Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Helvítis vesen

Mynd af helvíti

Í Gallup-könnun frá 2011 sögðust fimmtán prósent Íslendinga trúa á tilvist helvítis. Ríkiskirkjuprestar afneita einnig flestir helvíti algerlega eða útvatna það, þrátt fyrir að aðaljátning ríkiskirkjunnar segi skírum stöfum að fólk muni kveljast að eilífu. Margir myndu eflaust skrá sig úr ríkiskirkjunni ef prestar færu að boða tilvist helvítis. En prestarnir eru í ákveðnum vandræðum: Hvað á að gera við allt helvítistalið í Nýja testamentinu?

Diet-helvíti

Fyrir nokkru gerðist sá fáheyrði atburður að ríkiskirkjuprestur, Guðrún Karls Helgudóttir gerði helvíti að umfjöllunarefni í predikun. Hún sagði að helvíti væri ekki staðir sem fólk fer á eftir dauðann heldur væri helvíti það “ástand hér og nú, í þessu lífi, skapað af mannfólkinu sjálfu”. Guð sendir fólk svo ekki í helvíti, “það gerum við sjálf”. Guðrún sagði auk þess að þessar hugmyndir væru í samræmi við texta biblíunnar.

Hún er örugglega langt í frá eini presturinn með svona hugmyndir en eru þær réttar? Er helvíti Nýja testamentisins staður sem “hin vondu” fara á eftir dauðann eða “ástand hér og nú”? Sendir fólk sig sjálft til helvítis eða gerir guð kristinna það?

Hvað var Hades?

Orðið “helja” í íslensku þýðingunni á Nýja testamentinu er þýðing á gríska orðinu “Hades”. Í trúarbrögðum Grikkja var Hades undirheimurinn þangað sem sálir manna fóru eftir dauðann. Þessi venjulega merking orðsins passar við það hvernig orðið Hades er notað í Nýja testamentinu, en merkingin “ástand í þessu lífi” passar engan veginn:

[Jesús sagði]: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér." (Matt 11:22-24)

Jesús segir að við dómsdag muni þessum borgum verða hent niður (‘steypt’) til Hadesar, sem eru auðskiljanlegt ef Hades vísar til undirheimanna (og þá sem andstæða við að vera hafin upp til himna). Erfitt er að sjá hvernig þetta eigi að passa við einhvers konar slæmt sálrænt ástand í lifandi lífi.

Sagan af ríka manninum og Lasarusi er annað gott dæmi þar sem að Hades er eldfylltur kvalarstaður sem ríki maðurinn endar í eftir dauðann:

En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn. Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: ,Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.`(Lk 16:22-24)

Loks er einn texti þar sem orðið “Hades” er ekki beinlínis notað, heldur er talað um Tartarus, sem var hluti undirheimsins í hugum Grikkja:

Ekki þyrmdi Guð englunum, er þeir syndguðu. Hann steypti þeim niður í undirdjúpin og setti þá í myrkrahella, þar sem þeir eru geymdir til dómsins. (2Pét 2:4)

Aftur sjáum við að guð er að refsa einstaklingum, í þessu tilfelli englum, með því að henda þeim neðanjarðar. Það er nokkuð ljóst að þegar ‘Hades’ er notað í Nýja testamentinu virðist það þýða eitthvað afskaplega svipað og það þýddi venjulega: Undirheimar þar sem dautt fólk endar.

Hvað var Gehenna?

Orðið sem er oftast þýtt sem “helvíti” er hins vegar “Gehenna” og kemur úr trúarbrögðum gyðinga. Gehenna vísaði upphaflega til ákveðins dals[2] , en síðar meir var þetta orð notað um staðinn þar sem guð myndi senda fólk til refsingar á dómsdegi[3]. Ummæli Jesú um Gehenna passa fullkomlega við þá merkingu:

Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða og fá að því búnu ekki meira að gjört. Ég skal sýna yður, hvern þér eigið að hræðast. Hræðist þann, er hefur vald að deyða og að því búnu varpa í helvíti. Já, ég segi yður, hræðist hann. (Lúk 12:5-6)

Ólíkt mönnum sem geta bara drepið mann, þá á guð að geta drepið mann og síðan hent fólki í Gehenna. Þetta passar ef Gehenna er staður refsingar eftir dauðann en passar ómögulega við að Gehenna vísi til einhvers ástands í lifandi lífi.

