Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hinn sannleikselskandi og umburðarlyndi Örn Bárður Jónsson

Emporor Örn Bárður

Eftir nýlegar kosningar til stjórnlagaþings gladdist ég mjög mikið við að sjá minn eftirlætis íslending kosinn; sjálfan séra Örn Bárð Jónsson.

Þjóðin hlýtur að hafa haft vel ígrundaða ástæðu fyrir því, og án efa hafa kynnt sér ítarlega málflutning þessa röksnillings. Hér eftir koma nokkrir gullmolar frá Erni Bárði sem munu varpa enn frekara ljósi á þær góðhjörtuðu og skilningsríku skoðanir og trúr hann hefur.

Af kosning.is:

Ég vil nýta fjölþætta reynslu mína til að móta nýja stjórnarskrá þar sem byggt er á hinu liðna en horft í von fram á veginn, í bjartsýni og virðingu fyrir fólki með ólíkar skoðanir, litarhátt, þjóðerni, kynferði og trú.

Miðað við það frábæra trúarbragð sem presturinn þjónar ætti vel að skiljast hver skoðun hans á kynheigð sé... virðing og umburðarlyndi fyrir alla! En skoðanir og trú? Hvað ætli honum finnist um önnur trúarbrögð og skoðanir? Ef þú heldur að hann sé með ríka tilfinningu fyrir öðrum skoðunum og trúm þá hefurðu rétt fyrir þér, líkt og nokkrar tilvitnanir sýna.

Í viðtali á Bylgjunni:

Sko, viljum við fá vísindahyggju inn í staðinn, haldið þið að það verði eitthvað betra? Trúin á manninn? Það er aumasta trú sem til er, það er trúin á manninn.

Úr postillunni á vefnum tru.is:

Þarf hún meiri tunglmyrkva og minna ljós? Meiri órétt og þar með minni frið? Minni áhrif kristinnar trúar og meira guðleysi? Þarfnast þjóðin gerilsneyddra samskipti þar sem enginn má vita hverju náunginn trúir? Viljum við hólfað samfélag þar sem enginn kann skil á hugarheimi annars, hvorki sið hans né trú? Hvers þarfnast börnin okkar? Kaldrar vísindahyggju í guðlausri veröld?

Úr pistlinum "Mannréttindaráðstjórn Reykjavíkur":

Varðandi orð mín á Bylgjunni á dögunum um að trúin á manninn sé ekki upp á marga fiska vil ég taka fram að ég ég tel manninn ekki verðugan fulltrúa í hlutverk guðdómsins en hins vegar hef ég mikla trú á manninum. Maðurinn er flottur á margan hátt en fremur klénn til átrúnaðar. Húmanismi, sem tiltrú á göfgi mannsins og hið fagra í hans fari, er göfugur sem slíkur, en hann nær að mínu viti skemur en hin stóru trúarbrögð.

Hárrétt hjá manninum. Auðvitað er húmanismi eins og eingyðistrúarbrögð á borð við islam, kristni og gyðingdóm. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að svo væri ekki, en athugsemd minni var eytt. Mjög líklega vegna þess að hún var einfaldlega röng, ég er jú versti siðlausi trúleysingi og ætti bara að halda mér saman og lifa áfram í andlegri örbirgð og óhamingju, það er jú það sem ég geri best.

Úr pistlinum "Skoðanir úr skólum" :

Í grein sinni Trúboð úr skólum reynir Vantrúarmaðurinn Reynir Harðarson ítrekað að gera samstarf kirkju og skóla í borginni tortryggilegt með því að hagræða sannleikanum. Þessi ákafi trúmaður virðist vilja koma allri umræðu um trú og lífsskoðanir út úr skólum borgarinnar og væntanlega landsins alls.

Þetta var svo listilega rökstutt að hann þurfti ekki einu sinni að útskýra þetta, enda helber sannleikur (prestur færi aldrei að brjóta boðorð númer 9 samkvæmt 5. Mósebók).

Ég tel mig bera virðingu fyrir skoðunum trúleysingja og húmanista

Nákvæmlega, munið hversu fallega hann talaði um húmanisma í viðtali einu?

Eitt það besta við veru séra Örns Bárðar á stjórnlagaþingi er að hann fær þau sjálfsögðu réttindi að hafa stórt og mikið atkvæði þegar kemur að eigin launatjékka. Hvað finnst honum um Þjóðkirkjuna?

