Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er Jesús bannaður börnum?

Steindur gluggi

Í umræðunni um aðsókn ríkiskirkjunnar að skólabörnum heyrist oft að það sé rosalega mikilvægt að börnin læri biblíusögur, þar með talið dæmisögur Jesú. Opinbera línan er oftast sú að án þessarar þekkingar muni greyið börnin ekki geta notið eða skilið bækur og kvikmyndir. Þegar maður skoðar hvernig ríkiskirkjan matreiðir sögurnar, þá sést að þeim er ekki annt um að kenna sögurnar sjálfar, heldur einungis að gefa börnunum falska og fegraða mynd af blessuðu biblíusögunum.

Falleg dæmisaga

Á heimasíðu sunnudagaskóla ríkiskirkjunnar er endursögn af einni ljótustu dæmisögu Jesú, sögunni af skulduga þjóninum. Flest fólk áttar sig ekki á því hvers vegna þetta er ljót saga, enda er það vant því að heyra að þetta sé falleg saga um hvað það sé mikilvægi þess að fyrirgefa fólki, enda er hún oftast matreidd þannig, og endursögnin á net-sunnudagaskólanum er engin undantekning.

Í stuttu máli fjallar sagan um konung sem „afskrifar” stjarnfræðilega háa upphæð af þjóni sínum. Þessi sami þjónn afskrifar síðan ekki skuld hjá þjóni sínum og lætur þess í stað varpa honum í skuldafangelsi. Konungurinn fréttir af þessu og kallar hann á teppið og segir honum að hann hefði átt að koma fram við þjón sinn eins og konungurinn kom fram við hann.

Þarna endar af einhverjum ástæðum endursögnin hjá kirkjunni, og lokaorðunum, sem Jesús leggur síðan sérstaka áherslu á, er sleppt.

Konungurinn er eins og guð

Svona endar dæmisagan:

Og konungurinn varð reiður og afhenti hann pyntingameisturunum[1], þar til hann hefði borgað allt, sem hann skuldaði honum.

Samkvæmt ágætu ritskýringarriti [2], þá var það algengt hjá Rómverjum að pynta fólk sem lenti í skuldafangelsi, svo að ættingjarnir hefðu smá auka-hvatningu til þess að borga skuldina. Í sögunni er skuldin svo stjarnfræðilega há, að venjulegur landbúnaðarverkamaður, sem ynni alla daga ársins, væri einungis 164.000 ár að vinna sér inn sambærilega upphæð [3]. Þjónninn mun sem sagt verða pyntaður af undirmönnum konungsins það sem eftir er.

Strax á eftir þessari hrollvekjandi og hrottalegu lokaorðum segir barnavinurinn besti þetta:

Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum.

Guð mun kvelja ykkur að eilífu, eða að minnsta kosti stjarnfræðilega lengi, nema þið fyrirgefið fólki. Þetta er ógeðslegt. Enda telur kirkjan þetta ekki vera við hæfi barna og fjarlægir þetta. Svona endar endursögnin á kirkjusíðunni:

Konungurinn er eins og Guð, hann er tilbúinn að fyrirgefa okkur og þá eigum við að vera tilbúin að fyrirgefa hvert öðru. Þessa dæmisögu sagði Jesús til þess að við munum eftir því að vera góð hvert við annað.

Af einhverjum ástæðum vantar þarna aftast: “…því annars mun guð henda okkur í helvíti og kvelja okkur að eilífu.

Er Jesús við hæfi barna?

Maður heyrir lítið af þessari hlið boðskapar Jesú, hvorki í krisntifræði í skólum né hjá áróðri kirkjunnar sem hún boðar litlum börnum, enda er þetta ekki mjög barnavænt. En það vill svo til að tal Jesú um heimsendi, kvöl og pínu er afskaplega stór hluti þess sem hann boðar. Ein sú áhrifamesta, ef ekki sú áhrifamesta, mynd af Jesú innan nýjatestamentisfræðanna er einmitt heimsendaspámaðurinn Jesú.

