Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Saga helvítis og presta Þjóðkirkjunnar

Málverk sem sýnir kvalir helvítis

Helvíti er ein af vandræðalegustu kenningum Þjóðkirkjunnar. Opinberlega játar Þjóðkirkjan að við endurkomu Jesú muni hann dæma "guðlausa menn og djöflana" til "eilífra kvala".

Helvíti veldur Þjóðkirkjunni og prestum hennar endalausum vandræðum, þar sem þetta er frekar ógeðfelld kenning og prestar sem gagnrýna helvíti tala gegn játningu Þjóðkirkjunnar meðan þeir sem boða helvíti hrekja fólk frá Þjóðkirkjunni. Niðurstaðan er að prestar tjá sig nánast ekkert um helvíti, og þeir sem gera það geta átt von á veseni, eins og sagan sýnir.

1891: Gagnrýni á helvíti leiðir til áminningar

Matthías Jochumsson var guðfræðingur sem neyddist til að gerast prestur Þjóðkirkjunnar vegna þess að honum mistókst að stofna sína eigin kirkju. Hann var mótfallinn ýmsum grundvallarkenningum Þjóðkirkjunnar, svo sem þrenningarkenningunni og hann trúði ekki á eilífar kvalir í helvíti.

Árið 1891 birti Matthías grein þar sem hann gagnrýndi eilífar kvalir í helvíti og kallaði það "lærdóminn ljóta". Þáverandi biskup Þjóðkirkjunnar var ekki ánægður og áminnti Matthías fyrir skrifin. Matthías vildi ekki missa vinnuna og ákvað að biðjast afsökunar.

1991: Boðun helvítis leiðir til starfsmissis

Guðmundur Örn Ragnarsson var "sanntrúaður" Þjóðkirkjuprestur sem boðaði að djöfullinn væri til í alvörunni og að guðleysingjar myndu enda í helvíti. Á þessum tíma var trú á helvíti og djöfullinn orðin vandræðaleg fyrir Þjóðkirkjuna og því var Guðmundur til vandræða.

Frjálslyndur prestur gagnrýndi Guðmund og sagði að prestar mættu ekki boða það sem væri gegn játningum Þjóðkirkjunnar - sem verður að teljast undarlegur málflutningur þar sem tilvist helvítis og djöfulsins eru í játningum Þjóðkirkjunnar.

Einn prestur sagði, undir nafnleynd, að það væri undarlegt að prestar ættu að "láta eins og djöfullinn sé bara eins og hvert annað tákn í biblíunni. Að helvíti sé fyrst og fremst hugarástand. Jesús talaði mjög tæpitungulaust um þessi fyrirbæri sem staðreyndir. En nú eru þetta orðnar of óþægilegar staðreyndir fyrir fólk."

Málið endaði þannig að embætti Guðmundar var lagt niður og hann ekki ráðinn aftur. Guðmundur reyndi að stofna eigið trúfélag og varð síðar aðallega þekktur sem einn af fastagestum sjónvarpsstöðvarinnar Omega.

2022: Tal um helvíti leiðir til áminningar

Davíð Þór Jónsson er einn af örfáum núverandi Þjóðkirkjuprestum sem hafa eitthvað tjáð sig um helvíti. Í bakþanka Fréttablaðsins boðaði hann svokallaða gjöreyðingarkenningu, það er að segja að guð kristinna muni ekki kvelja "vont" fólk að eilífu, heldur einfaldlega drepa það, gjöreyða því. Þetta kallaði hann "fallegan boðskap". Hann fjallaði einnig um helvíti í lokaritgerð sinni og sagði ranglega að í Nýja testamentinu sé helvíti ekki staður eftir dauðann heldur ástand í lífinu sem fólk veldur sjálft.

Í gagnrýni á stjórnmálaflokk Vinstri grænna sagði Davíð Þór meðal annars: "Það er sérstakur staður í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur." Í ljósi trúar Davíðs Þórs á helvíti er ljóst að hann telur ekki að þetta fólk muni dúsa í kvölum í helvíti endalaust. Ef eitthvað er þá trúir hann að guðinn hans drepi þetta fólk við heimsendi.

Svona sterkt orðalag um helvíti er illa séð og því fékk Davíð Þór áminningu frá æðsta biskupi Þjóðkirkjunnar fyrir skrifin.

Framtíð helvítis?

Eins og nafnlausi presturinn sagði árið 1991 er helvíti "óþægileg staðreynd" - en er þó boðað af Jesú beint, í Nýja testamentinu og í játningum Þjóðkirkjunnar. Áður lentu prestar í vanda fyrir að gagnrýna helvíti en nú ef þeir boða í samræmi við játningar Þjóðkirkjunnar. Það má segja að það ríki þegjandi samkomulag innan prestastéttarinnar um að tjá sig ekkert um helvíti og ef prestur tjáir sig um það er voðinn vís.

Hjalti Rúnar Ómarsson 28.05.2022
Flokkað undir: ( Ríkiskirkjan , helvíti )