Í viðtali á Bylgjunni:

Á meðan stjórnarskráin segir að kristni skuli vera ríkjandi þá, þá, þá skulum við virða það

"Skoðanir úr skólum"

Að ríkið haldi úti einu trúfélagi, eins og Reynir heldur fram, og kosti til þess gríðarlegum fjármunum, er gömul lyga- og áróðurstugga. Kirkjan er ekki á framfæri ríkisins. Hún á fyrir öllum þessum kostnaði en svo vill til að ríkið hefur nær allar eigur hennar í sínum höndum. Þetta sagði ég Reyni þegar fundum okkar bar saman nýlega. Hann þekkir því sannleikann í þessu máli. Að hamra á lyginni gerir hana ekki að sannleika.

Hræsni eða lygari eru orð sem munu aldrei yfir Örn Bárð Jónsson ganga.

Úr pistlinum "Mannréttindaráðstjórn Reykjavíkur":

Þorgeir Ljósvetningagoði var vitur maður. Hann afnam ekki aðra trú eins og þú heldur fram en hann var hins vegar raunsær á ástand mála á þeim tíma og taldi það horfa til friðar að menn hefðu einn sið í landinu. Þar sýndi hann fádæma visku og hugrekki. Og gleymdu því ekki að alþingi samþykkti tillögu hans.

Á sínum tíma, fyrir næstum þúsund árum síðan.

"Skoðanir úr skólum":

Svo er það tískutuggan um ríkisstyrkta kirkju. Þjóðkirkjan er ekki ríkisstyrkt. Hún er rekinn fyrir arð af eignum sínum, eignum sem ríkið hefur nú í höndum.

Enn eitt spakmælið, enda ekkert athugavert við að ríki kaupi kirkjujarðir á uppsprengdu verði, greiði fyrir þær um alla eilífð með því að borga starfsmönnum hennar og slíkt. Kirkjan er sjálfstæð, það er augljóst. Örn Bárður hefur líka tjáð sig vel og mikið með fallegum málflutningi og rökstuddum, þar sem allri gagnrýni var svarað vel.

Það vill svo til að tillögur mannréttindaráðs eru flestar ef ekki allar úr bréfi Siðmenntar frá 2005 til borgarinnar eins og staðfest var á forsíðu Mbl. 22. nóv. s.l. Þú mátt kalla fólkið í mannréttindaráði mannleysur enda hefur meirihlutinn gleypt málflutning Siðmenntar með húð og hári og svo skín þvingunarþóttinn í gegnum allt ferlið eins og sól í gegnum slípað gler.

Hárrétt hjá honum, það er djöfullegt í besta lagi að lífsskoðunarfélag setji fram tillögur sem hefta framgöngu sína og vernda börn. Skítlegt! Þessi málflutningur sérans minnir engan veginn á söguna "Animal Farm" (George Orwell) þar sem svínið Napoleon barðist gegn tillögum andstæðings síns Snowball að vindmyllu, bara vegna þess að Snowball var andstæðingur hans (hverjum dytti líka að líkja Þjóðkirkjupresti við gráðugt svín, þeir sem virða svo boðskap Jesú um fátækt).

Það sem helst hefur farið fyrir brjóstið á mér er að nú á ekki lengur að leita til presta í sorgartilfellum nema að fyrst sé talað við einhverja fagaðila,

Heyrið það: einhverja fagaðila Góð málamiðlun, svo að allir geti unað sáttir við því hin stranga 5 vikna sálgæslumenntun sírans er jú langtum betri en hjá nokkrum öðrum sérfræðingi.

Samt er ég ekki að tala fyrir trúboði í skólum. Taktu vel eftir þessum síðustu orðum mínum!

Enda er það ekki svo að Neskirkja (þar sem Örn Bárður er sóknarprestur) hreyki sér af skólaheimsóknum á heimasíðu sinni. Kíkið á það, ekkert sem bendir til trúboðs, sérstaklega ekki á ungum börnum.

Úr greininni "Bjúgverpill og birtingarform ráðstjórnar"

Það hefur alltaf haft kostnað í för með sér að tilheyra minnihlutahópi. Þessi nálgun, „vesalings ég og börnin mín", virkar ekki sannfærandi. Þú verður bara að kyngja því að börnin þín uppgötvi að þau tilheyri minnihlutahópi ef þú hefur valið sjálfum þér og þeim lífsskoðanir minnihlutans. Kristnir menn um allan heim verða að þola hið sama.

Ef banna á kristnum börnum t.d. að fara í tveggja daga ferð vegna fermingarundirbúnings sem er hluti af menningu langflestra Íslendinga þá er það atlaga að mannréttindum meirihlutans.

