Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gídeon og bláa kverið

Barn með biblí

Fyrir hálfu ári benti ég á hvað er að Gídeon sem heimtar að fá að boða níu og tíu ára börnum trú í skólum og biðja með þeim. Trúboð þeirra er augljóst, markvisst og viðurkennt á heimasíðu þeirra.

Séra Bjarni Karlsson hefur hins vegar aðra og undarlegri sýn á þennan félagsskap því hann segir í nýlegri bloggfærslu um tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkur:

Þar er lokað á það að hópur venjulegra heimilisfeðra sem árvisst tekur sig saman, setur á sig bindi og rakspíra, og fer til að afhenda börnum bók sem þeim er einkar kær og er eftir allt námsgagn, fái að glæða mannlífið með sinni óvenjulegu þjónustu. Ég á við Gídeonmenn sem í meira en 60 ár hafa heimsótt skóla og gefið bláa Nýjatestamentið. Það kalla ég menningarlegan tepruskap. #

Markmið Gídeon með því að afhenda börnunum "bláa Nýjatestamentið" segja þeir vera þetta:

Markmið starfsins er að ávinna menn og konur fyrir Drottinn Jesú Krist. Dreifing Heilagrar ritningar og einstakra hluta hennar er aðferð til að ná því marki. #

Séra Bjarni kallar rit þeirra "námsgagn" en hér eru nokkur sýnishorn úr formála bláa kversins um Biblíuna:

Kenning hennar er heilög, boðorð hennar bindandi, frásagnir hennar sannar og úrskurður hennar óbreytanlegur. Lestu hana svo að þú verðir vitur, trúðu henni þér til sáluhjálpar og breyttu eftir orðum hennar þér til helgunar. Hún er ljós sem lýsir, andleg næring, sannur gleðigjafi og hughreysting.

Biblían er sverð hermannsins.

Þar er: Himninum lokið upp. Hlið heljar afhjúpuð.

BIBLÍAN ætti að fylla hug okkar og hjarta, stjórna lífi okkar og beina okkur á friðarveg.
Lestu hana reglulega með hugsun og bæn í hjarta.
Hún er náma andlegrar auðlegðar, opinberun náðarinnar og uppspretta hreinnar gleði.
Hún er þér gefin hér í heimi og verður opnuð í dómi efsta dags. Orð hennar munu aldrei líða undir lok.
Hún felur í sér dýpstu ábyrgð, launar hið mesta erfiði og fyrirdæmir þá sem fara léttúðlega með heilög orð hennar.

Gera má ráð fyrir að fæst börn lesi þessi fororð frekar en testamentið sjálft, og enn færri hafa hugmynd um hvað þessi uppskrúfaði texti þýðir. Sé þetta orðað svo börnin skilji þá hljómar það svo: "Allt sem stendur í Biblíunni er satt og gott fyrir þig. Þú verður að fara eftir því sem stendur í Biblíunni því ef þú gerir það ekki ferðu til helvítis."

Þetta er svo áréttað í kafla sem heitir "Speki til sáluhjálpar". Þar eru nokkrar tilvitnanir sem gefa tóninn í fjórum liðum. Liðirnir heita "Alllir hafa syndgað", "Hjálpræði Guðs", "Fullkomið hjálpræði fyrir þig" og "Helgun". Hér eru fyrstu tilvitnanirnar í hverjum flokki:

Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð. Eins og ritað er. Enginn er réttlátur, ekki einn.

Og Guð réttlætir þá, án þess að nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú.

Trú þú á Drottinn Jesú og þú munt verða hólpinn og heimili þitt.

Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.

Á máli níu ára barns hljóðar þetta svo: "Allir eru ógeðslegir og gjörsamlega glataðir en Guð reddar þér ef þú lest og trúir því sem stendur í bókinni." Er þetta eðlilegur texti í námsbók?

Ekki veit ég hvort Gídeonmenn eru alltaf með bindi og rakspíra en hitt veit ég að forseti Gídeonfélagsins hallar réttu máli og villir á sér heimildir. Bindi og rakspíri duga bara ekki til að réttlæta trúboð óheiðarlegra manna í skólum, jafnvel þótt þeir séu þar að auki "venjulegir heimilisfeður". Það væri tepruskapur að láta þá komast upp með þennan ósóma sem brýtur klárlega í bága við siðareglur kennara, aðalnámskrá, grunnskólalög og sjálfsögð mannréttindi.

