Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vantrú borðar börn

Það er óhjákvæmilegt að félagsskapur eins og Vantrú, sem hefur það að markmiði að gagnrýna trú og önnur hindurvitni, fái töluverða gagnrýni. Við erum jú að setja út á sitthvað sem skiptir marga einstaklinga máli. Fólk getur verið sammála okkur um flest, en þegar við skjótum svo á eitthvað sem þetta fólk hefur slysast til að trúa á án góðra raka, er hætt við að því sárni.

Það er ekkert að því að að fólk gagnrýni Vantrú. Við sættum okkur við alla málefnalega gagnrýni og fögnum því ef einhverjar rangfærslur okkar eru leiðréttar. En það er afskaplega þreytandi að fást við það þegar fólk úti í bæ segir ósatt um málstað okkar og málflutning. Við höfum oft lent í þessu, bæði á bloggum og í fjölmiðlum [t.d. 1, 2, 3]. Okkar reynsla er sú að engu máli skiptir þó við leiðréttum rangfærslur, þær eru bara endurteknar síðar.

Tökum lítið dæmi. Laganeminn Dagbjört Hákonardóttir skrifar stutta bloggfærslu þar sem hún gagnrýnir öfgamennina í Vantrú. Þar segir hún meðal annars:

Ég hef aldrei fílað móður Theresu. Hún var íhaldssamur kaþólikki sem talaði gegn getnaðarvörnum og fóstureyðingum, en prýðilega markaðssett af kaþólsku kirkjunni sem besta kona í heimi. Ég leyfi mér samt ekki að kalla hana ógeðslega fíflatussuhóru eins og öfgamennirnir á Vantrú.

Vandamálið við málflutning lögfræðinemans er að þrátt fyrir að Teresa hafi verið gagnrýnd hér á Vantrú hefur hún aldrei verið kölluð hóra, hvað þá "fíflatussuhóra" á þessum vettvangi eða á persónulegum síðum Vantrúarsinna. Hvernig verður svona kjaftæði til, hvaðan fær Dagbjört þessa hugdettu? Takið eftir viðbrögðunum, enn og aftur erum við sökuð um ofsa vegna þess að við gerumst svo djörf að fara fram á að Dagbjört rökstyðji mál sitt.*

Ég gæti trúað því að það sem þarna er að gerast sé einhverskonar útgáfa af hvísl-leik. Fólk sér að við gagnrýnum Teresu, en slíkt er afar sjaldgæft. Svo verða til umræður þar sem einhver hneykslast á þessu liði sem er svo óforskammað að gagnrýna dýrlinginn verðandi. Eftir að sagan hefur gengið nokkrar umferðir eru Vantrúarsinnar farnir að kalla hana "fíflatussuhóru" í sögusögnum og ætli þetta endi ekki með því að Vantrúarsinnar grafi upp lík hennar og svívirði eða eitthvað ámóta.

Hér á þessum vef reynum við að kalla hlutina sínu rétta nafni. Fáir kvarta þegar við köllum DNA heilun kjaftæði eða kraftaverkaprédikara hyski, en stundum snertum við taug hjá fólki og þá erum við strax orðnir óalandi fordómapúkar sem ekki berum virðingu fyrir neinu.

Að mínu mati er þetta orðspor verulega ósanngjarnt og í litlum takti við þann málflutning sem fram hefur farið á Vantrúarvefnum. Ég hef tekið eftir því að þegar fólk þarf að finna skítkast á þessum vef til að rökstyðja mál sitt endar það oft með óttalegum sparðatíningi. Hér er engin virðing borin fyrir kjánalegum skoðunum og að sjálfsögðu getur fólk fundið eitthvað ef það rembist.

