Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Prestur predikar, ýkir og skrumskælir

Gunnlaugur Stefánsson

Gunnlaugur Stefánsson, prestur, flutti predikun í Bústaðakirkju nú um helgina. Meginstefið í predikuninni var sú umræða sem hefur verið um ríkiskirkjuna undanfarnar vikur. Greinilegt er af predikunninni að Gunnlaugur er ekki sáttur við þá umræðu. Segir Gunnlaugur í predikun sinni að þeir sem hafi lengst gengið gegn kirkjunni hafi látið „sér oft fátt um sannleiksgildi staðreynda finnast“. Má svo vera. En sýnist mér að Gunnlaugur gangi illa um sannleikann í predikun sinni.

Úrskráningar og aðskilnaður

Gunnlaugur ræðir um úrskráningar úr ríkiskirkjunni í ágúst síðastliðnum og segir:

[...] boðað var að þúsundir manna streymdu úr kirkjunni. Svo komu tölurnar eftir herferðina í lok mánuðar. Rétt innan við eitt prósent úrsagnir, sem er alltof mikið fyrir kirkjuna, en í engu samræmi við spádóma og allan áróður fjölmiðla, enda fóru þær fréttir hljótt.

Þúsundir manna segir Gunnlaugur. Hvað ætli Gunnlaugur eigi við með þúsundum? Ég held að enginn hafi búist 10 þúsund, en áreiðanlega fleiri búist við 5 þúsund. Til dæmis var nefnt í fréttum RÚV talan 3.000 manns og hér á Vantrú var talan 4.000 tekin sem dæmi í þessu samhengi . En svo fór að meðlimunum fækkaði í ágústmánuði einum um tæp tvö þúsund manns.

Gunnlaugur talaði um að fréttirnar af fjölda úrsagna hefðu farið hljótt. Þetta er sannarlega ósatt. Allar helstu fréttaveitur landsins fjölluðu um málið, sjá t.d. RÚV, Morgunblaðið, DV, Vísi, og Pressuna. Það er ekki hljótt. Síðar segir Gunnlaugur:

Þá er fullyrt æ ofan í æ í fjölmiðlum, að kirkjan sé ríkisstofnun og fréttafólk spyr í síbylju hvort ekki eigi að aðskilja ríki og kirkju. Það ríkir trúfrelsi í landinu og kirkjan er sjálfstætt trúfélag að lögum, á í samstarfi við ríkið með gagnkvæmum samningum eins og gildir um mörg frjáls félagasamtök, lýtur eigin stjórn og fjarhagslegs sjálfstæðis, en rækir þjónustu sína við alla landsmenn óháð búsetu og trúfélagsaðild. Prestarnir eru starfsfólk Þjóðkirkjunnar, en ekki ríkisins og eru nú skipaðir af Biskupi, en ekki ráðherra eins og áður.

Vissulega er trúfrelsi hér á landi. Og ríkiskirkjan er vissulega sjálfstæð stofnun að því leytinu til að innan hennar eru teknar ákvarðanir sem varða hana sjálfa. En það sem gjarnan er átt við með aðskilnaði ríkis og kirkju er fjárhagslegur aðskilnaður. Slíkur aðskilnaður er ekki fyrir hendi - ríkið greiðir til dæmis prestum laun, en kirkjan fær einnig sérstakar greiðslur sem önnur trúfélög fá ekki. Gunnlaugur segir jafnframt að prestarnir séu starfsfólk ríkiskirkjunnar, en ekki ríkisins. En samkvæmt úrskurði Hæstaréttar frá árinu 2007 eru þeir starfsmenn ríkisins. Prestur fer hér einfaldlega með rangt mál.

Svo virðist Gunnlaugur vera að skálda þegar hann segir að Alþingi hafi „tekið af félagsgjöldum fólksins til trúfélaganna væna sneið í ríkissjóð eða allt að fimmtu hverja krónu og boðar að taka enn meira.“ Veit einhver hvað prestur meinar með þessu? Raunar má snúa fullyrðingu hans á haus: Trúfélagsgjöld hafa ekki staðið undir greiðslum til trúfélaga, því innheimtum trúfélagsgjöldum í ríkissjóð hefur undanfarin ár alltaf verið útbýtt í heild sinni, en að auki fær ríkiskirkjan ávallt aukagreiðslur umfram trúfélagsgjöldin.

Einkavædd kirkja - fer allt til andskotans?

