Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Goðsögnin um Móður Teresu

Móðir Teresa var tekin í samfélag heilagra þann 19. október sem er skref í áttina til að taka hana í hóp kaþólskra dýrlinga, hún er í augum flestra ímynd kristilegs kærleiks holdi klædd og fjölmiðlar gera sitt besta til að viðhalda þessari ímynd. Sannleikurinn um Móður Teresu er yfirleitt vel falinn.

TeresaAroup Chatterjee hefur gert sitt til að koma sannleikanum fyrir sjónir almennings. Hann er fæddur og uppalinn í Kalkútta þar sem Móðir Teresa starfaði og hefur skrifað bók um hana frá því sjónarhorni. Bókin hans heitir Mother Teresa The Final Verdict og er aðgengileg á netinu í textaútgáfu.

Í Kalkútta hefur fólk lengi verið hissa á því orðspori sem fer af Móður Teresu því það er engan veginn í samræmi við þann veruleika sem innfæddir þekkja. Líknarstarf reglu Móður Teresu vakti litla athygli í borginni áður en vestrænir fjölmiðlar blésu það upp, það var líka minniháttar.

Móðir Teresa var lygari, það er ekki hægt að líta framhjá þeirri staðreynd. Hún laug jafnvel í þakkarræðu sinni þegar hún fékk Friðarverðlaun Nóbels. Hún ýkti hjálparstarf sitt við hvert tækifæri (utan Kalkútta þar sem lygin hefði verið augljós), hún hélt því fram að regla hennar í Kalkútta brauðfæddi allt að 9000 manns daglega þegar ekkert bendir til þess, hún hélt því fram að regla hennar ræki skóla í borginni fyrir 5000 stúlkur en enginn slíkur skóli hefur nokkurn tímann verið til. Starf Móður Teresu væri miklu frekar hægt að flokka sem trúboð heldur en líknarstarf, aðstoð hennar við það deyjandi fólk sem hún "sá um" var aðallega fólgið í því að reyna að koma því í snertingu við Jesú.

Baráttan gegn fóstureyðingum var raunverulega ástríða Móður Teresu, hún hikaði ekki við að ferðast heimshorna á milli til að berjast fyrir því að löggjöf væri hörð í þessum málaflokki.

Fjármál Móður Teresu eru mikið rannsóknarefni, hún þáði peninga frá einræðisherrum, fjárglæframönnum, svindlurum og glæpamönnum (sem vildu líklega kaupa sér blessun þess "dýrlings"). Það er ljóst að hún fékk gríðarlega fjármuni frá ýmsum aðilum en það er alls ekki ljóst hvað varð um þessa peninga. Það er ljóst að einhver hluti þess fjár sem hún fékk gefins fór aldrei til þeirra sem það var ætlað, sumt endaði líklega í sjóðum Vatíkansins en ekkert er víst þar sem hún gaf aldrei upp neitt um fjármál sín eða reglu sinnar.

Hægt væri að hafa þessa grein mun lengri en til að sjá hve blekkingarvefurinn í kringum Móður Teresu er/var mikill þá er best að lesa bókina Mother Teresa The Final Verdict eða greinar eftir þá blaðamenn sem hafa stundað alvöru blaðamennsku.

Hvað gengur þeim annars til, þessum blaðamönnum sem upphefja Móður Teresu? Nenna þeir ekki að vinna vinnu sína? Nú síðast sá ég grein í vikuritinu Birtu um Móður Teresu, þar var ekki grafið djúpt, ímyndin var ekki sködduð. Á bak við ímyndina um Móður Teresu standa óprúttnir fjölmiðlamenn en fyrst og fremst kaþólikkar sem vilja fegra eigin ímynd. Móðir Teresa er sek og Páfinn er sekur.

Lokaorð Móður Teresu segja kannski allt sem segja þarf um allan þennan blekkingarleik. Það síðasta sem Móðir Teresa sagði áður en hún dó var "ég get ekki andað" en það leið ekki langur tími áður en kaþólska kirkjan kom þeirri sögu af stað að lokaorð hennar hefðu verið "Jesús, ég treysti þér". Einsog aðrar goðsagnir þá er goðsagan um Móður Teresu lygi á lygi ofan.