Við förum ekki fram á að virðing sé borin fyrir okkur, en í gvuðanna bænum, ekki ljúga. Næst þegar þið heyrið sögu um hvað Vantrúarsinnar eru óalandi og óferjandi, spyrjið þá sögumann út í málið. Biðjið hann um að vísa á dæmi, rökstyðja mál sitt. Hver veit, kannski bendir hann okkur á rangfærslu eða ósanngjarnan málflutning. Við getum ekki annað en lært af því og bætt okkur. Ásakanir um tuð og leiðindi eru lítils virði. Að sjálfsögðu má kallað það tuð þegar fólk mótmælir einhverju - en að kalla það tuð bætir nákvæmlega engu við umræðuna.

Áður en þið kallið okkur ofstækisfólk, gerið eitt fyrir mig, lesið þessar greinar:

* Eftir að þessi grein var skrifuð hefur Dagbjört svarað í athugasemd og sagt að þetta hafi verið "gildra" og hún hafi verið að færa í stílinn. Vandamálið með það svar hennar er hve aum gildran er. Svona gekk þetta fyrir sig: 1) Dagbjört laug um Vantrúarsinna 2) Vantrúarsinnar biðja um rökstuðning 3) Dagbjört segir "haha, gildra" - Ég veit ekki með ykkur, en þetta er óskaplega barnalegt.

Matthías Ásgeirsson 03.10.2006
Flokkað undir: ( Hugvekja , Klassík )

Viðbrögð


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 03/10/06 09:15 #

Þessi laganemi er svo mikill stílisti að við hinir bara áttum okkur ekki á þessari snilld. Þannig skildi ég svarið frá henni.


hnakkus - 03/10/06 09:32 #

Þetta er enginn Matlock, það er ljóst.


Arnold Björnsson (meðlimur í Vantrú) - 03/10/06 09:35 #

Ég skildi líka svar hennar þannig að maður eigi ekki að rökræða við fólk sem er manni ósammála! Það væri bara heimskulegt :)


Arnold Björnsson (meðlimur í Vantrú) - 03/10/06 09:46 #

En það má líka lesa milli línana að hún er að reyna biðjast afsökunar ( óljóst þó ). Ég gef henni prik fyrir það.


Árni Árnason - 03/10/06 11:20 #

Það eru fleiri en Dagbjört sem eru á fullu í strámannasmíði. Davíð Þór Jónsson tók álíka rispu aftan á Fréttablaðinu þar sem hann segir vantrúaða míga á allar helstu kurteisisreglur. Hann talar um að við köllum trúaða fáfróða, illgjarna og skinhelga, og að við höldum því fram að trúin sé orsök alls ills. Og áfram heldur hann, við eigum víst að hafa haldið því fram að Móðir Teresa og Desmond Tutu hafi gengið erinda hins illa, að það sé afleitt að börn í þróunarlöndum fái hrein vatn, áfallahjálp sé vond, sem og endurhæfing áfengis og eiturlyfjasjúklinga.

Hvaðan hefur maðurinn þetta bull ?

Hann nefnir engin dæmi og vitnar hvergi til neinna ummæla, sem hann segir þó hafa birst á prenti.

Ég sé ekki betur en að Davíð Þór sé ekki einasta að míga yfir vantrúaða, heldur beinlínis skíta á þá líka. Ryður úr sér röngum fullyrðingum og vísvitandi rangfærslum.

Vissulega höfum við vantrúaðir skoðanir á ofanrituðu fólki og málefnum, og setjum þær fram tæpitungulaust oft á tíðum, en framsetning Davíðs Þórs er strámannasmíð af verstu gerð.

Þartil hann styður sitt mál með tilvitnunum, verður að líta málflutning hans dauðan og ómerkan. Það breytir þó ekki því að Fréttablaðið birti þetta, og skíturinn er þegar lentur í viftunni.

