Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ljótur boðskapur

Síðastliðinn sunnudag var bakþanki Fréttablaðsins frá guðfræðinemanum Davíði Þór Jónssyni og hét hann í þetta skiptið „Fallegur boðskapur“. Þegar ég sá titilinn hélt ég að guðfræðineminn færi að ræða um Gullnu regluna eða eitthvað álíka. Svo var ekki, það sem guðfræðinemanum þótti fallegt var helvíti.

Í greininni sagði guðfræðineminn að hann væri að vitna í orð Jesú, en raunin er sú að þarna var Jóhannes skírari að predika eld og brennistein (það skáletraða birtist í Fréttablaðinu):

„Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði? Berið þá ávöxt samboðinn iðruninni! Látið yður ekki til hugar koma, að þér getið sagt með sjálfum yður: „Vér eigum Abraham að föður.“ Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum. Öxin er þegar lögð að rótum trjánna, og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. Ég skíri yður með vatni til iðrunar, en sá sem kemur eftir mig, er mér máttugri, og er ég ekki verður að bera skó hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi. Hann er með varpskófluna í hendi sér og mun gjörhreinsa láfa sinn og safna hveiti sínu í hlöðu, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi.“ (Mt 3.7-12)

Davíð Þór hefur síðan sagt að hann ætlaði í raun og veru að vísa í þessa helvítispredikun Jesú:

„Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.“ (Mt 7.15-20)

Þetta finnst honum fallegur boðskapur. Hann telur að sumum líki ekki við þennan boðskap vegna þess að þeir „megi ekki til þess hugsa að alheiminum sé þannig fyrir komið að einhverju verði að eyða.“ Það er að vissu leyti rétt að það að „eyða“ fólki er almennt ekki vel séð, en auk þess held ég að fólki finnist boðskapurinn um helvíti ekki fallegur af því að í helvíti er fólki ekki eytt, þar mun það kveljast að eilífu. Þjóðkirkjan er sammála þessu.

Ef maður skoðar fleiri „fallegar“ ræður Jesú i Matteusarguðspjalli, þá sér maður að helvíti er kvalarstaður. Í einni dæmisögu sinni líkir Jesús því að vera hent í helvíti við það að konungur hendi þér til pyntingameistara sinna (Mt 18.34). Hann segir að þetta sé eilíf refsing (Mt 25.46) og eilífur eldur (Mt. 25.41) með Besta lýsingin á þessum hugmyndum Jesú er ef til vill að finna í útskýringu hans á dæmisögunni um illgresið á akrinum:

Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13.40-42)

Það er auðvitað frekar erfitt að reyna að halda því fram að það sé fallegt að „kasta fólki í eldsofninn“. Aðferðin sem Davíð Þór notar er sú að segja að sú hugmynd sem komi fram hjá Jesú sé ekki jafn ógeðlseg og sumar aðrar hugmyndir um helvíti, og þar af leiðandi sé þetta fallegt.

Það er ljótara að sparka ítrekað í hausinn á einhverjum heldur en að kýla hann einu sinni í magann, en þar af leiðandi er auðvitað ekki fallegt að kýla í magann á einhverjum. Þetta er frekar augljóst, en samt eru rökin hans Davíðs Þórs svona:

Það sem mér finnst fallegt við þennan boðskap er tvennt. Í fyrsta lagi er það engum duttlungum háð hvað lifir áfram og hvað deyr. Það sem ber góðan ávöxt lifir, svo einfalt er það. Hitt er brennt, það rennur saman við sköpunarverkið og verður að hráefni í nýja sköpun. Þetta er í raun náttúruvalskenning.

Hérna eru rökin þau að guðinn hans gæti gert útrýminguna miklu óhugnalegri, með því að vera duttlungafullur. En þar sem hann gerir það ekki, þá sé þetta fallegt. Ég held að flestir átti sig á því að þetta gerir verknaðinn ekki fallegan, heldur minna ljótan.

Davíð reynir að benda á aðra meinta fallega hlið á því að brenna fólk:

Hitt sem er fallegt við þessa speki er að engum er áskapað að vera kastað í eld. Hver maður hefur frjálsan vilja til að ákveða breytni sína sjálfur. Öll eigum við val, við ráðum því sjálf hvaða ávexti við kjósum að bera, því Jesús er hér auðvitað að tala um ávexti andans en ekki frjósemi holdsins.

