Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Samningur ríkis og kirkju I : Samningarnir 1907 og 1997

Guð og penger

Einhver undarlegasti samningur sem íslensk ríkisstjórn hefur undirritað kemur upp til endurskoðunar nú á þessu ári, fimmtán árum eftir gildistöku. Fyrirtækið Biskupsstofa (kt. 460169-6909, VSK númer 028108)[1] og íslenska ríkið gerðu með sér samning árið 1997 um fastar greiðslur úr ríkissjóði í skiptum fyrir tilteknar eignir. Samningurinn er kaupsamningur, ríkissjóður kaupir fasteignir og greiðir fyrir þær með afborgunum.

Hér er auðvitað um að ræða samning um launagreiðslur presta Þjóðkirkjunnar og annarra starfsmanna Biskupsstofu sem undirritaður var 1997 og staðfestur með lagasetningu fyrir hönd Ríkisins með lagasetningu 1998[2].

Í þessari þriggja þátta greinarröð verður stiklað yfir samningana, kirkjujarðirnar, forsendurnar og annað er tengist þessum versta samningi sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig við.

Kaupsamningur eða launasamningur?

Margir munu eflaust gera athugasemdir við þá skilgreiningu að hér sé um kaupsamning að ræða enda er það orð hvergi nefnt í gögnum um málið. En ekki er heldur rétt að tala um launasamning í hefðbundnum skilningi þótt auðvitað mætti færa fyrir því rök að samningurinn sé einmitt ekkert annað en launasamningur milli ríkissjóðs og tiltekins hóps embættismanna.

Afstaða seljanda mælir sterklega gegn þessari túlkun. Þjóðkirkjan leggur einmitt mjög ríka áherslu á þann skilning sinn að samningurinn fjalli um afhendingu eigna gegn greiðslu og ekkert annað. Á íslensku nefnist slíkt kaupsamningur.

Hvergi kemur fram í málavöxtum að ríkissjóður hafi farið fram á kaupsamning við Þjóðkirkjuna. Svo virðist sem áherslan á að túlka samninginn í því ljósi hafi fyrst og fremst verið Þjóðkirkjunnar og sá skilningur heyrist oft endurtekinn úr því horni. En til að átta sig betur á eðli samningsins er gagnlegt að skoða nánar forsögu málsins.

Eignir og eigendur

Eins og flestum er kunnugt átti kaþólska kirkjan um helming allra jarðeigna á Íslandi um siðaskipti. Allt athafnalíf, þar með talinn sjávarútvegur, var bundinn jarðeignum allt fram á 19. öld og því má segja að kirkjan hafi átt Ísland allt að hálfu[3].

Eftir siðaskipti og allt fram á 19. öld tók konungur til sín sífellt fleiri fyrrum eignir kirkjunnar, trúlega síðast þegar Lambastaðir voru teknir af Geir Vídalín biskup 1806 eftir að hann varð gjaldþrota. Geir var fluttur nauðugur til Reykjavíkur og settur á framfærslu yfirvalda[4].

Í sögu Geirs má sjá birtast þá samfélagslegu þróun sem gerði prestum sífellt erfiðara að lifa af hefðbundnum tekjustofni sínum, kirkjujörðunum. Kjör presta versnuðu sífellt, sumir voru í raun bláfátækir, og eftir miklar umræður á Alþingi og með lögum frá 1907 yfirtók ríkið eignir kirkjunnar (aðrar en prestsetur). Andvirði eignanna átti að renna í sérstaka sjóði sem úr skyldi greiða laun presta. Þarna er kominn fyrsti kaupsamningur ríkissjóðs og þjóðkirkju og hugsunin virðist hafa verið einföld: Prestar skyldu lifa af vaxtagreiðslum þar sem höfuðstóllinn fengist af söluandvirði eignanna. Jafnframt var prestum fækkað en þeim boðin föst laun og staða þeirra jöfnuð. Prestlaunasjóður skyldi greiða laun presta en Landsjóður greiða það sem uppá vantaði hverju sinni[5].

