Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vandamál krúttguðfræðinnar

Mynd af kettlingi

Í skrifum presta ríkiskirkjunnar birtist oft sú skoðun að guðinn þeirra sé algert krútt[1]. Þessi guð elskar alla menn jafn óendanlega mikið og honum dytti aldrei í hug að meiða nokkurn mann. Honum er meira að segja svo illa við þjáningar fólks að hann er sígrátandi. Það er mjög undarlegt að prestar Þjóðkirkjunnar skuli boða tilvist svona guðs.

Jahve er ekki krútt í Gamla testamentinu

Jahve, guð Gamla testamentisins, er ekki krúttguð. Hann drekkir öllum heiminum, eyðir heilu borgunum og fyrirskipar þjóðarmorð. Hann hefur ekkert við ofbeldi að athuga og það þarf að snúa ansi mikið út úr orðinu “elska” ef maður vill halda því fram að hann elski allt fólkið sem hann drap beinlínis eða fyrirskipaði að skyldi tekið af lífi grimmilega.

Prestarnir geta auðvitað sagt að Gamla testamentið boði kolranga mynd af guði. Auðvitað gleðst maður yfir því að þeir vilji ekki trúa á Jahve, en það dugar ekki bara að afneita Gamla testamentinu því Nýja testamentið boðar að þetta sé sami guðinn. Sem dæmi má benda á þennan texta úr Nýja testamentinu þar sem höfundurinn eignar guðinum sínum alls konar illvirki Jahve:

Ég vil minna yður á, þótt þér nú einu sinni vitið það allt, að Drottinn frelsaði lýðinn úr Egyptalandi, en tortímdi samt síðar þeim, sem ekki trúðu. Og englana, sem ekki gættu tignar sinnar, heldur yfirgáfu eigin bústað, hefur hann í myrkri geymt í ævarandi fjötrum til dóms hins mikla dags.Eins og Sódóma og Gómorra og borgirnar umhverfis þær, sem drýgt höfðu saurlifnað á líkan hátt og þeir og stunduðu óleyfilegar lystisemdir, þær liggja fyrir sem dæmi, líðandi hegningu eilífs elds. (Júd 5-7)

Þannig að ef það á að afneita Jahve, þá þarf að afneita Gamla og Nýja testamentinu.

Guð Nýja testamentisins er ekki krútt

Guð Nýja testamentisins er heldur ekki krúttguð. Eins og Jahve þá drepur hann enn fólk[2] sem honum líkar ekki við, en auk þess hefur hann tekið upp aðra ókrúttlega siði.

Í Gamla testinu var ekki talað um grimmilegar refsingar við heimsendi. Það er gert í Nýja testamentinu. Páll postuli segir að guð muni gjalda fólki með “reiði og óvild” (Róm 2:7) og segir kristnu fólki að það eigi ekki að hefna sín af því að það eigi að “lofa hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: “Mín er hefndin, ég mun endurgjalda ,segir Drottinn” (12:19).

Sama boðskap er að finna hjá öðrum höfundum Nýja testamentisins. Síðara Pétursbréfið talar um “þann dag, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.” (3:7), Hebreabréfið um “óttalega bið eftir dómi og grimmilegur eldur, sem eyða mun andstæðingum guðs” (10:27), og þessa ókrúttlegu lýsingu er að finna í síðara Þessaloníkubréfi:

[Jesús] kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú. Þeir munu sæta hegningu, eilífri glötun, fjarri augliti Drottins og fjarri dýrð hans og mætti,... (1:8-9)

Þetta er ekki guð sem finnst hræðilegt að beita ofbeldi og elskar alla menn út í eitt. Prestar geta auðvitað líka afskrifað Nýja testamentið, eins og þeir afskrifa það Gamla. Þeir geta sagst trúa á Jesú en ekki Nýja testamentið.

Jesú var ekki krútt

Þetta svar dugar ekki því Jesús guðspjallanna talar líka um heimsendi og helvíti, og ef eitthvað, þá talar hann meira um það en Páll. Er virkilega hægt að samræma þessar lýsingar Jesú á heimsendi við krúttguð?

Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja,og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13:40-42)

Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13:49-50)

Svipaðan boðskap er að finna í mörgum, ef ekki flestum, af dæmisögum Jesú. Hann líkir refsingu guðs á dómsdegi við konung sem lætur pynta mann sem skuldar honum pening, við þrælaeiganda sem ber þræl sinn og við konung sem lætur drepa fólk sem vildi hann ekki sem konung.

Sá guð sem Jesú guðspjallanna boðar er guð sem ætlaði að koma innan skamms til þess að henda fólki í eilífan eld í eldsofni. Sá guð er klárlega til í að beita fólki ofbeldi og ég á erfitt með að sjá hvenig það samræmist elsku að henda fólki í eldsofn.

Prestar geta sagt að guðspjöllin séu ranglega að eigna Jesú allt talið um heimsendi og helvíti. Það getur vel verið rétt, en ef guðspjöllin eru svona óáreiðanleg, þá getum við gefist upp á því að reyna að komast að nokkrum sköpuðum hlut um boðskap Jesú.

Guð játninganna er ekki krútt

Þegar prestar eru vígðir þá heita þeir því að boðun þeirra muni verða í samræmi við játningar kirkjunnar [3]. Í játningunum er talað um helvíti og heimsendi.

Í Aþaníusarjátningunni er sagt að sumt fólk muni enda í “eilífum eldi” # og í höfuðjátningu Þjóðkirkjunnar er þessa efnisgrein að finna:

Kristur mun birtast við endi heims til að dæma og mun hann uppvekja alla dauða. Guðhræddum mönnum og útvöldum mun hann gefa eilíft líf og eilífan fögnuð. Guðlausa menn og djöflana mun hann fordæma, að þeir kveljist eilíflega.#

Til þess að vera samkvæmir sjálfum sér þurfa ríkiskirkjuprestar sem boða krúttguð því líka að brjóta vígsluheiti sitt og afneita játningum kirkjunnar sinnar.

Guð náttúrunnar er ekki krútt

Ef prestarnir eru að segja satt í hvert einasta skipti sem þeir fara með postullegu trúarjátninguna (þar er talað um “guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar”), þá ættu þeir að hætta að boða að guðinn þeirra sé krútt, af því að hann væri það augljóslega ekki.

Ef almáttugur guð skapaði alheiminn þá skapaði hann alla þá sýkla sem hafa kvalið og drepið mannkynið frá upphafi. Malaríusnýkjudýrið sem drepur árlega milljón manns, aðallega börn, og bólusóttarveiran sem drap hundurðir milljónir á 20. öldinni eru þá bæði sköpun guðs. Guðinn þeirra ákvað þá líka að skapa heim með jarðskjálftum, flóðbylgjum, eldgosum og skýstrókum.

Guð sem skapaði sýkla og náttúruhamfarir er augljóslega ekki á nokkurn hátt illa við ofbeldi og elskar ekki óendanlega mikið fólkið sem hún kvelur og drepur með þessum sköpunum sínum.

Skuggahlið krúttguðfræðinnar

Loks er þessi guð oft beinlínis óhugnalegur. Hann er kannski ekki jafn óhugnalegur og guð sem hendir fólk í eldsofn eða drekkir heiminum, en þegar prestar reyna að samræma krúttguðinn sinn við það sem ég hef bent á í þessari grein, þá verður niðurstaðan oft enn óhugnalegri guð.

Eitt dæmi um slíkt er þegar prestarnir reyna að samræma krúttguðinn og grimmdarverk Jahve í Gamla testamentinu. Þannig talar ríkiskirkjupresturinn Gunnar Jóhannesson um að Nóflóðið og gereyðing Sódómu og Gómorru hafi verið gerð “með kærleikann að vopni og leiðarljósi#. Annar ríkiskirkjuprestur, Bjarni Karlsson, segir að guð geri það “glappaskot í ástarangist sinni yfir sundrungu mannanna að hún drekkir öllu lífi í flóði,...”# .

