Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kenning kirkjunnar

Ef það er eitthvað sem að prelátar hinnar rangnefndu Þjóðkirkju forðast eins og heitan eldinn þá er það að ræða hvað í ósköpunum felist í trú þeirra. Í öllum froðusnakksprédikunum þeirra er til dæmis aldrei minnst á einn hlut sem kalla mætti uppáhaldskennisetningu Jesú, því að hann virðist tala meira um hana heldur en allt annað; helvíti.

Það ber líklega merki um sjúkt hugarfar að ímynda sér að fólk eigi skilið að þjást að eilífu í helvíti. Sjúkara er þó að ímynda sér að einhver algóð vera geri það, en svona er Þjóðkirkjan. Hún trúir þessu í fullu samræmi við boðskap Jesús sem talaði gjarnan um eldsofn, óslökkvandi eld, grát og gnístran tanna, eilífra refsingu, ystu myrkur, eilífan eld og loks einfaldlega helvíti. Jesús segir meðal annars þetta:

Jóhannesarguðspjall 15:6 Hverjum sem er ekki í mér, verður varpað út eins og greinunum, og hann visnar. Þeim er safnað saman og varpað á eld og brennt.

Matteusarguðspjall 13:40-42 Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.

Þegar heimsendir kemur mun Jesús senda englana sína og henda öllum sem trúa ekki á hann í eldsofninn sinn, og þessu trúir Þjóðkirkjan. Ef við kíkjum í játningar kirkjunnar þá stendur þetta í Ágsborgarjátningunni, höfuðjátningu lútherskra manna:

.17. grein: Um endurkomu Krists til dóms

Ennfremur kenna þeir: Kristur mun birtast við endi heims til að dæma og mun hann uppvekja alla dauða. Guðhræddum mönnum og útvöldum mun hann gefa eilíft líf og eilífan fögnuð. Guðlausa menn og djöflana mun hann fordæma, að þeir kveljist eilíflega.

Þeir fordæma endurskírendur, sem álíta, að endir verði bundinn á refsingu fordæmdra manna og djöflanna.

Þeir fordæma og aðra, sem nú dreifa gyðinglegum skoðunum um, að guðhræddir menn muni á undan upprisu dauðra ná undir sig stjórn heimsins eftir að óguðlegir menn hafa hvarvetna verið yfirbugaðir.

Þjóðkirkjan trúir ekki einungis á helvíti, heldur fordæmir hún þá kristnu söfnuði sem halda því fram að það samrýmist ekki algóðum guði að binda endi á þjáningarnar. Þeir villitrúarmenn munu líklega fá sömu örlög og Gyðingar. Um þessa grein segir Einar Sigurbjörnsson þetta í bók sinni Kirkjan játar: “Það sem kennt er í 17. grein er ósjaldan nefnt “helvítiskenningin” eða “útskúfunarkenningin”. Það er þó tæpast réttnefni.” (s. 213)." Mér finnst helvítiskenningin þvert á móti vera réttnefni, enda lýsa eilífar kvalir helvíti vel.

Einnig stendur í annarri játningu Þjóðkirkjunnar, Aþaníusarjátningunni:

39 Og þeir sem gott hafa gert munu ganga inn til eilífs lífs, en þeir sem illa hafa gert í eilífan eld.

Ég er viss um að fáir prestar vilja kannast við þetta, enda ofbýður þetta allri réttlætiskennd. En því miður fyrir þá, þá eru þeir sem gegna opinberri þjónustu innan kirkjunnar, prestar og kennimenn, skuldbundnir til að haga boðun sinni og vitnisburði í samræmi við trúarjátningar kirkjunnar og heita því við vígslu sína. Í Handbók íslensku kirkjunnar frá 1981 er sú skuldbinding, vígsluheitið, orðað á þessa leið(Kirkjan játar 129-130):

Nú brýni ég alvarlega fyrir þér: að prédika Guðs orð greint og ómengað, eins og það er að finna í hinum spámannlegu og postullegu ritum og samkvæmt vitnisburði vorrar evagelísk-lúthersku kirkju í játningum hennar. (s. 188-189)

Ef að hugmyndin um helvíti ofbýður þér þá átt þú ekki heima í Þjóðkirkjunni.

Hjalti Rúnar Ómarsson 22.12.2004
Flokkað undir: ( Klassík , Kristindómurinn )

Viðbrögð


frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 22/12/04 10:16 #

Ég óttast að þessir spúandi eldsofnar þjóðkirkjunar standist ekki Kyoto sáttmálan. Prestar þjóðkirkjunnar verði að eiga fund með Jesú til að tryggja viðeigandi mengunarvarnabúnaður sé settur á ofnstæðurnar áður en hann fer að dæma lifendur og dauða.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 22/12/04 13:23 #

Setjum helvíti í umhverfismat!


frelarinn@vantru.net - 22/12/04 14:04 #

Það er í raun stórmerkilegt hversu vel þjóðkirkjuprestar geta falið sannleikan um eigin trú. Guðmundur Örn var eini helvítispredikari þjóðkirkjunnar um tíma og hann var rekinn. Auðvitað hóf hann samstundis störf hjá Omega og er með lítinn ör söfnum um sjálfan sig.


ThorvaldurJo - 22/12/04 14:08 #

Talið ekki illa um helvíti því það er raunverulegur staður sem enginn myndi vilja fara á. Helvíti var fyrst og fremst gert fyrir Djöfulinn og allt hans hyski. Hver sem tekur ekki við hjálpræðinu sem felst í trú á Jesú Krist og því eilífa lífi sem hann bauð, mun þurfa að taka afleiðingum gerða sinna og synda. Syndin leðir alltaf til dauða. Þetta er lögmál.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 22/12/04 14:08 #

Málið er að Biskoppurinn & Co eru líka farnir að lesa "Játningar" ríkiskirkjunnar "með Ljósi Krists" sem þýðir að þeirra eigin skilgreiningar á hvað felist í Evangelískri Lútersku þurfa sérstaka grænsápumeðferð eins og það sem Gussi og Krosslafur segja í Babblíunni. :o)

93


Snær - 22/12/04 15:25 #

ThorvaldurJo skrifaði: "Syndin leðir alltaf til dauða. Þetta er lögmál."

Nú, eitthvað frekar en ósyndugt líferni (hvernig sem þú þá skilgreinir slíkt)?

Ég hef ekki vitað af neinum sem hefur sloppið lengi við dauða, og virðast gjörðir þær er sumir kenna við syndir ekki hafa neitt með það að gera. Lengi vel hef ég hugsað dauðann sem fylgifisk þess að vera fjölfrumungur, frekar en nokkuð annað.


darri (meðlimur í Vantrú) - 22/12/04 16:05 #

Lengi vel hef ég hugsað dauðann sem fylgifisk þess að vera fjölfrumungur, frekar en nokkuð annað.

Þarna smellhittir Snær sko naglann beint á höfuðið.


frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 22/12/04 16:22 #

Sannarlega vel orðað hjá Snæ :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.