En hverjir eru ávextir andans? Jesús talar um að gera öðrum mönnum það sem maður vill að þeir geri manni. Þetta finnst sumum ógeðfellt. Þeim finnst ósanngjarnt að ekki dugi til sáluhjálpar að passa sig að vera ekki beinlínis vondur við aðra, að gera þeim ekki það sem maður vill ekki að þeir geri manni. Jesús gengur lengra. Hann leggur beinar verknaðarskyldur á herðar okkar, enda vissi hann sem er, að það er hægðarleikur að valda öðrum óbætanlegu tjóni með aðgerðaleysinu einu saman.

Guðinn hans gæti verið miklu óhugnalegri með því að ákveða fyrirfram hverjir myndu enda í helvíti. Samkvæmt Davíð ákveður guð það ekki fyrirfram hverja hann muni brenna í eldsofninum. Þar af leiðandi á þetta að vera fallegur boðskapur.

Vissulega er sú trú sumra kristinna manna að guð ákveði fyrirfram hverjir endi í helvíti ógeðslegri en sú trú að aðeins þeir sem hegða sér öðruvísi en guð vill endi í helvíti. En það þýðir ekki að sú trú sé falleg, hún er bara ekki alveg jafn viðbjóðsleg.

Það segir sína sögu að eina leiðin til þess að reyna að láta helvíti líta vel út sé sú að reyna að benda á enn ljótari hugmyndir. Staðreyndin er sú að hugmyndin um að algóður guð hendi fólki í eldsofn þar sem það kvelst hlýtur að vekja upp viðbjóð hjá flestu fólki. Það að sumt kristið fólk reynir í fúlustu alvöru að halda því fram að þessi hugmynd sé falleg bendir til þess að það sé eitthvað verulega athugavert við kristna trú.

Hjalti Rúnar Ómarsson 21.02.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 21/02/08 13:28 #

Það er þyngra en tárum taki að góður drengur, vel gefinn og upplýstur, skuli sjá fegurð í bjarma helvítisloganna.

Fyrirlitlegur er sá faðir sem kastar börnum sínum í eldsofn, jafnvel þótt þau hafi ekki þóknast honum (eða duttlungum hans - því vissulega er hann duttlungafullur).

Kristnir telja menn ýmist verða hólpna fyrir trú sína (á réttan guð) eða verk. Trúi þeir (á guðinn þeirra), fyrirgefst þeim hvað sem er. Brautin er hálli hjá trúlausum.

Í þessu ljósi er fyrirlitlegast af öllu að almáttugur guð þeirra skuli ekki hafa fyrir því að sýna þessum sauðum, sem hann á að hafa skapað, fram á tilvist sína - svo þeir mættu trúa, og hólpnir verða undan eilífum gasklefum hans.

En telji menn sig í sigurliðinu hafa þeir greinilega litlar áhyggjur og enga samúð með öðrum meðbræðrum sínum. Og það hyski, sem þessu trúr, þykist þess umkomið að vera vegvísir í siðferðismálum.


Jóhann - 21/02/08 15:16 #

Mér skildist nú af þessum þönkum Davíðs að hann vildi hverfa frá hugmyndum um eilífa kvöl í eldi og boða þess í stað endurvinnslu á mislukkuðum sálum.

"Það sem ber góðan ávöxt lifir, svo einfalt er það. Hitt er brennt, það rennur saman við sköpunarverkið og verður að hráefni í nýja sköpun."

Sumsagt, grænan og umhverfisvænan guð.


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 21/02/08 18:01 #

Grænan og umhverfisvænan guð já...

Það er greinilega búið að drepa guð, endurvinna hann og búa til nýjan því þessi gamli sem allt bjó til og skapaði hann var ekki svona grænn, góður og endurvinnsluhugsandi.

Þetta eru vissulega góð tíðindi.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 21/02/08 20:47 #

Eru þessi skrif Davíðs Þórs tilraun til þess að breyta óþægilegu ritningarstöðum í Biblíunni? Í staðin fyrir að tala um eldsofninn hans Jesúsar er fyrirbærið skoðað í einhverju endurvinnsluljósi..

