Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Helvítið hans Jesú

Málverk sem sýnir Jesús á dómsdegi

Vegna nýlegra ummæla prestsins Davíðs Þórs Jónssonar, þar sem hann sagði sérstakan stað vera tilbúinn ákveðnu stjórnmálafólki, hefur helvíti komið aftur upp í umræðuna. Af því tilefni skrifaði annar prestur, Sindri Geir, grein þar sem hann kemur með vafasamar fullyrðingar um helvíti.

Uppruni helvítis

Gyðingar trúðu upphaflega ekki á tilvist helvítis. Þess vegna er hvergi á það minnst í eldri ritum biblíunnar. Það var ekki fyrr en nokkru fyrir tíma Jesú að margir gyðingar fóru að trúa á einhvers konar stað þar sem vondu fólki yrði refsað í eldi við heimsendi. Oft er talið að þetta séu áhrif frá trúarbrögðum Persa.

Þetta sést í þeim bókum sem var bætt í nýju Biblíuþýðingunni, sem eru yngri en Gamla testamentið. í Júdítarbók er til dæmis sagt að á dómsdegi mun Jahve senda "eld og orma í líkama" hinna fordæmdu og þeir munu "veina af af kvöl um eilífð" (16.17)

Gyðingarit frá þeim tíma sem kristni varð til fjalla líka um þennan stað. Til dæmis 1. Enoksbók, sum Dauðahafshandritanna og 4. Makkabeabók [1]. Gyðingurinn og sagnaritarinn Jósefus, sem skrifaði á 1. öld, talaði um að farísear trúðu því að í jörðinni yrði eilíft fangelsi þar sem hinum illu yrði refsað, og að annar trúflokkur Gyðingar, Essenar, trúði því sama og líkti því við hugmyndir Grikkja um kvalarstaði í undirheimunum.

Þegar Jesús talar um helvíti, sem hann segir að sé eilífur eldur sem líkömum fólks verður kastað í af englum á dómsdegi, þá er hann að öllum líkindum að tala um þetta. Svona hugmyndir eru síðan ríkjandi í ritum kirkjufeðranna, fyrstu kristnu höfundanna sem við höfum rit frá. Sem dæmi þá segja Tertúllíanus og Klemens frá Alexandríu að helvíti ætti ekki að vera framandi hugmynd fyrir heiðna Grikki, þar sem Grikkir trúðu því að það væri eldfljót í þeim hluta Hadesar, undirheimsins, þar sem mjög illt fólk endaði.[2]

Jesús og kirkjufeðurnir voru fornaldarmenn, og þeir trúðu ýmsu sem okkur nútímamönnum þykir fáránlegt og jafnvel ógeðslegt. Helvíti sem eldsdíki þar sem sumt fólk myndi þurfa að dúsa í er einfaldlega ein þessara fornaldarhugmynda.

Saklausa fórnarlambið Dante

Sindri Geir, eins og margir kristnir sem trúa ekki á helvíti, vill ekki eigna Jesú eða Biblíunni hugmyndir um helvíti. Hann vill tileinka ítalska rithöfundinum Dante það að við séum kunnug þessum hugmyndum:

...staður vítisloga og refsingar sem við lærum um í gegnum bíómyndir og dægurmenningu á rætur sínar í skáldskap Dantes en ekki Biblíunni.

Staðreyndin er að staður vítisloga og refsinga á rætur sínar í gyðingdómi fornaldar og fór þaðan til kristni. Að helvíti væri staður vítisloga og refsinga er alls ekki uppfinning Dante, né eitthvað sem hann gerði vinsælt. Þetta var almenn trú á hans tíma og hafði verið í þúsund ár.

Jafnvel bókmenntaform Infernos Dantes á sér hliðstæðu í frumkristni: Opinberunarbók Péturs. Það er rit frá 2. öld þar sem Pétur fær að sjá Helvíti og hinar ýmsu refsingar sem fólk mun eiga í vændum þar. Ritið var svo vinsælt að það var meira að segja talið hluti af Nýja Testamentinu af sumu kristnu fólki.

