Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þið eruð ekki fífl

Það er sífellt verið að leggja okkur Vantrúarpennum orð í munn. Við höfum oft verið ásakaðir um að segja að allir þeir sem ekki eru okkur sammála séu vitleysingar. Það er algerlega ósatt. Þetta fólk hefur ákaflega vitlausar skoðanir en getur þrátt fyrir það verið snjallt á öðrum sviðum.

Þetta er í raun sambærilegt við stjórnmálaskoðanir. Maður rífur hár sitt og skegg yfir því hve fáránlegar skoðanir fólk hefur en það þýðir ekki að þetta sé ekki ágætis fólk með heila sem virkar almennt. Þó við séum ósammála fólki þá þýðir það ekki að við höldum að það sé heimskt, við lifum ekki í svo einföldum svarthvítum heimi.

Ef við hefðum í alvörunni þá skoðun að trúað fólk væri vitsmunalega skert þá myndum við ekki reyna að rökræða við það. Við teljum að í þessu felist ákveðin virðing fyrir fólki, í stað þess að stimpla það sem vitleysinga þá skiptumst við á skoðunum við það. Þetta breytir þó ekki þeirri staðreynd að við höfum alltaf rétt fyrir okkur í trúmálaumræðum ;)

Það verður að gera skýran greinarmun á milli manneskjunnar sjálfrar og svo aftur skoðana þeirra sem hún burðast með. Það geta allir orðið uppvísir að því að taka upp fáránleg viðhorf og menn verða ekki verri menn fyrir það. Það hafa meira að segja ágæt rök verið færð fyrir því að skoðanir okkar og siðferðisvitnund sveiflist með tískustraumum, rétt eins og smekkur okkar fyrir útvíðu buxunum sem öllum fundust flottar þar til einn góðan veðurdag að þær voru gersamlega glataðar.

Nei góðir gestir! Þið eruð ekki fífl. En verið getur að þið mættuð hugleiða hvort trúin sem býr innra með ykkur gæti verið til kominn vegna áróðurs einhverra sem sjá hagsmuni í því að þið trúið. Beitið hinni gagnrýnu hugsunin, sem þið notið á allt nema trú ykkar, á eigin skoðanir og lífsviðhorf. Niðurstaðan gæti orðið fróðleg.

Óli Gneisti og Birgir Baldursson 21.03.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Egill - 31/03/04 12:15 #

Ef við lifum ekki í svarthvítum heimi eins og þið segið. Hvernig geta þá eitthverjar skoðanir verið vitlausar?

Er málið ekki bara að vera ekkert að segja að neinar skoðanir séu vitlausar. Segja bara að þið séuð ekki sammála þeim og segja ykkar rök fyrir því.

Með því að kalla skoðanir eitthvers vitlausar eruði að dæma manneskjuna að eitthverju leiti.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 31/03/04 12:44 #

Ef við lifum ekki í svarthvítum heimi eins og þið segið. Hvernig geta þá eitthverjar skoðanir verið vitlausar?

Ýmsar skoðanir eru vitlausar - um það er varla deilt. Þó heimurinn sé ekki svarthvítur er ekki þarmeð sagt að allar skoðanir séu jafn réttháar.

En þó skoðanir séu vitlausar er sá sem hefur hana ekki sjálfkrafa vitlaus. Aftur á móti má leiða að því rök að ef þessi einstaklingur hefur ennþá vitlausa skoðun eftir að hafa verið bent á rökvillur í henni sé hann vitlaus. Við því er ekkert að gera.

Það er til vitlaust fólk og það eru til vitlausar skoðanir.

Hér á Vantrú er ekki verið að halda því fram að allir sem ekki eru okkur sammála séu vitlausir. En sumir eru það, að mínu hógværa mati.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 31/03/04 14:44 #

Egill, ég bara skil ekki hvernig þú getur dregið þá ályktun af orðum mínum að engar skoðanir séu vitlausar.

Matti er eiginlega búinn að svara þessu að mestu leyti en ég bæti hérna aðeins við.

Heimurinn er ekki svarthvítur að því leyti að fólk getur verið bráðgáfað en samt haft ótrúlega vitlausar skoðanir. Hefurðu aldrei rekist á svoleiðis fólk og spurt sjálfan þig:"hvernig getur svona gáfaður einstaklingur haldið svona vitleysu fram?" Við lendum einmitt oft í því hér á Vantrú.


Sturla - 08/04/04 00:40 #

Þið eruð komnir í hringavitleysu í þessum umræðum ykkar, talið frekar um umræðuefnið heldur en að tala um að tala um að tala um að tala...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/04/04 04:13 #

En umræðuefnið er einmitt um það, ekki satt?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.