Þessi sérkennilegu túlkun Davíðs má líkja við að segja að sagan um hann Barbapabba sé um leyniskyttu í Vietnamstríðinu.

Ég geri mér grein fyrir að stundum er erfitt fyrir þá kristnu að burðast með ógeðfeldustu ritingarstaðina úr Biblíunni.

Það væri óskandi að í næsta bakþanka að Davíð stæði við stóru orðin og kastaði þessum ógeðslegu ritingarstöðum í biblíunni í eldsofninn í staðinn fyrir að réttlæta þá af takmarkalausu hugleysi eins og hann gerir.


óðinsmær - 21/02/08 22:11 #

þó að ég sé ósammála ér Hjalti og telji þig vera að túlka Biblíuna vitlaust þá er þessi grein m.a ástæða þess að ég nenni að koma hingað og lesa.

spurningin er náttúrulega: er verið að henda "fólki" í eld eða "sálum"? hvernig vitum við hvort að sársaukinn sé eins hjá sálum og líkömum eða hvort að þetta sé etv bara einhverskonar myndlíking? og er það endilega röng túlkun ef maður er ósammála þjóðkirkjunni um það hvort að sálirnar kveljist um eilífð eða brenni bara upp, semsagt í því meiri bruna eftir því hve mikla illsku þær höfðu framið á jörðinni?

Þessu svörum ég og þú ekki nema fyrir okkur persónulega, og þetta mun jú allt koma betur í ljós síðar :)


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 21/02/08 23:07 #

Ef að Biblian er einhver myndlíkingaklasi þá er öll guðfræði ríkiskirjunnar ónýt.

-Er krossdauði Jesúar myndlíking? -Er upprisan myndlíking?

Jesús segir sjálfur í dæminu með eldsofninn sinn að "það verður grátur og gnístan tanna".

-Er þetta ekki nógu skýrt?


Haukur - 26/02/08 01:10 #

Það verðu einhver massa svekktur ef þessi biblíukenning stenst ekki, ef við förum svo langt að íhuga að kannski sé eitthvað smávegis í þessu rétt að helvíti og himnaríki séu raunverulegu endstaðirnir þegar við deyjum. Hvað ef gaurinn sem skrifaði biblíuna, eða þann dálk sem þessi klausa fer fram, hafi einfaldlega misskilið aðstæður eða ekki heyrt alveg nógu vel það sem sagt var því að: Það er jú mannlegt að gera mistök. Kannski er himnaríki þessi einstaklega daufi staður þar sem allir hanga og hlusta á guð röfla um hve mikilfenglegur hann er á meðan fólkið sem stóðst ekki væntingar hans enda í "helvíti" þar sem er djammað og stundað samfarir endalaust. Ég mundi alla vega verða frekar pirraður ef ég væri trúaður og svo kæmi í ljós að vegna smávegis misskilnings afglapa þá endaði ég á leiðinlega staðnum þar sem eina sjónvarpsefnið er Omega og eina bókin er biblína.. smá pæling!


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/02/08 17:45 #

Davíð Þór hefur ákveðið að skrifa um þessa grein. Hann byrjar:

[greinin hans Hjalta] byggir á því að mér finnist helvíti fallegt fyrst ég leyfi mér að vera þeirrar skoðunar að það sé fallegur boðskapur að öllum standi til boða eilíft líf fyrir náð Guðs. Þetta er auðvitað ekki svaravert.

Því miður fyrir Davíð Þór þá er ekkert minnst á "eilíft líf fyrir náð Guðs" í því sem hann fjallaði um. Ég leyfi mér að vitna í sjálfan bakþankann:

Í Matteusarguðspjalli 7:19 segir Jesús: „Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.“ Þetta finnst mér fallegur boðskapur,...

Þarna er ekki verið að fjalla um "eilíft líf fyrir náð Guðs", heldur að kasta fólki í eld af því að verk þeirra þóknast ekki guðinum hans Davíðs. Þarna segir Davíð klárlega að honum finnist tal um helvíti vera fallegur boðskapur. Það væri gaman að sjá hvers vegna Davíð telur þetta vera ranga túlkun.

