Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúlausi guðfræðingurinn

Það var árið 2003 að ég skráði mig í nám í Guðfræðideild HÍ. Ekki það að ég hafi verið sérstaklega trúaður eða að hugur minn stefnt í prestskap, heldur þótti mér fögin sem í boði voru nokkuð spennandi. Ég hef alltaf verð svolítið heillaður af trúarbrögðum mannkyns og langaði mikið til að vita hvort það væri fótur fyrir staðhæfingum trúarbragðanna um eftirlíf, karma og hið guðlega. Til að gera langa sögu stutta þá kláraði ég námið á 2 árum með fyrstu einkunn. Þennan tíma lærði ég afskaplega mikið og sennilega hafa þessi ár mótað mig meira en ég sjálfur átti von á. Kennslan öll var fyrsta flokks og sumir kennarar mínir eru mér ógleymanlegir. Sérstaklega reyndist Bjarni Randver Sigurvinsson mér vel sem og Dr. Pétur Pétursson. Þeir hjálpuðu mér og lásu yfir B.A ritgerðina mína. Tímarnir hjá Sigríði Þorsteinsdóttur voru oft og tíðum rafmagnaðir. Ég hef stundum samband við Sigríði þegar andinn kemur yfir mig í heimsspekilegum pælingum.

Ég held m.a að ég hafi dottið niður á skemmtilegan flöt á kenningu Kirkegaards um trúarstökkið. Einu sinni hringdi ég í hana þegar einhver skrifaði grein í blaðið og rangtúlkaði Nietzche. -Ég var miður mín. En svona er heimsspekin yndisleg. Maður losnar ekki við hana þrátt fyrir að maður telji sig ónæman. Heimsspekin er eins og vírus sem tekur sig upp á ólíklegustu tímum. Maður fær útbrot hvers meðhöndlun eru gáfulegar samræður. Dr. Pétur Pétursson á heiðurinn af því að hafa smitað mig af öðrum vírus, Tarkovski vírusnum. Kann ég honum þakkir fyrir það. Tarkovski mun héðan í frá alltaf fylgja mér, enda ólæknandi, og valda mér heila(út)brotum um ókomna tíð.

Ég náði ekki að smitast af trúarvírusnum og byggði mér á þessum tveimur árum upp ónæmi gegn trúarbrögðum. Í náminu var farið ýtarlega yfir helstu trúarbrögð heimsins, inntak þeirra og trúarkenningar. Þrátt fyrir að margir haldi að guðfræði sé bara undirbúningur fyrir starf hjá ríkiskirkjunni þá er það svo að námið er afar faglegt. Ég tók t.d bara einn áfanga sem teljast má sérhannaðan fyrir kirkjulegt starf. Það var áfangi sem hét ”guðfræði díakóníunnar” en í honum áttu nemendur að útskýra (oft frá persónulegum vinkli) ritningarstaði sem þeim var úthlutað. Auðvitað er það svo að fólk getur hagað námi sínu eftir áhugasviðum og í mínu tilfelli tók ég félagslegan vinkil á námið frekar en trúarlegan. Ég las þó Biblíuna spjaldanna á milli og tók áfanga í guðfræði Nt, kristinni siðfræði og kristinni kvennasiðfræði (kristinn siðfræði og kvennagagnrýni). Það er reyndar einn áfangi sem ég tók sem ég er ósáttur við. Það er áfanginn Sálgæslufræði. Mér fannst sá áfangi lítið eiga við nám á háskólastigi og var miklu frekar einhverskonar hópefli. Verkefni vetrarins var að lesa Jobsbók, greina hana og tengja á persónulegan hátt við áföll eða atburði úr lífi nemenda. Til að gera langa sögu stutta þá fóru flestir nemendur að háskæla þegar verkefnið var kynnt. Þetta var afar óþægilegt að upplifa. Mér finnst svona lagað eiga heima annarsstaðar en í háskólanámi.

GUÐ

Ég braut heilann mikið um fyrirbærið guð. Nafnorðið sem er haft undir fræðaskipinu sjálfu. Ég kunni orðið mikið um trúarbrögðin kristni, sögu kristninnar, helstu kenningar, helstu túlkanir, helstu birtingarmyndir, samtímasögu Nt, ritunarsögu biblíunnar og allt það sem ætlast er til af nema sem er í guðfræðideild af einhverri alvöru. En guð var ekki þar eins og gefur að skilja. Mér fannst oft að hugmyndin um guð væri heiti grauturinn sem nemendur og kennarar læddust í kringum og enginn treysti sér til að smakka á. Eins og góður nemandi þá las ég mig til í bókum sem voru ekki á pensúminu. Á Amazon fann ég bækur sem fjölluðu um kenningar um eðli guðs. Merkilegt nokk þá voru bestu útskýringarnar um guð og eðli guðs frá hörðum trúleysingjum.

Þegar hér var komið sögu þá varð ég æ sannfærðari um að guð eða guðir væru ekki til. Að útskýringar og fullyrðingar trúarbragðanna væru manna verk og yfirnáttúruleg vera kæmi þar hvergi nærri. Eitt er að trúa á guð eða guði og annað er að fylgja einhverri hefð sem skapst hefur í kringum trúarbrögðin. Fyrir mér hlýtur trúin á guð (svo dæmi sé tekið úr eingyðistrúarbrögðunum) að vera trú á yfirnáttúrulega veru en ekki einhver hefð. Ég er viss um að sumar bækurnar sem nemendur þurftu að lesa hreyfðu verulega við trúuðum nemendum deildarinnar. Fjallað var um biblíugagnrýni á akademískan og gagnrýninn hátt sem og ritunarsögu Gt og Nt. Eitt það fyrsta sem sló mig í náminu var að boðorðin 10 eiga sér fyrirmynd frá í samningum sem gerðir voru milli stórkonunga og ”undirkonunga”. Samningur í 10 liðum sem voru alveg eins uppbyggðir og boðorðin sem hin yfirnáttúrulega vera sendi Móse á Sínaífjalli. Boðorðin eiga sér líka fyrirmynd í Bók dauðans, trúarriti forn Egypta. -Þetta var spennandi. Hugmyndin um Satan er komin frá Saraþúrsta trúarbrögðunum. Einnig klassískur dúalismi þar sem heiminum er skipt í gott og illt. Ekki minnkaði spennan þegar Nýja tesamentið var tekið fyrir. Hinn sögulegi Jesús er áhugamál mitt og ég hef keypt ófár bækurnar um efnið. Ritstíll sögunnar um Jesú er afar dramatískur. Hinn minnsti verður mestur. Þrællinn verður konungur. Sá sem á ekkert á allt. Þetta eru öfgar sem virka oft og tíðum dáleiðandi. Guðir deyja ekki á krossi bara þjófar og dusilmenni. Þetta er dæmi um stílbrögð höfunda Biblíunnar. Sumar dæmisögurnar um Jesús eru undir greinilegum platónskum áhrifum og líkt og í Kóraninum má lesa úr guðspjöllunum pólitískar hræringar í Palestínu á ritunartíma þeirra. Þetta er reyndar greinilegra í Gt en spámannaritin endurspegla afar skýrt góða og slæma tíma í lífi þessarar litlu þjóðar Gyðinga. Ég gæti skrifað endalaust um dæmi úr Nt hvers sifjar eru ýmist platónskar ellegar endurspeglun úr Gt. Besta dæmið um það er samanburður á sögunni um Abraham og Ísak og sögunni um Jesús. Guð skipar Abraham að fórna Ísak en er stoppaður á elleftu stundu. Guð gengur alla leið í sögunni um Jesú. Dæmi um stílbragðið sem ég minntist á hér ofar?

