Kirkjan er dálítið sjálfhverf. Viðbrögð hennar þessa dagana virðast snúast um að dusta rykið af skrautkraganum í stað þess að moka út skítnum. Aðalatriðið er að bjarga andlitinu en fórnarlömbin gleymast.
Úr kristninni þekkjum við hugtökin játning, iðrun og yfirbót. Í aldir og áratugi hefur kirkjan stundað afneitun, árásir og hroka. Þegar öllum er það loksins ljóst og játning er óumflýjanleg kemur þess í stað ósannfærandi viðurkenning á mögulegu sannleiksgildi gamalla ásakana. Játningin er hálfkák en þótt þjófi þyki ömurlegt að vera staðinn að verki getur enginn kallað vanlíðan hans iðrun. Og svo bólar nákvæmlega ekkert á yfirbót.
Um svipað leyti og Ólafur Skúlason var gerður fyrsti æskulýðsfulltrúi ríkiskirkjunnar misnotaði hann eigin dóttur sína kynferðislega. Hann gekk líka á börn og unglinga í starfi sínu. Síðar var hann gerður að formanni Prestafélagsins, prófasti og loks biskupi. Biskupinn þverneitaði ásökunum og sneri vörn í sókn, kærði þá til ríkissaksóknara sem bentu á brot hans í stað þess að hafa vit á að setja sig ekki á háan hest. Svo tala menn fjálglega um „kristið siðgæði“ og mikilvægi þess að börnum séu innrættar þær tröllasögur sem þetta skrímsli kenndi sig við og boðaði.
Prófastafélag Íslands studdi dyggilega við ofurhræsnarann (sjá hér) og upprennandi stjörnur ríkiskirkjunnar líka (sjá hér). Þegar „monsterið“ sakaði konurnar um að vera veikar á geði og jafnvel kölski sjálfur (sjá hér) töldu siðapostularnir að þeirra hlutverki væri lokið. Hugsið ykkur.
Það hefur verið undarlega hljótt um flesta presta upp á síðkastið, sem bendir til að annað hvort kunni þeir að skammast sín eða að þeir treysti á að almenningur gleymi nú þessum yfirsjónum og fari að hugsa um eitthvað annað sem fyrst. Nokkrir þeirra hafa reynt að segja nú, svona löngu síðar, að þeir trúi konunum. En mest púðrið fer í að reyna að sannfæra almenning um að nú sé kirkjan orðin svo fádæma meðvituð að tímarnir séu allt aðrir en áður, hún eigi sér meira að segja fagráð í kynferðisbrotum innan sinna raða.
En vita kirkjunnar menn ekki að þú kemst ekki upp með að brenna húsið ofan af nágrannanum og segja svo að þér þyki það að vísu leitt en nú sértu búinn að skrifa reglur um meðferð eldspýtna? Hvað um þann sem missti húsið?
Sá prestur sem ég hef hingað til talið að gæti bjargað því sem bjargað verður í ranni kirkjunnar er séra Sigríður Guðmarsdóttir. Hún flutti prédikun undir nokkurri rós um kynferðisofbeldi (sjá hér) og svo kom hún fram með hugmyndir um sannleiksnefnd til að rannsaka brot Ólafs. Þegar ég sá að hún ætlaði í næstu prédikun að fjalla um eftirfarandi texta hélt ég að nú væri komið að hugmyndum um einhverja yfirbót:
Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flett hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá. Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.` Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?``
Sagan er einföld og auðskilin. Hugsanlega hefur presturinn í sögunni kennt í brjósti um fórnarlambið, jafnvel samið hjartnæma prédikun um hörmungar ofbeldis og að hann búi yfir eina lyklinum til að koma í veg fyrir það. Kannski beitti hann sér fyrir því að kirkjan hans semdi reglur um ofbeldi, skipaði fagráð, hengdi upp veggspjöld sem varaði við hættum þess o.s.frv. o.s.frv. Ekkert af þessu hefði gagnast fórnarlambinu í neyð þess. Er það ekki augljóst?