Annað dæmi um slíkt er þegar prestarnir reyna að samræma krúttguðinn sinn við grimmdarverk náttúrunnar. Ríkiskirkjupresturinn Sigurður Árni Þórðarson talar um að guðinn hans “skelfist með hlaupandi fólki á ströndinni, líður þegar það sogast niður eins og kaffikorgur í flóðasvelgjum, grætur yfir börnum og fullorðnum sem kremjast og drukkna og kallar á hjálp með þeim sem æpa.”# Það er eitthvað mjög óhugnalegt við guð sem grætur yfir barni sem kremst og drukknar í flóðbylgju (sem guðinn ákvað jú að væri hluti af náttúrunni) og gerir ekki neitt í því.

Endalok krúttguðsins

Ef prestarnir sem boða krúttguð vilja vera samkvæmir sjálfum sér, þá þurfa þeir því að afneita Gamla testamentinu, Nýja testamentinu, Jesú, játningum kirkjunnar (og brjóta þar með vígsluheiti sitt) og loks því að guð sé almáttugur skapara heimsins.

Ef þið viljið ekki gera það, kæru prestar, vinsamlegast hættiði þá að boða tilvist krúttguðs.


[1] Hér eru nokkur dæmi:

“Guð elskar alla jafnt, elskar alla sköpun sína og öll börn sín, hvernig sem þau eru, lifa eða hugsa.”#

“Guð elskar okkur og hefur alltaf gert og mun aldrei hætta því.”#

“Og það sem er næstum meira óþolandi en að ég njóti náðar og elsku Guðs, er sú staðreynd að allt mannkyn er líka elskað skilyrðislaust af Guði.”#

“Guð skelfist með hlaupandi fólki á ströndinni, líður þegar það sogast niður eins og kaffikorgur í flóðasvelgjum, grætur yfir börnum og fullorðnum sem kremjast og drukkna og kallar á hjálp með þeim sem æpa.”#

“Manneskjan, hvar sem hún er fædd, hver sem litarháttur hennar er, stjórnmálaleg eða trúarleg afstaða hennar er, er gerð í Guðs mynd, Guð elskar hana og Jesú hvetur hana til samfylgdar við sig í uppbyggingu á samfélagi jafnræðis og samstöðu.”#

“Guð er góður og Hann fer ekki í manngreinarálit. Guð elskar alla jafnt og elskar þig í þeim aðstæðum sem þú ert stödd/staddur.”#

[2] Í Postulasögunni drepur guð hjón fyrir að reyna að skjóta undan kirkjuskatti (P 5:1-10) og engill guðs drap annan mann af því að hann “gaf ekki guði dýrðina.” (P 12:21-23).

[3] "Nú brýni ég alvarlega fyrir þér: að prédika Guðs orð greint og ómengað, eins og það er að finna í hinum spámannlegu og postullegu ritum og samkvæmt vitnisburði vorrar evagelísk-lúthersku kirkju í játningum hennar." Handbók íslensku kirkjunnar. 1981. bls 188-189

Mynd fengin hjá meliha tunckanat

Hjalti Rúnar Ómarsson 27.08.2013
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Klassík )

Viðbrögð


Jón Valur Jensson - 28/08/13 23:07 #

Sentímentalismi hefur gripið um sig í Þjóðkirkjunni.

Þannig fer stundum, þegar menn týna grunninum að traustri kenningu kirkjunnar og reyna að fylla upp í innantóma myndina með eigin viðkvæmni og vælugangi.

Kristur boðar allt annað en allsherjarmildi við alla. Lesið bara 25. kafla Mattheusarguðspjalls, vs. 31-46, eða Lúk.17.29-30.

Sentímentalistarnir geta ómögulega samþykkt dóm Guðs, eins og hann birtist í orðum Jesú og víða í Nýja testamentinu.

En það er talsverður sentímentalisti í þér sjálfum, Hjalti minn Rúnar, ekki satt?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 29/08/13 10:41 #

En það er talsverður sentímentalisti í þér sjálfum, Hjalti minn Rúnar, ekki satt?