Fyrirbæri á borð við Jesú, s.s maður sem er líka guð er til í mörgum útgáfum sem voru margar vinsælar á þeim tíma þegar Nt er ritað. Það sem er sameigilegt við þessa mannguði er t.d að þeir eru fæddir þann 25. desember af hreinni mey. Þeir voru kennarar, áttu lærisveina, voru sviknir, dóu á krossi eða í tré. Lágu dauðir í 3 daga og risu upp til ”föðurins”. Líkindi milli mannguða fornaldar og Jesú eru yfirþyrmandi og sérkennlegt að litið sé framhjá þessum fræðum í guðfræðideildinni því meira spennandi námsefni er vandfundið. Ég er þeirrar skoðunar að trúarbrögðin sem kennd eru við mannguðinn Jesús séu bræðingur úr 3 áttum. Gyðingdómi, grískri heimsspeki og Hórusardýrkun. Engin trúarbrögð spretta upp af sjálfum sér. Trúarbrögð eru eins og litlar ár sem sameinast í fljót. Trúarbrögð eru hefð. Enginn guð að verki. Hvað varðar uppgang kristnindómsins þá kemur hann upp á hnignunarstigi Rómaveldis. Trúarlegt og pólitískt tómarúm er til staðar, upplausn og fólk þráir eitthvað nýtt. Í rauninni má þakka Páli postula fyrir kristindóminn eins og Jesú.

Þegar svo kristindómurinn stabíleraðist sem alvöru trúarbrögð gerist margt spennandi. Átök verða innan frumkirkjunnar sem verða trauðla kölluð kristileg. Gnóstum var eytt sem og ritum þeirra. Aríusarsinnum einnig og þeir kallaðir trúvillingar. Það er svo skrýtið að mest fyrirlitna frumkristna hreyfingin, gnóstar, er sú sem er mest vit í. Gnóstismi gengur út á að hver og einn sé Jesú. Hver og einn þarf að deyja, rísa upp og koma til guðs. Þetta er allt á táknrænt og auðvelt að samsama sig við kenningar gnósta. Um leið og leiðtogar frumkirkjunnar ákváðu að gera Jesús að alvöru manni sem var guð, lentu þeir í vandræðum sem hafa haft dramatískar afleiðingar. Þrenningarhugmyndin er sprottin úr þessum vanda.

TRÚ

Hugtakið trú er nokkuð snúið í íslensku. Það hefur tvær merkingar. Trú á að eitthvað gerist og trú á guð eða yfirnáttúru hverskonar. Sá sem trúir því að guð hafi skrifað boðorðin 10, verður þá að trúa því í alvöru, en ekki að blanda saman trú og hefð. Þorsteinn Gylfason orðaði þetta snilldarlega:

[Guðfræði] mótmælendakirkjunnar -á 19du og 20stu öld er ekki kristin trú og á meira að segja afskaplega lítið skylt við kristna trú. Og að því marki sem hún þykist vera kristin trú er hún óheilindin uppmáluð: trúleysi í nafni trúar. Að réttu lagi er kristin kirkja ekki kjörbúð þar sem við kaupum rófur og baunir en ekki saltkjöt því okkur finnst það vont og höldum að það sé eitrað. Kristinn maður verður að trúa á allan kristin dóm: á upprisu holdsins og erfðasyndina, á himinninn og helvíti og djöfulinn sjálfan og almáttugan Guð og hans einkason. Það er allt eða ekkert, fyrr og síðar.

Mér þykir alltaf sérkennlegt þegar ég sé presta sníða kristna trú að tíðarandanum. Kristni er ekki þannig. Ef að guð er óskeikull og alvitur þá skiptir hann ekki um skoðun á samkynhneigðum eftir því hvernig vindarnir blása. Að þessu leyti ber ég virðingu fyrir trúfélögum á borð við Krossinn og kaþólsku kirkjuna. Þessar kirkjur eru ekki að velja hvað hentar hverju sinni heldur taka boðskapinn alvarlega. Orðið bókstafstrú hefur á sér neikvæðan stimpil en það er ósanngjarnt. Guð hinna kristnu fer ekki í launkofa með t.d álit sitt á samkynhneigð þrátt fyrir að frjálslyndar kirkjur haldi öðru fram. Staðreyndin er að guðinn í Biblíunni er ekkert sérstaklega geðfeldur. Hann er ekki ”kærleikur” eða ”hið góða” eins og gjarnan er haldið fram af frjálslyndum prestum. Mér er það til efs að fólk sem heldur þessu fram hafi í raun lesið Biblíuna.

Ef Biblían hefur eitthvert kennivald (sem er jú kjarninn í hverju trúarriti) þá hlýtur þetta kennivald að ná til allrar Biblíunnar, ekki bara hluta hennar. Sá sem tekur sér það bessaleyfi að túlka bara ”það sem honum finnst”, er í rauninni að setja sjálfan sig ofar en guðinn sem hann dýrkar. Það hangir nefnilega svo mikið á spýtunni eins og sagt er. Guð, skapari himins og jarðar, alvitur og alltumlykjandi skrifaði þessa bók! Ætlar einhver pokaprestur að segja mér hvaða kafla á að lesa og hverju á að sleppa? Ef hinsvegar frjálslyndi póllinn er tekinn í biblíuskýringum og óþægilegu kaflarnir skýrðir í menningarlegu ljósi tíðarandans á ritunartíma Biblíunnar, þá má alveg eins skoða alla kafla Biblíunnar á sama hátt. Þá er biblían ekki með kennivald því það er búið að útskýra það burt. Hugmyndakerfi kristindómsins er eins og spilaborg. Það hrynur ef eitt spilið er tekið í burtu. Þetta snýst um að annað hvort á að lesa Biblíuna í bókstaflegum skilningi eða í táknrænum skilningi. Að blanda þessu saman gengur ekki upp því ekkert segir til um það hvað skal túlka bókstaflega eða táknrænt. Trú er ekki það sama og hefð þótt gagnstæð fullyrðing sé haldreipi margra frjálslyndra presta í trúvörn sinni.