Séra Sigríður ákvað að snúa þeirri hörmungarsögu, sem nú er á allra vitorði, upp á fortíðina. Hún hefst svona:
Kona nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningja. Hann fletti hana klæðum og barði hana, hvarf síðan á brott og lét hana eftir örvona og niðurlægða.
Konan komst við illan leik heim til sín. Nokkur tími leið og konunni fannst hún óhrein og lítils virði. Hún var hrædd við að vera ein á ferð og tvílæsti alltaf á eftir sér þegar hún kom heim. Hún hafði borið kennsl á ræningjann. Hann var prestur í musterinu í Jerúsalem, stundaði rányrkju samhliða störfum sínum í musterinu og lagðist einkum á konur á fáförnum stað.
Áfram eru hörmungar konunnar raktar og enginn kemur henni til bjargar eða hjálpar. En sögulokin eru vægast sagt undarleg:
Einn góðan veðurdag kemur konan á asna sínum frá Samaríu og sér nokkra presta sitja dapra og örvona á leiðinni ofan til Jeríkó. Hún sest við hlið þeirra og talar við þá. Hún setur smyrsl á sár þeirra, sýnir þeim ör sín og segir þeim frá því þegar hún fór um veginn forðum. Hún segir þeim að það sé ekki nóg að búa til reglur og girðingar. Musterið er ekki aðeins byggt af steinum, segir konan, heldur lifandi fólki. Vegurinn verður aldrei öruggur fyrr en ránsmennirnir eru hraktir á flótta og fólkinu sinnt sem orðið hefur fyrir ofbeldi. Musterið verður ekki skjól fyrir vatni og vindum nema fólkið sem vinnur þar og biður þar, sé kjarkað og horfist í augu við götin og skemmdirnar.
Þegar prestarnir sáu að konan ætlaði ekki að berja þá, eða ræna lögðu þeir við hlustir. Þeir ákveða að sækja fleiri presta og levíta og konan fór og sótti hinar konurnar. Síðan dreif að fleira fólk og þau ræddu saman um það hvað ætti við musterið.
Ég furða mig á þessum sögulokum. Konan setur smyrsl á sár presta sem sitja daprir og örvona. Og prestarnir leggja ekki við hlustir fyrr en þeir sjá að konan ætlar ekki að berja þá eða ræna!
Hér höfum við bent á að kirkjan ætti að sjá sóma sinn í að bjóða þessum konum aðstoð fagaðila og rausnarlegar bætur fyrir meðferðina (brotin, ásakanir og þöggun). Í framhaldi af því ætti svo auðvitað að fara ofan í saumana á þessu máli og öðrum af svipuðum toga og skilja að ríki og kirkju.
Samverjinn kenndi í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.“
Samverjinn hafði ekki gert neitt á hluta fórnarlambsins en lagði þetta þó allt á sig, dró meira að segja upp pyngjuna. Þar sem við berum öll ábyrgð á að hér á landi er enn ríkiskirkja, sem fær fimm þúsund milljónir af skattfé okkar árlega og farísear hennar opinberir starfsmenn, ber ríkisvaldinu að játa ábyrgð (bæði á biskupsófétinu, prestunum og klúðri saksóknara), sýna svo iðrun og gera yfirbót með því að draga upp pyngjuna. Ekki gerir kirkjan það.
Prestar virtust ætla að gera eitthvað í málinu með því að boða til fundar Prestafélagsins en þegar til átti að taka varð ekkert úr honum vegna þess að tillaga að sannleiksnefnd verður borin undir kirkjuþing í nóvember. Þar glötuðu þeir tækifæri til að taka frumkvæðið, sýna hver stefna þeirra er og álit á núverandi yfirstjórn kirkjunnar.
