Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að vera eða ekki vera ríkiskirkja

Ríki og kirkja

Ýmsir halda fram að ríki og kirkja séu þegar aðskilin [1]. Annað hugtak sem er notað er aðgreining ríkis og kirkju, samanber greinar Hjalta Hugasonar þar sem hann ritar að „allt frá setningu stjórnarskrár 1874 hefur aðgreining kirkju og ríkis staðið yfir og frá 1998 má segja að þessar tvær stofnanir séu að fullu aðgreindar stofnunarlega séð“.

Samningur ríkis og kirkju 1997

Ekki má gleyma að margt starfsfólk Þjóðkirkjunnar hamrar á því að hún sé ekki ríkiskirkja [2]. En á sama tíma og aðgreining eða aðskilnaður eigi að vera í gildi þá er ríkiskirkjan að krefjast þess að sóknargjöldin verði ekki skorin niður.

Hjalti Hugason er þó ekki sammála um aðskilnaðarhlutann svo því sé haldið til haga, en tilgreinir þó að þessar stofnanir séu að fullu aðgreindar. Þá er aðallega vísað til jarðasamningsins sem gerður var 10. janúar 1997.

Þessi samningur innihélt mörg samningsatriði og skyldur af hálfu ríkisins sem engin fordæmi voru fyrir í íslenskri sögu, meðal annars að samningsgreiðslur réðust af trúfélagsskráningu almennings. Þaðan er núverandi sóknargjaldafyrirkomulag komið. Áður fyrr sá hvert trúfélag fyrir sig um að innheimta þau. Meðan þessi samningur er í gildi getur ekki verið aðskilnaður eða aðgreining á milli ríkis og kirkju.

Þá er áhugavert að líta á önnur lagaákvæði sem styðja þá tilgátu að þrátt fyrir orð ýmsra aðila um annað, þá er ekki til staðar fullur aðskilnaður eða aðgreining milli ríkis og kirkju að lagalegu leiti.

Lagasafnið

Fyrst er ferðinni heitið í lagasafn Alþingis, en þar er að finna lista yfir þau lög sem snúa beint að trú. Í 20. kafla, sem ber titilinn „Trúfélög og kirkjumál“, er að finna ýmis lög sem snúa beint að trúmálum.

Þar er að finna 34 lög og flest þeirra eru samin með ríkiskirkjuna í huga. Enda var hún eina trúfélagið sem var löglegt hér á landi þegar sum þeirra voru samin. Séu mörg þessara laga skoðuð er greinilegt að verið er að tilgreina nákvæmlega hvernig Þjóðkirkjan á að starfa.

Lagaleg afskipti ríkisins

Allar lagasetningar fela í sér einhver afskipti af þeim sem lögin snúast um, enda væru lög gagnslaus ef þau hefðu engin áhrif. Núverandi biskup Íslands hefur nefnt það að ríkið sé ekki að vasast í smáatriðum hvað varðar Þjóðkirkjuna enda væri það einkenni ríkiskirkju[3].

Þrátt fyrir að til eru gildandi lagaákvæði um að kirkjuhurðir eigi að opnast út eða - ef við tökum aðeins nýrra dæmi - lög um hvernig reka eiga bókasöfn prestakalla (og þá er ekki verið að ræða um almenningsbókasöfn).

Miðað við það afskiptaleysi sem á að vera við lýði eru til mörg lög sem kveða á um hvernig Þjóðkirkjan skuli haga fermingum, atburð sem veitir engin lagaleg réttindi eða skyldur né önnur áhrif á stöðu einstaklings að lögum.

Þá nefndi biskup á fundi Stjórnarskrárfélagsins 10. október 2012 að ríkiskirkjutímabilinu hafi lokið árið 1874 [3]. Ef við kíkjum á 20. kafla lagasafnsins voru 16 af 34 lögunum þar samin fyrir 1874 sem þýðir að rétt undir helmingur laga, sett á tíma ríkisafskipta, eru enn í gildi að einhverju leiti.

Hvorki Alþingi né Þjóðkirkjan hafa séð ástæðu til þess að mæla með því að lagaákvæðin skuli vera afnumið, ekki einu sinni í þeim tilgangi að auka sjálfstæði kirkjunnar.

Lagaleg afskipti ríkiskirkjunnar

Það er ekki nóg að ríkið eigi ekki að skipta sér lagalega af Þjóðkirkjunni, heldur þarf lagalega afskiptaleysið að gilda líka í hina áttina. Þar er líka nóg að finna. Til dæmis eru í gildi lög nr. 11/1982 sem ber titilinn „Lög um samstarfsnefnd Alþingis og [Þ]jóðkirkjunnar“ sem hefur þann tilgang að „vinna að auknum skilningi í löggjafarstarfi á vandamálum og verkefnum kirkjunnar“.