Óli Gneisti Sóleyjarson 31.10.2003
Flokkað undir: ( Kaþólskan , Kjaftæðisvaktin , Klassík )

Viðbrögð


Jón Ómar - 31/10/03 16:23 #

Sæll, ég veit ekki alveg hvað þér gengur til með því að ráðast á minningu þessarar góðu konu. En þú ert að vitna í eina bók eftir einn mann. Þér væri nær að skoða þann aragrúa af öðrum heimildum um líf og starf Móður Theresu. Þetta eru mjög óvönduð vinnubrögð af þinni hálfu að taka eina heimild vitna í hana sem heilagan sannleika án þess að skoða nein mótrök. Hvernig veist þú eða Aroup Chatterjee hver voru hinstu orð Móður Theresu voruð þið á staðnum? Hvernig getur þú ályktað að allir þeir einstaklingar sem hafa birt efni um líf og starf Móðir Theresu séu að ljúga? Ef þú ætlar að halda þessu fram væri þá ekki nær að skoða báðar hliðarnar á peningnum? Ég get t.d. bent þér á að kíkja á heimasíðu CNN þar má finna fjölmargar greinar einnig er ágætis grein á vef Wageing Peace samtakana (http://www.wagingpeace.org/articles/peaceheroes/rosemothertheresa.htm). Hún er dæmi um fagleg vinnubrögð. Ég hef sjálfur fengið að kynnast starfi kærleikssystra Móður Theresu hér á landi og er það til fyrirmyndar þær gefa án þess að þiggja. Þegar þær eru á gagni um hverfið og sjá einhvern sem er illa til reika, taka þær ekki sveig framhjá þær bjóða honum í mat. Gerir þú mikið af því? Kannski gerir þu það, en ég get ekki sagt það um sjálfan mig.

m.kv. Jón Ómar

"Ávöxtur kyrrðar er bæn. Ávöxtur bænar er trú. Ávöxtur trúar er kærleikur. Ávöxtur kærleika er þjónusta. Ávöxtur þjónustu er friður."

(Móðir Teresa) (Úr "Í birtu náðarinnar - Hirðisbréf til íslensku kirkjunnar,Karl Sigurbjörnsson, 2001)


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 31/10/03 16:35 #

Kíktu endilega á bókina hans, það er ítarleg heimildaskrá með henni og ef þú rekst á einhverja misfellu í henni þá máttu endilega láta mig vita. Ég fann ekkert sem benti til þess að ekki mætti treysta þessari bók og ég er góður að meta heimildir enda í bókasafns- og upplýsingafræði í HÍ. Ég hefði getað haft greinina lengri og ítarlegri en ég er hér að vitna í þessa einu bók og ég leyni því ekki.

Þetta er vissulega ekki eini maðurinn sem hefur tekið Móður Teresu til alvarlegar skoðunnar, til að mynda birti þýska tímaritið The Stern ítarlega greiningu á fjármálum hennar. Minnir að The Guardian hafi líka reynt að slökkva á goðsögninni og Channel 4 í Bretlandi, þetta eru þekktir fjölmiðlar.

CNN er ekki traustur miðill, ég veit ekki um neitt bandarískan fjölmiðil sem myndi þora að birta sanna frétt um Móður Teresu af ótta við vald kaþólsku kirkjunnar.

Ég stend við þessa grein enda hefur sú Móðir Teresa sem kom fram í vestrænum fjölmiðlum aldrei verið til.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 31/10/03 16:49 #

Hér er t.d. ein, skrifuð af rannsóknarblaðamanninum Christopher Hitchens.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 31/10/03 16:59 #

Þess má geta að bókin sem ég vitna í er ekki nærri því jafn harkaleg og bók Hitchens.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 31/10/03 17:12 #

Þetta viðtal við Hitchens er áhugavert.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 31/10/03 19:24 #

Eitt sem ég hefði kannski átt að minnast á í greininni er hve rasísk ímynd vestrænna fjölmiðla af Móður Teresu, hún er alveg erkitýpan fyrir einhvern sem hefur tekið að sér "byrði hvíta mannsins", hjálpar greyið fólkinu sem getur ekki bjargað sér sjálft. Þetta er augljóslega mjög ruglað því bestu líknarsamtökin í Kalkútta eru innlend og þau gera líka meira gagn en ógagn. Móðir Teresa sogaði til sín fjármagn sem hefði getað hjálpað einhverjum en það fór bara á einhverja leynireikninga hennar.