Í lok predikunarinnar varpar Gunnlaugur fram algengri gagnrýnni trúmanna á samfélag með veikri eða engri kirkju:

Já, viltu aðskilja ríki og kirkju? [...] Nær væri að spyrja: Viltu einkavæða Þjóðkirkjuna? Viltu láta kirkjuna lúta lögmálum viðskiptamarkaðarins um þjónustu sína? Og svörin við þeirri spurningu segja ekki einungis mikið um stöðu kirkjunnar, heldur um framtíð og gerð íslensks þjóðfélags. Víst er, að með einkavæðingu kirkjunnar, þá verður ekki kirkja eins og við þekkjum hana á Þórshöfn eða Stöðvarfirði, Hólmavík eða Vík í Mýrdal svo dæmi séu tekin. Og tæpast verður kirkjan þá sú burðarás í menningu, sálgæslu og velferðarþjónustu eins og verið hefur fram til þessa. Og þá kann að skolast til skilningur manna á gildi kærleikans fyrir mannréttindin og helgi lífsins, og þjóðlífið taki breytingum í þá átt sem fólk óttast mest, að harkan og miskunnarleysið verði í alsráðandi [sic].

Prestur virðist halda að með því að „einkavæða“ ríkiskirkjuna verði hún aumari, minni, veiklulegri. Og ef það gerist, fari samfélagið allt í bál og brand, harka og miskunnarleysi verði allsráðandi í samfélaginu. Óbeint er prestur beinlínis að segja að mannskepnan sé í eðli sínu ill. Kirkjan - og þá væntanlega boðskapur hennar um himnaríki og guð - séu nauðsynleg öfl í samfélagi manna til að koma í veg fyrir að allt fari til andskotans. Ekki satt?

Ég bið prest um að opna augun og líta í kringum sig. Búum við hér á Íslandi í miskunnsömu samfélagi? Hugsum málið: Til stendur að láta fólk rýma heimili sín, þegar nóg er auðu húsnæði í landinu. Margir hafa ekki haft efni á mat og drykk og sækja á náðir hjálparstofnana. Og er þó ríkiskirkjan ekki markaðsvædd, heldur ríkisstyrkt og ríkisrekin! Síra Gunnlaugur: Hefur ríkiskirkjan brugðist? Hvar er miskunnsemin?

Já, síra Gunnlaugur, opnaðu augun!

Guðmundur D. Haraldsson 05.10.2010
Flokkað undir: ( Messurýni , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/10/10 10:30 #

Nýjasta útspil Gunnlaugs er áhugavert. Hann heldur því fram að Gallup taki þátt í áróðri gegn kirkjunni.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 05/10/10 11:06 #

Þegar niðurstöðurnar henta ekki þá má alltaf tala um að sá sem spyr spurningana sé að gera það af annarlegum hvötum.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 05/10/10 11:23 #

Og Gunnlaugur er með pistil í dag á trú.is um að Sóknargjaldið er ekki framlag ríkisins. Það er einfaldlega rangt.


Magnús T - 05/10/10 12:38 #

Alveg er það mergjað að það sé ekki einu sinni hægt að sættast á staðreyndir, heldur þurfi sífellt að leiðrétta lygar og útúrsnúninga. Fólk eins og Gunnlaugur veldur því með þessum hætti að umræðan er einhvern veginn alltaf á byrjunarreit.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 05/10/10 14:39 #

Fólk eins og Gunnlaugur veldur því með þessum hætti að umræðan er einhvern veginn alltaf á byrjunarreit.

Mig grunar að það sé e.t.v. tilgangurinn með svona málflutningi í von um að viðhalda ríkjandi fyrirkomulagi. Það hefur hugsanlega tekist fram að þessu en nú eru breyttir tímar og þessi taktík fer bara í taugarnar á fólki, eykur andúð þess á kirkjunnar mönnum og málstað þeirra. Lítt græt ég það.


Jakob Hjálmarsson - 05/10/10 14:57 #

Hvar segir í hæstaréttardóminum frá 2007 að Þjóðkirkjuprestar séu ríkistarfsmenn? Þar er greint að þeir séu opinberir starfsmenn samkvæmt samningi um kjör þeirra og fjárhagsmálefni kirkjunnar. Þessi dómur gerir kirkjuna ekki að ríkiskirkju og við komumst ekkert áfram með rökræðu um þetta málefni meðan það er ekki viðurkennt að Þjóðkirkjan er sjálfstæð stofnun.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/10/10 15:00 #

Hvar segir í hæstaréttardóminum frá 2007 að Þjóðkirkjuprestar séu ríkistarfsmenn? Þar er greint að þeir séu opinberir starfsmenn samkvæmt samningi um kjör þeirra og fjárhagsmálefni kirkjunnar.

