Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúboðið úr skólum borgarinnar

Gideon

Borgarráð og borgarstjórn Reykjarvíkurborgar hafa nú samþykkt reglur um samskipti trú- og lífsskoðunarfélaga við menntastofnanir borgarinnar(.pdf). Því ber að fagna. Nú hefur borgin svarað kalli starfshóps um þessi málefni sem skilaði af sér skýrslu árið 2007(.pdf).

Í niðurstöðum skýrslunnar sagði:

Það er samdóma álit starfshópsins að mikilvægt sé að móta starfsreglur um samstarf leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa. Skólastarf byggir á lögum og námskrám fyrir leik- og grunnskóla og á sama hátt byggir kirkjustarf sem og starfsemi annarra trúar og lífskoðunarhópa á þeim lögum sem þeim eru sett.

Fráleitur málflutningur trúboðssinna

Eins og bent var á í grein hér á Vantrú núna nýlega ríma niðurstöður skýrslunnar frá 2007 nokkuð vel við þær reglur sem nú hafa verið settar. Það er líka augljóst að þær fullyrðingar trúboðssinna að engin hafi kallað eftir leiðbeiningum um samskipti trúfélaga og menntastofnanna heldur sé um að ræða einhverskonar samsæri trúleysingja til þess að bola kristni úr opinberu rými eru fráleitar.

Þær lýsa annað hvort sterkum vilja til þess að blekkja eða þá mikilli vanþekkingu á málefninu sem um ræðir. Og reyndar hafa flestar yfirlýsingar trúboðssinna undanfarið verið þessu marki brenndar. Það er kannski ekki úr vegi að rifja upp hluta úr grein eftir undirritaðan sem birtist hér á Vantrú 31. ágúst síðastliðin um hvað felst í rauninni í þessum reglum:

Kennsla um trúarbrögð, þar sem kristni er eðlilega veitt langmest athygli, mun áfram fara fram. Börn munu áfram mega syngja í leik- og grunnskólum öll þau jólalög sem þeim dettur í hug og föndra allt það jóla- og páskaskraut sem hugurinn girnist. Litlu jólin verða áfram haldin með tilheyrandi jólaböllum og –sveinum. Skólar mega fara í heimsóknir í kirkjur og aðrar trúarlegar byggingar sem hluta af trúarbragðafræðslu.

Eina breytingin sem um ræðir er sú að trúarstarf og trúboð mun nú fara fram utan skólatíma. Börn munu áfram mega fara í Sunnudagaskóla og messur og þau fara í fermingarfræðslu með tilheyrandi ferðalögum, rútusöngvum og félagslífi. Æskulýðsstarf trúfélaga mun halda áfram hafi trúfélögin áhuga og bolmagn til. Gídeon má halda áfram að „ávinna menn og konur fyrir Drottinn Jesú Krist“ með því að dreifa litlu bláu bókinn og biðja með börnum.

Það eina sem þessar reglur hafa í för með sér er nú verða engar kennisetningar trú- og lífsskoðunarfélaga boðaðar í menntastofnunum og helgisiðir þeirra og bænir verða ekki hluti af skólastarfinu.

Skotgrafahernaður trúboðssinna

Það er engin að fara að banna trú eða trúarbrögð. Allur samanburður við sovésku ráðstjórnarríkin er fáránlegur og er í raun mjög upplýsandi um þá sem halda slíkum málflutningi á lofti. Nú mun ríkiskirkjan, sem hefur sótt það mjög stíft að fá að stunda starfsemi sína í leik- og grunnskólum, einfaldlega sitja við sama borð og önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Réttindi eru nefnilega ekki bundin við meiri- eða minnihluta, sama hversu heitt menn óska þess.

Ég tala um trúboð í menntastofnunum. Mér finnst það heiðarlegra heldur en að tala um samstarf og samvinnu. Það vill nefnilega bara svo til að Gídeonfélagið er ekkert nema trúboðafélag í eðli sínu. Tilgangur þeirra er einn; að ávinna menn og konur fyrir Drottinn Jesú Krist. Sífellt fleiri trúboðssinnar eru líka komnir út úr skápnum. Nú síðast í gær mátti lesa eftirfarandi á bloggsíðu Jóns Magnússonar, sem hefur farið mikinn í baráttu sinni gegn þessum reglum:

[...]mér finnst eðlilegt að trú sé boðuð í leik- og grunnskólum

Jón er í það minnsta heiðarlegur varðandi trúboðið, enda virðist hann ekki skilja af hverju það eigi ekki heima í leik- og grunnskólum. Sumir virðast hræddir við þetta orð, en styðja það samt að ein stærstu trúboðasamtök í heiminum fái að stunda starfsemi sína í yngri bekkjum grunnskóla.

En reglurnar hafa verið samþykktar. Nú er bara að bíða og sjá hvort að siðferði reykvískra skólabarna hnigni umtalsvert í kjölfarið. Einhvern vegin finnst mér það ólíklegt.

Egill Óskarsson 10.10.2011
Flokkað undir: ( Gídeon , Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Sigurlaug Hauksdóttir - 11/10/11 10:20 #

Þetta er náttúrulega mannréttindabrot sem veldur komandi kynslóðum óbætanlegum skaða!! Segir Sigurbjörn Þorkelsson í mbl í dag... http://www.dv.is/frettir/2011/10/11/eg-er-algjorlega-midur-min-segir-fyrrverandi-formadur-gideonfelagsins/


Kristján (meðlimur í Vantrú) - 12/10/11 04:30 #

,,Sigurbjörn segir að í Gídeonfélaginu starfi ÁHUGAFÓLK UM ÚTBREIÐSLU BIBLÍUNNAR. Með heimsóknum sínum í skólana hafi félagsmenn EKKI STUNDAÐ TRÚBOÐ, heldur gefið börnunum gjafir"

Er maðurinn það sjálfhverfur að hann tekur ekki eftir þversögninni í þessu?


Balli - 12/10/11 21:40 #

Ég las í grein ( held að það hafi verið í fréttablaðinu) að ef menn vildu gefa kóraninn eða önnur trúarrit í skólum þá væri það jafn sjálfsagt og að gefa nýja testamentið. Nú er það þannig að kóraninn er eingöngu á arabísku til að skilaboðin brenglist ekki í þýðingu (einsog með biblíuna). Hinsvegar eru til þýðingar en þær eru ekki beint guðsorð heldur mannlegar þýðingar. Það er beint til manna að til þess að fá rétta túlkun þurfi að læra arabísku. Ef krökkum á sama aldursári yrði gefin íslensk þýðing á kóraninum, sem er ekki ólíklegt þar sem menn hafa pening til þess sem vilja kenna þau fræði, væri sátt um það ? Hversu langt er síðan börnum var gefið Nýja Testamentið ?.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?