Ég held að Móðir Teresa hafi verið algerlega sannfærð um að hún hafi verið að gera hið rétta vegna þess að hún var sannfærð um að hún væri að vinna fyrir Jesú, hvernig gæti manneskja sem er að vinna fyrir Jesú gert slæma hluti? Þetta er einmitt ástæðan fyrir að trúað fólk getur verið mjög hættulegt.

Það væri líka hægt að skrifa grein um tengsl Móður Teresu og Páfans og hvernig Teresa var (og er) eitthvað öflugasta vopn þessa afturhaldssama páfa gegn umbótamönnum. Það að kaþólska kirkjan náði að búa til "lifandi dýrling" sem gat barist gegn umbótum er afar slæmt og hefur örugglega haft mjög alvarlega áhrif.

Sérstaklega held ég að Móðir Teresa hafi haft slæm áhrif í Bandaríkjunum með baráttu sinni gegn fóstureyðingum. Þessi "góða kona" barðist gegn því að 14 ára stúlka, sem varð ófrísk eftir nauðgun, færi í fóstureyðingu. Móðir Teresa vildi að það væru "sérstök fangelsi" fyrir lækna sem hefðu framkvæmt fóstureyðingar.

Ég hefði mjög gaman af því að rökræða skoðanir og gjörðir Móður Teresu frekar, allt til þess að fella skurðgoðið af stalli sínum.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 31/10/03 19:40 #

Kannski er líka rétt að benda á að ég felli engan dóm yfir þeim konum sem starfa undir nafni Móður Teresu, margar þeirra sem hafa einfaldlega fallið fyrir ímynd Móður Teresu.

Ég man annars eftir því þegar ég heyrði fyrst af því að þessi regla væri að setjast að hérna að ég hugsaði hvers vegna á Íslandi? Eru ekki til staðir sem þurfa meira á þessu að halda? Ætli aðalástæðan fyrir því að þær séu hérna sé ekki mun frekar að afla trú sinni fylgismanna frekar en að hjálpa fólki. Þær líta annars örugglega á það að snúa fólki til kaþólsku sem þá einu hjálp sem nokkru skiptir og Íslendingar eru samkvæmt því viðhorfi hjálparþurfi.


Jón Ómar - 02/11/03 23:33 #

Sæll,

Í hálfa öld sinnti Móðir Teresa fátækum í fátækrahverfum Kalkútta. Smátt og smátt komu fleiri systur til liðs við hana og nú rekur regla hennar yfir 500 heimili fyrir börn og fátæka í meira en 80 borgum víða um heim. Þetta starf var lengi unnið án þess að nokkrir veittu því athygli aðrir en þeir, sem eignuðust betra líf. Fólk hefur mismunandi mat á því hvað skiptir máli í lífinu. Þegar upp er staðið hefur framlag Móður Teresu skipt margfalt meira máli en flestra þeirra, sem saga 20. aldarinnar hefur hampað mest.

Í sambandi við þennan þátt sem sýndur var á Channel 4 er margt mjög undarlegt og ljóst að framleiðendum þáttarins gekk ekki eitt gott til. Hefur m.a. verið bent á það að Hitchens sem er vinstrisinnaður blaðamaður hafi einungis verið að níða niður Móðir Teresu t.þ.a. koma höggi á menn sem honum hafi verið í nöp við, eins og Reagan o.fl.. (Trevor Fishlock, enskur rannsóknarblaðamaður) Þá hefur einnig verið bent á það að ekki þurfi að setja spurningarmerki við starfsemi móður Theresu, heldur hvað búi að baki hjá múslimanum Tariq Ali, framleiðanda myndarinnar, og gyðingnum Michael Grade, stjórnanda Rásar 4. Það birtist mjög góð grein um þetta eftir Jóhönnu Kristjánsdóttur í morgunblaðinu 1998 og má finna hana á gagnasafninu.(http://safn.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=312519).