Ég skora á Davíð Þór að styðja fullyrðingar sínar tilvitnunum ( hann segir þetta hafa birst á prenti ) eða biðja opinberlega afsökunar ella.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 03/10/06 11:28 #

Það má benda forvitnum á þessar umræður þar sem Davíð Þór reynir að verja þessar skoðanir sínar.


spurning - 03/10/06 12:48 #

[ Athugasemd flutt á spjallborð. ]


jonfr - 03/10/06 18:12 #

Það er fullt af fólki sem er háð draumum, ekki sannleikanum. Og þegar þeim er bent á það að þau eru að lifa í draumum, þá er brugðist við með hótunum, lygum, blekkingum og í verstu tilfellum, ofbeldi.

Vantrú hefur ekki farið illa með Móðir Teresu, en hinsvegar var farið vel yfir þessa manneskju í þáttunum Penn & Teller: Bullshit!

Ég mæli með því að fólk skoði þá þætti. Alvarlega.


Ásgeir H - 04/10/06 02:47 #

Vitleysa er þetta, það er Vaka sem borðar börn, Vantrú fær í mesta lagi afgangana ...


Davíð Örn - 04/10/06 10:38 #

Sammála síðasta ræðumanni...akkúrat það sem ég ætlaði að segja!!!


Hafsteinn Guðlaugsson - 05/10/06 12:56 #

Er vantrú ekki bara eins og önnur trú? Hvað gerir ykkur einhvað skárri? Eruð þið ekki að reyna fá fólk til að hætta að trúa? Eruð þið ekki að biðja um peninga?

Helsta markmið félagsins er að berjast gegn boðun hindurvitna í samfélaginu. Þessu markmiði hyggst félagið ná með öflugri netútgáfu, blaðaskrifum, fyrirlestrum og rökræðum, hvar sem því verður við komið. Sjá nánar í Lögum félagsins.

Viltu ganga í Vantrú?

Viltu styrkja Vantrú?

kennitala bank hb númer 4211043440 0115 26 66666

Eini munurinn á ykkur og kristni trú t.d. er að þeir eru búin að vera í 1000 ár meðan þið hafið verið í 3


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/10/06 13:01 #

Ég er að reyna að átta mig á því hvernig síðasta athugasemd tengist því sem hér er rætt.

Vantrú er félagsskapur fólks með tiltekna lífsskoðun. Lífsskoðun er ekki trú, þó trú sé lífsskoðun.

Hvað gerir okkur skárri? T.d. boðum við ekki trúleysi og efahyggju í leikskólum og grunnskólum. Það gerir okkur miklu skárri að mínu hógværa mati.


Hafsteinn - 05/10/06 13:47 #

Mun bara ekki koma að því að þið farið að gera það þegar þið hafið verið uppi jafnlengi og kristni trú? Þið eruð að reyna koma ykkar málefnum á framfæri og reyna fá fólk til að hætta vera kristnitrúað.

Þótt þið kallið vantrú ekki trú heldur lífsskoðun þá eruð þið mjög svipuð kristinni trú, þið eruð með þessi svipuðu grunndvallar atriði og trú.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/10/06 13:51 #

Þótt þið kallið vantrú ekki trú heldur lífsskoðun þá eruð þið mjög svipuð kristinni trú, þið eruð með þessi svipuðu grunndvallar atriði og trú.

Tja, nei, reyndar ekki. það er enginn átrúnaður á nokkur yfirnáttúruleg fyrirbæri í gangi hjá okkur. Það eitt og sér er grundvallarmunur á okkur og trú.

Eins og ég sagði, þá höfum við lífsskoðun, sú lífsskoðun er rökstudd, við drögum engar órökstuddar ályktanir til að komast að lífsskoðun okkar. Lífsskoðanir sem byggja á órökstuddum ályktunum eru kallaðar trú.

En reyndar hefur skoðun okkar, efahyggja og trúleysi, verið til lengur en kristin trú og húmanismi er ekki glænýtt fyrirbæri.

Mæli með greininni öfgafullir trúleysingjar


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 05/10/06 14:39 #

Mun bara ekki koma að því að þið farið að gera það þegar þið hafið verið uppi jafnlengi og kristni trú? Þið eruð að reyna koma ykkar málefnum á framfæri og reyna fá fólk til að hætta vera kristnitrúað.