Enda sjálfsögð mannréttindi að fá að fara í fermingarfræðsluferð. Það er hins vegar brot á mannréttindum að verða ekki fyrir trúboði á unga aldri.

"Gildahlöður og menningarbylting"

Ég get til að mynda haft margt að athuga við gildismat íþróttafélaga í landinu og barist gegn því að þau fái aðgang að skólum vegna þess að íþróttir gangi margar hverjar, ef ekki flestar, út á samkeppni og yfirburði, hetju- og hlutadýrkun, eftirsókn eftir peningum, frægð og öðrum veraldlegum gæðum, sem tærast og eyðast.

Örn Bárður vill virðingu fyrir ólíkum skoðunum.

Svo heldur umræðuspeki hans áfram með ýmsum athugasemdum í "Skoðanir úr skólum"

Þetta er ekki eins og þú heldur fram, Hjalti og þess vegna vísa ég í þráhyggju þína. Hún er ekki eðlileg. Þú berð bara höfðinu við steininn.

Hjalti Rúnar Ómarsson, meðlimur Vantrú, var að ræða við hann um sóknargjöld. Vitanlega eru sóknargjöld félagsgjöld! Að halda öðru fram er vísbending um geðveilu.

Svo smá í lokin til þess að sýna að sérann er ósnortinn af hroka og yfirlæti

Hjalti Rúnar Ómarsson, við greinina "Örn Bárður og forherðingin":

Já, svo er svara ekki að vænta frá Erni Bárði. Ég benti honum á greinina en hann mun líklega ekki lesa hana þar sem að hann segist ekki fara inn á vantru.is.

Svo var það einhversstaðar, en ég get ómögulega fundið hvar, þar sem stjórnlagaþingmaðurinn sagðist ekki vilja eiga í samskiptum við Vantrú, þar sem þeir væru ekki nógu góðir til þess að birtast í fjölmiðlum.

Ég hef ekki skap í að halda áfram, ég er í gleðitárum yfir því að hann hafi komist á þing, enda dyggur stuðningsmaður Ólafs nokkurs fyrrverandi biskups og því það besta sem komið gæti fyrir landið.

Gullmolarnir eru án efa fleiri, en þetta er ætti að vera nóg til þess að sýna fegurð sálar sérans. Að ógleymdri auðvitað þeirri rausnarlegu gjöf hans til stjórnlagaþings að leyfa fundi í kirkjunni sinni.

Fyrir þá sem nenntu ekki að lesa greinina (en eru af einhverjum ástæðum að lesa þessa málsgrein) held ég að hægt sé að súmmera upp boðskap Arnar Bárðar:

Trúfrelsi fyrir kristna og virðingu fyrir ríkiskirkjum[*]!

Hér er kominn maður engli líkastur sem mun án efa gera góða hluti fyrir stjórnarskrána, til hamingju Ísland! Og munið:

svo er hamrað á ósannindum aftur og aftur þrátt fyrir að menn viti að þeir tali gegn sannleikanum.

Nákvæmlega, kaldi Vantrúarlýður! Þið hamrið á þeim ósannindum að tillögur mannréttindaráðs séu til þess að vernda börnin, að eitthvað sé athugavert við ríkiskirkjuna og að húmanismi sé ekki aumasta trú sem til er!

[*]Þó er ekkert ríkiskirkjulegt við Þjóðkirkjuna, munið það!

Halldór Logi Sigurðarson 10.01.2011
Flokkað undir: ( Aðsend grein )

Viðbrögð


Hogo - 10/01/11 10:09 #

Svo má bæta því við að hann skipti um skoðun á ákvæði um ríkiskirkjuna eftir að kosningu á stjórnlagaþing var lokið. Á dv.is er hann andvígur ákvæði um ríkiskirkju en í Fréttablaðinu 4. desember er hann hlynntur því. Það tók hann því ansi stuttan tíma að skipta um skoðun.


Brynjar Örn Ellertsson (meðlimur í Vantrú) - 10/01/11 10:16 #

Ég skrapp inná vef Neskirkju og þar er ekkert sem bendir til trúboðs...
Dagskrá vikunnar:
Mánudagar:
· 13.45 Kirkjustarf með 1. bekk Melaskóla
Þriðjudagar:
· 13.45 Kirkjustarf með 2. bekk Melaskóla
· 15.00 Kirkjustarf í Grandaskóla


Halldór L. - 10/01/11 13:14 #

Leikskólar

Undanfarinn ár höfum við í Neskirkju boðið upp á heimsóknir í leikskóla hverfisins. Farið er einu sinni í mánuði í þá leikskóla sem þess óska. Kynntu þér hvort leikskólinn sem þitt barn er í fær heimsókn frá okkur.