Þetta náði ég á Brittanica: ,,The government's social-welfare enterprises are supplemented by private agencies, of which the most prominent is the Ramakrishna Mission, founded by the Hindu reformer and teacher Vivekananda in 1897, and the Order of the Missionaries of Charity (1948), founded by Mother Teresa, recipient of the 1979 Nobel Peace Prize.'' Þannig telur indverska ríkisstjórnin sjálf að kærleiksregla Móður Teresu sé ein af þeim stærstu í Indlandi.

Það er auðvelt að sitja hér á Íslandi fyrir framan tölvuna sína og gagnrýna aðra. Aðra sem gáfu líf sitt í þjónustu við fátæka. Móðir Teresa gékk um götur Kalkútta og gaf fólki von, sjálf þreif hún sár holdsveikra og hjálpaði hinum stéttlausu sem enginn vildi sjá. Þér kann að finnast Móðir Teresa vera vond og ill kona sem sópaði til sín peningum og lifði allsnægtar lífi. Eða kannski heldur þú að hún hafi þjáðst af athyglissýki, gaf líf sitt í þjónustu við hina lægst settu því hana langaði svo að komast í sjónvarpið. Þá er það þitt val, Móðir Teresa vissi að fólk eins og þú mundi gagnrýna hana og vanvirða minningu hennar. En henni var alveg sama hún átti sér frelsara sem kallaði hana til að starfa í þágu annarra, þeirra sem minnst máttu sín. Það skipti henni öllu máli. ,, Little things are indeed little, but to be faithful in little things is a great thing." (Móðir Teresa)

Ég get vel tekið undir það að sú mynd sem fjölmiðlar drógu upp af Móður Teresu hafi verið ýkt en það breytir því ekki að hún hjálpaði fjölmörgum af óeingingirni og kærleika í nafni Jesú krists. Hættu að berja hausnum í vegg og sættu þér við það að það er til gott í þessum heimi. Þú hefur engan rétt á því að gangrýna aðra fyrir að gera eitthvað sem þú veist að ég og þú mundum aldrei gera. Alla vana mjög ólíklega ég.

Guð blessi þig!

kv. Jón Ómar

,,When a poor person dies of hunger, it has not happened because God did not take care of him or her. It has happened because neither you nor I wanted to give that person what he or she needed.'' Móðir Teresa

Efni frá: Encyclopædia Britannica Online Gagnasafni morgunblaðsins www.ewtn.com/motherteresa/


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 03/11/03 00:46 #

Ég mæli eindregið með því að þú lesir bókina sem ég vitnaði í, höfundurinn gagnrýnir meðal annars Hitchens fyrir æsifréttastíl hans. Þú hefðir því ekkert þurft að grafa upp grein Jóhönnu Kristjónsdóttur, þú hefðir bara getað lesið bókina.

Annars kemur vel fram í grein Jóhönnu að starf Móður Teresu er ekki yfir gagnrýni hafið en þú minnist ekki á það. Þú vitnar þess í stað í eina manneskju sem hélt öðru fram. Þú vitnar líka í orð þessarar manneskju sem gaf í skyn að ástæðan fyrir efnistökum þáttarins væri að hér væru komnir gyðingur og múslími sem væru að gagnrýna Móður Teresu vegna trúar hennar. Mér finnst þú ekki fara heiðarlega með efni þessarar greinar. Þó þátturinn sjálfur hafi verið í æsifréttastíl þá varð hann að mörgu leyti upphafið að gagnrýnni umfjöllun um Móður Teresu og það er vissulega gott.

Þú segir að það sé auðvelt fyrir mig að sitja hér fyrir framan tölvuna og gagnrýna Móður Teresu en ég er einmitt að vitna í mann sem þekkir Kalkútta, sem rannsakaði málið sjálfur.