FÓRNIN

Ég velti lengi fyrir mér fórninni sem fyrirbæri. Fórn er í rauninni ritúal sem notað er til að friða guð eða guði. Gott dæmi er að besti bitinn af steikinni er tekin og honum fórnað á einhvern hátt. Stundum er dýrum fórnað. Besta lambið er valið úr og því slátrað fyrir guðinn. Stundum eru fólki fórnað eins og í trúarbrögðum Azteka og í vissum sögum í Gt. Stundum er sagt að ”Jesús hafi framkvæmt hina fullkomnu fórn”. ”Hann fórnaði sér fyrir þig” eða þvíumlíkt. Aldrei er talað um krossfestingu Jesúsar sem mannfórn og að trúarbrögðin kristni séu grundvölluð á mannfórn. Það er nú samt þannig hvor sem okkur líkar betur eða verr. Samkvæmt kenningunni dó Jesús fyrir syndir mannana. En hvernig gerðist það? Samkvæmt einu fórnarritúali gyðinga fóru syndir ættbálks inn í lifandi geithafur og svo var hafurinn drepinn eða honum sleppt út í eyðimörkina. Með þessu móti losnuðu gyðingar við syndir ættbálksins. Það sama á við um söguna um fórnardauða Jesú. Syndir mannana fóru einhvernvegin inn í hann og svo dó hann með syndum okkar! Þetta er ekki flóknara. Og talandi um syndir. Hvaða syndir haldið þið ágætu lesendur að um sé rætt? Það er erfðasyndin sjálf, sem Eva læsti í mannkynið um leið og hún læsti tönnunum í forboðna ávöxtinn! Þetta er ekkert flókið þrátt fyrir að það sé búið að flækja þetta með endalausum og mishæpnum útskýringum. Reyndar er það svo með trúarbrögð að heimsmynd þeirra er ekkert sértaklega flókin og ætti að vera á færi sérhvers meðalsnoturrar manneskju að skilja þessa heimsmynd. Í tilfelli kristindómsins hefur þessi heimsmynd sífellt orðið flóknari (sumir segja útþynntari) í tímanna rás og ég hef heyrt all nokkra kristna halda því fram að kristni sé einskonar sannleikur sem er svo flókinn að hann sé ekki á færi nema fróðustu guðfræðinga sem skilja heildarmyndina til fullnustu. Að mínu áliti er frekari útþynning kristindómsins nánast útilokuð nema að stofna til nýrra trúarbragða. Mér sýnist frjálslyndustu prestar túlka biblíuna svo vítt að nánast ekkert er eftir af boðskapi og kennivaldi Biblíunnar.

TRÚLEYSI

Þegar ég var u.þ.b hálfnaður með seinna árið mitt í guðfræðideildinni sá ég fljótlega út að ég átti lítið sameiginlegt með samstúdentum mínum enda sjaldgæft að trúleysingjar nemi við guðfræðideild. Þó erum við sjálfsagt fleiri en fólk grunar. Stundum var sagt í gamni að besti staðurinn til að ganga af trúnni væri í guðfræðideildinni. En þetta átti ekki við mig, ég var ekkert sérstaklega trúaður þegar ég hóf nám í deildinni. Ég kom þaðan út samt sem áður sem trúleysingi. Þetta voru sérkennileg spor sem ég var komin í. B.A próf úr guðfræðideild og trúlaus. Hvað héldi fjölskyldan mín? Var þetta nám til einskis? Fyrst eftir útskrift hafði ég hljótt um trúleysið mitt en í mér logaði einhver þrá um að segja það sem ég vissi, það sem ég hafði lært. Myndi ég ekki valda samstúdentum mínum vonbrigðum og þeim frábæru kennurum sem ég leit á sem vini mína? Eftir þónokkur átök var niðurstaða mín sú að ég gæti ekki farði leynt með trúleysið. Ég varð að koma fram þrátt fyrir það að ég yrði að athlægi. Trúleysingi úr guðfræðideild! -En ég átti ekkert val. ”Að vera eða ekki vera” átti sannarlega við mig á þessu tímabili. Ég hafði stundað spjallrásirnar á Vantrú.is um nokkurra mánaða skeið og áramótin 2005 gekk ég í félagið. Sumir eru í Rótarí, aðrir í fótboltaliðum. Ég er í Vantrú. Ég er meir að segja ritari þess ágæta hóps.

Þessi ákvörðun að koma fram opinberlega sem trúleysingi var erfið af því leyti að ég var um leið að stimpla mig út úr fræðunum sem slíkum. Fræðum sem ég hef þó ánægju af og óbilandi áhuga á. Það er samþykkt að guðfræðingar séu ýmist trúaðir ellegar þegi um trúarskoðun sína. Enginn sem ég veit um er trúleysingi. Enginn trúarbragðafræðingur er opinber trúleysingi að því að mér skilst. Fræðingar um trúarleg málefni eru ýmist kristnir eða þögulir. Trúleysi er enn sem komið er hálfgert tabú í hinum akademíska heimi þótt ótrúlegt megi virðast. Það má ekki tala um að guð eða guðir séu ekki til. Ég mun aldrei fá vinni við guðfræðideild HÍ hvað sem ég mennta mig mikið. Það er samt ásættanlegur fórnarkostnaður. Það er sérkennilegt að samþykkt sé að trúa því að maður (sem var líka guð) sem var drepinn á hinn hroðalegasta hátt, lifnaði við eftir þrjá daga, flaug upp til himna til að hitta pabba sinn/sjálfan sig og mun koma til að dæma fólk til himna eða helvítisvistar -en það er ekki gúdderað að trúa ekki að þessir atburðir hafi gerst. Eins og flestir meðlimir Vantrúar er mér í rauninni sama hvað fólk vill trúa á, ég áskil mér þó rétt til að gagnrýna téða trú ef mér sýnist svo. Eldurinn sem kyndir starf Vantrúar er fyrst og fremst hin opinberi bræðingur ríkis og trúar. 62. grein stjórnaskrárinnar, trúboð í opinberum skólum, setning Alþingis í kirkju o.s.fr. Hitt er minna um vert þegar prestar þykjast vera á einhvern hátt handhafar sannleikans og góðs siðferðis þótt það fari í taugarnar á mér. Dæmin sanna að trúað fólk er í engu skárra í siðferðislegum skilningi en trúlausir. Mér finnst fordæmi Frakka vera til fyrirmyndar en þar eru skilin milli veraldlegs valds og trúarlegs valds afar skýr. Svo skýr að trúartákn eru einfaldlega bönnuð á opinberum stöðum. Slæðumálið svokallað var ekki árás á múslima, heldur deila um það hvort slæðan væri menningarlegt tákn eða trúarlegt tákn. Þetta fór framhjá allri fjölmiðlaumræðu á Íslandi einhverra hluta vegna.