Þess ber að geta að engin önnur lög kveða á um slíkar nefndir milli Alþingis og annarra aðila. Þessi lög er að finna í lagakafla 4b sem ber titilinn „Alþingi og lagasetning“ en ekki undir kaflanum um trúfélög og kirkjumál. Þjóðkirkjan hefur því sérstöðu gagnvart Alþingi líka.

Í jarðasamningnum var tekið fram að ríkið skuldbatt sig til að setja ákveðin lög, sem urðu að lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Í þeim eru tvö ákvæði sem voru tilraunir kirkjunnar til þess að hafa áhrif á lagasetningu um sjálfa sig, svo sjálfstæð var hún frá ríkinu.

Í þeim er kveðið á um að „kirkjuþing [geti] haft frumkvæði að frumvörpum til laga um kirkjuleg málefni og beint þeim tilmælum til ráðherra að þau verði flutt á Alþingi“.

Þó kirkjuþing hafi ekkert nauðungarvald yfir ráðherra í þeim efnum er samt varasamt að halda uppi slíkum ákvæðum. Þessi regla brýtur í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrár með því að veita einu trúfélagi sérstök völd til þess að beina tilmælum að ráðherra.

Í sömu lagagrein er getið þess að „[r]áðherra [eigi að leita] umsagnar og tillagna kirkjuþings um lagafrumvörp um kirkjuleg málefni er hann hyggst flytja á Alþingi“. Þetta ákvæði er samt ekkert skraut, enda hefur biskupsstofa skammað ráðherra í umsögn um frumvarp fyrir að hafa ekki farið eftir þessu ákvæði og segir þar að „...af þeirri ástæðu getur það vart hlotið frekari umfjöllun Alþingis fyrr en úr því hefur verið bætt“.

Umsagnaraðilinn tók síðan sérstaklega fram á öðrum umsögnum um „kirkjuleg málefni“ á sama löggjafarþingi að Kirkjuþing hefði tekið málin til meðferðar sbr. 23. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Fyrir biskupsstofu var þetta svo sannarlega ekki dauður lagabókstafur.

Nokkur önnur lagaákvæði sem stjórnast af kristinni trú

Ekki má gleyma að Þjóðkirkjan hefur í gegnum tíðina haft áhrif á lagasetningu og jafnvel staðið í vegi fyrir endurbótum á mannréttindum. Dæmi um það er umsögn biskupsstofu við frumvarp um bætt réttindi samkynhneigðra þar sem Karl Sigurbjörnsson, þáverandi biskup, nefnir fyrir hönd biskupsstofu:

Telja verður augljóst að með þeirri breytingu sem boðuð er væri í raun búið að endurskilgreina hjónabandið, sem frá örófi alda og um allan heim hefur verið skilgreint sem sáttmáli karl og konu. Ég hef ekki farið dult með þá skoðun mína að hér verði að fara með gát.

Í lögum er ákveðinn pakki daga sem kallast helgidagar Þjóðkirkjunnar, eins og þeir eru skilgreindir í lögum um helgidagafrið. Í stað þess að hafa ákvæði um almennt ráðrúm almennings til að geta sofið í friði er kveðið á um helgidagafrið eingöngu til þess að vernda trúarlega atburði Þjóðkirkjunnar og til að tryggja að almenningur geti sótt þá úthvíldir.

Í lögunum er skilgreint að ákveðnar verslanir eigi að vera lokaðar á ákveðnum tíma og ákveðnir atburðir bannaðir, eins og til dæmis að spila bingó á föstudaginn langa. Ekki nóg með að Þjóðkirkjan vilji stjórna lagasetningu, heldur líka athafnafrelsi almennings.

Stjórnarskráin og dómur Hæstaréttar

Hornsteinn allrar þessara lagasetninga er að finna í 62. grein stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að ríkisvaldið skuli styðja ríkiskirkjuna og vernda hana að því leiti sem hún er „þjóðkirkja“. Þá er samt spurning hversu langt sá ríkisstuðningur og -vernd megi ganga, sérstaklega þegar jafnræðisregla stjórnarskrárinnar er höfð í huga.

Hæstiréttur hefur dæmt í máli þar sem Ásatrúarfélagið stefndi íslenska ríkinu fyrir aukagreiðslur sem Þjóðkirkjan fékk aukalega umfram önnur trúfélög. Íslenska ríkið var sýknað af þeirri kröfu vegna þess að Þjóðkirkjan ber skyldur gagnvart öllum almenningi:

Vegna þessara skyldna þjóðkirkjunnar í íslensku samfélagi og með vísan til 62. gr. stjórnarskrárinnar hefur löggjafinn ákveðið framlög til þjóðkirkjunnar úr ríkissjóði umfram önnur trúfélög, þar á meðal í lögum nr. 91/1987 og 138/1993, sem áfrýjandi reisir mál sitt á. Þegar af þeirri ástæðu að verkefni áfrýjanda og skyldur gagnvart samfélaginu verða ekki borin saman við lögboðin verkefni og skyldur þjóðkirkjunnar felst ekki mismunun í þessu mati löggjafans og þar af leiðandi ekkert brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Dómurinn er því fyrst og fremst byggður á því að Þjóðkirkjunni eru settar sérstakar lagalegar skyldur umfram önnur skráð trúfélög og í öðru lagi vegna tilveru 62. greinar stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er um vernd og stuðning ríkisins við Þjóðkirkjuna.