Tilvísun þín í Brittanicu sem á að sanna að Indverska ríkisstjórnin telji reglu Móður Teresu eina þá stærstu í landinu segir ekki það sem þú heldur fram að hún segi. Þarna er bandarísk alfræðiorðabók að segja að regla Móðir Teresu sé ein sú mest áberandi.

Það var annars erfitt fyrir mig að finna þessa setningu í EB en ég fann hana að lokum. Þú gefur í skyn að þessi setning eigi við Indland í heild sinni þegar sannleikurinn er sá að hún á einungis við um héraðið Vestur-Bengal (http://search.eb.com/eb/article?eu=121216). Það var nú ekki fallegt af þér.

Ég ætla ekki einu sinni að tala um það að þú vitnar í grein á heimasíðu "Eternal Word Television Network, Global Catholic Network".

Móðir Teresa gaf ekki líf sitt í þjónustu við fátæka, hún gaf líf sitt í þjónustu við Jesú og það er ekki það sama. Ég hef ekki haldið því fram að hún hafi ekki gert neitt gott (þó aðallega fyrir kaþólikka og þá sem féllu fyrir trúboði hennar). Ég er að benda á að starf hennar hefur verið ýkt, hún laug sjálf um það, og að hún var fyrst og fremst trúboði. Ég hata það þegar trúboð er dulbúið sem hjálparstarf og það er ástæðan fyrir þessum skrifum mínum.

Það hafa margir unnið gott starf fyrir fátæka í Kalkútta, mun betra og meira starf en Móðir Teresa en þeir eru hunsaðir af vestrænum fjölmiðlum. Ég talaði hér að ofan um þann rasisma sem í þessu felst. Starf innfæddra sem hefur verið mun viðameira fær enga umfjöllun á Vesturlöndum á meðan nunna sem var nær óþekkt í Kalkútta var gerð að hetju. Ímynd Móður Teresu er steríótýpan af góðu konunni sem tók að sér "byrði hvíta mannsins".


Jón Ómar - 03/11/03 09:05 #

Sæll,

Ég mótmæli því ekki að sú mynd sem dregin var upp af Móður Teresu í vestrænum fjölmiðlum hafi verið ýkt. En það breytir ekki þeirri staðreynd að hún vann í þágu annarra. Með kristniboðið þá held ég að við verðum að vera sammála um að vera ósammála enda er himin og haf á milli okkar í þeim efnum. Með því að vitna í grein Jóhönnu var ég einfaldlega að benda á andstæð sjónarmið, vissulega bendir greinin á að starf Móður Teresu sé ekki yfir gagnrýni hafin. En sú gagnrýni sem Chatterjee situr fram er langt út fyrir það sem kalla má sanngjarnt. Það var ekki ætlun mín áð vera óheiðarlegur og biðst ég afsökunar á því. Ég hef svolítið gluggað í bókina eftir Chatterjee og mér finnst lítið til hennar koma við fyrstu sýn. Margir aðrir hafa komið á slóðir Móðir Teresu og fylgst með störfum hennar og hafa allt aðra sögu að segja.

Með kveðju Jón


Óli Gneist - 03/11/03 09:12 #

Endilega rökstyddu álit þitt á bókinni því mér fannst hún heiðarlega unninn, mér fannst heimildarskráin góð og ítarleg, hann talar með virðingu um viðfangsefnið þó hann sé ósammála henni.

Hvernig getur trúboð verið ígildi hjálparstarfs? Hvernig er það réttlætanlegt að Móðir Teresa tók að mestu leyti aðeins að sér kaþólikka og þá sem tóku trúnna? Hvernig var það réttlætanlegt að hún skírði þá sem voru of veikburða til að stöðva hana?

Trúboðar ræna til sín fjármagni sem ætlað er til hjálparstarfa. Heldur þú að þeir sem gáfu reglunni fjármagn hafi ætlast til þess að þeir peningar yrðu notaðir til að koma reglunni til Íslands?

