Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þingmenn lesa Passíusálma

Hallgrímur Pétursson
Hallgrímur Pétursson

Nokkuð hefur verið rætt um lestur þingmanna á Passíusálmunum. Sitt sýnist hverjum. Þetta er fyrst og fremst einkenni á stærra vandamáli sem er sambúð ríkis og kirkju. Í mínum huga er það prinsippatriði að trú og stjórnmál séu aðskilin. Það er engan vegin eðlilegt að sem þingmenn taki þessir kjörnu fulltrúar þátt í trúarathöfnum.

Nú má ekki misskilja mig. Mér er sama um trúarskoðanir þingmanna en viðhorf þeirra til aðskilnaðar ríkis og kirkju og mannréttinda skiptir mig miklu. Ég vil frekar sanntrúaðan hvítasunnumann sem blandar ekki saman stjórnmálum og trú á þing heldur en trúleysingja sem liggur flatur fyrir kirkjunni í vinsældarleit. Á sama hátt er ég alveg sáttur við að þeir sem fóru reglulega í kirkju áður en þeir fóru í stjórnmál haldi því áfram en ekki að menn byrji að ástunda slíkt af því að þeir telja slíkt hluta af stjórnmálastarfi sínu.

Nú gæti verið að einhverjir þeirra þingmanna sem eru nú að lesa Passíusálma þiggi öll álíka boð. Þeir taka þá væntanlega þátt í athöfnum hvítasunnumanna, múslima og húmanista ef þeir fá tækifæri til. Slíkt má í raun telja nokkuð eðlilegt. Það að gera upp á milli trúarskoðana er óeðlilegt.

En það kemur meira til. Passíusálmarnir sjálfir eru full vafasamir fyrir minn smekk. Sjálfur er ég veikur fyrir trúarkveðskap ef hann stenst fagurfræðilegt mat (og trúarþvaðrið skyggir ekki á það). Þeir sem þekkja til vita að Lúther var hatrammur andstæðingur gyðinga og Hallgrímur Pétursson hefur þessa guðfræði alla á hreinu. Í sálmunum talað á andstyggilegan hátt um gyðinga og eðli þeirra. Blóð Jesú er á þeirra höndum.

Þessi trúarkenning var um aldir réttlæting fyrir gyðingaofsóknum í Evrópu og undirbjó jarðveginn fyrir Helförina. Þingmenn sem taka að sér að lesa Passíusálmana ættu kannski fyrst og fremst að velta fyrir sér boðskap þeirra og velta fyrir sér hvort þeir vilji raunverulega tengja sig honum.

Óli Gneisti Sóleyjarson 26.02.2009
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú , Hallgrímur Pétursson , Passíusálmarnir )

Viðbrögð


Helgi Þór - 26/02/09 10:35 #

http://www.hi.is/is/vidburdir/truarbragdafraedsla_i_skolakerfinu_timaskekkja_eda_naudsyn

Vildi benda ykkur á eftirfarandi viðburð (ef það væri ekki búið að því nú þegar) Skora á ykkur að mæta á þennan viðburð og taka þátt í gagnrýninni :)


Ásta Elínardóttir - 26/02/09 10:44 #

Ég vildi bara já-a þessa grein sterklega.


Jóhann - 26/02/09 23:32 #

Smekkur þinn er lítt áhugaverður.

Passíusálmarnir eru vitnisburður um menningu okkar.

Þetta er allt í einum graut hjá þér.

Ertu að fjalla um ofsóknir gyðinga?


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 27/02/09 00:19 #

Óli er að segja að Passíusálmarnir séu slæmur vitnisburður um menningu okkar, meðal annars vegna þess að þeir eru uppfullir af gyðingahatri.

Hvað er í einum graut?


Jóhann - 27/02/09 00:42 #

Þannig að þú hefur ekki minnstu hugmynd um fallvaltleika þess að túlka fyrri afrek mannsandans í ljósi samtímans?

Ég átti nú von á greindarlegri athugasemd frá þér Baldvin.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 27/02/09 00:52 #

Ha? Túlka í ljósi samtímans?

Er einhver ástæða til að hampa ljóðabálki sem er að stórum hluta gyðingahatursáróður, og ekkert sérlega vel ortur í þokkabót? Er gyðingahatur séra Hallgríms hluti sögu okkar sem vert er að hampa?

Ég get ekki séð að athugasemdir þínar séu sérlega greindarlegar heldur, þakka þér fyrir.


Jóhann - 27/02/09 01:00 #

Ef þú getur kveðið stuttan bálk um eina hugmynd þína, betur Hallgrímur, (og bara svo þú vitir það, þá var hann holdsveikur),þá leggst ég flatur fyrir fótum þér.

Amen


Jóhann - 27/02/09 01:03 #

...hér vantaði "en"


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 27/02/09 07:35 #

Hallgrímur var náttúrulega bara fáfróður Íslendingur sem vissi ekkert betur. Þeir sem þylja upp þetta í nútímanum eiga hins vegar að vita betur.


Kristján Hrannar Pálsson - 27/02/09 09:10 #

Sem einlægur áhugamaður um kveðskap verð ég að andmæla því að Passíusálmarnir séu illa ortir. Þeir eru oft á tíðum brilliant og ég les alltaf hluta þeirra um páskana. Þar sem stuðlar o.fl. virðast vera áherslulausir eða hnígandi er það einfaldlega vegna þess hvernig menn töluðu á þessum tíma og þótti ekkert ambögulegt við það.