Í öðrum ummælum segir Jesús að maður eigi að forðast það að vera “kastað í Gehenna” og Gehenna er lagt að jöfnu við “óslökkvandi eld” þar “sem ormarnir deyja ekki” (Mk 9:43-48). Aftur passar þetta við þann skilning á Gehenna sem var ráðandi á tíma þessum tíma. Jesús tengir á öðrum stað (Mt 13:49-50) því að vera kastað í eldinn við “grát”. Öll þessi atriði er að finna í ansi drungalegum ummælum í riti sem var skrifað nálægt tíma Jesú (og er í biblíu Þjóðkirkjunnar):

Vei heiðingjunum sem rísa gegn þjóð minni. Almáttugur Drottinn mun refsa þeim á degi dómsins. Hann mun senda eld og orma í líkama þeirra. Þeir munu veina/gráta [4] af kvöl um eilífð. (Júdítarbók 16:17)

Jesús var að öllum líkindum að tala um eitthvað svona.

Eldsofninn hans Jesú

Auk textanna sem nota beinlínis orðin Hades og Gehenna eru líka textar í Nýja testamentinu sem fjalla augljóslega um sama hugtakið, án þess að orðin sjálf séu notuð:

Svo mun verða þegar veröld endar: Englarnir munu koma, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13:49-50)

Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína og þeir munu nema brott úr ríki hans allt sem leiðir í villu og alla er illt fremja og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13:40-42)

Enn og aftur er fólki ‘kastað’ í ‘eld’ og það ‘grætur’ og sagt er að þetta muni gerast við endi veraldar. Þetta passar fullkomlega ef um er að ræða stað þar sem fólki er refsað á dómsdegi en passar engan veginn við slæmt ástand í lífinu sem fólk veldur sér sjálft.

Í annarri dæmisögu (Mt 25:31-46) segir Jesús að við heimsendi muni þjóðum heimsins verða skipt upp í tvo hópa og við annan mun vera sagt: “Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans.” (v. 41) og “þeir munu fara til eilífrar refsingar” (v. 43). Fólk endar í eldinum við heimsendi og eldurinn var búinn til handa djöflinum og illum öndum. Það passar ekki við “ástand í þessu lífi” sem fólk “sendir sig sjálft í.

Þegar Nýja testamentið talar um helvíti er greinilega átt við stað þar sem fólk er sent til refsingar við heimsendi en ekki eitthvað “ástand í lifandi lífi” eins og Guðrún heldur fram.

Hver sendir fólk til helvítis?

Guðrún fullyrðir að guð sendi ekki fólk til helvítis heldur geri fólk það sjálft.

Í mörgum af þeim textum sem ég hef þegar vitnað í sést að sú er ekki raunin: að guð ‘varpar’ fólki þangað (Lúk 12:5-6), fólki er kastað þangað (Mk 9:45-47) og loks segir Jesús tvisvar að englar munu ‘kasta’ vondu fólkinu í eldsofna (Mt 13:49-10 og Mt 13:40-42).

Ýmislegt annað sem Jesús segir um þessa refsingu við dómsdag bendir líka til þess að fólk fari þangað gegn vilja sínum. Jesú talar í dæmisögu um að konungur segi þjónum sínum að “binda [mann] á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.” (Mt 22:13). Í annarri dæmisögu líkir hann þessari refsingu við því að konungur hendi manni í dýflissu. Þetta eru klárlega vísanir til helvítis og þessir menn senda sig klárlega ekki sjálfir þangað. Í Nýja testamentinu er fólk sent til helvítis af guði.