En svo við ræðum aftur beinlínis verk Móður Teresu þá langar mig að spyrja þig hvað þér finnst um að hún þáði peninga af einræðisherrum og glæpamönnum og vingaðist við þá?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 03/11/03 09:18 #

Þú segir að fjöldi manna sem hafi skoðað starf Móður Teresu hafi aðra sögu að segja. Hverjir eru það? Hverjir komu þarna og skoðuðu starf Móður Teresu í samhengi við annað hjálparstarf í Kalkútta?

Hvað með þá staðreynd að regla Móður Teresu hefði getað keypt lyf og læknisþjónustu til að bjarga þeim sem komu á heimili hinn deyjandi? Það var bara ekki spilunum hjá henni því hún var einfaldlega trúboði.


Krummi - 03/11/03 12:14 #

Röksemdafærsla virðist vera eitthvað sem fór fyrir bý í þessari heitu umræðu. Óli Gneisti stærir sig af því að vera í bókasafns- og upplýsingafræði í HÍ og því þykir mér virkilega undarlegt að hann taki orðum einnar eða tveggja bóka svo alvarlega. Að mínu mati er það svipað og að taka orð biblíunnar um ævi Jesú bókstaflega, þar höfum við jú fjórar heimildir sem allar segja það sama. Við vitum að það er bull. Móðir Teresa var og er það stórt nafn að það er óumflýjanlegt að um hana séu ritaðar níðbækur og greinar. Þrátt fyrir tengsl hennar við kirkju sem ég ber andúð á þá ber okkur að sýna minningu þessarar konu virðingu, hún gerði meira fyrir þá sem ekkert og enga eiga en flestir íbúar jarðarinnar. Kær kveðja, HaraldurHrafn Guðmundsson


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 03/11/03 14:40 #

Þú snýrð útúr Haraldur eða misskilur eitthvað, þetta eru ekki ein eða tvær bækur, það hefur verið skrifað mjög mikið um galla Móður Teresu. Ég stærri mig af því að hafa valið bestu bókina um efnið. Hún er einsog ég hef bent á vönduð og með góðri heimildaskrá svo hægt er að athuga hvaðan upplýsingarnar koma. Þessari bók er treystandi.

Ég bendi þér á að lesa greinina í Mogganum sem Jón Ómar vitnar í, hún hrekur ekkert af því sem ég sagði að staðfestir meiraðsegja sumt.

Ekkert af því sem kom fram í grein minni hefur verið hrakið enda er það allt satt.

Ímynd Móður Teresu er fölsuð, nær allar bækur sem eru skrifaðar um hana eru gerðar fyrir heim sem dáir hana. Þeir sem skrifa þessar bækur vilja ekkert taka á þeim neikvæðu hliðum sem vissulega voru á þessari konu. Jákvæðu bækurnar eru étnar hver uppúr annari. Hvað heldurðu að margir sem hafa skrifað um Móður Teresu hafi raunverulega farið til Kalkútta? Hvað heldurðu að þeir örfáu sem fóru þangað hafi eytt miklum tíma þar?

Bókin sem ég vitna í er skrifuð af manni sem þekkir þjóðfélagið sem hún starfaði í. Hitchens hefur líka unnið heimavinnu sína vel enda þarftu að ger það til að geta gagnrýnt verðandi "dýrling". Versta gagnrýnin á Hitchens hefur verið að hann sé einfaldlega vinstri maður sem hefur andúð á trú en málið er að hann hefur aldrei haldið öðru fram.

Aroup Chatterjee hefur enga andúð á kaþólikkum og það veit ég fyrir víst vegna þess að hann er giftur kaþólskri konu. Mér finnst einmitt þessa lína úr innganginum á bókinni segja mikið: Also, my wife, brought up (a Roman Catholic) in Ireland on Teresa mythology, felt angry and cheated when she went to Calcutta and saw how the reality compared with the fairy tale; she has encouraged me in my endeavours.