Nei, bara "köld rökhyggja". :l


Jón Valur Jensson - 29/08/13 11:43 #

Já, þú vilt meina það! :)

En á annarri vefslóð hér (Flóðbylgja) hef ég svarað ýmsu af rökum þínum um nauðsyn þess, að Guð grípi alltaf inn í með kraftaverkum, ef hann eigi að geta talizt góður. Gættu þess, að gæzka hans birtist líka í því að gefa okkur skynsemi til að bæta heiminn – t.d. með læknisfræðinni, en það hefði verið óvinnandi vegur, ef lögmál orsaka og afleiðinga hefði verið tekið sífelldlega úr sambandi til að koma í veg fyrir eðlilegar afleiðingar ótalmargs sem að öllu eðlilegu myndi enda í stórslysi eða dauða.

Þið hér ætlizt í raun til þess (af þeim, sem trúa á kærleiksfullan, almáttugan Guð), að Guði sjái til þess, að enginn drepist úr elli eða sjúkdómum. Áttarðu þig á þeirri heimsmynd, sem af því myndi leiða? Hver ætti að gefa öllum þeim fjölda mat? Guð með endalausum kraftaverkum? Og alltaf yrði Hjalti Rúnar meira og meira hissa, en fengi aldrei skilning á neinu. :)


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 29/08/13 11:58 #

Jón Valur, ef þú vilt halda áfram að umræðunum við "Flóðbylgju", þá skaltu gera það þar, frekar en að svara því hér. :l


Jón Valur Jensson - 29/08/13 18:51 #

Allt í lagi með það, en þú ert nú einu sinni með einn kafla hér sem nefnist Guð náttúrunnar er ekki krútt, þar sem þú segir m.a.: "Guðinn þeirra ákvað þá líka að skapa heim með jarðskjálftum, flóðbylgjum, eldgosum og skýstrókum."

Þð væri annars fróðlegt að sjá, hvað náttúruvísindamenn segðu um þá hugmynd þína, jörð, sem snýst og er með vindakerfi og misheitar árstíðir og orsakalögmálið almennt í sambandi, gæti verið fellibylja- og fljóðbylgju-laus. Fleira mætti bæta hér við, en þetta nægir.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 30/08/13 11:01 #

Jón Valur, þeir segðu líklega að það hefði verið lítið mál fyrir almáttugan guð að skapa jörð án náttúruhamfara.


Jón Valur Jensson - 31/08/13 01:50 #

Já, vera má, að einhverjir þeirra segðu það, en þeir yrðu líklega fljótir að bæta við, að samhliða fullri virkni lögmáls orsaka og afleiðinga hefði þetta almætti Guðs ekki náð að koma í veg fyrir náttúruhamfarir á jörðinni, sér í lagi ef hún væri með þann reglubundna snúning sinn, vindakerfi og misheitar árstíðir, sem ég drap á hér ofar.


Sigurjon - 31/08/13 13:41 #

Þetta er undarleg hundalógík í þér, Jón Valur. Guð sem er almáttugur hlýtur að hafa getað fundið upp öðruvísi orsakalögmál, einhver sem ekki fela í sér náttúruhamfarir.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 31/08/13 14:11 #

Sigurjón, almáttugur guð getur bara ekki búið til stað handa okkur án náttúruhamfara....það er of erfitt!


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 31/08/13 23:07 #

Já, er þetta ekki tímamóta játning?

Guðinn er háður og takmarkaður af einhverjum náttúrulögmálum.. sem þá einhver annar hefur "skapað" - eða hafa bara alls ekkert verið "sköpuð" - og þá getur guðinn ekki mögulega verið skapari heimsins.

Ég hélt að ég ætti ekki eftir að verða sammála JVJ um svona grundvallaratriði, þeas. að guðinn hans hafi ekki skapa veröldina.

En gott að búið er að afgreiða amk. eitt ágreiningsatriði...

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.