Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er moska kirkja?

Mynd af Ægisif

Borgarráð samþykkti í gær að félag Múslíma á Íslandi fengi úthlutaða lóð undir mosku. Eins og áður hefur verið bent á hér á Vantrú þá eru það sjálfsögð mannréttindi að fólk, þar með talið múhameðstrúarmenn, fái að byggja hús fyrir trúariðkun sína. En eitt atriði í fundargerð borgarráðs er hins vegar umdeilanlegt: sú hugmynd að íslensk lög skyldi Reykjavíkurborg til þess að gefa lóð undir moskuna.

Lög um Kristnisjóð

Þessi hugmynd kemur fram bæði í bókun Sjálfstæðisflokksins og svo sameiginlegri bókun hinna flokkanna. Þetta segir í bókun Sjálfstæðisflokksins:

Tekið er undir að endurskoða þarf ákvæði laga um Kristnisjóð sem gera sveitarfélögum skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og tilbeiðsluhús án endurgjalds.

Í bókun hinna flokkanna[1] er líka vísað á lög um Kristnisjóð. Þetta er lagaákvæðið sem þau hafa í huga:

Sveitarfélögum kaupstaða og kauptúna er skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Nú er presti skylt að hafa aðsetur í kaupstað eða kauptúni og er þá sveitarfélagi skylt að leggja til ókeypis lóð undir íbúðarhús hans ef um lögboðið prestssetur er að ræða.

Nú er hægt að teygja orð ansi langt, en mér þykir ljóst að moskur eru ekki kirkjur. Kirkjur eru tilbeiðsluhús kristinna manna. Tilbeiðsluhús múhameðstrúarmanna kallast moskur. Ákvæðið segir því ekkert um að sveitarfélögum sé skylt að gefa lóðir undir sýnagógur, moskur eða hof.

Ákvæðið er hugsanlega enn þrengra. Lög um Kristnisjóð voru nefnilega sett til þess að fjalla sértaklega um skipulag ríkiskirkjunnar. Þannig að það má færa rök fyrir því að ákvæðið eigi einungis við um kirkjur Þjóðkirkjunnar. Í seinni hluta ákvæðisins sést vel að ríkiskirkjan er sérstaklega höfð í huga: einungis ríkiskirkjan hefur “lögboðin prestsetur”.

Lögfest ójafnrétti

Flestum þykir eflaust mikið óréttlæti felast í þessu ójafnræði. Þess vegna kjósa borgaryfirvöld hugsanlega að túlka þetta á þann veg að þetta eigi við tilbeiðsluhús allra skráðra trúfélaga. Raunin er hins vegar sú að ójafnrétti trúfélaga er grundvallaratriði í íslenskum lögum um trúfélög. Það þarf ekki annað en að lesa stjórnarskrána til þess að sjá að ójafnræði ríkir á milli trúfélaga landsins: ríkiskirkjan er þar sett í forréttindastöðu. Lög um Kristnisjóð eru bara ein birtingarmynd þessa ójafnræðis.

Jafnrétti trúfélaga

Hér á Vantrú hefur lengi verið talað gegn forréttindastöðu ríkiskirkjunnar. Talsmenn Þjóðkirkjunnar hafa hins vegar meira og minna stutt ójafnrétti trúfélaga, enda hagnast þeir á því.

Vonandi mun umræðan um byggingu moskunnar valda því að fleira fólk fallist á að það sé rangt að mismuna trúfélögum, og muni þess vegna taka þátt í baráttunni fyrir afnámi allra þeirra forréttinda sem ríkiskirkjan hefur.


[1] “Borgarráð vill af þessu tilefni óska eftir því að Alþingi hefji endurskoðun á þeim ákvæðum í lögum um Kristnisjóð o.fl. nr. 35/1970 sem kveða á um að sveitarfélögum sé skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Lögin voru sett á tíma þegar trúarlíf þjóðarinnar var almennara og einsleitara og meiri sátt ríkti um þátttöku opinberra aðila í rekstri trúfélaga. Á þeim tíma mátti færa fyrir því rök að eðlilegt væri að Reykjavíkurborg léti frá sér án endurgjalds lóðir undir kirkjur. Það er tímaskekkja að skylda sveitarfélög einhliða til að ráðstafa dýrmætu borgarlandi án endurgjalds til þeirra trúfélaga sem sækjast eftir því. “