Tenging eigna og launa var því ekki algjör samkvæmt lögunum þótt vissulega hafi sá skilningur ríkt að hér væri verið að tala um kaup kaups. Hallgrímur Sveinsson biskup studdi þennan skilning og var bjartsýnn á framtíðina hvað varðaði ávöxtun fjárins enda virðist hafa ríkt almennur uppgangstími á þessum árum. Þetta má einnig lesa úr lögunum sjálfum þar sem tekið er fram að andvirði seldra jarða skuli renna í sérstakan Kirkjujarðasjóð sem skuli ávaxta sem „óskerðanlegur höfuðstóll“ en vextirnir greiðast í Prestlaunasjóð „til að launa sóknarpresta þjóðkirkjunnar“ en 5% vaxtanna áttu að verða eftir í Kirkjujarðasjóði og hafa væntanlega verið hugsað sem verðtrygging![6]

En peningarnir voru ekki lengi í paradís. Samkvæmt lögum um laun embættismanna frá 1919 voru prestar settir á föst laun frá ríkinu enda sjóðirnir sem áttu að standa undir launum þeirra farnir endanlega á hausinn[7]. Hér hefðu menn getað látið gott heita og launasamningur ríkisins við Biskupsstofu væri í raun ekkert annað en launasamningur. Menn gætu þá þrætt um launaupphæðir, fjölda starfsmanna og annað sem tilheyrir slíkum samningi.

„Við eigum ennþá jarðirnar!“

Það var Þjóðkirkjan sem gerði kröfu um nýjan samning sem kaupsamning, ekki launasamning. Kirkjan komst að þeirri niðurstöðu að yfirtaka ríkisins á kirkjujörðum 1907 hafi ekki verið lögleg eignataka. Kirkjan ætti því enn eignirnar þótt yfirráðarétturinn væri farinn annað. Þetta kemur skýrt fram í álitsgerð Kirkjueignanefndar frá 1984[8] sem kemst að þeirri niðurstöðu að varðandi eignarréttinn að jarðirnar með öllum ítökum séu enn í eigu kirkjunnar[9].

Samningurinn sem fylgdi í kjölfarið 1997 staðfestir þessa túlkun kirkjunnar og það má því segja að í lagalegum skilningi hafi yfirtaka á eignum kirkjunnar ekki átt sér stað 1907 heldur 1997. Samningurinn spyrðir beint saman eignir og laun svo ekki verður um villst og ummæli kirkjunnar manna árétta þetta enn frekar. „Kirkjan afhenti ríkinu eignir sem höfðu verið í umsjá ríksisins í nær heila öld gegn ákveðinni skuldbindingu af hálfu ríkisins við greiðslu launa presta. Ef ríkið stæði ekki við þessa skuldbindingu þá gerði kirkjan efalítið strax tilkall til eignanna sem ríkið hefur annað hvort selt eða ráðstafað með öðrum hætti í nær heila öld“ að mati Þorvalds Karls Helgasonar biskupsritara[10].

Það virðist vera eindóma mat þeirra sem að málum koma að samningurinn 1997 hljóði upp á eignir gegn greiðslu. Þetta kemur enda skýrt fram í samningnum. Í fyrstu grein er tiltekið að jarðeignir kirkjunnar séu eign íslenska ríkisins. Í annarri grein skuldbindur íslenska ríkið sig „ á þeim grundvelli sem að framan greinir“ til að greiða laun presta. Í BA ritgerð um lagalegan grundvöll þjóðkirkjunnar er þetta enn áréttað: „Í [samkomulaginu] segir ... að kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir, að frátöldum prestssetrum, séu eign íslenska ríkisins. Íslenska ríkið skuldbindur sig á móti til þess að greiða laun presta þjóðkirkjunnar og starfsmanna biskupsembættisins. Í samkomulaginu segir einnig að það sé skuldbinding um fullnaðaruppgjör þessara aðila vegna verðmætanna sem ríkissjóður tók við árið 1907 – sem eru kirkjujarðirnar. ”[11]

Niðurstaðan er því ótvíræð. Samningurinn frá 1997 er ekki launasamningur í hefðbundnum skilningi heldur kaupsamningur, reyndar með óhefðbundnum greiðsluákvæðum. Þessi túlkun er að kröfu kirkjunnar sjálfrar og hefur verið áréttuð aftur og aftur, m.a. með fullyrðingum um að ef til aðskilnaðar myndi koma þyrfti ríkið að skila eignunum aftur til kirkjunnar! Þannig segir t.d. Ólafur Skúlason biskup: „Það er alveg ljóst að kirkjan myndi ekki vilja láta hlunnfara sig“ og hann er viss um að stjórnvöld séu sama sinnis enda hafi þeim verið „mikið í mun að kirkjan næði sínu fram og gengi ekki með skertan hlut frá borði.“[12]

Samantekt

Samningurinn er kaupsamningur þar sem ákveðnar eignir eru afhentar gegn greiðslu. Í næstu grein verður gerð grein fyrir kaupverði, því sem greitt er fyrir eignirnar og í þriðju grein skoðum við hvert hið raunverulega verðmæti eignanna gæti verið.

