Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Passíusálmarnir, gyðingahatur, þingmenn og RÚV

Hér á Vantrú höfum við oft bent á gyðingahatrið í Passíusálmunum. Við höfum einnig hvatt til þess að flutningi þeirra á RÚV yrði hætt. Það sæmir ekki siðmenntaðri þjóð að útvarpa gyðingahatri. Sérstaklega í ljósi þeirrar löngu sögu ofsókna sem gyðingar hafa þurft að sæta í Evrópu af hendi kristinna manna. Ekki skánar það þegar þingmenn lesa upp Passíusálma á hverju ári. Hvaða skilaboð eru þau að senda?

Þessi mál eru sérstaklega áhugaverð í ljós umræðunnar sem hefur orðið um Snorra í Betel og ummæli hans um samkynhneigða. Það sem Hallgrímur Pétursson hefur að segja um gyðinga er síst skárra en það sem Snorri í Betel hefur að segja um samkynhneigða. Munurinn felst í því að hér er ríkisstofnun (eða opinbert hlutafélag) að breiða út boðskapinn. Af hverju er Ríkisútvarpið að láta þennan hatursboðskap á stall? Það er ekki hægt að segja að Passíusálmarnir séu afurð síns tíma og láta eins og það afsaki þessa notkun þeirra í samtímanum.

Greinar um Passíusálmana á Vantrú:
Passíusálmarnir eru þjóðarskömm I
Passíusálmarnir eru þjóðarskömm II
Passíusálmarnir eru þjóðarskömm III
Úr jarðvegi haturs
Enn eru Passíusálmarnir þjóðarskömm
60 Ár frá lokun Auschwitz og þá hefst lestur Passíusálma á RÚV
Þingmenn lesa Passíusálma
Passíusálmarnir eru enn þjóðarskömm

Ritstjórn 24.02.2012
Flokkað undir: ( Hallgrímur Pétursson , Kristindómurinn , Passíusálmarnir , Vísun )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/02/12 14:22 #

Svo ég svari fyrir sjálfan mig. Nei, ég vil ekki banna Passíusálmana. Ég vil ekki ritskoða þá heldur. Ég vil að fólk sleppi því að hampa verkinu, upphefja það, láta þingmenn lesa það, útvarpa á hverju einasta ári.

Annars er áhugavert að sumir sem taka undir gagnrýni sem kemur að utan hafa aldrei tekið mark á sömu gagnrýni þegar hún kemur frá Vantrú.


Pétur - 24/02/12 14:32 #

Passíusálmarnir eru "listaverk" sem samdir voru fyrir mörghundruð árum. Á að banna flutning á þeim af því að einhverjar terpur nú til dags telja boðskapinn ekki PC?

Eitthvað verður það nú lítið sem eftir mun standa af "heimsbókmenntunum" ef við þurfum að fara að ritskoða hlutina svo þeir standist tíðarandann.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/02/12 14:57 #

Er ekki til millivegur milli ritskoðunar og upphafningar?


Pétur - 24/02/12 15:15 #

Einhver bókmenntaverk verðum við nú að flytja í útvarpinu, mér finnst passíusálmarnir vera ansi magnað kver. Svona að sama skapi og mér finnst bíblían vera áhugaverð frá bókmenntalegu sjónarhorni, án þess að taka undir hommahatrið í henni. Flestir ættu að geta notið sálmana án þess að froðufella af bræði yfir gyðingahatrinu svona eins og margt fólk les bíblíuna án þess að froðufella yfir sumu ruglinu sem þar stendur.

Gyðingahatur er lítið vandamál á Íslandi þar sem gyðingar hafa ekki verið fjölmennir hér. Það er ekki eins og það sé hætta á að fólk fari út og drepi gyðinga undir áhrifum frá sálmunum.

Úlvaldi úr mýflugu!


Tjörvi - 24/02/12 17:35 #

Mér finnst satt að segja hálf-kjánalegt að vera að troða nútíma-siðferðisviðhorfum ofan á kristinn ljóðaflokk sem var skrifaður á 17. öld. Það má gagnrýna margt svipað hjá næstum því öllum bókmenntum sem hafa verið skrifaðar á öðrum tímum þegar siðferðisviðhorf voru öðruvísi og trú almennt róttækari. Ég sé ekki fyrir mér að Passíusálmarnir séu að ýta undir gyðingahatur og tel alls ekkert hættulegt að flytja þá í útvarpi.


Tinna Gígja (meðlimur í Vantrú) - 24/02/12 18:35 #

Ég hef aldrei skilið hvað fólki þykir svona merkilegt við Passíusálmana. Það er ekki eins og þeir séu neitt sérlega vel ortir, svona fyrir utan innihaldið; "Pílatus Júðum sagði svo: Sjáið nú glöggt um kosti tvo: Eg býð hér Jesúm yður fram eða morðingjann Barrabam. - Hann meinti yrði helst með því herrann frá dauða gefinn frí."