Yngvi - 10/01/11 14:44 #

Góð grein.


Árni Þór - 10/01/11 18:45 #

Mjög góð grein. Ég fyllist af reiði þegar ég les þetta.


Jón Steinar - 11/01/11 07:21 #

Af hverju er hann að berjast gegn aðskilnaði ríkis og kirkju ef hann telur þetta ekki vera ríkiskirkju?

Annars er bent á það hér að hann seldi sig inn á stjórnlagaþing á þeirri forsendu að hann vildi aðskilnað, en skipti svo um skoðun þegar hann hafði náð kjöri. Heilindin uppmáluð semsagt.

Ég hefði viljað sjá honum vísað frá þinginu, þar sem hann hefur augljósa persónulega hagsmuni, sem ríkistarfsmaður á launum.

Hroki, stærilæti eru aðalsmerki þessa manns. Það væri svo sem ok, ef hann hefði haug að hreykja sér af.

Það er annars hjálp í svona manni fyrir aðskilnaðarsinna. Það sýnir hann í hvert skipti sem hann opnar á sér þverrifuna. Ég þekki góðan slatta af trúuðu fólki og get vitnað um að það hryllir sig allt þegar nafn hans er nefnt. Það sér hann sem ógn við kristindóminn.

Það er því kannski kominn tími á það að hann fari í djúpa sjálfskoðun.


Einar Einarsson (meðlimur í Vantrú) - 11/01/11 14:04 #

Góð grein.

Þvílíkt slys að þessi maður hafi komist á stjórnlagaþing.


Þórður Örn Arnarson - 11/01/11 14:49 #

Takk fyrir skemmtilega grein.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/01/11 20:56 #

Ég mæli alls ekki með því að þið lesið nýjustu prédikun Arnar á trú.is.

Um trú og börn:

Ég verð alltaf jafn hissa á viðbrögðum lærisveina Jesú þegar menn færðu börn til Jesú. Þeir átöldu foreldrana fyrir að koma með börnin til Jesú. Það er engu líkara en að þeir hafi lent í „mannréttindaráði“ Jerúsalemborgar!

Um syrgjandi fólk og trú. N.b. rannsóknir sýna að trúað fólk höndlar áföll/missi að jafnaði ekkert betur en trúlaust fólk.

Ég finn það glöggt þegar ég geng lífsveginn með syrgjandi fólki hvort það á þetta innra öryggi eða ekki. Þau sem farið hafa á mis við trúariðkunina í bernsku eða hafa hafnað trúnni á fullorðinsárum eru allt örðu vísi á vegi stödd en hin þegar sorgin slær. Mér virðist þau mörg vera eins og umkomulaus og yfirgefin, týnd í köldum heimi.

Um Hrunið og kristnina. Hefur maðurinn aldrei íhugað þann möguleika að þjóðin sé ekkert kristin?

Ég hef verið nokkuð hugsi yfir hruninu eins og nærri má geta og það á auðvitað við um okkur öll. En mér er það ráðgáta hvers vegna hin kristna þjóð villtist svo illilega af leið. Er eitthvað að í okkar menningu og þá á ég ekki hvað síst við hina kristnu trúarmenningu? Erum við kristin á yfirborðslegan hátt? Ristir trúin ekki nógu djúpt í líf okkar? Hefur kirkjan brugðist?

Og svo talar hann um að það sé kirkjan sem standi fyrir því að fagna fæðingu barns, fermingu og hjónabandi. Ekki foreldrar, ekki brúðhjónin, ekki fjölskyldan, ekki samfélagið heldur kirkjan. Ef það væri ekki fyrir kirkjuna myndi fólk ekkert fagna fæðingu barna, því þegar ungt fólk mannast eða þegar par ákveður að bindast hvort öðru til frambúðar.


Fimman - 13/01/11 21:51 #

[ athugasemd flutt á spjallborð ]


Halldór L. - 24/01/11 18:26 #

Ég reyndi að kommenta á nýja predikun hans "Trú, von og stjórnarskrá" en athugasemd var eytt, lokað fyrir allt og svo virðist sem hann hafi svarað með hæl þar sem hann sendi mér leiðina til Bráðamóttöku Geðdeildar Landsspítalans.