Davíð fer síðan að ræða um annað atriði í baþankanum hans sem ég ræddi ekkert um. En í annrri umfjöllun var bent á að hann væri að boða verkréttlætingu, þvert á kenningar Þjóðkirkjunnar (og mótmælenda almennt). Hann segist ekki hafa velt þessu mikið fyrir sér en bendir réttilega á að höfundur Matteusarguðspjalls boðar verkaréttlætingu og að í Jakobsbréfinu er boðuð verkaréttlæting (ég er ekki alveg viss um Rómverjabréfið). Það útskýrir vissulega það hvers vegna hann trúir þessu, en ég ábendingin var ekki sú sð hann væri í mótsögn við eitthvert rit Nt, heldur að hann væri í mótsögn við grundvallarkenningu mótmælenda.

Davíð ræðir aðeins um helvíti í umræðu um söguna af miskunnsama Samverjanum:

Sagan endar ekki á því að Samverjanum er kastað til eyðingar (þ. e. í eldsofninn) til eilífrar refsingar (sem felst í því að vera eytt að eilífu) fyrir að hafa ekki verið kristinn.

Eins og ég benti á í þessari grein, þá talar Jesús um að í helvíti verði grátur og gnístran tanna og líkir því við því að vera hjá pyntingameistara konungs. Þetta hljómar ekki eins og eyðing. Rétt áður en það er talað um að einhverjir lendi í „eilífri refsingu“ er sagt að þeir muni enda í „eilífum eldi“. Ég held að flestir átti sig á því að það sé eitthvað samband þarna á milli.

Þannig að sú túlkun Davíðs, að helvíti sé gjöreyðing fólks, virðist ekki vera eðlilegasta túlkun textans. En það er ekki víst að Davíð sé sammála þessari túlkun:

Jesús kenndi í mörgum dæmisögum. Hins vegar virðist guðleysingjum vera meinilla við að tal Jesú um helvíti sé skoðað allegorískt. Jafnvel þótt hann segi „Guðs ríki er innra með yður“ (Lúk. 17:21) má alls ekki líta svo á að það gildi líka um andstæðu þess.

Mér er alls ekki meinilla við tal um að helvíti sé skoðað allegorískt. Reyndar tel ég það vera vitlausa túlkun, og ég held að Davíð hljóti að vera sammála því. Enda virðist hann ekki túlka þetta allegórískt, heldur telur hann að helvíti sé „að vera eytt að eilífu“. Nema auðvitað að Davíð eigi við einhvern innri andlegan veruleika þegar hann talar um „að vera eytt að eilífu“.

Reyndar talar Jesús ekki um „helvíti“ heldur „Gehenna“, sem er Hinnómsdalur suður af Jerúsalem þar sem úrgangi frá borginni var brennt. (Þannig mætti hugsanlega færa rök fyrir því að „Sorpa“ væri betri þýðing en „helvíti“.)

Auðvitað sagði Jesús ekki „helvíti“ (af því að það er jú íslenskt orð), hann talaði hins vegar um Gehenna, Hades og eldsofn. Davíð skjátlast hins vegar þegar hann túlkar Gehenna svona bókstaflega, vissulega er nafnið Gehenna komið frá dalnum suður af Jerúsalem, en í guðspjöllunum (og öðrum ritum frá sama tíma) er það klárlega notað sem nafn á stað þar sem fólk kvelst eftir dauðann. „Helvíti“ er fín þýðing á orði sem hefur þessa merkingu.


Haukur - 27/02/08 22:07 #

Ég dáist að því hvað allir eru rosalega alvarlegir um þessi mál sem deyfir þá aðeins ef ekki alveg vitneskjuna um raunverulegt vandamál trúarbragða sem hafa sýnt sig í sögunni og endurtaka sig alltaf eftir "X" mikinn tíma. Það mun koma stríð sökum þess og í þetta sinn í svo massívu formi, sökum þess hve útbreytt kvikyndið er orðið og auðvitað "globalisation". Við munum flest öll deyja!! Bömmer.. En hvernig væri að reyna að lifa lífinu þangað til, skoða náttúruna meðan hún er til staðar og njóta fjölskyldu og og vina? Bara má pæling.. En endilega haldið áfram.. nægur tími..

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.