En svo bárust fréttir af því að fjöldi presta hefði setið fund með nokkrum þolendum kynferðisofbeldis Ólafs biskups. Nú, jæja, hugsaði maður. En mesti glansinn hvarf af fundinum þegar lýsingar af honum fóru að birtast ein af annarri og það skein í gegn að prestarnir virtust ætla að nýta sér þessar konur til að upphefja eigið ágæti, hvað þeir finndu til með þeim, hvað þeir hefðu lært mikið, að það hefði komið fram tár og margir sagt fyrirgefðu. Botninum var þó náð þegar í ljós kom að það voru ekki prestarnir sem höfðu haft rænu á að boða konurnar til þessa fundar heldur var hann að frumkvæði Sigrúnar Pálínu.
Ef þið haldið að kirkjan geti ekki sokkið dýpra þá má benda á nýjasta útspil biskups í stöðunni. Kirkjan ætlar að skipa nefnd, svo á að fræða starfsfólk kirkjunnar um kynbundið ofbeldi, skima starfsmenn hennar, endurskoða úrræði og efla handleiðslu og faglegan stuðning við presta, djákna og annað starfsfólk kirkjunnar.
Er ég svona blindur eða gleymast þolendurnir alveg í þessu dæmi, nema sem eitthvað til að nudda sér uppvið þegar almenningsálitið hefur svo gjörsamlega snúist á sveif með þeim gegn ómanneskjulegu bákni kirkjunnar?
Takk sömuleiðis, Sigríður.
Ég þekki þessa rétthugsun að þolendur séu sigurvegarar (survivors) frekar en fórnarlömb en ég er ekki í neinum vafa um að í þessari sögu eru konurnar fórnarlömb biskupsins. En ég reyndi að koma að orðinu "þolendur" líka í greininni.
Auðvitað eru prestarnir ekki bersekir í þessu máli. Margir eiga sér sínar málsbætur, aðrir færri. En jafnvel sá sekasti hefði verið maður að meiri að boða til fundar með konunum til að játa vanrækslu sína og mistök. Áframhaldandi aðgerðaleysi er ekkert annað en aumingjaskapur, ragmennska og þaðan af verra.
Ég samgleðst konunum ef þeim líður betur eftir fundinn og eflaust veitir það þeim styrk að rétta grátandi prestum hjálparhönd en prestarnir mega ekki gleyma sér í píslarvættishlutverkinu. Líkt og þú bentir svo ágætlega á í þinni athugasemd er Samverjinn gerandi í sögunni. Hingað til hef ég ekki séð neinn prest koma konunum beinlínis til hjálpar eða mælast til þess að hlutur þeirra sé réttur með nokkrum hætti.
Svo erum við sammála um að það liti illa út að seilast í pyngjuna án þess að hugur fylgdi máli. Iðrun verður að fylgja yfirbótinni. En án yfirbótar verður litið á sjálfmiðað fálm kirkjunnar manna sem yfirklór og ekkert annað.
Hins vegar er þetta mál ofureinfalt í kjölinn ef maður nennir bara að opna augun. Þetta er ekki spurning um snúna lögfræði eða guðfræði heldur mannasiði. Fyrir brot skulu koma bætur, punktur.
Aðeins um boðið á fundinn í gær. Nokkrir prestar buðu Sigrúnu Pálínu á fund á föstudaginn, þegar við fréttum að hún væri á landinu. Þar var rætt um nauðsyn þess að ræða meira saman, svo við héldum annan fund á laugardaginn. Þar vaknaði sú hugmynd að halda fund og bjóða öllum prestum sem gætu komið. Sigrún Pálína hringdi í konurnar og prestarnir komu boðinu á framfæri við alla prestana.
Mér finnst það mikill kjarkur af fjórum konum að mæta fimmtíu prestum.