Hérna er afar þroskaður og vel gefinn einstaklingur á ferð.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/01/11 18:37 #

svo virðist sem hann hafi svarað með hæl þar sem hann sendi mér leiðina til Bráðamóttöku Geðdeildar Landsspítalans.

Hvað áttu við?


Halldór L. - 24/01/11 18:44 #

Eftir að ég sendi athugasemd á http://ornbardur.annall.is/2011-01-24/tru-von-og-stjornarskra/ þá var sagt að hún biði samþykkis. Svo kl. hálf sex fékk ég tölvupóst sem sýndi leiðamerkingu, símanúmer og heimilisfang Bráðamóttöku Geðdeildar Landspítalans, frá Erni Bárði. Ég lagði saman tvo og tvo og fékk út tölu á bilinu 3.9-4.1(enda var athugasemd mín á þá leið að guð væri alls ekki sú elskandi vera sem presturinn ætlaði). Titill póstsins frá honum var: álsfgjðaetðoasfl‏


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/01/11 19:00 #

Svo kl. hálf sex fékk ég tölvupóst sem sýndi leiðamerkingu, símanúmer og heimilisfang Bráðamóttöku Geðdeildar Landspítalans, frá Erni Bárði

Ríkiskirkjupresturinn og stjórnlagaþingmaðurinn Séra Örn Bárður Jónsson sagði þér semsagt óbeint að fara á geðdeild.

Það er aldeilis.


Halldór L. - 24/01/11 19:04 #

Ekki sá fyrsti, ég og Hjalti ættum kannski að deila bíl og stofu.

Ætti ég að benda einhverjum öðrum á þetta, öðrum stjórnlagaþingmönnum eða slíkum?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 24/01/11 19:28 #

Skrifaðu bara grein og reyndu að fá birt í blöðin.

Þú reynir að tala við einn fulltrúa á stjórnlagaþingi og færð ákúrur um að þú sért bara geðveikur og ættir að leita þér aðstoðar.


Andrés - 24/01/11 19:44 #

Merkilegt að hann skuli telja það til geðveilu að vera ósammála honum um eðli eða tilvist guðs.


Steindór J. Erlingsson - 24/01/11 20:34 #

Halldór L., ég hvet þig til þess að koma þessum niðrandi ummælum prestsins betur á framfæri.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 24/01/11 21:18 #

Merkilegt hvað Erni Bárði finnst lítið að því að grínast með alvarlega geðsjúkdóma. Ég vona að fólk sem á við þannig vandamál að stríða leiti sér ekki hjálpar hjá honum.

Halldór, áttu nokkuð afrit af athugasemdinni sem þú sendir? Svo væri gaman að sjá skjákot af þessum tölvupósti.

Það er kannski rétt að minna á það að fyrir um það bil tíu árum síðan var Sigurbjörn Einarsson kærður til siðanefndar Prestafélags Íslands fyrir að gefa í skyn að andmælendur hans væru geðveikir. Mér sýnist Örn Bárður ganga mun lengra en Sigurbjörn.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/01/11 21:31 #

Halldór Logi, varstu eitthvað að "spamma" bloggið hans Arnar Bárðar, t.d. með því að senda sömu athugasemd mjög oft inn?


Halldór L. - 24/01/11 21:53 #

Ég skal koma með skjáskot á morgun.

Matti, nei, ekki svo að ég viti. Athugasemdin var löng og (ég efa það) kannski hefur hún skipst niður í mörg hólf. Að vísu kom þegar ég reyndi að setja hana inn fyrst eitthvað með villu í netþjóni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/01/11 22:03 #

Enda sýnist mér á forsíðunni að athugasemdin hafi bara komið einu sinni.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 25/01/11 17:02 #

Þökk sé hæstarétti þá mun þessi maður ekkert fá ráðið um nýja stjórnarskrá.

Nema það vill svo óheppilega til að hann verði kosinn aftur inn á þingið.


Atli Jarl Martin - 25/01/11 22:17 #

Þetta er rosalegt, en kemur mér svosem ekkert á óvart, þar sem Örn Bárður er jú alveg gúgú.

Þrír þumlar fyrir að gauka þessu á Vísi!


Elsa - 25/01/11 22:30 #

Þetta er alveg svakalegt! Gott hjá þér að koma þessu í blöðin. Ég vona virkilega að eitthvað verði gert í málinu. Hann er farinn að minna ansi mikið á Gunnar í krossinum og svona menn eru stórhættulegir almenningi.


Halldór L. - 26/01/11 07:25 #

Það var ekki ég sem hafði samband við Vísi, heldur hann sjálfur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.