Hér er annars þýðing á greininni úr þýska tímaritinu Stern: http://are.berkeley.edu/~atanu/Writing/teresa.html


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 03/11/03 14:51 #

Kannski ég haldi aðeins áfram með þetta: "hún gerði meira fyrir þá sem ekkert og enga eiga en flestir íbúar jarðarinnar" Hvað þýðir þessi lína? Einfaldlega að hún sé í topp 50% af jarðarbúum sem mest hafa gert fyrir þá sem ekkert eiga? Ég veit ekki hvernig ég á að reyna að hrynda þessari staðhæfingu en þar sem þú hefur einfaldlega ekkert á bak við hana þannig að ég þarf þess ekki.

Ég skal koma með einfalda staðhæfingu sem ég get staðið á bak við. Móðir Teresa var ekki ein af þeim sem gerðu mest fyrir hina fátæku í Kalkútta þó hún hafi haft mun meira fjármagn til þess en aðrir sem þar störfuðu, hún hafði aðallega áhuga á trúboði, það var ævistarf hennar.


Jón Ómar - 03/11/03 15:48 #

Sæll, Hvað er að trúboði og hjálparstarfi saman. Er ekki sama hvaðan gott kemur. Íslendingur að nafni Helgi Hróbjartsson sem starfar á vegum Sambands íslenskra kristniboðsfélaga og Hjálparstarfs kirkjunnar vinnur að hjálparstarfi á meðal múslima í Eþíópíu. Á hann að hætta því því hann er kristinn. Móðir Teresa spurði fólk ekki á hvað það trúði þegar hún tók það inn á heimili hinna deyjandi. Enda er auðvelt að segjast vera eitthvað sem þú ert ekki þegar þú ert í neyð.Að auki ef þú trúir ekki að Jesú afhverju ertu svona á móti trúboði. Ég meina ef Guð er ekki til þá skiptir það varla máli þó að hjálparstarfsmenn segji gefi fólki mat og lyf og segji kannski aðeins frá Jesú varla er það mjög hættulegt. Ég neita því ekki að Móðir Teresa hafi verið trúboði en ég mótmæli því að hún hafi ekki gert gagn í Kalkútta. Þú trúir ekki því sem Brittanicca segir eða CNN þú vilt svo mikið að Móðir Teresa hafi verið ill. Við verðum þar af leiðandi að vera sammála um að vera ósammála.

Með kveðju Jón Ómar


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 03/11/03 16:12 #

Helgi á ekki að hætta hjálparstarfi því hann er kristinn en hann á að hætta að nýta sér neyð fólks til að selja Jesú. Það er ólýðandi að trú sé þröngvað upp á fólk í nafni hjálparstarfs.

Bandarískir fjölmiðlar þurfa að þola gríðarlegan þrýsting frá trúarhópum. Disney gaf frá sér myndina Dogma sem er í raun jákvæð í garð trúarbragða, gerð af kaþólikka, af því að kaþólikkar héldu því fram að hún væri neikvæð í garð þeirra. Notaðu gagnrýnið hugarfar aðeins.

Þú vitnaðir sjálfur í grein eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur sem í raun styður það sem ég er að segja hér. Af hverju hunsarðu hana þegar þú ert að komast að niðurstöðu um Móður Teresu?

Þú hefur ekki kastað neinni rýrð á bókina sem ég vitna í enda er hún vönduð að ölli leyti.

Þrátt fyrir það sem þú segir er í raun lítill ágreiningur um það sem ég sagði í greininni:

  • Það er auðvelt að staðfesta að hún þáði peninga af glæpamönnum og einræðisherrum. Það er einnig auðvelt að sýna fram á að hún studdi þá.
  • Það er óumdeilt að hún barðist gegn réttindum kvenna varðandi fóstureyðingar (og einnig gegn getnaðarvörnum þó ég hafi ekki farið út í það).
  • Það er óumdeilt að stór hluti þeirra peninga sem hún fékk fór aldrei til þeirra sem áttu að fá þá.
  • Það er óumdeilt að Móðir Teresa laug um starf sitt til að ýkja góðmennsku sína.
  • Það er óumdeilt að hún var miklu frekar trúboði en hjálparstarfsmaður en þér finnst það bara ekki skipta máli.
Allt sem ég sagði í greininni stendur ennþá óhaggað.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/11/03 16:13 #

Hmm, er þessu ekki bara alveg öfugt farið? Þú, Jón Ómar, virðist vera svo upptekinn af því hvað Teresa var góð að engin gagnrýni á það sjónarmið fær hrinið á þér.