Ef fólk er ekki tilbúið að kynna börnum þessa hlið af Jesú, þá getur fólk ekki kynnt börnum annað en falska og fegraða mynd af Jesú. Þá erum við að gefa þeim áróðurslega glansmynd af Jesú. Það er einmitt gert í kirkjum. Það er einmitt gert í skólum. Ef heimsendaspámaðurinn Jesús er ekki við hæfi barna, þá ætti fyrst að kynna skólabörnum hann þegar þau geta líka kynnst þessari hlið. Annars verða skólar bara áróðursstofnanir kirkjunnar.


[1] Í íslenskum þýðingum er almennt talað um böðla, en samkvæmt minni máltilfinningu vísar það til aftökumanna en ekki þeirra sem hafa þá sérgrein að pynta fólk. Í þessari sögu er átt við hið síðarnefnda og því nota ég frekar orðið pyntingameistara.
[2] Hagner, Donald A., Word Biblical Commentary, Volume 33b: Matthew 14-28,
[3] Í sögunni er skuldin tíu þúsund talentur, í neðanmálsgrein í Grænsápubiblíunni stendur: „Ein talenta jafngilti sex þúsund denörum en einn denar var þá venjuleg daglaun landbúnaðarverkamanns.” (10.000*6.000)/365 = ~164.300

Hjalti Rúnar Ómarsson 30.05.2011
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Eiríkur Kristjánsson - 30/05/11 09:28 #

Smá textakomment:

í grískunni stendur að konunugurinn hafi látið skuldarann "eis phylaken" sem þýðir eiginlega (orðrétt) "í gæslu" eða kannski "í fangelsi" Matt. 18:30.

Nú veit ég ekki hvernig fangelsismál voru á þessum stað og tíma, en textinn segir ekkert um pyndingameistara eða böðul. Nema það sé tekið fram annars staðar í textanum?

Bara svo það sé á hreinu.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 30/05/11 09:46 #

Á fyrsta skólaári segja kennarar börnum okkar (5 og 6 ára) að "Guð" hafi skapað heiminn - og tvær manneskjur, sem þekktu ekki muninn á réttu og röngu. Þegar þær óafvitandi brutu af sér, með því að borða ávöxt, varð Guð ógurlega reiður og lagði bölvun á þær og alla afkomendur þeirra. Ofboðslega falleg saga.

Þegar jörðin var orðin full af fólki var það ekki nógu gott fyrir Guð svo hann drap alla, menn og skepnur, utan eina fjölskyldu og eitt par af hverri tegund. Ofboðslega falleg saga.

Enn síðar var allt í steik og þá ákvað Guð að senda son sinn, og þó sig sjálfan, til þessarar vonlausu sköpunar sinnar, til að hann væri pyntaður og drepinn svo hann gæti fyrirgefið mönnunum hvað þeir eru ófullkomnir. Ofboðslega falleg saga.

Ef þú trúir þessu ekki ertu siðlaus og vond manneskja sem verður kastað í "eldsofninn" um aldur og ævi. Þar verður grátur og gnístran tanna. Ofboðslega falleg saga.

Enda hefur biskup minnt á

...hve háskasamt það er ef kynslóðir vaxa úr grasi skilningsvana og ólæsar á þann grundvallarþátt menningar og samfélags sem trúin er og siðurinn. Það er brýnt að stórefla þátt kristinfræði í skólunum...


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 30/05/11 10:33 #

Ekki veit ég hvaða texta þú ert að lesa, Eiríkur, en í mínum stendur „παρέδωκεν αὐτὸν τοῖς βασανισταῖς...“, eða „færði hann böðlunum...“, eins og Hjalti segir.


Eiríkur Kristjánsson - 30/05/11 11:30 #

Ég er með sama texta, bara vitlausan stað.

Þekking vor er í molum greinilega.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 30/05/11 12:11 #

Ég sé það núna að þú vitnar í Matt. 18:30, en textinn sem um ræðir er náttúrulega Matt. 18: 34-35.


Axel - 31/05/11 02:03 #

Sorglegt að vita af því að svona "pick and choose" aðferðir séu notaðar við svokallaða fræðslu.

Þegar það kemur að því að maður vitni í neikvæða kafla biblíunnar segjast margir ekki trúa þeim, enda ekki bókstafstrúarmenn.

Góð rök.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.