Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Biluð bókun í borgarráði

Barn

Nú hefur Borgarráð Reykjarvíkurborgar samþykkt hinar víðfrægu reglur um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar við trúar- og lífsskoðunarfélög. Reglurnar voru samþykktar af öllum fulltrúum í borgarráði. Nema þeirra sem sitja þar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og hafa barist gegn þessum reglum frá því að þær voru fyrst lagðar fram.

Samráð og andstaða

Fulltrúar flokksins, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson, létu ekki nægja að vera á móti reglunum heldur létu þeir bóka ástæðu fyrir andstöðu sinni, líklega til að reyna að snapa einhver atkvæði. En í bókuninni er endurtekin sú vitleysa að ekki hafi verið haft samráð við „þá sem láta sig málið varða“.

Í kjölfar þess að Reykjarvíkurborg samþykkti mannréttindastefnu sína árið 2006 var hafist handa við að kanna hvort að einhversstaðar í starfsemi borgarinnar væri þörf á að uppfæra reglur og vinnuferla til þess að standast ákvæði hinnar nýju stefnu. Meðal annars var settur saman starfshópur til að vinna skýrslu um samstarf kirkju og skóla.

Í starfshópnum voru: tveir fulltrúar frá leikskólaskrifstofu borgarinnar, fulltrúi leikskólastjóra, fulltrúi grunnskólastjóra, fulltrúi leikskólakennara, fulltrúi grunnskólaskrifstofu, fulltrúi Alþjóðahúss og fulltrúi Biskupsstofu. Leitað var til einstaklinga með sérfræðiþekkingu og voru þeir: tveir lektorar frá KHÍ og einn frá menntasviði HA, fulltrúar frá Siðmennt og kennari við KHÍ sem er fyrrverandi prestur.

Að viðra fáfræðina

Eru þetta ekki aðilar sem láta sig málið varða samkvæmt skilningi Hönnu Birnu og Júlíusar Vífils? Var þetta ekki samráð? Eða þekkja borgarfulltrúarnir ekki málið betur en svo að þeir viti ekki af hverju verið er að leggja það fram? Niðurstöður skýrsluhöfunda(.pdf) eru nefnilega skýrar:

Það er samdóma álit starfshópsins að mikilvægt sé að móta starfsreglur um samstarf leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa. Skólastarf byggir á lögum og námskrám fyrir leik- og grunnskóla og á sama hátt byggir kirkjustarf sem og starfsemi annarra trúar og lífskoðunarhópa á þeim lögum sem þeim eru sett.

Samdóma álit. Mikilvægt. Móta starfsreglur. Er virkilega einhver vafi um það af hverju þessar tillögur voru samdar og lagðar fram?

En við lestur niðurstöðukafla skýrslunnar rifjast upp grein sem Júlíus Vífill skrifaði í Fréttablaðið fyrir ekki svo löngu. Þar kemur í ljós að Júlíus Vífill veit mætavel af þessari skýrslu. Hann vitnar í hana og auk þess var hún lögð fram í formannstíð hans yfir menntaráði borgarinnar.

En Júlíus Vífill virðist samt bara hafa meðtekið hluta af því sem stóð í skýrslunni. Hann endurtekur nefnilega ákveðna möntru um Barnasáttmála SÞ sem gengið hefur meðal þeirra sem hafa verið á móti nýsamþykktu tillögunum:

Tillögurnar hafa verið skreyttar hugtökum eins og trúfrelsi en vinna gegn grundvallarmannréttindum vegna þess að í trúfrelsi felst meðal annars frelsi til að velja. Og það er einmitt það sem Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna á að tryggja börnum bæði félagslega og trúarlega.

Barnasáttmálinn

Nú er það vissulega rétt að börn eiga að fá að velja samkvæmt sáttmálanum. En það kemur hvergi fram að valið verði að fara fram í opinberum menntastofnunum. Reyndar er það fáránlegur skilningur að halda því fram að verið sé að hafa þetta val af börnum ef trúboð er bannað í skólum. Júlíus Vífill hefði ekki þurft að gera annað en að lesa betur skýrsluna til þess að fá réttan skilning á sáttmálanum:

Í Mannréttindasáttmála SÞ segir að allir menn skuli frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar. Einnig segir að hver maður er frjáls skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Menntun skal beina í þá átt að þroska persónuleika einstaklinga og innræta þeim virðingu fyrir mannréttindum og mannhelgi. Hún skal miða að því að efla skilning umburðarlyndi og vináttu meðal allra þjóða, kynþátta og trúarflokka. Þar segir einnig að foreldrar skulu fremur öðrum ráða hverrar menntunar börn þeirra njóta og í Barnasáttmála SÞ segir að aðildarríki skuli virða rétt og skyldur foreldra og lögráðamanna, eftir því sem við á, til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum á þann hátt, sem samræmist vaxandi þroska þess. Í Barnasáttmála SÞ segir einnig að aðildarríki skuli tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum, sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. Skal virða rétt barns til frjálsar hugsunar, sannfæringar og trúar.

Til þess að fyrirbyggja misskilning eða árekstra í skólastarfi er mikilvægt að yfirvöld skólamála í sátt við trúar- og lífsskoðunarhópa og foreldra, seti fram skýr markmið með samvinnu, sem eruöllum kunn, og tilgangurinn með samstarfinu ljós. Foreldrar skulu fremur öðrum ráða hverrarmenntunar börn þeirra njóta (Mannréttindasáttmáli SÞ) og virða skal rétt þeirra til að veita barnileiðsögn (Barnasáttmáli SÞ). (leturbreytingar frá höfundi)

Skýrar niðurstöður

Niðurstöður skýrslunnar eru skýrar og ekki er hægt að sjá annað en að tillögurnar sem voru lagðar fram séu í góðu samræmi við þær. Það er líka augljóst að bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem og aðrar yfirlýsingar þeirra um málið, stenst enga skoðun. Bókunin er pólitískt tæki sem líklega á að spila út til að vinna stuðning ákveðins hóps fyrir næstu kosningar.

Ég óska Reykvíkingum til hamingju með nýju reglurnar. Þær munu verða til bóta og jafna rétt allra barna í menntastofnunum borgarinnar. Það er von mín að önnur sveitarfélög á landinu fylgi þessu góða fordæmi Reykjarvíkurborgar

Egill Óskarsson 02.10.2011
Flokkað undir: ( Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Arnold Björnsson - 03/10/11 21:36 #

Þetta fólk á bágt. Mig langar að nota sterkari orð. Júlíus á það alla vega inni. En ég læt það vera. Það er algjörlega útilokað fyrir frjálslynt fólk eins og mig að kjósa svona kristilegan íhaldsflokk eins og XD. XD er frjálslyndur á pappírum en ekki í verki. Algjört drasl þessi flokkur.


Kristján (meðlimur vantrú) - 03/10/11 22:09 #

Mér finnst þetta frekar svekkjandi með hana Hönnu. Eins mikið og ég þoli ekki sjálfstæðisflokkinn skynjaði ég hana sem klára og skynsaman pólitíkus, en þess vegna er svo leiðinlegt að sjá hana koma með svona kjaftæði bara til þess að geta komið með eitthvað rifrildi til Jón Gnarrs. Hefði haldið hana fyrir ofan þetta hafin.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.