Ef grein stjórnlagaráðs um kirkjuskipan ríkisins verður samþykkt óbreytt yrði það andstætt jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að kveða á um ríkiskirkjuskipan þar sem eitt trúfélag hefði slíka forréttindastöðu. Lagalegur grundvöllur forréttinda Þjóðkirkjunnar yrði mikið veikari ef sama eða samskonar mál kæmi aftur á borð dómstóla í kjölfarið.

Lagalegur aðskilnaður ríkis og kirkju

Þrátt fyrir fögur fyrirheit um sjálfstæði Þjóðkirkjunnar af hálfu starfsmanna biskupsstofu og fulltrúa hennar í sóknum landsins er langt í frá kominn lagalegur aðskilnaður eða aðgreining á þessum tveim aðilum, enda segir lagasafnið allt annað.

Vilji Þjóðkirkjan í raun og veru vera sjálfstæð ætti hún að krefjast þess af fullum þunga að láta afnema öll sérlög sem tengjast sér sjálfri eða athöfnum innan hennar og einfaldlega krefjast þess að hafa eingöngu sömu skyldur og réttindi og önnur félög sem láta trú og lífsskoðun sig varða.

En með öll þessi forréttindi - eins og að ríkið greiði laun langflestra starfsmanna Þjóðkirkjunnar og sérstök völd og áheyrn gagnvart ráðherra - er hún ekkert að krefjast sjálfstæðis né réttlætis handa öllum öðrum.


[1] . „Lögformlegt samband ríkis og kirkju birtist í samningum, sáttmálum og löggjöf eins og við svo marga aðila samfélagsins, enda er þjóðkirkjan sjálfstætt trúfélag, aðskilið frá ríkisvaldinu.“ - Agnes M. Sigurðardóttur, biskup Íslands.

[2] „Ég er ósammála Þór Saari sem klifaði á orðinu ríkiskirkja. Þjóðkirkjan er ekki ríkiskirkja eins og Ögmundur rakti reyndar ágætlega í upphafi. Hún er sjálfstæð þjóðkirkja með stjórn innri mála sinna.“ - Árni Svanur Daníelsson

[3] . „Ríkiskirkja aftur á móti lýtur valdi að ofan, frá ríkisstjórn og ráðuneyti, og er kostuð af ríki og sveitarfélögum. Þar geta stjórnvöld hlutast til um innra starf sem ytra, allt niður í að ákveða hvort kirkjan gefi út nýja biblíuþýðingu eða nýja sálmabók. Ríkiskirkjutímabilinu á Íslandi lauk árið 1874 með stjórnarskránni sem þá var samþykkt.“ - Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, í umræðum um stjórnarskránna í Iðnó (frá 4:20).

Svavar Kjarrval 15.11.2012
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Þorsteinn - 16/11/12 17:50 #

"Þrátt fyrir að til eru gildandi lagaákvæði um að kirkjuhurðir eigi að opnast út"

Í annars fínni grein ...

Það finnast alls konar reglugerðir (altsvo, ekki lög, beinlínis, en samt sem áður frá ríkinu komið) um hvernig íbúðarhúsnæði skuli vera. Inngangur að salerni, stærð eldhúss, stærð herbergja, lofthæð ... allt í allt, býsna nákvæmar reglur um hvernig íbúðir mega og mega ekki vera. En hey - ég vona að enginn myndi nota þessar reglugerðir til að segja að íbúðir séu ríkisreknar.

Í annars fínni grein myndi ég taka út akkúrat og einungis þessa setningur, því hún er alveg óþörf og styrkir málið alls ekki neitt.


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 16/11/12 18:05 #

Reglugerðir verða að hafa stoð í lögum og einnig þarf að íhuga að hér er um að ræða sérstakan konungsúrskurð sem snýr eingöngu að kirkjuhurðum og ekkert annað. Þetta væri annað mál ef úrskurðurinn hefði verið almenns eðlis og gilt um öll hús.


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 16/11/12 18:21 #

Þetta var ekki hugsað eitt og sér að sanna að um ríkiskirkju væri að ræða, enda er það augljóst að þegar úrskurðurinn var gefinn út að Þjóðkirkjan var ríkisskirkja. Þessi úrskurður, sem hefur lagagildi, hefur ekki verið afnuminn, þrátt fyrir að Þjóðkirkjan eigi löngu að vera hætt að vera ríkiskirkja. Þetta einstaka atriði ásamt öðrum sem nefnd voru, eiga saman að sýna fram á að einkenni ríkiskirkju eru enn til staðar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.