Trúlausum er gjarnan núið um nasir að vera í rauninni trúfélag og bent á ýmsa sameiginlega snertifleti trúleysis sem lífsskoðunar og trúar sem lífsskoðunar. Félagslega eru jú líkindi með trú og trúleysi. En mikilvægan punkt vantar. Ólíkt trú þá gerir trúleysi ekki ráð fyrir handanveruleika eins og trúarbrögð gera. Ef fólk kýs að flokka trúleysi sem trúarbrögð, þá er um leið hægt að kalla aðdáendaklúbba knattspyrnuliða til trúarbragða enda sömu líkindi með þeim og trú í þessum víða skilningi. Það er samt skondið í allri umræðu um hvort trúleysi sé trú að útilokað er fyrir Vantrú og Siðmennt að fá skráningu sem trúfélag og fá þannig sóknargjöld frá meðlimum sínum eins og trúfélög. Það vantar nefnilega trúna á handanveruna. Ef félag á borð við Vantrú fengi skráningu sem trúfélag, fengjum við í Vantrú um 800.000 krónur árlega í formi sóknargjalda, fé sem gæti verið varið í baráttumál félagsins. Þetta er óréttur sem þarf að koma á framfæri. Siðmennt hefur barist í því svo árum skiptir að fá skráningu sem trúfélag en aldrei fengið með áðurnefndum rökum. Staðreyndin er sú að ríkiskirkjan óttast mjög um sinn hag ef Siðmennt fær skráningu sem trúfélag. Hver veit nema Siðmennt gæti eflst að burðum og orðið sambærilegt við Etisk fond í Noregi, sem er að mér skilst næst stærsta trúfélag landsins.

GUÐFRÆÐIDEILDIN

Guðfræðideildin, sem mannaði mig, menntaði mig og skerpti á gáfum mínum og veitti þeim í þennan óvænta farveg er að vissu leiti gölluð stofnun. Í mínum huga eiga að vera skýr skil á milli hinnar trúarlegu innrætingar og hinnar fræðilegu kennslu. Það vantar einnig ýtarlegri biblíugagnrýni, kenningar um hinn sögulega Jesú, kynningu á trúarlegu umhverfi þegar Biblían er rituð, trú Egypta, kynningu á betri kynningu á gnóstískum ritum. Svo ekki sé talað um Júdarsarguðspjall sem er merkilegasti fornleifafundur síðustu árhundruða.

Ég sé fyrir mér að ríkiskirkjan reki skóla á mastersstigi sem sér eingöngu um að mennta starfsmenn sem hyggja á þjónustu innan hennar. Allt B.A nám í HÍ ætti að vera secular eða veraldlegt eins og það er kallað. Mér sem baráttumanni fyrir aðgreiningu ríkis og trúar finnst fáheyrt að opinber háskóli sjái um að mennta presta og annað starfsfólk fyrir eina kirkjudeild sem í landinu starfar. Mér finnst það bara óréttlátt.

NIÐURLAG

Ég geri mér grein fyrir því að þessi litla ritgerð er í engu tæmandi fyrir þessi 2 ár í mínu akademíska lífi. Mér hefur þó alltaf fundist nauðsynlegt að gera upp þennan tíma á einhvern hátt. Bloggið er ágætur vettvangur fyrir þetta uppgjör. Ég gæti skrifað heilu ritgerðirnar um rökin gegn guði eða guðum en læt staðar numið í bili. Afleiðingar þess að koma opinberlega úr vantrúarskápnum voru nokkuð sársaukafullar en eins og ég hef sagt áður, þá átti ég engra kosta völ. Samband mitt við fyrrverandi samnemendur mína hefur verið lítið en sumir hafa þó sýnt mér stuðning í orði og verki. Mér þykir óendanlega vænt um það. Ég varð skömmu eftir að ég lýsti yfir trúleysi fyrir ofsókn frá formanni guðfræðinema sem tók verulega á taugarnar. Svo mjög að ég ákvað að segja upp þáverandi starfi mínu, starfi sem ég ann. Formaður guðfræðinema (sem einnig er siðfræðingur) hafði blandað fyrirtækinu sem ég vann hjá inn í ofsóknina á hendur mér. Þetta kom reyndar upp á réttum tíma ef svo má að orði komast þvi kona mín hafði þá nýlega fengið stöðu við spítala í Gautaborg.

Samt var þetta þess virði. Ég get ekki verið annar en ég er. Það er útilokað.


Birtist upphaflega á vefbók Teits

Teitur Atlason 10.06.2008
Flokkað undir: ( Klassík , Kristindómurinn )

Viðbrögð


thorkr - 10/06/08 18:34 #

Takk fyrir þetta. Fróðlegt að fá yfirvegaða og trúverðuga lýsingu á kennslunni í Guðfræðideild og hvernig hún kemur sjálfstætt hugsandi manni fyrir sjónir.


Geir Konráð - 10/06/08 23:24 #

Góð grein og góðir punktar... og er það satt sem þú skrifaðir með Etisk fond í Noregi?


Valtýr Kári - 10/06/08 23:46 #

Takk fyrir athyglisverða grein, er einhver sérstök ástæða fyrir því að þú skrifaðir hana?

Og hvað er eiginlega Etisk fond í Noregi?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 11/06/08 00:03 #

Human-Etisk Forbund


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 11/06/08 00:35 #

Þetta er mjög vel gert hjá þér.


Eirikur S. Hrafnsson - 11/06/08 13:18 #

Takk fyrir frábæra grein. Ég hef lengi hugsað um hvort guðfræðideildin væri aðgengileg fyrir mann sem að er búinn að átta sig á "trúvillu" heimsins. Greinin þín sparaði mér sennilega nokkur ár ;)

Annars er eitt sem ég vil hvetja þig til eftir að hafa lesið þessa skemmtilegu ritgerð en það er að skrifa bók á íslensku um Jesús, tengslin við önnur trúarbrögð (Hóras, Dýónísos o.sfrv) og viðbrögð kirkjunnar við þessum sögulegu staðreyndum.