FYRRA BRÉF PÁLS TIL KORINTUMANNA 1 14:34 Eins og í öllum söfnuðum hinna heilögu 34skulu konur þegja á safnaðarsamkomunum, því að ekki er þeim leyft að tala, heldur skulu þær vera undirgefnar, eins og líka lögmálið segir. 35En ef þær vilja fræðast um eitthvað, þá skulu þær spyrja eiginmenn sína heima. Því að það er ósæmilegt fyrir konu að tala á safnaðarsamkomu. 36Eða er Guðs orð frá yður komið? Eða er það komið til yðar einna?
Sigríður, ég geri ráð fyrir því að þú hafir lesið biblíuna(með biblíugleraugum). hvernig í ósköpunum réttlætiru það að þú takir til máls í kirkju?
einnig, trú þín ýtir undir kynjamismunun, kannastu kannski við "Réttindi frumgetins sonar" fjölkvæni og mannsal... guð þinn setti reglur um hvernig skal selja dóttur sína í ánauð. ekki stendur í texta þeim ef þér þóknast heldur "ÞEGAR ÞÚ SELUR DÓTTUR ÞÍNA" þá vaknar önnur spurning hvað í ósköpum ert þú að tjá þig um mál sem varða kynferðisofbeldi ef biblía kirkju þinnar ýtir undir kynferðisofbeldi og kvenfyrirlitningu. ef kona hrópar ekki nógu hátt þegar henni er nauðgað er það henni að kenna og skal hún grýtt til dauða. þetta er meðal margra ógeðfelldra boða sem biblían kennir og þú sem vinnur við að bera "fagnaðar erindi krists" ert þú virkilega rétta manneskjan til að opna munnin og tjá þig þegar að kemur að svona óhentugum málum í garð kirkjunnar? eg ég væri fórnarlambið þá myndi mér vera ofboðið af hroka.
FYRRA BRÉF PÁLS TIL TÍMÓTEUSAR 1:2 : 11Konan á að læra í kyrrþey, í allri undirgefni. 12Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát.
"7Þegar maður selur dóttur sína að ambátt, skal hún ekki burt fara á sama hátt sem þrælar. "
Komdu sæl/l Anonymous (Þó mér þyki reyndar betra að tala við fólk undir nafni en nafnlaust)
Ég gæti gubbað yfir mörgu sem stendur í Biblíunni, þar á meðal þeim ritningarstöðum sem þú nefnir. Engu að síður horfist ég í augu við þessa texta, sem hluta af því sem hefur mótað lífsviðhorf mitt, sögu og menningu. Ég tel mig ekki þurfa að vera sammála þeim textum fyrir það. Ef þú skoðar viðtal sem Vantrúarmenn áttu við mig fyrir ári eða svo og finna má á þessum vef, þá geri ég nokkuð grein fyrir afstöðu minni til Biblíu og hefðar þar.
Bestu kveðjur, Sigríður
uh afstöðu? "Heilög ritning" heilagur sannleikur skrifaður af guði eða með guðlegum innblástri. held það að taka afstöðu til þess geti einungis fólgist í því að maður er sammála og trúir öllu eða ósammála og trúir engu...
má vera að ég geti ekki sýnt frama á að guð þinn sé ekki til(enda ekki mitt verk og "cant proove a negative") en ég get sýnt fram á það að hann sé lygari og grimmur harðstrjóri
gerum nú ráð fyri því að biblían væri "heilög ritning", myndi heilög ritning ekki vera sönn ?
frá vísindalegu sjónarhorni er þetta easy, þessi "guð" er mesta lygafyiribæri í heiminum. ef þú hefur lesið um sköpunina í genesis þá vonandi veistu hvað ég á við. komum nokkrum staðreindum á hreint : jörðin er ekki flöt, jörðin er eldri en 4000ára, það voru til risaeðlur, jörðin er ekki miðja alheims sem er tómur.
Jesaja 40:8 hljóðar svo „Grasið visnar, blómin fölna, en orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega“.
Pétursbréf 1:24-25 segir einnig „Allt hold er sem gras og vegsemd þess blóm á grasi; grasið skrælnar og blómið fellur. En orð Drottins varir að eilífu“.