Sjá einnig: Kristileg rök gegn moskum og Ókristileg byggingarleyfi

Hjalti Rúnar Ómarsson 20.09.2013
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú , Íslam )

Viðbrögð


Þorsteinn - 20/09/13 10:19 #

"Múhameðstrúarmenn"? Er til fólk undir áttræðu sem notar þetta orð? Þú talar ekki um Jesúsartrúarmenn, tek ég eftir. Á þetta að hafa einhvern brodd?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 20/09/13 12:33 #

Þorsteinn, múhaðemstrúarmenn er góð og gild íslenska. Ég nota það bara út af smekk, "múslími" er svo útlenskulegt. Ég nota ekki "Jesútrúarmenn" af því að það er ekki venjulegt íslenskt orð.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 20/09/13 14:46 #

Múhameðstrúarmenn vísar til þeirra einstaklinga er hafa sömu trú og spámaðurinn (Múhammeð)og er því fyllilega rökrétt. Þeir sem trúa á Jésú eru hins vegar kallaðir kristnir (Jésú = Kristur), en ekki Jésútrúarmenn, enda merkingarlaust.


Þorsteinn - 21/09/13 02:17 #

"Júði" er líka fullkomlega íslenskt orð yfir gyðinga. Það er hinsvegar ógeðslegt orð sem enginn notar nema hann sé nasisti eða níræður. Um það bil það sama gildir um "múhameðstrúarmenn". "Kristinn" er ekki það sama og "Jesúsartrúarmaður", enda er "Kristur" titill en ekki eiginnafn. Þar á ofan þá hljómar "Jesúsartrúarmaður" niðurlægjandi og háðugt á meðan "kristinn" er hið almenna, blæbrigðalausa orð yfir þetta. Múslímar "trúa" ekki á Múhameð, frekar en kristnir "trúa" á Jesú.

Aðallega er þessi asnalega neitun á því að gangast við tungumálinu eins og það er hlægileg og er ein öruggasta leiðin til þess að hljóma forpokaður og out of touch sem hægt er að ímynda sér. Þetta segi ég, bæ ðe vei, sem harður trúleysingi.


Sindri G - 21/09/13 07:20 #

Þorsteinn, mér finnst orðið "m´hameðstrúarmaður" ekki niðrandi orð. Ég legg ekki þann skilningi í orðið. Orðið "múslimi" hefur hins vegar verið notað svo oft í neikvæðri merkingu (þ.e. tal um umúslimska hryðjuverkamenn, etc.) að það er eiginlega farið að hafa örlítið neikvæðan blæ.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 21/09/13 10:43 #

"Júði" er líka fullkomlega íslenskt orð yfir gyðinga. Það er hinsvegar ógeðslegt orð sem enginn notar nema hann sé nasisti eða níræður. Um það bil það sama gildir um "múhameðstrúarmenn".

Það er ekkert sérstaklega neikvætt við "múhameðstrú" (nema að því leyti sem manni finnst það vera neikvætt að vera múhameðstrúar).

"Kristinn" er ekki það sama og "Jesúsartrúarmaður", enda er "Kristur" titill en ekki eiginnafn. Þar á ofan þá hljómar "Jesúsartrúarmaður" niðurlægjandi og háðugt á meðan "kristinn" er hið almenna, blæbrigðalausa orð yfir þetta.

Þó svo að það skipti ekki miklu máli þá hefur Kristur verið notað sem nafn (þó svo að það var upphaflega) alveg frá nánast fyrstu tíð. Hvers vegna skrifarðu það t.d. með stórum staf?

Og ég veit ekki af hverju "Jesústrúarmaður" eigi að vera háðugt og niðurlægjandi, þó svo að það sé ekki venjulega orðið.

Múslímar "trúa" ekki á Múhameð, frekar en kristnir "trúa" á Jesú.

Kristnir trúa á Jesú (sbr postullegu trúarjátninguna "Ég trúi á Jesú Krist.."). Svo vísar "múhameðstrú" ekki til þess að múslímar trúi á Múhameð, heldur er verið að vísa til þess að þetta séu trúarbrögðin sem Múhameð stofnaði, "trúin hans Múhameðs". Þú sérð það sama í saraþústratrú og lútherstrú.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 21/09/13 10:47 #

Svona til gamans: Þá var ég að skoða timarit.is þá tekur múslími fram úr múhameðstrúarmaður árið 1988, en elsta dæmið um múslíma er frá 1968 (aðeins 3 dæmi frá 7. áratugnum og 2. frá þeim 8.)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.