Ég hef eins og þú lesið mér mikið til um þessa sögupersónu sem ég trúði heitt á alla mína ævi og eins og þú menntaði ég mig til trúleysis í þeim málum.

Mig hefur sjálfan langað til að skrifa svona bók alveg frá því að ég heyrði skýringu kristinnar kirkju við staðreyndunum að saga Jesús væri byggð á öðrum trúarbrögðum.

Skýringin er þessi (I shit you not!): Djöfullinn vissi að Jesús myndi koma fram á þessum tíma svo hann bjó til öll fyrri trúarbrögð frá þúsundum árum fyrr og til daga Jesúsar til þess að fólk tryði ekki á hann.

S.s. það að við sjáum það að saga Jesú er ekkert nema endurtekin brot af sögum annarra trúarbragða er djöflinum að kenna og ber að hundsa...

Þessa grein ætti að birta í Mogganum.

kveðja Eiki, nýlega vaknaður til vitundar...


Pálmi - 11/06/08 14:04 #

Sæll vinur og til hamingju með að vera loks sáttur.

Eitt sem böggar mig stundum í almennum pælingum um trú og trúleysi. Það er hve mikið auðveldara það er að koma með erfiðar og krefjandi spurningar/fullyrðingar sem valda vafa og efa um kristna trú en að svara þeim. Nú ert þú t.d. lærður guðfræðingur og ferð vafalaust auðveldlega í gegnum margar viðræður um þessi mál.

Í sambandi við það þá var ég að lesa svona erlenda "vantrúar" síðu fyrir nokkru og komst fljótlega að því að til er ákveðin fræðigrein sem heitir "apologetics" sem snýr að því að verja kristna trú gegn hugmyndafræðilegum árásum eins og t.d. tilvísunum í rangfærslur biblíunnar og fleira í þeim dúr.

Það er ljóst að ég fer ekki að svara þessari ágætu grein þinni og hnýta í þínar pælingar með einhverjum rökum sem ég þyrfti vikur í að pæla í til að geta fundið hehe, en bara ég vildi svona láta þig og jafnvel fleiri vantrúar meðlimi af þessu apologetics græi. - www.carm.org og www.4truth.net til að nefna eitthvað.

Það er kannski verðugra viðfangsefni að taka fyrir einhverja svoleiðis síðu og færa rök gegn þeirra rökum,td. www.carm.org, í staðinn fyrir þennan tittlingaskít sem er í frammi á þessari síðu. Birta svo emailin með rökfærslum beggja aðila og sýna fram á sigur vantrúarmanna! það væri djöfull(pun) flott.

Ég hugsa einnig að sigur í slíkum rökræðum myndi endanlega koma vantrú á kortið sem leiðandi afl trúfrjálsra í heiminum. new world order. :)

En kannski er best að svara mér ekki eða seint og illa og halda áfram að messa yfir þeim sem hafa ekki lært guðfræði með svona biblíu kennivalds pælingum og jesú fórnunar pælingum og svona guð er almáttugur og skapar svo þungan stein að hann getur ekki lyft honum pælingum.

Punkturinn er bara að mig langar að sjá þig(vantrúaðra) spurja erfiðra spurninga til einhverra sem gætu mögulega svarað þeim.

En jæja, góðar stundir laxar og góða skemmtun í þessum saumaklúbb,

Pálmi


Pálmi - 11/06/08 14:05 #

crap, textinn allur fucked, gleymdi að lesa smáa letrið og bæta inn html stuffi.://


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 11/06/08 17:40 #

Pálmi, Ég skil þig ekki.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/06/08 17:46 #

Pálmi virðist vera að segja að það sem við fjöllum um sé tittlingaskítur og að við eigum að afsanna rök sem fram kom á síðunum www.carm.org/ og www.4truth.net/ til að sýna að eitthvað sé í okkur spunnið. Er það rétt skilið Pálmi.

ps. Ég lagaði athugasemdina þína.


Pálmi - 11/06/08 19:26 #

Sælir,
já Matti mér finnst það spennandi hugmynd og það væri gaman að sjá eitthvað svoleiðis birt hér á síðunni. Það er svo leiðinlegt að sjá fullyrðingar sem eru rökstuddar einhliða, maður fær ekki að sjá eða veit ekki hvort til séu rök á móti. Svona ómenntaður í þessum biblíubransa eins og maður er og verður, hehe. -
Því var ég í raun að stinga upp á að t.d. meistarinn sem skrifaði greinina myndi hefja samræður við þessa apologetics gutta um eitthvað svona biblíudæmi og myndi svo birta það.
Afsakaðu Haukur ég var kannski ekki nægilega skýr. Eða kannski varst þú bara ekki nægilega skýr(djók). :)


kveðja, Pálmi


ÆvarAndi - 12/06/08 02:09 #

Fróðleg grein hjá þér, Teitur.

Í kaflanum sem ber fyrirsögnina "GUÐ" segirðu: "Mér fannst oft að hugmyndin um guð væri heiti grauturinn sem nemendur og kennarar læddust í kringum og enginn treysti sér til að smakka á."

Í framhaldi af því langar mig að spyrja þig: Reyndirðu aldrei að nálgast hann (þe Guð) með þeirri aðferð sem "hann sjálfur" bendir á í Biblíunni? Þeas með því að TALA við hann - sem kallað er BÆN.? Hefði getað orðið byltingarkennd útkoma!

Kveðja, ÆvarAndi


Óðinsmær - 12/06/08 02:16 #

frábær grein Teitur, ég mun lesa hana betur síðar. Ég man annars eftir þér úr guðfræðinni, við sátum nokkra tíma saman.


Svanur Sigurbjörnsson - 12/06/08 08:48 #

Takk fyrir að deila þessu með okkur. Það er aldrei auðvelt að standa sjálfstæður upp úr hóp sem er með slíkt apparat í kringum sig og bak við sig. Því fylgir alltaf félagslegur þrýstingur. Þú ert reynslunni ríkari og þessi ár þín gefa þér innsýn sem hinn venjulegi trúleysingi hefur ekki. Margt fróðlegt og gagnlegt sem þú kemur með í greininni.
Í dag er Siðmennt ekki lengur að reyna að fá skráningu "sem trúfélag" heldur sem lífsskoðunarfélag (life stance org) og þá í gegnum lagabreytingu sem hefði það í för með sér að veraldleg lífsskoðunarfélög verði viðurkennd rétt eins og þau trúarlegu. Human Etisk Forbund í Noregi hefur haft þessi réttindi nú í um 28 ár. Ísland er aftarlega á merinni hvað þessi réttindamál varðar.