Refsandi reiði guðs

Annað atriði sem passar ekki við hugmyndir Guðrúnar, en passar fullkomlega við helvíti sem stað þar sem fólki er hent til refsingar við dauðann eða heimsendi er talið um helvíti sem dóm og refsingu.

Jesús sjálfur talar um að það að enda í eilífa eldinum sé “eilíf refsing” (Mt 25:45) og spyr faríseana hvernig þeir ætla að flýja “helvítisdóm” (Mt 23:33). Í síðara Þessaloníkubréfinu er þessi hugsun hvað skírast orðuð:

[Jesús] kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú. Þeir munu sæta hegningu, eilífri glötun, fjarri augliti Drottins og fjarri dýrð hans og mætti,... (2Þess 1:8-9)

Boðskapurinn er augljós, við dómsdag mun fólki verða dæmt til refsingar af guði, það endar í helvíti. Þetta passar ekki við hugmyndir um helvíti sem einhvers konar “sjálfskaparvíti”.

Vandamál nútímatrúmannsins

Það ætti ekki að koma okkur á óvart að í fornu ritsafni eins og biblíunni sé að finna hugmyndir sem okkur þykir framandi og jafnvel ógeðslegar. Kirkjufeður 2. og 3. aldar segja til dæmis hreint út að helvíti sé neðanjarðareldur ætlaður til refsingar[5].

Það ætti heldur ekki að koma okkur á óvart að nútímatrúmenn trúi því ekki lengur að helvíti sé neðanjarðar. Það er líka skiljanlegt að nútímatrúmenn eins og ríkiskirkjuprestarnir telji að krúttguðinn þeirra muni ekki refsa fólki með því að senda það á einhvern kvalastað.

Þeir hafa samt enga afsökun fyrir því að fullyrða að Nýja testamentið boði þessar krútthugmyndir þeirra. Nýja testamentið er fullt af tali um að guð muni refsa fólki við dómsdag og að því verði kastað í eldsofninn. Nýja testamentið boðar tilvist helvítis.


[1] “Ég trúi því að til sé bæði himnaríki og helvíti. En ég trúi ekki að þetta séu staðir sem við förum á eftir þetta líf. Að hin góðu fari til himnaríkis eins og sauðirnir til hægri og hin vondu fari til helvítis eins og hafrarnir til vinstri.

Það er ekkert í Biblíunni sem styður frekar við þær hugmyndir en að himnaríki og helvíti sé ástand hér og nú, í þessu lífi. Skapað af mannfólkinu sjálfu.

Við höfum fengið að líta hér í gegnum nokkur skráargöt, inn í helvíti og himnaríki nokkurra einstaklinga. Dæmin gætu öll verið raunveruleg þó þau séu öll tilbúin. Þau eru að sjálfsögðu mun fleiri og fjölbreyttari en öll kynnumst við bæði helvíti og himnaríki einhvern tíma á ævinni. Ekkert okkar er undanskilið.

Guð skapar ekki helvíti og Guð sendir okkur ekki í helvíti. Það gerum við sjálf.” - # Guðrún Karls Helgudóttir

[2] Sjá til dæmis 2Kron 28:3

[3] Nýjatestamentisfræðingurinn Dale C. Allison er með fínt yfirlit yfir lýsingar á helvíti í fornöld í greininni *The problem of Gehenna” úr bók sinni *Resurrecting Jesus:

“That Jesus, in any even, did not much meditate upon the finer points of Gehenna, that it was not for him a subject of independent reflection, is consistent with the thoroughly conventional nature of his purported language about the place, as the parallels show:

‘Gehenna’ as the place of punishment: 1 En. 27:2-3; Sib Or 1:104; 2:292; 4:186; 2 Bar 59:10; 85:13; t. Sanh 13:3; m. Qidd 4:14; m. ‘Ed 2:10; b. Sotah 4b. ‘Erub. 19a; etc.