Þann 9. júní sl. urðu nokkrar umræður á Alþingi um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar þar sem fulltrúar sjálfstæðisflokksins létu dæluna ganga í málþófi. Þeir spiluðu sömu plötu og við höfum margheyrt frá þeim en Birgir Ármannsson sagði meðal annars um Gídeon:

Nýja testamentið hefur þannig hlutverk í okkar samfélagi, í okkar menningu, með sama hætti og t.d. Íslendingasögurnar eða Snorra Edda. Mundum við segja að kynning á Gylfaginningu í skólum landsins væri heiðið trúboð? Auðvitað ekki. Ég mundi fagna því ef einhver samtök í landinu gæfu öllum skólabörnum Snorra Eddu, Gylfaginningu, af menningarlegum ástæðum. Ég mundi fagna hverjum þeim samtökum sem væru til í að gera það. Og þannig mundi ég álíta að það væri bara fagnaðarefni fyrir okkur að taka á móti Gídeon-samtökunum inni í skólum landsins og gefa þeim kost á að gefa börnum þessa gjöf með sama hætti og ef einhver byði sig fram til að gefa einhver önnur slík rit sem hafa jafnmikla skírskotun til okkar menningar, þá teldi ég það fagnaðarefni. Ekkert að því. Ekkert að því.

Ég tel ekkert að því að nemendur fái Nýja testamentið í skólum og óskandi að þeir fengju líka Snorra Eddu og fleiri góðar bækur. Ég fagnaði því líka ef nemendur fengju Rauða kver Maós, Græna kver Gaddafis og Mein Kampf Hitlers. Mér þætti þó í hæsta máta óeðlilegt ef Rauða kverið væri afhent, eitt kvera, af fulltrúum Kommúnistaflokksins með þeim formála að bókin væri stóri sannleikur og æskilegur leiðarvísir hverju barni. Það sama má segja um Græna kverið og það Bláa.

Baráttusaga Hitlers hafði víðtæk áhrif á Íslandi en ennþá meiri í Evrópu. Ætli það rynnu tvær grímur á Birgi ef Nýnasistar birtust - með bindi og rakspíra - í skólastofu barns hans til að "gefa því gjöf"? Hugsanlega rumskaði Bjarni Karlsson jafnvel þá.


Eftir að þessi grein var skrifuð hafa tveir guðsmenn klifað á því að trúboð sé ekki við hæfi í skólum en Gídeon-menn séu bara að dreifa "námsgagni", þeir Hjalti Hugason á Pressunni og Gísli Jónasson í Morgunblaðinu.

Hjalti:

Trúarleg innræting og boðun lífsskoðana á aftur á móti ekki heima í opinberum skyldunámsskólum. #

Nýja testamentið er að sjálfsögðu þungamiðjan í trúarriti kristninnar. Það er þó álitamál hvort það sé „boðandi“ í sjálfu sér án útleggingar eða skýringa. Það hefur einnig að geyma fjölmarga lykiltexta vestrænnar menningar sem mikilvægt er að þekkja til burtséð frá trúarafstöðu. Þá er ómetanlegt við fræðslu um trúarbrögð að mögulegt sé að styðjast við frumgögn á borð við Nýja testamentið. Það hefur því gildi fyrir skólastarfið sjálft að börnin fái áfram þessa gjöf. Er raunar óskandi að mögulegt verði að afhenda þeim fleiri trúarrit eins og t.d. Kóraninn. #

Gísli:

4) Við viljum að Gídeonfélagar fái áfram, þá að sjálfsögðu með leyfi foreldra, að dreifa Nýja testamentinu (NT) til þeirra tíu ára barna sem það vilja þiggja.

Þetta vill mannréttindaráð banna.

Í þessu sambandi skal á það minnt, að þótt NT sé vissulega trúarrit, þá er það um leið einnig ein af meginstoðum og sterkustu áhrifavöldum evrópskrar menningar, þar með taldar bókmenntir, myndlist, tónlist, heimspeki o.s.frv. Menningin, hvort sem er íslensk eða vestræn, verður því ekki skilin án þess. Og svo virðist það auðvitað alveg hafa gleymst við tillögugerð Mannréttindaráðs, að NT er, skv. námsskrá, kennslugagn í kristinfræðikennslu. Það er því ljóst, að ef Gídeonfélagið fær ekki áfram að leggja börnunum til NT, þá verður Reykjavíkurborg að sjá börnunum fyrir þessu námsefni.

Er trúboð í skólum í lagi ef það beinist að börnum foreldra sem það vilja? Er hægt að líta á bók Gídeonmanna sem hlutlaust námsgagn?