Guðjón - 12/06/08 10:11 #

Þetta er ein af bestu greinunum sem ég hef séð hér. En það er algjörlega ofvaxið mínum skilningi hvernig maður með þenna bakagrunn kýs að starfa með vantrú og líkar það vel.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 12/06/08 11:41 #

Takk fyrir hrósið Guðjón. Getur þú skýrt nánar hversvegna þú skilur ekki að ég starfi í Vantrú?


Guðjón - 12/06/08 12:37 #

Vandamálið við vantrú er alvarlegt dómgreindarleysi- menn hafna barnalegum hugmyndum um trúarbrögð, en gleypa við alveg jafn barnalegum hugmyndum nýtrúleysis sem tengjist aðallega baráttu við bandarísksa ofsatrúarmenn.

Ég get ekkert sagt við trúleysi sem slíku- ég skil vel að menn geti komist að þeirri niðurstöðu en menn þurfa að vera alveg jafn gagnrýnir á veraldlegar hugmyndir og þeir eru á trúarlegar. Vísindi þurfa aðhald ekkert síður en trú.

Að vissu leyti skil ég vel gagnrýni þína á kristna trú og þekki það vel að menn ganga oft útfrá einföldunum í trúmálum. En ólíkt þér finst mér það vera þeirra mál og það sé ekki mitt hlutverk að hugsa fyrir einn eða neinn nema sjálfan mig. Harkaleg gagnrýni leiðir ekki annað af sér en trúnaðarbrest.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/06/08 13:19 #

Nýtrúleysis?!


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/06/08 13:27 #

...en gleypa við alveg jafn barnalegum hugmyndum nýtrúleysis sem tengjist aðallega baráttu við bandarísksa ofsatrúarmenn.

Guðjón, ég skil vel að þér finnist þetta aðlaðandi tilgáta, að við séum bara að herma eftir trúleysingjum í Bandaríkjunum sem eru að berjast við þarlenda ofsatrúarmenn. Því miður fyrir þessa tilgátu þína, þá er hún alveg afskaplega fjarstæðukennd.


Kristján Hrannar Pálsson - 12/06/08 13:32 #

Það er villandi hjá Guðjóni að setja trúarlegar og veraldlegar hugmyndir á sama stall og gera þær jafn réttháar. Hvernig myndi hann t.d. svara gagnrýni Atla á hugmyndir guðfræðinga um uppruna Jesú goðsagnarinnar?


Baldvin - 12/06/08 14:02 #

Já, það er ósköp barnalegt að trúa ekki því sem enginn fótur er fyrir og reyna að vinna gegn því að því sé troðið inn í börn sem heilögum sannleik eða að það sé látið stjórna opinberri ákvarðanatöku ...

Miklu betra og þroskaðara er að gleypa gamlar þjóðsögur hráar og reyna eftir fremsta megni að réttlæta það sem ekki stenst í þeim eða sníða það að nútímanum með því að lesa bara annaðhvert orð ...


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 12/06/08 14:41 #

Það er á vissan hátt rétt hjá Guðjóni að það er "auðveldara" að berjast gegn bandarískum öfgabókstafstrúmönnum, en því fer víðs fjarri að Vantrú hafi einbeitt sér að því.

Þvert á móti hefur mest allt púðrið farið í íslensku grænsápu/kjörbúðarguðfræðinna, þennan loðmulludeisma sem vill aldrei viðurkenna að hann trúi á neitt sem hug á festir nema svona eitthvað æðra en vill svo alltaf fara í vörn fyrir bókstafshyggjuna þegar kreppir að.


G2 - 12/06/08 14:42 #

Guðjón:

Vísindi þurfa aðhald ekkert síður en trú.

Vísindi hafa aðhald; trúin ekki.

Annars er hún þreytandi þessi árátta trúvarnarmanna að segja trúleysingja 'trúa' á vísindin. Það að hafna yfiráttúru með aðferð vísindanna setur ekki 'vísindin' í sæti yfirnáttúrunnar.


Guðjón - 12/06/08 14:44 #

Já- já auðvita er ykkur heimillt að líta svo á málið og það er að öllum líkindum, einlæg niðurstaða ykkar. Þar með er undstaða raunverulegrar umræðu brostinn- forsenda raunverulegrar umræðu er virðing fyrir andstæðingum og kjarninn í nýtrúleysi er að andstæðingurinn eigi ekki skilið slíka virðingu. Hann eigi ekki skilið neitt nema fyrilitingu og markmið svokallaðar umræðu við hann er að niðurlæja hann enda eigi hann sé ekki tilverurétt. Ég skil vel að menn geti verið heillaðir af skynsemi og vilji tileika sér hana. Ég tel hins vegar að ef menn vilji þjóna skynsemi og auka vega hennar gerir þeir það best með því að leggja skjálfir rækt við skynsamlega hugsun og þekkingaröflun- ekki með því að ala á andúð og fyrirliningu á andstæðingum sínum.


Guðjón - 12/06/08 14:53 #

Nýtrúleysi: Hér á ég við hugmyndir manna eins og Dennett- Dawkins- Sam Harris- sem oft er vísað til hér á vantrú- Ég ásaka ykkur um að skoða hugmyndir þeirra ekki gagnrýnið.


Guðjón - 12/06/08 15:07 #

Afsakið ég talaði ekki nógu skýrt- þegar ég tala um að ykkur sé heimillt að líta svo á málið - á ég við að þann eðlismunu sem þið teljið vera á trúarlegu og veraldlegum hugmyndum.

Vandamálið er að margir hér ganga útfrá forsendum vísindahyggjunar- þ.e. að eina raunverulega þekkingin sem sé einhvers virði sé vísindalega þekking.

Margir hér virðast ekki gera sér grein fyrir að heimsmynd vísindanna er stöðugt að fjarlægtst almenna skynsemi - Sennilega er komið nóg í bili.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 12/06/08 15:08 #

Guðjón.

Værir þú ekki til í að rabba um þetta á spjallinu.


Guðjón - 12/06/08 15:28 #

Nei- ég er hættur í bili


Baldvin - 12/06/08 15:35 #

Og vegna þess að heimsmynd vísindanna er að "fjarlægast almenna skynsemi" þá hlýtur þetta allt að vera Guði að þakka?

Hvernig skilgreinirðu "þekkingu", Guðjón?

Og hvernig er "vísindaleg þekking" frábrugðin annars konar "þekkingu"?

Ertu að tala um þá óskhyggju og hringskýringar sem almennt einkenna málflutning trúmanna? "Þekkinguna" sem fæst með því "að bara vita" eitthvað, án nokkurrar ástæðu og þrátt fyrir öll rök til hins gagnstæða?