Helvíti kirkjunnar

Næst segir Sindri Geir að helvíti hafi verið tilbúningur "kirkjunnar" í kringum árið 500. En að það hafi ekki verið "hluti af boðskap kirkjunnar fyrstu árhundruðin en þegar rómarkirkjan varð valdhafi þurfti hún stjórnunartæki, og það trúarlega ofbeldi að þykjast hafa sálarheill fólk í hendi sinni".

Þetta er einfaldlega rangt. Eins og ég hef þegar bent á, þá töluðu kirkjufeðurnir um helvíti löngu áður en kristni varð að nokkurs konar ríkistrúarbrögðum. Sem dæmi sagði Jústínus píslarvottur (eins og nafnið gefur til kynna þá var kristni ekki valdhafi á þessum tíma - hann var tekinn af lífi fyrir trú sína á 2. öld) að helvíti væri "staður þar sem þeim sem hafa lifað illa og hafa ekki trúað því sem guð kenndi í gegnum Jesú að yrði verður refsað" (kafli 19).

Helvítið hans Jesú

Sindri Geir vill auk þess alls ekki kannast við það að Jesús hafi boðað nokkurs konar helvíti í ætt við það helvíti sem ætla mætti af sögulegu samhengi Jesú. Hann segir að Jesús hafi ekki verið að vísa til "einhvers veruleika í eftirlífinu, heldur til þeirrar manngerðu þjáningar sem við sköpum í lífi samferðafólksins dag hvern."

Til að byrja með passar þessi hugmynd um helvíti sem einhvers konar almennt "slæmt ástand í lífinu núna" engan veginn við það hvernig orðið var notað af samtímamönnum hans.

Auk þess passar hugmyndin ekki við það hvernig Jesús talar um helvíti í guðspjöllunum. Jesús segir að helvíti sé staður þar sem guðinn hans kastar fólki í eftir að það deyr (Lúk 12.5-6). Jesús segir á öðrum stað að "við endi veraldar" muni hann senda engla sína og safna öllum þeim sem ranglæti fremja og kasta þeim í eldsofninn (Matt 13.40-42). Á öðrum stað fjallar hann um dómsdag, þar sem mannkynið mun standa frammi fyrir guði og þar verður mannkyninu skipt í tvennt, annars vegar til eilífs lífs, og hins vegar "í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans" sem hann kallar svo "eilífa refsingu" (Matt 25.31-46). Jesús talar svo beinlínis um að "líkömum" fólks verður kastað í helvíti (Matt 5.30).

Þetta passar engan veginn við helvíti sem eitthvað í líkingu við "slæmir hlutir í lífinu" - en passar fullkomlega við ríkjandi hugmyndir á þessum tíma um helvíti sem kvalastað elds þar sem illu fólki yrði refsað á dómsdegi.

Það er því hreinn hugarburður að segja að Jesús hafi verið að tala um helvíti sem "manngerðu þjáningar sem við sköpum í lífi samferðafólksins dag hvern."

Ruslahaugurinn frá miðöldum

Sindri Geir reynir samt að útskýra þetta eldtal Jesú, og segir réttilega að eitt gríska orðið sem oft er þýtt í íslensku sem "helvíti" (gríska geenna, Gehenna) - hafi upphaflega vísað til dals fyrir utan Jerúsalem. Það er rétt. En Sindri Geir bætir síðan við því að á "dögum Jesú voru þar logandi ruslahaugar þangað sem líkum þeirra sem stóðu á jaðri samfélagsins varpað og þau brennd".

Þetta er útbreidd helgisögn. Raunin er að elsta heimildin um að Gehenna hafi verið brennandi ruslahaugur er frá 13. öld. Rétt fyrir tíma Dante. Þetta er í riti fransks rabbína, Kimhi nokkurs. Það er ekki einn einasti stafkrókur um þessa hugmynd fyrir þann tíma og engar fornleifar sem styðja þetta.