Hvað ættum við að vera boða eiginlega? Skynsemi og að trúa á sjálfan sig? Og ég held að ég tali fyrir munn Vantrúarfólks þegar ég segi að okkur hryllir við því að stunda hverskonar trúboð í boði vantrúar.

Við munum ekki stunda það sem við ásökum aðra um - þú getur verið viss um það.


Hafsteinn - 05/10/06 16:37 #

Þetta er kanski soldið vitlaust sagt hjá mér það er alveg munur á trú og lífskoðunum.

"En reyndar hefur skoðun okkar, efahyggja og trúleysi, verið til lengur en kristin trú og húmanismi er ekki glænýtt fyrirbæri." Já en efahyggja og trúleysi hefur ekki verið lengur til ef við tölum bara um trú.

Þið eruð með fyrirlestra og margt annað hvað eruð þið að ræða þar? Eruð þið ekki að reyna koma viti fyrir fólki og segja uppi trúnni sinni?

Þið eruð með teljara upp á hvað marga þið hafið hjálpað með að segja upp trúnni sinni og verða vantrúa.

Síðan eruð þið að biðja um peninga eins og aðrir trúar hópar


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 05/10/06 16:50 #

Þið eruð með fyrirlestra og margt annað hvað eruð þið að ræða þar? Eruð þið ekki að reyna koma viti fyrir fólki og segja uppi trúnni sinni?

Við erum voðalega lítið með fyrirlestra. Það er í raun þessi vefsíða þar sem við gagnrýnum trú. Þótt að við séum óbeint að vekja athygli fólks á þessu og að þeirra skoðanir gætu verið rangar þá eru við ekki neyða einn né neinn. T.d. ef einhver vill ekki breyta um skoðun og telur okkur tóma hálfvita þá bara ætti hann að hætta lesa þessa síðu og slökkva á útvarpinu/sjónvarpinu þau fáu skipti sem við sjáumst þar.

Þið eruð með teljara upp á hvað marga þið hafið hjálpað með að segja upp trúnni sinni og verða vantrúa.

Nei, við erum að leiðrétta trúfélagsskráningu fólks. Bjóðumst til þess að fara með skráningareyðublaðið til Hagstofunnar. T.d. ef þú ert í Ásatrúarfélaginu og myndir vilja skrá þig í Þjóðkirkjunna þá væri það í fínu lagi okkar vegna.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 05/10/06 16:52 #

Síðan eruð þið að biðja um peninga eins og aðrir trúar hópar

Og er eitthvað að því? - við þurfum pening eins og aðrir til að halda úti þessari vefsíðu og öðru sem er á okkar vegum. Ekki fáum við neitt frá ríkinu og öll vinna er unnin í sjálfboðavinnu.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 05/10/06 16:58 #

Hafsteinn, jújú, við eigum sumt sameiginlegt með kirkjunni.

Við til dæmis "boðum vantrú" (gagnrýnum trú) hérna á síðunni. Þjóðkirkjan heldur líka út síðu. Og ég held að þú getir ekki fundið neitt dæmi um að við séum að gagnrýna það. Það sem við gagnrýnum er þegar fólk misnotar sér aðstöðu annarra til þess að boða trúna sína, hvort sem það er fólk sem þarf á aðstoð að halda eða börn.

Síðan eruð þið að biðja um peninga eins og aðrir trúar hópar

Og eins og flest önnur félög. Er það svakalega hræðilegt að gefa upp bankanúmer félagssins á síðu sem er um félagið?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/10/06 23:26 #

Ég hef haldið einn fyrirlestur um Þjóðkirkjuna og hann var pantaður. Ég man ekki eftir að fleiri fyrirlestrar hafi orðið til í þessu starfi okkar.


Garndrufnir - 28/11/07 10:17 #

[ Athugasemd færð á spjallið - næstu athugasemdir frá þessum aðila verða færðar athugasemdalaust á spjallið. Matti Á.]

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.