‘Fire’ as a feature of Gehenna of postmortem punishment: Isa 66:24; 1 En 10:13; 54:1-6; 90:24; 1QS 2:8; Sib Or 1:103; 2:295; Ps-Philo LAB 38:4; 4 Ezra (2 Esd) 7:36; 2 Bar. 44:15; Apoc. Abr. 15:6 etc.

Being ‘thrown’ into eschatological fire: 1 En 54:1-6; 90:25; 91:9; 98:3; Luke 3:9 = Matt 3:10 (attributed to John the baptist); 2 En 63:4

‘Darkness’ as a characteristic of Gehenna or postmortem punishmen: 1 En 103:7; 1QS 2:8; 4:13; 4QM1 frags. 8-10 1:15; Sib Or 2:292; Ps Sol 14:9; 15:10; Wis 17:21; Josephus JW 3.375 etc

The wicked cry and/or gnash teeth: Ps 112:10; 1 En. 108:3; Sib Or 2:297-99, 305-306; y. Sanh 10:3; Midr Eccl 1:15.1; cf. also Job 16:9; Ps 33:16; 37:12” (bls 81-82)”

Allison vísar oft til 54. kafla fyrstu Enoksbókar og sá kafli er fínt sýnidæmi um hugmyndir þess tíma um heimsendi:

And I looked and turned to another part of the earth, and saw there a deep valley with burning fire. And they brought the kings and the mighty, and began to cast them into this deep valley. And there mine eyes saw how they made these their instruments, iron chains of immeasurable weight. And I asked the angel of peace who went with me, saying: ' For whom are these chains being prepared ' And he said unto me: ' These are being prepared for the hosts of Azazel, so that they may take them and cast them into the abyss of complete condemnation, and they shall cover their jaws with rough stones as the Lord of Spirits commanded. And Michael, and Gabriel, and Raphael, and Phanuel shall take hold of them on that great day, and cast them on that day into the burning furnace, that the Lord of Spirits may take vengeance on them for their unrighteousness in becoming subject to Satan and leading astray those who dwell on the earth.'

Annað fínt dæmi er úr einu Dauðahafshandritanna (1Qs IV 6-8, þýðing fengin úr Resurrection, immortality, and eternal life in intertestamental Judaism eftir George W. E. Nickelsburg á bls 156-157):

And as for the visitation of all who walk in this (spirit) it consists of an abundance of blows administered by all the angels of destruction, in the everlasting pit by the furious wrath of the God of vengeance, of the unending dead and shame without end and of the disgrace of destruction by the fire of the regions of darkness . And all their times from age to age are in the most sorrowful chaggrin and bitterest misfortune in the calamities of darkness till they are destroyed with none of them surviving or escaping.”

[4] Orðið ‘að veina’ er sagnorð þarna ( klausontai - af klaiw), en nafnorðið sem er dregið af því (klauþmos) er oft notað af Jesú í orðasambandinu “grátur og gnístran tanna”.

[5] Sjá til dæmis þessar tilvitnanir:

And if we threaten Gehenna, which is a reservoir of secret fire under the earth for purposes of punishment, we have in the same way derision heaped on us. For so, too, they have their Pyriphlegethon, a river of flame in the regions of the dead. - # Tertúllíanus

“And hell is a place where those are to be punished who have lived wickedly, and who do not believe that those things which God has taught us by Christ will come to pass.” # - Jústínus píslarvottur

Klemens frá Alexandríu talar í V bók XIV kafla ritsins Samtínings um að grísku heimspekingarnir stálu hugmyndinni um eldfljót neðanjarðar frá gyðingum, segir að það sé Gehenna og þar muni englar refsa fólki.

Hjalti Rúnar Ómarsson 18.03.2014
Flokkað undir: ( Biblían , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Arnar - 18/03/14 10:47 #

Oh.. við erum svo miklir bókstafstrúarmenn að ætlast til þess að trúmenn fari eftir bókinni sem þeir vilja meina að sé heilagur sannleikur.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/03/14 14:02 #

Ég ætlast ekki einu sinni að þau fari eftir bókinni, það gæti endað illa! En það er algjört lágmark að þetta fólki viðurkenni innihald skruddunnar en sé ekki sífellt að skrúbba hana með grænsápu.