Þetta stendur í úrdráttinum fremst í dómi Hæstaréttar:

Í niðurstöðu sinni vísaði Hæstiréttur til þeirra lögbundnu verkefna sem þjóðkirkjunni væri falið meðal annars með ákvæðum laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 og þeirrar staðreyndar að starfsmenn þjóðkirkjunnar væru opinberir starfsmenn með réttindi og skyldur sem slíkir gagnvart öllum almenningi.

"Réttindi og skyldur sem slíkir gagnvart öllum almenningi". Þarna er augljóslega ekki einungis verið að vísa í kjör þeirra.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 05/10/10 15:10 #

Þetta segir í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar, 61. gr:

Þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar, sem þiggja laun úr ríkissjóði, sbr. 60. gr., njóta réttinda og bera skyldur sem opinberir starfsmenn eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum nr. 70/1996, svo og öðrum lögum er kveða á um réttarstöðu opinberra starfsmanna.

Við höfum líka birt grein sem heitir 12 ástæður þess að Þjóðkirkjan er ríkiskirkja.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 05/10/10 16:17 #

Ég býst við að Jakob hafi lesið þetta og býst þess vegna líka við því að hann ætli að grípa í það hálmstrá að segja að ríkisstarfsmenn séu ekki það sama og opinberir starfsmenn.

Sem væri auðvitað frábær hártogun í anda sr. Gunnlaugs.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 05/10/10 16:34 #

Mér þykir það verulega óheiðarlegt að ætla að splitta hárum yfir muninum á ríkisstarfsmanni og opinberum starfsmanni.

Það eru margar útfærslur á opinberum starfsmönnum (starfsmenn bæjarfélaga, starfsmenn opinberra hlutafélaga etc etc) það breytir engu um það að ríkið borgar ríkisprestum laun með peningunum mínum.

Það sem ríkisprestar halda fram er að launin sem ríkið borgar þeim séu í raun bara vextir af þessum jörðum sem ríkið tók yfir á sínum tíma. Þannig er kirkjan algjörlega aðskilin ríkinu í þeirra augum.

Þetta er auðvitað byggt á misskilningi eins og sýnt hefur verið fram á hér á Vantrú áður.


Jón Steinar - 05/10/10 20:32 #

Það sem mér finnst fáránlegast við þessar stólræður gegn vantrúuðum og til varnar kirkjunni sem stofnun, er hin botnlausa sjálfhverfa sem birtist í þessu. Hvers vegna taka prestar messutima sinn undir slíkt þá sjaldan fólk mætir til að hlusta á guðsorðið. Í staðinn fyrir hugvekjur og vangaveltur út frá ritningum um lífið og tilveruna, þá fær fólk hápólitískar ræður um stöðu kirkjunnar eða svartagall gegn þeim, sem ekki tilheyra henni. Það þarf ekki vantrú til að eyða slíkri stofnun. Þessi "vörusvik" ættu að nægja til að hrekja restina af þeim, sem enn mæta en eru tvístígandi út úr költinu. Það er ekki boðlegt trúuðum að sitja undir dilkadrætti og gremjuræðum presta um það eitt sem snýr að þeirra og kirkjunnar háttum. Ég hélt að fólk væri að leita einhvers annars á þessum síðustu og verstu en því.


Jakob Hjálmarsson - 05/10/10 20:33 #

Nei, ég lá nú ekki yfir þessu og hef þá gefið gott tækifæri fyrir ykkur aðláta ljóin skína. Þíð hafið náttúrlega upplýst þetta að ekki eru allir opinberir starfsmenn ríkistarfsmenn, td ekki starfsmenn sveitarfélaga og reyndar ýmsir aðrir.Þó ríkið borgi starfsmönnum laun er ekki þar með sagt að þeir séu ríkisstarfsmenn. Reyndar er um þetta all sérstakur samningur sem hefur ekkert að gera með þessa staðreynd eins og hæstaréttardómurinn lýsir glögglega. Annað fyrirkomulag væri að líkt og í Svíþjóð leysti ríkið út eigur kirkjunnar og hún sæi um þær sjálf. Þá tækjum við um leið burtu þann Salómonsdóm að þjóðin gæti greitt atkvæði um afnot Þjóðkirkjunnar af þessum eignum með fótunum á grundvelli atkvæðisins um að með hverjum 5000 sem landsmönnum fækkar í kirkjunni falli niður eitt prestsembætti. Það er réttlátt að fólkið ráði þessu.