[Heimildaskrá]

Brynjólfur Þorvarðarson 04.03.2012
Flokkað undir: ( Klassík , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Jón Ferdínand - 05/03/12 10:40 #

Ég veit ekki hvort þessi grein tengist því beint, en ég sá mjög skondna frétt í helgarblaði fréttablaðsins á laugardaginn þar sem rætt var við fjöldann allann af biskupsframbjóðendum.

Þau voru öll spurð að spurningum og nánast öll svöruðu þau einni þeirra með vísun í þennan 1997 samning sem grundvöll gegn aðskilnaði ríkis og kirkju. Mjög forvitnilegt að mér fannst.


Jón Ferdínand - 05/03/12 10:41 #

Gleymdi að setja link: http://vefblod.visir.is/index.php?s=5870&p=128228


Brynjólfur Þorvarðarson - 05/03/12 11:47 #

Sæll Jón Ferdínand. Samningurinn 1997 segir í raun ekkert um aðskilnað. Einfaldast væri að segja að hann staðfesti eign ríkisins á jörðunum frá 1907 og staðfesti um leið að prestar fái laun í staðinn.

Þegar biskupsframbjóðendur segja að aðskilnaður hafi orðið 1997 þá eiga þeir væntanlega við að prestar hafi á einhvern hátt hætt að vera embættismenn á launum frá ríkinu og í stað byrjað að lifa af arði á eignum, að vísu með milligöngu ríkisins.

Hins vegar voru samþykkt lög 1998 um stöðu kirkjunnar þar sem segir m.a. "Þjóðkirkjan nýtur sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka" og má segja að sé nokkurs konar skilnaður að borði og sæng eins og einhver orðaði það. Laun eru áfram greidd af ríkinu, ríkið skuldbindur sig til að vernda og styðja kirkjuna og löggjafinn áskilur sér rétt til að skipta sér af málefnum hennar.

Með talsverðum útúrsnúningi mætti rökstyðja að samningurinn 1997 og lögin 1998 hafi skilið að ríki og kirkju svo lítið standi eftir, þ.e.a.s. ef maður túlkar samninginn þannig að ríkið sé ekki að greiða laun presta heldur sé um arðgreiðslur að ræða. En eins og kemur fram í næstu tveimur greinum mínum þá stenst sú túlkun engan veginn.


Jón Ferdínand - 05/03/12 12:53 #

Takk fyrir svarið. Það fer nú hálf í taugarnar á mér þessi útúrsnúningur ríkiskirkjustarfsmanna, en er einhver leið að slíta ríki og kirkju frá hvor öðru vegna þessa samnings? Er ríkið búið að skuldbinda sig að borga laun presta óendanlega? Einnig langar mér að spyrja þig um hvort þessi grein þín sé komin til útaf þessari grein í fréttablaðinu eða er það bara tilviljun?


Brynjólfur Þorvarðarson - 05/03/12 13:20 #

Greinin er ekki viðbragð við frétt Fréttablaðsins, hún á miklu lengri aðdraganda enda hef ég verið að skrifa um þetta af og til í mörg ár.

Allir samningar eru riftanlegir en annar aðilinn gæti farið fram á bætur ef samningnum er rift án hans samþykkis. Ég efast stórlega að kirkjan riði feitum hesti frá dómstólum ef hún færi fram á slíkt.

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði við HÍ hefur orðað þetta svona: "Kirkjan er ríkisstofnun. Fjárhagslegur aðskilnaður hennar við ríkið færi fram á forsendum ríkisins sjálfs og að mínu viti ætti kirkjan ekkert sérstakt lagalegt tilkall til eigna." (2007 eða 2008, heimild er óljós, úr ritgerð Trausta Salvar Kristjánssonar sem nefnd er í heimildalista með greininni)


Jón Valur Jensson - 12/08/13 20:52 #

"Niðurstaðan er því ótvíræð. Samningurinn frá 1997 er ekki launasamningur í hefðbundnum skilningi heldur kaupsamningur, reyndar með óhefðbundnum greiðsluákvæðum."

Ég er sammála þessum orðum Brynjólfs. Fráleitt er af ýmsum (m.a. í liðinni viku) að halda því fram, að hægt sé að rifta einhliða þessum samningi, halda öllum kirkjueignunum, sem ríkið fekk, og hætta að borga um 155 prestum og biskupsstofu-starfsmönnum laun. Kaupsamningurinn verður að halda.

PS. Gunnar Helgi Kristinsson er enginn lögfræðingur og ekki bær að vera með neinar svona stórkarlalegar yfirlýsingar um lagaleg mál.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.