Þetta er tilbúningur nánast frá síðmiðöldum.

Trúarlegt ofbeldi

Loks vill Sindri ekki að Þjóðkirkjan beiti fólki því “trúarlegu ofbeldi" sem felst í trú á helvíti. Það er vel hægt að vera sammála því. En það er stór galli á þessari hugmynd Sindra Geirs: Jesú var duglegur að beita fólki svona trúarlegu ofbeldi.

Jesús hótaði þeim trúarleiðtogum sem voru ósammála honum með helvíti: "Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm?” (Matt 23.33) Jesús hótaði meira að segja heilu borgunum með helvíti og sagði að Sódóma myndi vegna betur á dómsdegi en þeim (Matt 11.22-24). Jesús sagði að ef maður fyrirgefði fólki ekki þá myndi guðinn hans ekki heldur fyrirgefa fólki heldur senda það í helvíti, sem hann líkti við því að vera hent í dýflissu til að verða pyntaður (Matt 18.34-35).

Af hverju ætti Þjóðkirkjan ekki að beita þessu “trúarlega ofbeldi" þegar Jesús sjálfur gerði það?

Helvíti vandræðalegt

Það er auðvitað fínt að Sindri Geir trúi ekki á helvíti, að minnsta kosti að hann sé búinn að útvatna það í eitthvað sem enginn í frumkristni myndi kannast við. En hann ætti samt að gera það án þess að mistúlka sögu kristninnar og texta Nýja Testamentisins. Gyðingar og kristnir menn í fornöld trúðu á helvíti - og í guðspjöllunum er sagt að fornaldarmaðurinn Jesús hafi boðað trú á helvíti. Ef Sindri Geir vill afneita helvíti ætti hann bara að segja að hann sé ósammála þessum textum í staðinn fyrir að reyna að troða nútímaskilningi sínum á fólk sem hefði ekki haft hugmynd um hvað hann er að tala um.


[1] 1Enok 46

And I looked and turned to another part of the earth, and saw there a deep valley with burning fire. And they brought the kings and the mighty, and began to cast them into this deep valley. And there mine eyes saw how they made these their instruments, iron chains of immeasurable weight. And I asked the angel of peace who went with me, saying: ' For whom are these chains being prepared ' And he said unto me: ' These are being prepared for the hosts of Azazel, so that they may take them and cast them into the abyss of complete condemnation, and they shall cover their jaws with rough stones as the Lord of Spirits commanded. And Michael, and Gabriel, and Raphael, and Phanuel shall take hold of them on that great day, and cast them on that day into the burning furnace, that the Lord of Spirits may take vengeance on them for their unrighteousness in becoming subject to Satan and leading astray those who dwell on the earth.'

1Qs (Samkomureglan) IV

And as for the visitation of all who walk in this (spirit) it consists of an abundance of blows administered by all the angels of destruction, in the everlasting pit by the furious wrath of the God of vengeance, of the unending dead and shame without end and of the disgrace of destruction by the fire of the regions of darkness . And all their times from age to age are in the most sorrowful chaggrin and bitterest misfortune in the calamities of darkness till they are destroyed with none of them surviving or escaping.”

4Makk 9:9

… but you, because of your bloodthirstiness toward us, will deservedly undergo from the divine justice eternal torment by fire.

[2] Tertúllíanus:

And if we threaten Gehenna, which is a reservoir of secret fire under the earth for purposes of punishment, we have in the same way derision heaped on us. For so, too, they have their Pyriphlegethon, a river of flame in the regions of the dead.

Klemens frá Alexandríu:

For what is tortured or corrected being in a state of sensation lives, though said to suffer. Well! Did not Plato know of the rivers of fire and the depth of the earth, and Tartarus, called by the Barbarians Gehenna, naming, as he does prophetically, Cocytus, and Acheron, and Pyriphlegethon, and introducing such corrective tortures for discipline?

Hjalti Rúnar Ómarsson 25.05.2022
Flokkað undir: ( Sögulegi Jesús , helvíti )