Ljótur boskapur í ljótum umbúðum.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 24/02/12 19:26 #

Þetta er kannski gott dæmi um ruglinginn sem öll umræða lendir í þessa dagana.

Á nokkrum vígstöðvum, þar sem ég hef lýst þeirri skoðun að þetta efni eigi ekkert erindi í ríkisrekinn fjölmiðil, hvað þá sem árlegur viðburður.

Og svörin ganga öll út á að ég vilji banna eitthvað, ritskoða og takmarka málfrelsi.

Annars er þetta óttalega hrákasmíð, formið, uppbyggingin og innihaldið er ekki boðlegt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/02/12 00:05 #

Sendum ríkisútvarpið í sex mánaða launað frí.


Daníel Freyr Jónsson (meðlimur í Vantrú) - 25/02/12 17:03 #

Pétur:

"Á að banna flutning á þeim af því að einhverjar terpur nú til dags telja boðskapinn ekki PC?"

Nei, það á ekki að banna neinum eitt eða neitt. Það er stór munur á því að finnast eitthvað óviðeigandi og ljótt og því að vilja banna það.

"Einhver bókmenntaverk verðum við nú að flytja í útvarpinu,"

Það er til nóg af bókmenntaverkum sem eru hvorki uppfull af gyðingahatri eða hommaandúð sem má flytja í útvarpinu.

Tjörvi:

"Mér finnst satt að segja hálf-kjánalegt að vera að troða nútíma-siðferðisviðhorfum ofan á kristinn ljóðaflokk sem var skrifaður á 17. öld."

Enda er enginn af því. Hins vegar er verið að segja að siðferðisviðhorfum 17. aldar eigi kannski ekki endilega að troða ofan í nútímafólk, nema þá til skoðunar í háskólanámi.

"og tel alls ekkert hættulegt að flytja þá í útvarpi."

Nei, líklega er það ekkert hættulegt og að því er ég held var enginn að halda því fram. Það er hins vegar ljótt, ónauðsynlegt, siðlaust og heimskulegt.


Tjörvi - 25/02/12 21:31 #

Daníel Freyr:

Hér tel ég upp nokkrar heimsbókmenntir sem líkt og Passíusálmarnir, bera vott af fordómum gagnvart gyðingum. Þ.e.a.s. fordómum sem voru einkennandi fyrir þann tíðaranda er var ríkjandi þegar verkin voru skrifuð. (nokkur af þessum tel ég t.d. sýna töluvert grófari gyðingahatur en kemur fram í Passíusálmnunum).

-Oliver Twist eftir Charles Dickens (19. öld)

-The Merchant of Venice eftir Shakespeare (16. öld)

-ýmis önnur verk eftir heimsþekkta höfunda á borð við Virginia Woolf, T. S. Eliot, James Joyce og fleiri.

Myndir þú líka telja flutning í útvarpi á einhverjum af þessum verkum ljótan, ónauðsynlegan, siðlausan og heimskulegan?


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 25/02/12 21:33 #

Til að taka af öll tvímæli þá vill ég láta banna Passíusálmana. Og ekki bara það, ég vil taka alla þá sem hafa tekið þátt í flutningi þeirra af lífi.

Nema Megas, hann er ágætur.

Mikið ofboðslega er það hvimleitt hvað fólk er fljótt að fara að röfla um ritskoðun og bannhyggju þegar einhver vogar sér að hafa skoðun á hlutunum.


Pétur - 26/02/12 14:16 #

Það er enginn að segja að þið séuð að biðja um formlega "ritskoðun" eða að banna eitthvað með lögum.

En svo að ég vitni í ykkar eigin grein (http://www.vantru.is/2004/03/01/00.01/)

"Ég skora á Ríkisútvarpið að hætta þessum ógeðfellda upplestri á kenningum um "vondu Júðanna" þeirra Hallgríms, Lúters og Hitlers. Aldrei ættu þessir sálmar að sjást í skólum landsins né á opinberum stöðum."

Svo að ég endurtaki (og endurorði aðeins) upphaflegu spurningu mína: Þið viljið semsagt að hætt verði að flytja og kenna passíusálmana vegna þess að þeir boða m.a. gyðingarhatur (ie eru ekki samboðnir tíðarandanum)?

PS: þið stingið þá kannski uppá einhverju þeirra í stað í leiðinni?


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 26/02/12 18:30 #

Pétur, það þarf ekkert að koma í stað þeirra í opinberu rými. Engin ástæða til að hafa þennan viðbjóð á fremsta bekk, ekki frekar en fræði Lúters eða Hitlers um gyðinga.


Imbul - 28/02/12 14:57 #

Ströng og öfgasinnuð vantrú kemur hér berlega í ljós


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 28/02/12 16:11 #

Ef það eru öfgar að mæra ekki kristilegt gyðingahatur, sem hefur haft skelfilegar afleiðingar um aldir í Evrópu, þá eru það góðir öfgar. En hins vegar held ég að sú skoðun að vera sama, sýna vanvirðingu og skeitingarleysi gagnvart kristilegu gyðingahatri bera merki trúarlegrar siðblindu.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?