Fyrir mér er gyðingahatrið í þeim jafn kjánalegt og meðferð svertingja í Tinnabókunum, og þegar erindi með gyðingahatrinu eru lesin hugsa allir "já svona var guðfræðin á dögum Hallgríms" fremur en "heyrðu það er rétt, þetta var allt júðunum að kenna!" Þeir sem þylja þetta upp í nútímanum vita betur, það er nú heila málið.


Haukur - 27/02/09 11:26 #

Þar sem stuðlar o.fl. virðast vera áherslulausir eða hnígandi er það einfaldlega vegna þess hvernig menn töluðu á þessum tíma og þótti ekkert ambögulegt við það.

Nei, svo sannarlega ekki. Þessi stirða kveðandi sem þú ert að tala um er einkenni Passíusálmanna en ekki dæmigerð fyrir mál eða kveðskap þessa tíma. Kristján Árnason skrifaði um þetta lærða grein.


Kristján Hrannar Pálsson - 27/02/09 11:41 #

Nú já, og ég sem hafði alltaf heyrt útskýringar á þessu í sambandi við málfarið. Verð að lesa þessa grein.


Árni Árnason - 27/02/09 12:13 #

Úr því minnst er á stirða kveðandi passíusálmanna sem gerðir hafa verið að ódauðlegu bómenntaverki, óverðskuldað að mínu viti, þá þarf nú ekki að renna yfir marga aðra sálma ( t.d. sitja undir eins og einni jarðarför ) til að sjá hvílíkan leiburð og ambögusmíði er um að ræða.

Engum manni liðist í veraldlegum kveðskap annar eins leirburður og hortittasafn í neinum öðrum kveðskap og er í mörgum sálmum. Meira að segja Bubbi Morteins yrði flautaður útaf, og er hann þó með þeim verri fyrir.


Haukur Þ. - 27/02/09 12:32 #

Það er þá líka rétt ég taki fram að í greininni sem ég vísaði til reynir Kristján Árnason að halda uppi vörnum fyrir óvenjulega stuðlasetningu og hrynjandi í Passíusálmunum og telur að þetta séu stílbrögð sem gera textann áhrifameiri. Sjálfur er ég ekki sannfærður en mér hefur líka löngum leiðst lútherskur trúarlegur kveðskapur.


Bjarki - 28/02/09 16:45 #

Alþingismenn eru ekki ríkið, þeir afsala sér ekki rétti til einkalífs við það að taka við þingmennsku. Það kemur auðvitað ekki til greina að bænir eða sálmar séu lesnir í ræðustól á Alþingi en hvað þetta fólk gerir þar fyrir utan er algjörlega á þeirra forræði.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 28/02/09 17:05 #

Algjörlega sammála þér. En málið er að þarna eru þeir einmitt ekki á eigin forsendum heldur á forsendum embættisins.

Eins og glögt sést á t.d. http://www.kirkjan.is/frett/2009/02/8721 þá eru þau þarna eingöngu vegan þess að þau eru ráðherrar/þingmenn. Þegar þau eru fengin til slíkra hluta vegna embættis síns þá er ekki hægt að tala um að þau séu þarna á eigin forsendum.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 28/02/09 17:06 #

Bjarki, hverju/m ertu að svara? Lastu yfirhöfuð greinina?


Arngrímur Vídalín - 01/03/09 20:08 #

Passíusálmarnir eru nú ekkert verr ortir en margt annað, til dæmis hélst þjóðskáldinu frá Fagraskógi oft illa á hrynjandinni. Á dauða mínum átti ég fyrr von en rökræðum um bragfræði á Vantrúarvefnum.

Enn verri sálmahöfunda má svo finna ef vel er leitað. Getraun dagsins, hver orti?

„Inn um þann himna glugg eg sé Guðs náðar innyfle“


Matti (meðlimur í Vantrú) - 03/03/09 10:12 #

Eiríkur Örn Norðdahl: Meira um Passíusálmana
Mér þykir á köflum áhugavert að sjá - þegar ég tek eftir því - hvernig ein skoðun getur leitt af sér aðra óskylda. Þannig virðast mér Vantrúarmenn á einu máli um það að fyrst Guð sé ekki til þá séu Passíusálmarnir óttalegur klámkveðskapur og beinlínis illa ortir. Þetta er auðvitað ósanngjörn útlegging en í áttina þó. Enn lengra mætti ganga og segja að Vantrúarmenn vilji ekki að þingmenn þjóðarinnar séu að lesa illa ort ljóð, ambögur jafnvel - að minnsta kosti ekki upphátt. En það er ennþá ósanngjarnara.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 03/03/09 10:53 #

Ha?


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 03/03/09 10:55 #

Ok, skil þetta betur eftir að hafa lesið samhengið.


Jóhann - 06/03/09 00:24 #

Hvað var það sem þú skildir eftir að hafa lesið samhengið, Baldvin?

Og hvaða furðulega innlegg er þetta hjá þér, Matti?

Eiríkur Örn Nordhal?

Þegar maður leitar eftir hugmynd hjá honum, þá er hvergi neitt að finna.

Hvað í þessum texta er markvert Matti?

Ertu bara uppnuminn af því að skáld bullaði?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/03/09 08:18 #

Eiríkur Örn var að tjá sig um þessa umræðu, ég taldi við hæfi að benda lesendum á hans innlegg.


Tinna (meðlimur í Vantrú) - 15/08/10 12:35 #

Enn verri sálmahöfunda má svo finna ef vel er leitað. Getraun dagsins, hver orti?

„Inn um þann himna glugg eg sé Guðs náðar innyfle“

Er of seint að biðja um svarið einu og hálfu ári eftir að spurningin var borin upp?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.