Halldór Logi Sigurðarson - 05/10/10 20:50 #

@Jakob Hjálmarsson Ha? Ég er opinberlegur allra-handa götuöskrari. Ríkið borgar launin mín, og allra hinna allra-handa götuöskraranna. Ég er samt ekki ríkisstarfsmaður. Afhverju ekki? Jú, því ég er með sérstakan samning sem segir annað.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 05/10/10 21:40 #

Það er, held ég, ekkert vafaatriði að prestar Þjóðkirkjunnar eru ríkisstarfsmenn. Biskup, vígslubiskupar, prófastar og prestar Þjóðkirkjunnar eru embættismenn, samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70 frá 1996

Fyrsta grein laganna er svohljóðandi:

1. gr. Lög þessi taka til hvers manns sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar, án tillits til þess hvort og þá hvaða stéttarfélagi hann tilheyrir, enda verði starf hans talið aðalstarf. Ákvæði II. hluta laganna taka þó einvörðungu til embættismanna, sbr. 22. gr., og ákvæði III. hluta einvörðungu til annarra starfsmanna ríkisins.

Ef ekki er annað tekið fram er með hugtakinu „starf“ átt við sérhvert starf í þjónustu ríkisins sem lögin ná til, en með hugtakinu „embætti“ er einungis átt við starf sem maður er skipaður til að gegna, sbr. 22.

[Feitletrun mín]

22. grein laganna er svona:

22. gr. Embættismenn teljast samkvæmt lögum þessum einvörðungu þeir starfsmenn ríkisins sem taldir eru upp hér á eftir:

  1. Skrifstofustjóri Alþingis, ríkisendurskoðandi og umboðsmaður Alþingis.
  2. Forsetaritari, ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar í Stjórnarráði, sendiherrar og sendifulltrúar í utanríkisþjónustunni.
  3. [Hæstaréttardómarar, skrifstofustjóri Hæstaréttar og héraðsdómarar.]1)
  4. Biskup Íslands, vígslubiskupar, prófastar og prestar þjóðkirkjunnar.
  5. Ríkissaksóknari, vararíkissaksóknari og saksóknarar.
  6. Ríkislögmaður, ríkissáttasemjari og umboðsmaður barna.
  7. [Sýslumenn, ríkislögreglustjóri, [aðstoðarríkislögreglustjórar, lögreglustjórar og aðstoðarlögreglustjórar],2) skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, [forstjóri Útlendingastofnunar]3) og lögreglumenn.]4)
  8. [Tollstjórinn í Reykjavík og tollverðir.]5)
  9. [Forstjóri fangelsismálastofnunar, forstöðumenn fangelsa og fangaverðir.]4)
  10. [Ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri ríkisins og yfirskattanefndarmenn sem hafa það starf að aðalstarfi.]6)
  11. …7)
  12. [Yfirdýralæknir.]8)
  13. Forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, áður ótaldir.]4)

Fjármálaráðherra sker úr því hvaða starfsmenn falla undir [13. tölul. 1. mgr.]4) og skal hann fyrir 1. febrúar ár hvert birta lista í Lögbirtingablaði yfir þá starfsmenn.

[Feitletrun mín]

Ég get ekki séð á hvaða forsendum hægt er að halda því fram að prestar Þjóðkirkjunnar séu ekki starfsmenn ríkisins. Þetta gæti varla verið mikið skýrara, er það?


Jakob Hjálmarsson - 06/10/10 11:51 #

Þetta er nokkuð skýrt held ég og þessu hef ég viljað breyta svo sem menn gætu séð ef þeir vildu. Hæstaréttardómurinn gerir þetta hins vegar ekki að umræðuefni eins og vikið var að hér. En þetta er ekki ósk kirkjunnar, heldur fyrirkomulag sem ríkið hefur ákveðið og til dæmis um það sem við þurfum að aðskilja. En ég vil aftur beina athyglinni að réttlætinu í fyrirkomulagi eignamálanna og launagreiðslna presta þar með.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/10/10 12:34 #

Hæstaréttardómurinn gerir þetta hins vegar ekki að umræðuefni eins og vikið var að hér.

Haaaa!


Reynir Örn - 01/06/11 21:55 #

Varðandi hræðslu hans við að "einkavæða" ríkiskirkjuna...

Næstum öll lönd í heimi hafa "einkavætt" sínar ríkiskirkjur. Og þau eru að spjara sig VEL. Hvaða rugl er þetta?

Sjá kortið hér: http://en.wikipedia.org/wiki/State_religion

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.