Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Mismunun trúfélaga

Moska

Ég tel bara að á meðan við erum með þjóðkirkju eigi sveitarfélög ekki að úthluta lóðum til byggingu húsa eins og mosku. #

Svona hljómuðu fræg ummæli oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík. Setningin endurspeglar þá hugmyndafræði að hér á landi eigi eitt trúfélag að njóta forréttinda á kostnað hinna. Hneykslun fólks á þessum ummælum er skiljanleg en í raun endurspegla ummæli Sveinbjargar viðhorf sem eru ríkjandi í lögum landsins: Ríkiskirkjufyrirkomulagið

Lóðirnar eiga bara að vera fyrir ríkiskirkjuna

Þegar maður skoðar lögin sem fjalla um skyldu sveitarfélaga til að leggja til ókeypis lóðir undir “kirkjur", sést að lögin voru einungis sett með ríkiskirkjuna í huga. Lögin segja ekkert um að önnur trúfélög eigi rétt á ókeypis lóðum.

Reykjavíkurborg hefur líklega talið það stríða gegn hugmyndum um jafnrétti að einungis ríkiskirkjan fengi þessar lóðir en ef "harðir ríkiskirkjusinnar" eins og Sveinbjörg væru við völd og myndu einungis gefa ríkiskirkjunni lóðir væri lítið hægt að gera við því.

Mismununin er alls staðar í lögunum

Í stjórnarskránni segir nefnilega í 62. greininni að ríkinu beri að “styðja og vernda" ríkiskirkjuna. Þetta ákvæði hefur í raun gefið ríkinu leyfi til þess að veita ríkiskirkjunni alls konar forrétindi.

Lögin um lóðaúthlutunina eru ein birtingarmynd þessa forréttinda. Önnur birtingarmynd misréttisins er kirkjumálasjóður og jöfnunarsjóður sókna, en ríkiskirkjan fær ~33% ofan á sóknargjöld frá ríkinu í þessa sjóði. Önnur trúfélög fá ekkert sambærilegt.

Ásatrúarfélaginu fannst þetta ekki sanngjarnt og fór með málið fyrir dóm og tapaði málinu í Hæstarétti. Ríkið mátti gefa ríkiskirkjunni meiri pening heldur en öðrum trúfélögum.

Við styðjum jafnrétti trúfélaga

Hér á Vantrú höfum við ekki einungis talað fyrir trúfrelsi heldur einnig trúarjafnrétti. Við höfum andmælt því að ríkið mismuni trúfélögum og teljum að þá mismunun sé best að laga með því að afnema forréttindi ríkiskirkjunnar.

Ef fólk hneykslast á því að Sveinbjörg vilji mismuna trúfélögum, þá ætti hneykslunin líka að beinast að því misrétti sem ríkiskirkjufyrirkomulagið felur í sér. Og í ljósi þess að helsti baráttumaður gegn jafnrétti trúfélaga er sjálf ríkiskirkjan, þá ætti þetta fólk auðvitað að skrá sig úr ríkiskirkjunni.


Sjá einnig:
Engar ókeypis lóðir fyrir kirkjur
Er moska kirkja?
Byggingarrréttur á grundvelli trúarbragða
Kristileg rök gegn moskum
Ókristileg byggingarleyfi

Ritstjórn 31.05.2014
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú , Íslam )

Viðbrögð


Kalli Jóns - 17/06/14 13:00 #

Þið ættuð þó að vera ánægð með að ekki er verið að auðvelda þessari bábilju sem Islam er aðgengi að saklausum sálum hér á landi. Svo er Islam ekki trúarbrögð frekar en nasismi og kommúnismi.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 17/06/14 19:04 #

Þið ættuð þó að vera ánægð með að ekki er verið að auðvelda þessari bábilju sem Islam er aðgengi að saklausum sálum hér á landi.

Ég myndi nú ekki fagna því ef það ætti að brjóta á mannréttindum fólks, þó svo að með því væri verið að berjast gegn bábilju eins og íslam. Við á Vantrú höfum nú hingað til alltaf verið talsmenn trúfrelsis.

Svo er Islam ekki trúarbrögð frekar en nasismi og kommúnismi.

Ef múhameðstrú er ekki trúarbrögð, þá held ég að orðið "trúarbrögð" hafi enga merkingu. Telur þú að kristni sé þá ekki heldur trúarbrögð?


Kalli Jóns - 18/06/14 10:50 #

Í múhaðmeðstrú er pólitík óaðskiljanlegur hluti þess kerfis ólíkt öðrum trúarbrögðum. Svo er það mannréttindabrot að vera að troða þessari hindurvitni upp á saklausar sálir (börn). Sama gildir um önnur trúarbrögð. Ég hélt alltaf að þið væruð talsmenn þess að berjast gegn hindurvitnum í samfélaginu?


Kalli Jóns - 18/06/14 10:54 #

Að vísu er ég ánægður með að þú viðurkennir að Islam sé bábilja eða hindurvitni eins og margt annað. Það er gott að þið hafið það svart á hvítu.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 19/06/14 15:02 #

Í múhaðmeðstrú er pólitík óaðskiljanlegur hluti þess kerfis ólíkt öðrum trúarbrögðum.

Hvað áttu við með því að pólitík sé hluti íslam?

Svo er það mannréttindabrot að vera að troða þessari hindurvitni upp á saklausar sálir (börn). Sama gildir um önnur trúarbrögð.

Neibs. Foreldrar mega troða trúarbrögðum upp á börnin sín.

Ég hélt alltaf að þið væruð talsmenn þess að berjast gegn hindurvitnum í samfélaginu?

Við erum það, en við höfum aldrei mælt með því að það væri brotið á trúfrelsi fólks í þeirri baráttu. Svona eins og ég er á móti reykingum, en vil samt ekki banna fólki að reykja.

Að vísu er ég ánægður með að þú viðurkennir að Islam sé bábilja eða hindurvitni eins og margt annað. Það er gott að þið hafið það svart á hvítu.

Það ætti nú að vera augljóst að okkur þyki múhameðstrú vera bölvuð vitleysa.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 05/11/14 19:38 #

Svar innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um lóðir fyrir trú- og lífsskoðunarfélög.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?