Psalm 19:7 „lög drottins eru fullkomin“
segjum nú að ég sé með bók staðreynda... í þeirri bók er þyngdarlögmálið, sú staðreynd að að brenna sig er vont og að ef þú skerð þig á púls muntu að öllum líkindum deyja...
á ég að taka hæfilegt mark á þessari bók staðreynda, ætti ég að taka eins mikið mark á þeim og mér hentar eða ætti ekkert að taka mark á henni?
þú trúir ekkert bara því sem þér hentar úr biblíunni, þá ertu einfaldlega ekki kristin. annaðhvort viðurkenniru allt og fylgir öllu eða engu. eða skerðu þig nokkuð bara pínu á púls og hoppar bara stundum fram af húsþökum?
en hey ég er bitur satanisti, ég má ekki vera lærisveinn krist einfaldlega því að ég hata ekki allt og alla.(Lúkasar guðspjall 14:26)
í hverju felst það hjá þér að horfast í augu við hluti? að hunsa þá og halda þínu striki kannski?
("Engu að síður horfist ég í augu við þessa texta, sem hluta af því sem hefur mótað lífsviðhorf mitt, sögu og menningu.")
FYRRA BRÉF PÁLS TIL KORINTUMANNA 1 14:34 Eins og í öllum söfnuðum hinna heilögu 34skulu konur þegja á safnaðarsamkomunum, því að ekki er þeim leyft að tala, heldur skulu þær vera undirgefnar, eins og líka lögmálið segir.
konur skulu þegja á safnaðarsamkundum...
biblíuna tel ég mjö góða til að greina hvernig manneskja maður er, greiningin felst í að lesa hana... ef þú trúir eftir lesningu ertu annahvort flón og hefur lesið með biblíugleraugum og séð það sem þú vilt, þú getur lesið hana rétt og séð sorann sem þetta boðar og hefur orsakað og að lokum geturu lesið hana og skilið hana rétt en samt haldist kristinn. þá fær maður svona skrýmsli eins og Martin Luther stofnanda Mótmælendakirkjunnar eða Adólf Hitler.
Sigríður Guðnadóttir svarar: "Engu að síður horfist ég í augu við þessa texta, sem hluta af því sem hefur mótað lífsviðhorf mitt, sögu og menningu. Ég tel mig ekki þurfa að vera sammála þeim textum fyrir það."
Hvað nákvæmlega þýðir þetta? Ertu að velja og hafna úr Biblíunni? Þú gætir gubbað yfir sumu, en hvað er svo sætt að það bæti upp veðbjóðenn?
Langar í einlægni að vita það Sigríður. Í leiðinni máttu, ef þú nennir, að tíunda það sem þér þykir fegurst og réttlátast um konur og rétt þeirra í þessari bók. Jafnvel það sem nægir til að fyrirgefa allan eld og brennistein.
Ég veit þú nefnir ekki söguna um bersyndugu konuna, því hún er um undanþágu Jesú frá annars boðuðu skikki almættisins sjálfs, auk þess sem hún er náttúrlega ekki "guðs orð" af því að heni var bætt inn einhverntíma rétt fyrir siðaskiptin hér og finst ekki í eldri útgáfum, neinstaðar.
Þú munt væntanlega taka eitthvað frá Jesú sjálfum, því þú finnur fátt í GT utan nokkur blautleg vers í ljóðaljóðum. Ekki hjálpa orðskviðirnir heldur.
Nú ef þú leitar til meistarans og friðarhöfðingjan sjálfs, sem væri jú eðlilegt, þá endilega hafðu í huga grundvallarprinsippin hans í Lúkas 14:26 t.d. eða bara matt: 10:34-6 eðq sjö.
Segi þetta ef þú skyldir t.d. vitna í það að elska náungan eins og sjálfan sig, en í fyrri tilvitnun er lagt fyrir hvernig Kristnum mani ber að elska sig, sem er jú viðmiðið í allri fegurðinni í því síðara.
