Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lausn á fjárhagsvanda Þjóðkirkjunnar

Monní

Nýlega kom í ljós við yfirferð Ríkisendurskoðunar á reikningum sókna Þjóðkirkjunnar að margar þeirra eru stórskuldugar. Á sama tíma hafa framlög ríkisins til Þjóðkirkjunnar í formi sóknargjalda lækkað eitthvað. Klerkastéttinni mislíkar þessi sjálfsagða sparnaðaraðgerð mjög og hafa prestar gengið svo langt bæði í ræðu (Karl V. Matthíasson[1] og Gunnar Sigurjónsson [2]) og í riti (Magnús Erlingsson [3]) að tala um að ríkið sé að “stela” af kirkjunni. Þeir halda því fram að það sé þjófnaður að lækka framlög til hennar.

Orsök reiðinnar

Það er að vissu leyti hægt að afsaka þessi stóryrði þeirra þar sem þeir virðast misskilja eðli sóknargjalda. Þeir telja að um einhvers konar félagsgjöld sé að ræða sem ríkið innheimtir fyrir Þjóðkirkjuna. Það er einfaldlega rangt. Þetta eru framlög frá ríkinu sem miða að vísu við fjölda meðlima. Ríkið innheimtir engin sóknargjöld af einstaklingum, hvort sem maður er meðlimur í þessu ríkistrúfélagi eða ekki. Önnur afsökun sem þessir ágætu menn geta eflaust borið fyrir sig er sú staðreynd að þessi ruglingur heyrist í sífellu frá Biskusstofu og eflaust hafa þessir herramenn fallið flatir fyrir honum.

Lausnin

En í staðinn fyrir að vera reiðir út í ríkið fyrir að lækka þessi framlög, þá ættu þessir andans menn frekar að reyna að bæta úr stöðunni. Ég held að ég sé með lausn sem mig grunar að þeir muni taka fagnandi. Fyrst þeir vilja halda því fram að sóknargjöld séu félagsgjöld og þeir vilja hækka þessu meintu félagsgjöld, þá ættu þeir að biðja ríkið um að gera örlitla breytingu á sóknargjaldslögunum. Hvers vegna biðja þeir ekki ríkið einfaldlega um að hætta að styrkja kirkjuna með sóknargjöldum? Í staðinn gæti kirkjan sjálf innheimt alvöru félagsgjöld af þeim sem kjósa að vera í þessu trúfélagi? Þá gætu þeir sjálfir ákveðið hvaða upphæð þeir vilja innheimta af fólki og þá getur ríkið ekki stundað þennan meinta “þjófnað”.

Ótti kirkjunnar

Mig grunar samt að prestunum gæti hafa dottið þetta í hug áður en ekki litist vel á hugmyndina. Eflaust er ástæðan sú að ef fólk gæti valið um að borga kirkjunni þeirra ekki pening þá myndi stór hluti Íslendinga ákveða að gera það einfaldlega ekki. Við vitum nefnilega að hátt sett fólk innan kirkjunnar óttast þessar aðstæður.

Fyrir nokkrum árum síðan var lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis að utantrúfélagsfólk fengi greidda árlega upphæð frá ríkinu sem næmi árlegum sóknargjöldum. Biskup Þjóðkirkjunnar sendi inn erindi þar sem hann varaði eindregið við þessu og sagði að tekjur ríkiskirkjunnar myndu auðvitað snarlækka, þar sem að fólk myndi sjá fjárhagslegan ávinning af því að vera utan trúfélaga [4].

Á meðan þessir ágætu klerkar vilja ekki stíga það skref að taka upp alvöru félagsgjöld hjá trúfélögum, þá ættu þeir að spara stóru orðin þegar ríkið ákveður að lækka þessi örlátu framlög sín til forréttindatrúfélagsins.


[1] “..að stela af kirkjunni, eins og ríkið hefur verið að gera….” Ummæli úr ræðu á framboðsfundi vígslubiskupsframbjóðenda(.mp3).

[2] Úr fundargerð aðalfundar PÍ 03.05.2011: “. Þá gerði [Gunnar Sigurjónsson] að umtalsefni lækkun sóknargjalda og talaði um þjófnað í því samhengi og hvatti stjórn P.Í. til þess að beita sér í því að ná fram rétti kirkjunnar þar sem sóknargjöldin væru annars vegar. “

[3] Greinin “Er stóri bróðir að ljúga og stela?” var á heimasíðu Ísafjarðarkirkju en hana er ekki lengur þar að finna. Í henni stóð meðal annars: “En svo ákvað stóri bróðir að halda svolitlu eftir fyrir sig. Vissir þú að á næsta ári ætlar stóri bróðir að skila íslenskum söfnuðum 1.632 milljónum? Hann ætlar að halda eftir 779,7 milljónum. Hann ætlar að taka 32,3% og halda fyrir sig. Er stóri bróðir stærsti þjófur á Íslandi?"

[4]"Verði umrætt frumvarp að lögum munu menn hugsanlega sjá sér fjárhagslegan hag í því að skrá sig utan trúfélaga því samkvæmt frumvarpinu eiga menn að fá endurgreidda árlega fjárhæð sem nemur sóknargjaldinu. Eðlilegt væri að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar slíkt hefði í reynd ef samþykkt yrði. Þ. á m. yrði að kanna hvernig sóknir myndu mæta skertum tekjum með því að draga úr þjónustu, fækka starfsfólki og auka tekjuöflun." #

Mynd fengin hjá Patrick Gage

Hjalti Rúnar Ómarsson 11.09.2011
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú , Sóknargjöld )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.