Í Fréttablaðinu í dag er svo alveg nýr vínkill á málið frá eiginkonu hins óheiðarlega trúboða og forseta Gídeon, Dögg Harðardóttur (stjórnlagaráðsmanni). Hún gefur grunnskólalögum, aðalnámskrá og siðareglum kennara langt nef í krafti "vísindalegra rannsókna" og segir:

Margar rannsóknir sem hafa verið gerðar innan heilbrigðis- og félagsvísinda hafa rannsakað tengsl trúar við ýmsar breytur svo sem hamingju, heilsufar, tilgang í lífinu og sjálfsvíg svo dæmi sé tekið. Niðurstöður benda til að þeim sem telja sig trúaða vegni almennt betur en hinum. Því er mun nær fyrir Reykjavíkurborg að hvetja börn til þátttöku í trúarlegu starfi og nýta þær rannsóknir sem hafa verið gerðar, í stað þess að leita leiða til að hindra aðgengi barna að upplýsingum um trúariðkun í nærsamfélaginu. Komi barn heim með bæklinga sem foreldrum hugnast ekki þá er það að sjálfsögðu þeirra hlutverk að leiðbeina barninu.

Reykjavíkurborg er ekki stætt á að fara gegn vísindalegum rannsóknum. Borgarráði er því ekki stætt á að samþykkja reglur mannréttindaráðs. #

"Fagnaðarerindinu" skal troðið ofan í kokið á börnum okkar með góðu eða illu í skólum og það er foreldranna að vinda ofan af trúboðinu. Ætli vísindaleg úttekt á Landakotsskóla hafi farið fram? Svo verður það að teljast einkar ósmekklegt að blanda sjálfsvígum í þetta mál, og sérlega neyðarlegt.


Tillögur Mannréttindaráðs eru unnar upp úr skýrslu Menntasviðs Reykjavíkur um samstarf skóla og trúar- og lífsskoðunarhópa. Aðalatriði hennar er þetta:

Lögð er áhersla á að í skólum fer fram fræðsla um mismunandi lífsskoðanir og trúarbrögð en þar er ekki stunduð boðun trúar. Í engum tilfellum er skólastarfi og starfi trúar- og lífsskoðunar- hópa blandað saman.

Í leik- og grunnskóla skal börnum ekki mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar þeirra eða foreldra þeirra. Forðast skal aðstæður þar sem börn eru tekin út úr hópnum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samræmast trúar- eða lífsskoðunum þeirra. # (pdf)

Reynir Harðarson 21.06.2011
Flokkað undir: ( Skólinn , Kristindómurinn , Gídeon )

Viðbrögð


Þorgeir Tryggvason - 21/06/11 13:35 #

Það er með nettum ólíkindum að greindu og upplýstu fólki skuli finnast bók með þessum tilvitnuðu formálsorðum vera einbert "námsgagn". Hafi ég lesið þau á sínum tíma þá er ég blessunarlega búinn að gleyma þeim.

Hendið út formálanum, bannið Gídeonmönnum að biðja með börnunum, biðjið þá að gæta smekkvísi í val á bindum og hófsemi í rakspíraskvettingum og þá skulum við ræða málin.


Sveinn Þórhallsson - 21/06/11 15:23 #

Ég hefði gaman af að sjá þessar "vísindalegu rannsóknir" Daggar. Ég efa að þær séu til og vona því að þessi orð verði hrakin almennilega á þessum vettvangi.


Halldór L. - 21/06/11 15:30 #

Hefur virkilega enginn reynt að dreifa Mein Kampf á sama hátt og Gídeon dreifir Nýja Testamentinu. Það væru bestu mótmælin að dreifa Baráttunni með góðum formála til níu ára barna og láta þau "hæla" aðeins.


Sveinn Þórhallsson - 21/06/11 15:30 #

Svo skil ég ekki þá afstöðu að kalla NT námsgagn; ekki minnist ég þess að hafa notað bláa kverið meðan ég var í kristinfræði.

Það að NT sé "námsgagn skv. námsskrá" er líka bara beinlínis rangt. Hvaða námsskrá á Gísli annars við? Allavega ekki gildandi aðalnámsskrá grunnskólanna í kristinfræði.

Það er venjulega ekki talað um námsgögn í aðalnámsskrá yfirhöfuð...


Halla Sverrisdóttir - 21/06/11 18:06 #

Að (fjölmörgum) öðrum ólöstuðum held ég að ég geti fullyrt að þessi pistill Daggar sé fáránlegasta innleggið í þessa umræðu sem ég hef lesið til þessa.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 21/06/11 18:35 #

Hélt að skólar sæju um að dreifa fræðsluritum innan skólans, ekki eitthvað falskt félag útí bæ.


Einar - 21/06/11 19:13 #

Trúarleg innræting sem beint er að börnum, ásamt áreiti presta ofl (m.a gídeonfélagið) í skólum sem og leikskólum, ætti að vera bönnuð með lögum.