Hvað þýðir að horfast í augu við textana, sem hluta af því, sem mótar lífsviðhorf þitt? Ég næ þessu ekki.
Bjarki skrifaði: "þú trúir ekkert bara því sem þér hentar úr biblíunni, þá ertu einfaldlega ekki kristin."
Síðan ég hætti sjálfur að vera kristinn, þá hætti ég að reyna að skilgreina hvað það er að vera kristinn. Kristnir verða að fá að leysa það sjálfir. Ég tel ekki réttmætt að ákveða það fyrir Sigríði hvort hún sé kristin eða ekki. En eru menn ekki komnir langt út fyrir efni greinarinnar?
"Síðan ég hætti sjálfur að vera kristinn, þá hætti ég að reyna að skilgreina hvað það er að vera kristinn. Kristnir verða að fá að leysa það sjálfir. Ég tel ekki réttmætt að ákveða það fyrir Sigríði hvort hún sé kristin eða ekki. En eru menn ekki komnir langt út fyrir efni greinarinnar?"
það stendur nokkuð fluffin skýrt í bréfum páls að kona skal ekki taka til orðs í kirkju, kona skal ekki taka sér vald yfir karlmanni né kenna honum. hún er mjöög augljóslega að baka sér syndir og hefur væntanlega ekki komið uppúr henni nokuð aukatekið orð í kirkju nema guðlast - enda er bannað að þýða biblíuna frá málinu sem hún var skrifuð á.
það er ekkert hægt að taka eitthvað sem þér finnst flott í trúabrögðum, hunsa það slæma og kalla þig trúaðann.(hægt en fokkin heimskulegt)
td. mér gæti allveg hentaða að taka pínu af þessu og hinu í trúabrögðum en ég hef vit fyrir því að kalla mig ekki trúaðann.
biblían skilgreinir hver er kristinn og hver er ekki, ef þú myrðir ekki samkynhneigða samborgara þínva, grýtir ekki óhlýðin börn þín, slátrar ekki fólki af öðrum trúarskoðunum og selur dóttur þína ekki á réttan hátt í ánauð þá brýtur þú boð guðs biblíunnar það eru örfáir sannkristnir enda er enginn svo kaldblóðugur að gera það sem biblían býður sem betur fer.
Bjarki ég veit vel hvað N.T. segir um konur, t.d. kemur að mínum dómi fram kvennfyrirlitning svipuð þeiri sem kemur fram í 1. Kor 14, sem þú vísaðir í einnig fram í: 1. Kor 11:3, 1. Kor 11:7-9, Efesus 5:21-24, 1. Tím 2:11-15, Títus 2:3-5, 1. Pet 3:1-2. 1. Pét 3:7.
Það er hins vegar ekki rétt að "Biblían" skilgreini hver sé krisitnn og hver ekki, en það er gort í mörgum bókum Biblíunnar, og skilgreiningarnar eru misjafnar. T.d. væri séra Sigríður alveg örugglega kristin skv. skilgreiningu Rómverjabréfs 10:9: . 9Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn, og trúir í hjarta þínu að Guð hafi upp vakið hann frá dauðum verður þú hólpinn.
En þessar umræður okkar Bjarka eru komnar langt út fyrir efni greinarinnar og ættu að vera á opna spjallinu.
Bjarki, "Biblían" sem slík segir ekki neitt. Bækur Biblíunnar eru auðvitað margar og höfundar ótal margir (oft eru bækur samsettur úr skrifum margra höfunda, t.d. Jesaja spámður og Mósebækurnar). Þessir höfundur eru alveg jafn oft ósammála og þeir eru sammála, og eru marg oft í andstöðu hver við annan. Það að segja að "Biblían" segi eitthvað, og vísa svo í eitthvað vers í einhverri bók í henni, getur verið eins og að segja að Alþingi segi eitthvað, ef því að Bjarni Benediktsson sagði það.