Ef þú getur fært fram rök fyrir tilvist Guðs og rennt einhverjum stoðum undir þessa kenningu, öðrum en þeim sem finna má í þjóðsögum, þá er ég viss um að flestir hér muni snúast til trúar.

En þessi umræða er víst betur geymd á spjallinu ...


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 12/06/08 22:51 #

Guðjón segir:

Ég get ekkert sagt við trúleysi sem slíku- ég skil vel að menn geti komist að þeirri niðurstöðu en menn þurfa að vera alveg jafn gagnrýnir á veraldlegar hugmyndir og þeir eru á trúarlegar. Vísindi þurfa aðhald ekkert síður en trú.

Ég kannast ekki við að félagar í Vantrú séu hlyntir einhverjum sérstökum veraldlegum hugmyndum. Í Vantrú er allskonar fólk með allskonar hugmyndir. Þú snertir reyndar á fleti sem mér hefur oft þótt einkenna umræðu um afstöðuna til trúleysis.

Hún er þessi: þegar ég gagnrýni trúarbrögð, þá er ég ekkert endilega að hampa einhverju öðru. ég er bara að gagnrýna. þetta er alveg leyfilegt í siðaðri orðræðu. Þegar ég segji að umferðarmannvirki í Hlíðunum sé gallað og valdi slysahættu, þarf ég ekkert endilega að benda á leiðir til úrbóta!!..

Trúleysingjar hafa flestir þann heiðarleika til að bera að viðurkenna að svarið "Ég veit það ekki" er oft og tíðum eina svarið í stöðunni.

Svarið "ég veit það ekki" er gilt! Það er alltí lagi að segja það. Ég kannast EKKI við að vantrú hampi einhverjum sérstökum hugmyndum sem eigi að koma í stað trúarbragðanna, enda er það prívatmál hvers og eins. Í vantrú er fólk sem hefur lesið Dawkins og þessa gaura, en ég get sannfært þig ágæti Guðjón að hann er ekki ín neinni guðatölu hjá vantrúarfólki, né erum við að prómótera hann sem spámann trúleysinsins.

Vissulega er það svo að atheistar í Bandaríkjunum er að eiga við hrikalega öflugan andstæðing að etja sem er bókstafstrúarliðið. Þeir þurfa þó ekki að horfa upp á samblástur ríkis og trúar eins og hér á landi. Það yrði borgarastríð í USA ef sett væri inní stjórnarskrá að allir þegnar landsins væru í einu trúfélagi, (nema annað sé tekið fram) enda er það siðlaust, ranglátt og þversagnakennt. Þjóðir geta ekki verið trúaðar. Þegnar þjóðarinnar geta það.

Ég hvet þig til að lesa greinarnar hérna á vantrú. Ef þú finnur eittvað ruddalegt, dónalegt eða siðlaust, sendu mér þá linkinn og ég skal senda þér fimmþúsundkall til baka...

:)


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/06/08 23:33 #

...og kjarninn í nýtrúleysi er að andstæðingurinn eigi ekki skilið slíka virðingu. Hann eigi ekki skilið neitt nema fyrilitingu og markmið svokallaðar umræðu við hann er að niðurlæja hann enda eigi hann sé ekki tilverurétt.

Nei, Guðjón, þetta eru hugarórar þínir.

Nýtrúleysi: Hér á ég við hugmyndir manna eins og Dennett- Dawkins- Sam Harris- sem oft er vísað til hér á vantrú- Ég ásaka ykkur um að skoða hugmyndir þeirra ekki gagnrýnið.

Þegar Vantrú var stofnað held ég að enginn hafi vitað hver Harris var og ég held að Dennett hafi ekkert verið byrjaður að tjá sig um trú af viti. Sama á að ég held við um Dawkins. Í ljósi þessa þá væri kannski líklegra að þeir væru undir áhrifum frá okku! ;)


Guðjón - 13/06/08 10:20 #

Hjalti Rúnar: Af hverju notar þú orðið hugarórar: Ef menn tala niður til andstæðingsins torveldar það umræðu.

Ég held að ef þið viljið ræða við aðra en skoðanabræður verið þið að endurskoða framkomu ykkar í umræðum- þið þurfið sjálfsögðu ekki að gera það Ég hef deilt við menn hér bæði vegna Dawkins og Harris.

Þið eru nýlega búnir að vísa í Dennett og mér finnst allt í lagi að gera það og fagna því í raun að þið vísið til efnis sem þið teljið vera áhugavert

Það er þó mikilvægt að hafa í huga að þetta efni er mótað af allt öðrum aðstæðum en eru hér á landi : Dennett segir í fyrstu línu í formála: " I am an American author, and this book is addressed in the first place to American readers...


Guðjón - 13/06/08 10:34 #

Teitur: Ég er að skoða eðlisfræði þessa daganna. Atriði eins og hugmyndir um afstæði og skammtakenningar- og þær pælingar eru áhugaverðari en tilgangslaust þras hér. Mér skilst að margir í vantrú líti svo á að ég sé frekar pirrandi rugludallur - Þess vegna hef ég ekkert fleirra að segja við ykkur í bili


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 13/06/08 11:02 #

Bless Guðjón. Endilega haltu áfram að pósta inn athugasemdum hérna. Það er augljóst að þú ert vitsmunavera.


Gormur - 13/06/08 22:27 #

Vá, rosalega ertu frábær, Teitur. Maður verður bara orðlaus!


Jón Valur Jensson - 27/06/08 02:36 #

Fróðlegt að sjá þessa grein, og á ég þó eftir að lesa mikið af henni. Ekki er hún nú alveg í takt við mörg fyrri vandlætingarskrif á vefsetri þessu um gæði námsins í Guðfræðideild HÍ, t.d í tengslum við Kristján Val Ingólfsson. En ég vanmet ekki ýmislegt sanngjarnt, sem ég sá í grein Teits, þótt annað skrifi ég ekki upp á.

Svo vil ég víkja hér að tveimur óskyldum atriðum að þessu sinni. Í greininni segir (undir 'Trúleysi'): "Ef félag á borð við Vantrú fengi skráningu sem trúfélag, fengjum við í Vantrú um 800.000 krónur árlega í formi sóknargjalda ..." – Sóknargjöld árið 2006 voru 720 kr. á einstakling á mán. (8.640 á ári) og 791 kr. (9.492 kr.) 2007, samkvæmt þessari opinberu heimild. Hækkun milli ára var 852 kr. Þá er ekki ólíklegt, að hækkunin frá 2007 til 2008 gæti orðið um 508 kr. eða meira, þ.e.a.s. að sóknargjöld einstaklings nái þá a.m.k. 10.000 kr. yfir árið. Sé við eitthvað slíkt miðað í tilvitnuðum orðum Teits, þá eru félagsmenn Vantrú nú um 80 talsins. Fróðlegt. Ætli þið séuð þá ekki hikstalaust hinn háværasti af minnstu minnihlutahópunum á Íslandi í dag?