Pétur - 18/03/14 14:38 #

Það er fínt að lesa þessa ritgerð eftir Davíð Þór varðandi þetta umræðuefni. Þetta er skemmtileg og áhugaverð lesning.

http://skemman.is/handle/1946/10028

"Jesús talaði eins og sá sem valdið hefur. Hann setti boðskap sinn fram í formi sálmaog spámannshefðar Gamla testamentisins og vísaði þannig, bæði með táknmáli sínu og ytri umbúnaði textans, í ritningu og táknheim sem áheyrendur hans þekktu og deildu. Sé þessi bæn í Faðirvorinu skoðuð í því ljósi er ekki fráleitt að ætla að um hliðstæðurím sé að ræða, að strax í næstu setningu útskýri Jesús nákvæmlega hvað hann á við: „Verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni (Matt 6.10b).“ Þannig er Guðs ríki það ástand innra með okkur og okkar á meðal þar sem vilji Guðs ræður ríkjum. Andstæða þess er helvíti."


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 18/03/14 15:21 #

Arnar, ég vill auðvitað ekki að að fólk trúi á helvíti, en ég vil ekki að prestar komist upp með að reyna að fegra allra ógeðslegustu hluta helgiritsins þeirra.

Pétur, þessi röksemdafærsla Davíðs er afskaplega undarleg (Hann bendir á tvo texta sem er hugsanlega hægt að skilja sem svo að "ríki guðs" sé "ástand innra með okkur" og svo ályktar hann að helvíti sé það líka af því að það er andstæða "ríki guð"). Ef hann myndi athuga hvort að þessi hugmynd passaði við textana í guðspjöllunum þar sem minnst er á helvíti, þá passar það augljóslega ekki. Prófaðu t.d. að setja inn "ástand innra með manni þar sem guðs vilji ræður ekki" í suma textana í þessari grein, það passar ekki.


Pétur - 18/03/14 17:23 #

Hjalti, ég ætla nú ekki að fara að rýna í ritgerðina hjá honum Davíð og segja hvað passar og hvað passar ekki. Hann er búin að skoða þetta út frá frumtextum o.fl. Þar er ég ekki sleipur.

En þú gerir þér grein fyrir því að að frumheimildirnar eru út frá grískum og hebreskum textum að mestu leyti og orð þar geta verið rangtúlkuð og þýdd vitlaus yfir á okkar elskulegu íslensku og í raun önnur tungumál líka ef út í það er farið. Einnig hafa orð og orðalag verið breytt til að tengjast betur samtímanum.

Þannig að taka þessa setningu sem þú vilt nota til að rengja nálgun hans virkar í raun ekki, þar sem þýðingar og túlkun út frá frumheimildum er mögulega ekki í samræmi við það sem hentar þinni nálgun.

Ég er ekki að taka afstöðu með því sem Davíð Þór er að segja, ég er eingöngu að benda á hans nálgun um helvíti, því að hún á vel heima í þessari umræðu.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 18/03/14 17:33 #

Pétur, ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta var ekki skrifað á íslensku (og hef "rýnt í frumtexta"). Ég veit ekki alveg hvaða setningar þú heldur að séu að klikka í þýðingum. Hvað hefurðu sérstaklega í huga?


Sveinbjörn Halldórsson - 22/03/14 02:03 #

Æ, þið ungu látið helvíti eiga sig. Látið líka Guð eiga sig. Sem hugmynd órólegs hugar, leitið ekki neins, ekki neins. En sjáið Spinoza, grannskoðið hugmyndir hans. Sjáið leiftur Guðs í hinu smæsta. Það er til mikils unnið þegar hugurinn leitar frá gráskeggjuðum Guði Sunnudagsskólans. Að eyða svo hálfri ævinni í deilur um tilurð Hans.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?