@Sindri, segjum að þú lesir skákreglur í bók gefinni út af internatoinal chess rules associoaton of te fuckin universe eða álíka og hlýðir þeim reglum sem þér hentar og leikur peðið eins og drottningu ættu flestir að vera sammála um að þú ert ekki að leika skák... á sama hátt segir biblían hvernig skal lifa eftir lögmálum guðs, sá sem gerir það ekki eins og stendur eða ekki yfir höfuð er ekki kristinn þar sem hann/hún spilar ekki eftir tilsettum reglum.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Sigríður Guðmarsdóttir - 31/08/10 20:11 #
Holl áminning Reynir.
Ég hef hugsað mikið um gagnrýni þína um ræðuna mína á Facebook á sunnudaginn. Ræðan varð til í tilfinningaþrungnu andrúmslofti vegna þess að ég er svo undrandi yfir því að þessar konur skuli yfir höfuð vilja tala við okkur og veita okkur af styrk sínum og reiði. Ég dáist af þeim og ég er mjög upptekin af því þessa dagana. Fyrst langaði mér að setja þær allar inn í fórnarlambshlutverkið í sögunni um manninn sem var rændur. Presturinn og levítinn sveigðu hjá, maðurinn var rændur, hvað gæti verið auðveldara? Sigrún Pálína hefur skammað okkur mikið fyrir að kalla þær fórnarlömb, því að þær hafi lifað af kynferðisofbeldi og eru sigurvegarar. Ég tala um hana hér vegna þess að hún hefur gefið mér leyfi til að nefna hana. Það var fyrst og fremst þess vegna sem ég setti hana í hlutverk Samverjans, sem er sá eini í sögunni sem gerir eitthvað í sögunni, er gerandi í sínu lífi og annarra. Þannig upplifði ég þær konur sem ég hef kynnst í vikunni. Það skiptir miklu að þessum konum sé ekki skipað inn í eitthvað sjálfvirkt fyrirgefningarferli, þar sem hægt er að pakka þeim inn í þægilegar umbúðir fyrir PR kirkjunnar. Og það er sá hluti sem ég er óró yfir í minni eigin prédikun, allt orðið gott aftur, THE END. Þess vegna finnst mér gott að íhuga það sem þú sagðir.
Ég held að þolendurnir gleymist ekki, við tölum og tölum saman og grátum saman líka. Það verður meira að koma til en fundur og fyrirgefðu. Í dæmisögunni um Miskunnsama Samverjann segir bæði að Samverjinn hafi látið sér annt um manninn og beðið gistihúseigandann að gera slíkt hið sama. En ég held að prestarnir hefðu ekki getað kallað til þessa fundar, þeir sem hafa brotið á öðrum geta ekki gert það.Það er hins vegar sérstök gjöf þegar þolendurnir treysta sér til að horfast í augu við þau sem sviku þau forðum og ég er einlæglega þakklát fyrir það.
Kannski hefði ræðan verið betri ef ég hefði einfaldlega stoppað þar sem musterið varð að grjóthrúgu. En konurnar fylltu mig von um að það takist að hreinsa til í kirkjunni. Og ég þarf á von að halda til að halda áfram að skrúbba.
Ég er sammála þér um það að kirkjan á að gera allt sem á hennar valdi stendur til að gera yfirbót fyrir brot og þöggun. Ég trúi því að þetta grátkast okkar sé byrjunin á slíku yfirbótarferli. Það væri slæmt ef kirkjan gleymdi sér í eigin sjálfhverfu sekt. Það væri jafnslæmt að taka upp pyngju án þess að hugur fylgdi máli til að losna við óþægilegt fólk. Þetta tvennt þarf að fylgjast að, iðrunin og yfirbótin.
Takk fyrir góða og réttmæta gagnrýni og að lesa ræðurnar mínar. Kær kveðja, Sigríður