Í 2. lagi: Teitur segir undir lokin: "Ég varð skömmu eftir að ég lýsti yfir trúleysi fyrir ofsókn frá formanni guðfræðinema sem tók verulega á taugarnar. Svo mjög að ég ákvað að segja upp þáverandi starfi mínu, starfi sem ég ann. Formaður guðfræðinema (sem einnig er siðfræðingur) hafði blandað fyrirtækinu sem ég vann hjá inn í ofsóknina á hendur mér ..." – Fróðlegt þætti mér að fá nánari skilgreiningu á þessari meintu ofsókn. – Annað var það ekki í bili, og verið þið sælir.

Jú, eitt enn, Teitur: Góðar óskir til þín – og ég tek undir spurningu ÆvarsAnda til þín hér ofar, 12/06 kl. 02:09!


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 27/06/08 02:41 #

...vandlætingarskrif á vefsetri þessu um gæði námsins í Guðfræðideild HÍ, t.d í tengslum við Kristján Val Ingólfsson.

Ég held að það væri fínt að benda lesendum okkar á þetta stórkostlega klúður Kristjáns Vals og ótrúlegar afsakanir vefstjóra Þjóðkirkjunnar.


Jón Valur Jensson - 27/06/08 03:02 #

Það er þá ekki nema sanngjarnt, að ég vísi lesendum líka á varnir mínar – bæði gegn ófrægingunni á séra Kristjáni Val og gegn lítilsvirðandi tali um Guðfræðideildina – á vefslóð hjá ykkur: HÉR (http://www.vantru.is/2005/05/30/00.04/#athugasemd-20050530203242) byrja þau innlegg mín.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 27/06/08 03:55 #

Jón Valur, þú komst ekki með neinar varnir fyrir Kristján Val. Annað hvort misminnir þig eða þá að þú sért vísvitandi að fegra aðkomu þína.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/06/08 09:29 #

Sé við eitthvað slíkt miðað í tilvitnuðum orðum Teits, þá eru félagsmenn Vantrú nú um 80 talsins. Fróðlegt. Ætli þið séuð þá ekki hikstalaust hinn háværasti af minnstu minnihlutahópunum á Íslandi í dag?

Hvaða máli skiptir hversu margir félagar eru í Vantrú? Þarna ertu kominn út á ansi hálar brautir Jón Valur því þú ert sjálfur talsmaður sjónarmiðar sem afskaplega fáir styðja. Varla viltu að við afgreiðum allan málflutning þinn með slíku tali?

Þessi ummæli þín gera það að verkum að ég verð að spyrja hvort það hafi verið þú sem hringdir inn i Í bítið þegar ég var þar í síðasta mánuði? Sá sem þangað hringdi var nefnilega með álíka vitlausan málflutning.


Jón Valur Jensson - 27/06/08 14:07 #

Ég var ekki sá, sem hringdi inn í þáttinn Í bítið, Matti, og man ekki til, að ég hafi nokkurn tímann hringt inn í þann þátt.

"... þú ert sjálfur talsmaður sjónarmiða sem afskaplega fáir styðja," segirðu, en skoðanasystkini mín um allan heim skipta hundruðum milljóna, vægt reiknað, bæði í kaþólsku kirkjunni (sem nær til um 1100 miljjóna) og meðal miklu fleiri manna, kristinna sem (í sumum málum, t.d. um fósturdráp og skhn.mál) ókristinna. Og kaþólikkar hér á landi eru, eins og þú átt að vita, sennilega meira en 100 sinnum fleiri en þið Vantrúarmenn. Hávaðinn í blöðunum er hins vegar óneitanlega mestur ykkar megin.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/06/08 14:14 #

"skoðanasystkini mín um allan heim skipta hundruðum milljóna"

Mín líka Jón Valur. Mín líka.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 27/06/08 18:39 #

Hvað voru postularnir aftur margir?


Gunnar - 01/07/08 13:19 #

Jón Valur:skoðanasystkini mín um allan heim skipta hundruðum milljóna, vægt reiknað, bæði í kaþólsku kirkjunni (sem nær til um 1100 miljjóna) og meðal miklu fleiri manna, kristinna sem (í sumum málum, t.d. um fósturdráp og skhn.mál) ókristinna. Og kaþólikkar hér á landi eru, eins og þú átt að vita, sennilega meira en 100 sinnum fleiri en þið Vantrúarmenn. Hávaðinn í blöðunum er hins vegar óneitanlega mestur ykkar megin.

Það er náttúrulega fagnaðarefni að blöðin séu farin að snúast með öðru en Musteri heimskunnar.

Ég veit ekki betur en að það séu fleiri skráðir utan trúfélaga heldur en í kaþólsku kirkjunni hér. Fullt af fólki í löndum kaþólskra hlusta ekki á helvítis bullið í kirkjunni. Enda hefur smokkanotkun aukist í þessum löndum sem og barneignir fyrir utan hjónaband.


Árni Árnason - 10/06/10 17:50 #

Eftirfarandi setning úr grein Teits hér að ofan hefði svo sem vel getað komið úr mínum munni, og gott ef ég hef ekki sagt eitthvað mjög svo keimlíkt þessu á opinberum vetvangi.

Teitur segir: "Að þessu leyti ber ég virðingu fyrir trúfélögum á borð við Krossinn og kaþólsku kirkjuna. Þessar kirkjur eru ekki að velja hvað hentar hverju sinni heldur taka boðskapinn alvarlega." Tilvitnun lýkur.

Það er þó frekar stigsmunur en eðlis á svartstökkunum og tækifærissinnunum hvað þetta varðar. Þó að grænsápuguðfræðingarnir hafi fleiri gíra afturábak en áfram eru þó bókstafstrúarmennirnir líka með sinn bakkgír sem þeir nota ef þeim finnst bullið orðið óverjandi í upplýstu nútímasamfélagi. Nýlega gaf Kaþólska kirkjan til dæmis út tilskipun um að fyrirbærið LIMBÓ væri ekki lengur til. Þeir voru að vísu að draga til baka eigin hugarfóstur, fremur en guðlega visku, en er þetta ekki allt samið af mönnum hvort sem er. Nú er meira að segja svæsnasti kristni "talíbaninn", sjálfur Gunnar í Krossinum farinn að draga í land með bókstafshörkuna. Ætli það hafi sést í glerpípunni aftur úr honum þegar dómhörkunni, öfgunum og mannvonskunni var detoxað út.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.