úr sameiginlegum ríkissjóði. Þannig voru sóknargjöld fyrir árið 2009.

Þeirra eigin orð

Í umræðum um fjármál kirkjunnar var eðlilega rætt mikið um sóknargjöld, enda er það stór hluti af tekjum ríkiskirkjunnar. Bjarni Grímsson, formaður sóknarnefndar Grafarvogssóknar sagði þetta í umræðunum[1]:

[~1:52:00] Og 2009 þá voru sett sérstök lög um sóknargjöldin. Það var sérstök aðför að sóknargjöldunum, að Þjóðkirkjunni og öðrum trúfélögum. Og það reyndar breytti eðli þess að við getum eiginlega ekki kallað þetta lengur félagsgjöld vegna þess að þá datt niður þessi liður að borga til Háskólans og það þýddi það að þá var heildin ekki til staðar heldur einungis framlag á fjárlögum til trúfélaga. Það breytti eðli laganna, en við sváfum á verðinum þá. [feitletrun höfundar]

Ég er ósammála Bjarna varðandi það að sóknargjöld hafi verið félagsgjöld fyrir 2009, ég held að það sé augljósara núna að þetta eru ekki félagsgjöld. Við erum þó sammála um að þau eru ekki félagsgjöld núna,

Enn áhugaverðari voru ummæli Hjalta Hugasonar, guðfræðiprófessors við HÍ:

[~1:58:00] Er kominn tími til að breyta grunnumbúnaðinum um sóknargjöldin þannig að horfið yrði frá núgildandi skipan, að þetta sé ákveðin hlutdeild í tekjuskatti, heldur verði þetta tekin upp sem raunveruleg félagsgjöld í Þjóðkirkjunni og trúfélögunum gjald sem þessi félög ákvæðu sjálf, en ríkið héldi afram að innheimta og hefði þar með eigum við að segja aðhaldshlutverki að gegna, það er að segja að trúfélögin gætu ekki hækkað þessi gjöld ótakmarkað, heldur gæti ríkið gætt þessarar skyldu sinnar, að það væri gætt einhvers meðalhófs í þessu efni? Þá á ég við, er það valkostur að horfið verði til skipaninnar sem gilti fyrir 1987? Um hrein félagsgjöld yrði að ræða, þar með fengist gagnsæi í gjaldheimtuna. [feitletrun höfundar]

Hjalti Hugason er sem sagt að leggja til þá breytingu, sem ég hef einmitt lagt fram áður, að sóknargjöldum verði breytt í félagsgjöld. Hann kallar það “raunveruleg félagsgjöld”, og það hlýtur að þýða að sóknargjöld séu núna ekki “raunveruleg félagsgjöld”, sem er alveg hárrétt.

Reyndar skil ég ekki af hverju ríkið ætti að vera að skipta sér af þessum félagsgjöldum, og veit ekki af hverju trúfélögin mættu ekki ráða upphæðinni algerlega. Félög geta alveg sjálf innheimt sín eigin félagsgjöld, og ef félagsmönnum finnst þau óheyrilega há, þá einfaldlega hætta þeir. En þetta eru smáatriði miðað við það risastóra framfaraskref að ríkiskirkjufólk skuli loks viðurkenna að sóknargjöld séu ekki félagsgjöld.

Af hverju vill kirkjan ekki félagsgjöld?

Hjalti Hugason segir í lokin: “Og ég ætla svo að láta ykkur eftir að lesa út úr því í hverju gallar of mikið gagnsæi á þessu sviði gætu verið fólgnir.” Ég held að það sé auðvelt að vita hver stærsti gallinn sé frá sjónarhóli Þjóðkirkjunnar: Stór hluti fólks sem er skráð í Þjóðkirkjuna mun ekki hika við að skrá sig úr kirkjunni ef það myndi spara því nokkra þúsundkalla á ári. Kirkjufólk veit þetta, og því mun enginn þar taka undir tillögu Hjalta Hugasonar.


[1] Hægt er að ná í umræðurnar á mp3-formi á vef kirkjuþings: fyrri umræða um fjármál Þjóðkirkjunnar

Hjalti Rúnar Ómarsson 16.11.2012
Flokkað undir: ( Sóknargjöld )

Viðbrögð


Kristinn - 16/11/12 10:22 #

Frábær grein.

Mér finnst vanta svona "deila á Fésbók" takka. Þá er svo auðvelt að setja sjálfur inn smá athugasemd og benda vinum á góða grein - sem er jú ekki alveg það sama og að smella bara á læk.


Þorsteinn - 16/11/12 17:30 #

Tja, hjá mér kemur sá möguleiki að setja inn athugasemd þegar ég smelli á "Like".


Thork - 16/11/12 19:00 #

Góð grein. Held samt að þú ofmetir hversu hratt fólk mundi skrá sig úr þjóðkirkjunni til að spara kirkjuskattinn. Fólk hefur þennan möguleika bæði í Danmörku og Þýskalandi. Í Danmörku borga 83% skattinn skv. [1] og að mig minnir kringum 70% i Þýskalandi. Skv [2] hafa tekjur kirknanna í Þýskalandi vaxið frá árinu 2000.

[1] https://www.ingenkirkeskat.dk/

[2] http://de.wikipedia.org/wiki/Kirchensteuer_%28Deutschland%29


Brynjólfur Þorvarðsson (meðlimur í Vantrú) - 19/11/12 09:49 #

Góð grein, Hjalti! Ég er algjörlega sammála þér.

Thork, í Danmörku er mjög erfitt að skrá sig úr þjóðkirkjunni - maður þarf að fara persónulega til sóknarprestsins! Í Svíþjóð er fyrirkomulagið þannig að ríkið innheimtir sóknargjöld. Þar er 69% landsmanna í þjóðkirkjunni 2011 og hefur fækkað jafnt og þétt, um 1 prósentustig á ári síðustu 20 árin, reyndar nær 1,5 prósentustigi undanfarin ár. (pdf skjal á http://www.svenskakyrkan.se/default.aspx?id=645562)

Félagsgjöld í sænsku þjóðkirjuna nema að jafnaði 1% af tekjum meðlima, innheimt gegnum skattheimtu, en önnur trúfélög innheimta eigin sóknargjöld. (http://www.svenskakyrkan.se/default.aspx?id=655252)

Á Íslandi hefur kirkjan misst 13 prósentustig á 15 árum skv. tölum frá Hagstofunni, og stendur nú í 77%. Ef tillagan sem Hjalti Hugason kemur með næði fram að ganga myndi úrsögnum eflaust fjölga eitthvað þar sem um raunverulegan sparnað væri að ræða. Þeir sem skipta yfir í fríkirkjur og aðra söfnuði myndu auðvitað áfram borga sóknargjöld, vel mætti hugsa sér að fríkirkjur byðu lægri sóknargjöld í samkeppni við þjóðkirkjuna.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.