Það á að leyfa börnum að vera börn í friði...án þess að trúað fólk troði sínum lífsskoðunum upp á þau.


Sigurlaug - 21/06/11 22:56 #

Talandi um NT.. þá langar mig að benda á að ekki bara er því troðið upp á börn, heldur er og líka öllum sem útskrifast úr sjúkraliðanámi afhent NT, innpakkað og fínt. Raunar er það minna um sig en það sem gefið er skólabörnum, hélt fyrst að einhver væri svona gasalega "næs" að gefa þeim suðusúkkulaðiplötu..


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/06/11 09:49 #

Ég vakti athygli Hjalta Hugasonar á innihaldi bláa kversins, sem hann sagði "álitamál hvort væri boðandi í sjálfu sér". Ég er viss um að hann og aðrir sem láta sér detta í hug að kalla það "námsgagn" hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að tala.

Ég vænti leiðréttingar frá Hjalta en mun minna af öðrum gösprurum í þessu máli. Því ég hef margséð að þetta fólk er tilbúið að fórna æru sinni til að verja trúboð í skólum. Tilgangurinn helgar meðalið. Sennilega er þetta aukaverkun kristninnar því í heiðni var heiður manns og orðstír það dýrmætasta sem menn áttu.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/06/11 11:27 #

Dögg Harðardóttir titlar sig "fulltrúa í stjórnlagaráði" í Fréttablaðinu en nú sé ég að eitt sinn var hún formaður kvennaarms Gídeonfélagsins í athugasemd við blogg Valgarðs Guðjónssonar þar sem hann hnýtir í Dögg. Þetta minnir dálítið á eiginmann Daggar, Fjalar Frey Einarsson, forseta Gídeonfélagsins, sem titlaði sig grunnskólakennara þegar hann var að verja trúboð Gídeonmanna, líka þegar hann hringdi í símatíma Rásar 2 og í viðtali í Morgunblaðinu. Neyðarlegast var þó þegar hann sagðist hafa tekið á móti Gídeonmönnum sem kennari og haft samband við Gídeonfélagið. Allan tímann leyndi hann því að hann var forseti Gídeonfélagsins. Hvað má kalla svona fólk?

Á "héraðsfundi Reykjavíkurprófastsdæma" í vetur var samþykkt ályktun til Mannréttindaráðs. Þar segir:

Þó svo að það sé á stefnuskrá Gideon félagsins að boða trú, þá eru fulltrúar þess í kennslustofunni, gestir skólans og sem slíkir ekki í trúboði. Öllum foreldrum er frjálst að skila Nýja testamentinu aftur óski þeir ekki eftir því að börnin sín eigi slík rit. #

Prófastarnir klikka ekki nú frekar en fyrri daginn.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 23/06/11 16:42 #

Ungmenni vilja læra heimspeki óáreitt, segir DV.

Ályktun frá Reykjavíkurráði ungmenna:

Reykjavíkurráð ungmenna telur að heimsóknir trúfélaga og annara lífsskoðunarfélaga í grunnskóla Reykjavíkurborgar séu ekki til hins góða fyrir ungt fólk í Reykjavík.

Ungt fólk á rétt á að mynda sínar eigin skoðanir án þess að vera áreitt af félögum með ákveðnar skoðanir á lífinu. Það hefur marg sannað sig að auðvelt reynist að hafa áhrif á skoðanir ungs fólks. Í stað þess að skólar bjóði lífsskoðunarfélögum heim eiga þessi félög að bjóða þeim börnum og ungmennum sem hafa áhuga á starfi þeirra að koma til þeirra milliliðalaust. Reykjavíkurráð ungmenna telur að samhliða trúarbragðafræði eigi að kenna siðfræði og heimsspeki í grunnskólum.

Í því fjölmenningarsamfélagi sem er að myndast á Íslandi telur Reykjavíkurráð ungmenna að ekki sé rétt að Gídeonfélagið gefi nýja testamentið til nemenda í 5. bekk svo dæmi sé tekið. Þó telur ráðið við hæfi að dreifa því til eldri nemenda, t.d. í 7. eða 8. bekk. #

Láðist ungmennunum nokkuð að lesa formála bláa kversins? :)


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/06/11 17:44 #

Sigurður Hólm í Siðmennt fær að heyra það:

Maður sem sagðist vera frá Gídeonfélaginu stoppaði mig á förnum vegi í gær. „Ég þarf að ræða við þig Sigurður“ sagði hann. „Við viljum að þú hættir að berjast gegn því að við Gídeonmenn fáum að gefa börnum Nýja Testamentið og boða SANNLEIKANN“ (Hann lagði mikla áherslu orðið). #

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.