Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ókristileg byggingarleyfi

Töluverð umræða hefur verið um væntanlega bygging mosku á Íslandi. Nýlega lagði ríkiskirkjupresturinn Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir orð í belg. Lokaorðin, og að mínu mati meginatriðið, í greininni hennar voru þau að “[þ]að getur ekki verið boðskapur kristninnar að meina múslimum að byggja mosku.” Það er frekar undarleg fullyrðing.

Hvaða boðskapur?

Það er auðvitað frekar vafasamt að tala um að eitthvað eitt sé “boðskapur kristninnar”. Kristni er ekki einhver platónsk frummynd sem svífur úti í geimnum.

En ef við ætlum að fullyrða um að eitthvað sé “boðskapur kristninnar”, þá held ég að það sé góð byrjun að athuga hverju kristnir menn hafa trúað í gegnum söguna, og svo hvað helgirit kristinna manna hefur um málið að segja.

Ómöguleg saga

Meirihluta sögu sinnar hafa kristnir menn einfaldlega bannað moskubyggingar. Ef við tökum Ísland sem dæmi, þá vill svo heppilega til að afnám trúfrelsis á Íslandi gengur undir nafninu kristnitakan. Það var ekki fyrr en næstum því níuhundruð árum seinna að það var löglegt að reisa hér mosku.

Talsmenn ríkiskirkjunnar þreytast ekki á að segja að samfélagið og löggjöfin okkar hafi verið mótuð af kristinni trú í þúsund ár[1] . Það er erfitt að sjá hvernig sú mótun á að hafa byrjað, sérstaklega þegar kemur að grundvallaratriði eins og trúfrelsi, níuhundruð árum eftir að kristni komst til landsins. Samfélagið sem var víst mótað af kristinni trú var samfélag sem bannaði moskubyggingar.

Ef það er hægt að koma með einhverja ályktun út frá því hverju kristnir menn hafa almennt trúað í gegnum söguna, þá væri ályktunin sú að það sé “boðskapur kristninnar að meina múslímum að byggja mosku”.

Gamli góði guð

Helgirit kristinna manna verður seint flokkað sem trúfrelsisrit. Ef maður byrjar á Gamla testamentinu, þá aðhyllist guð Gamla testamentisins ekki trúfrelsi. Í Móselögunum segir að það eigi að grýta þann mann sem boðar trú á annan guð en Jahve # ). Konungar Júdeuríkis eru mikið lofaðir fyrir eyðingu helgistaða annars átrúnaðar. Svo má ekki gleyma sögunni af Elía og spámönnum Baals, en Elía var ekki hrifnari af heiðingjum en svo að hann drap þá alla fjögur hundruð og fimmtíu #

Ef fólk vill mótmæla með því að þetta sé “bara” Gamla testamentið, en ekki Nýja testamentið, þá gengur það ekki upp af því að Nýja testamentið gerir ráð fyrir innblæstri hins Gamla og Jesús guðspjallanna trúir því greinilega að guð Gamla testamentisins sé hinn eini sanni guð.

Það er satt best að segja miklu auðveldara að finna rök gegn trúfrelsi í helgiriti kristinna manna, heldur en rök fyrir trúfrelsi. Aftur virðist auðveldara að fullyrða að það sé “boðskapur kristninnar að meina múslímum að byggja mosku”.

Hvað er í gangi?

Ég held að Steinunn byrji í raun og veru með niðurstöðuna og fer síðan “öfuga leið” til að komast að því að kristni sé fylgjandi trúfrelsi, í þessu tilviki að leyfa byggingu mosku. Henni finnst, eins og langflestum Íslendingum, trúfrelsi vera sjálfsögð mannréttindi. Hún sem kristin (meira að segja atvinnukristin) manneskja telur síðan kristna trú vera góða og fallega. Góð og falleg trú eins og kristni getur varla verið á móti sjálfsögðum mannréttindum? Þess vegna getur það bara ekki “verið boðskapur kristninnar að meina múslimum að byggja mosku”, því þá væri kristni ljót og vond!

Staðreyndin er sú að bæði trú og hegðun kristinna manna í gegnum söguna og trúarrit þeirra benda til þess að ef rétt er að kalla eitthvað eitt “boðskap kristninnar” í þessu máli, þá er “boðskapur kristninnar” að það eigi að meina múslímum að byggja mosku. En það er auðvitað gleðilegt þegar fólk aðhyllist trúfrelsi, þrátt fyrir að vera kristið.


[1] Hér eru nokkur dæmi: “Við erum kristin þjóð og kristin trú hefur mótað samfélag okkar í þúsund ár.”#, “....kristni er sá siður sem öðrum fremur hefur mótað samfélag okkar í þúsund ár.”#, “Þannig hefur kirkjan og kristin trú verið samofin inn í þjóðlífið um aldir og kjölfesta í gildismati, siðum og lögum. #”, “Lög, siðgæðishugmyndir og samskiptahættir mótast að verulegu leyti af hugmyndum kristinnar trúar um manngildi, umhyggju og umburðarlyndi.”#, “Biblíuleg trú hefur mótað gildi þjóðfélags okkar í aldanna rás. #”, “Það er hlutverk kirkjunnar að standa vörð um þann boðskap í störfum sínum og þjónustu sem mótað hefur gildismat laga og siðferðis, menningar og samskipta í landinu um aldir.”#, “Sú ákvörðun sem tekin var fyrir hönd þjóðarinnar á Þingvöllum fyrir rúmum 1000 árum hefur mótað lög okkar, menningu og sögu.”#, “Menning og löggjöf Vesturlanda hafa mótast af kristinni trú í meira en þúsund ár og við búum þar við kristinn arf.” #

Hjalti Rúnar Ómarsson 09.02.2012
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Íslam )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/02/12 14:01 #

Myndin sem birtist með greininni er skjáskot af Facebook vegg hóps sem berst gegn byggingu mosku í Reykjavík. Eins og sjá má virðist hópurinn hrifinn af kirkjum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/02/12 18:27 #

Þessi myndbirting er dálítið villandi samt. Ég blandaði mér í umræðu á Facebook um málefni Snorra í Betel og vísaði á grein hér á vefritinu. Eigandi veggjarins kom svo til baka og jós yfir mig fúkyrðum um að Vantrú væri öfga- og fasistahópur og "Mótmælum moskum á Íslandi" væri hluti af hatursboðskapnum. Það stóð nefnilega á forsíðunni!


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 15/02/12 19:49 #

Bíddu, bíddu, ertu farinn að spjalla við Bjarna Randver á Facebook???


Autopsy - 01/06/12 18:42 #

Vitar gera meiri gagn en kirkjur eða moskur

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.