Hugsaðu um það.


Jón Ómar - 03/11/03 17:04 #

Sælir,

Ég hef aldrei neitað því að sú mynd sem dregin hefur verið upp af Móðir Teresu í vestrænum fjölmiðlum sé ýkt. En hins vegar vil ég meina að sú lýsing sem gefin er á starfi hennar í bók Chatterjee sé einnig stórlega ýkt. Ég tel mig hafa hugsað málið á gagnrýnin hátt þegar ég las greinina hér fyrst var ég hissa því ég hafði dýrlinga mynd af Teresu í huga mínum. Ég hef lagt mig fram við að leita af upplýsingum um starf hennar á fjölmörgum fréttamiðlum. Ég viðurkenni að ég dæmdi bók Chatterjee of snemma. Grein Jóhönnu Kristjónsdóttur segir nákvæmlega það sama og ég hef verið að segja. Þ.e. að sú mynd sem vestrænir fjölmiðlar hafi verið ýkt hins vegar hafi hún unnið mikilsvert og gott starf og ekki má lýta framhjá því. Vegna þess eins að hún var kaþólsk nunna.

"Móðir Theresa er stórmerk kona, góð kona sem hefur ágæta kímnigáfu. Eitt sinn er ég ræddi við hana í Kalkútta, baðst ég afsökunar á því að tefja hana. Hún svaraði: "Jafnvel blaðamenn geta unnið starf Guðs." Það að hitta hana vekur menn til umhugsunar um styrk og eðli trúarinnar. Einn helsti galli heimildarmyndarinnar var að viðurkenna ekki dyggðir móður Theresu. Menn hafa nýtt sér frægð hennar, hinir góðu jafnt og þeir illu vilja baða sig í ljómanum sem af henni stafar. Hún hefur leyft illmennum að njóta góðs af því að tengjast sér en frægð hennar hlaut að endingu að leiða til þess að það félli á helgimyndina. Starf hennar og orðspor eru hins vegar eflaust nægileg til þess að standa af sér þessa árás sjónvarpsins."

(http://safn.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=312519)

Getum við verið sammála um það?

Með kveðju Jón Ómar


Jón Ómar - 03/11/03 17:07 #

Sæll, ´

Með trúboðið þá held ég að við verðum seint sammála vegna ólíkra lífsskoðanna sem ég álít að við höfum. Í mínum augum er kristniboð hjálparstarf, þ.s. að maðurinn lifir ekki á brauði einu saman. Ég held að við ættum ekki að deila um trúboð því að þá tölum við bara í kross.

Með kveðju Jón Ómar


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 03/11/03 17:16 #

Einsog ég sagði þá markaði þessi heimildarmynd upphafið að gagnrýni á Móður Teresu og því ekki undarlegt að mesti hluti ímyndar hennar sé því jákvæður þarna, sambærileg grein myndi í dag myndi innhalda mun meiri gagnrýni.

Það var algengur frasi hjá henni Móður Teresu að blaðamenn gætu unnið starf guðs, ef þeir birtu grein um hana þá voru þeir að auglýsa starf guðs. Hún gaf sér eiginlega alltaf tíma til að tala við blaðamenn nema þegar hún vissi að þeir væru líklegir til að gagnrýna hana. Þetta er í hróplegri andstöðu við þá ímynd sem hefur verið gerð af henni.

Móðir Teresa bjó að miklu leyti sjálf til ímynd sína. Hvernig er til dæmis hægt að halda öðru fram en að hún hafi vitað nákvæmlega hvað hún var að gera þegar hún hitti páfann í Róm í óhreinum búningi. Það hefði verið minnsta mál í heimi fyrir hana að fá hreinan búning eða láta hreinsa hann og það hefði einmitt verið það sem raunverulega auðmjúk nunna hefði gert. Það þarf raunverulega slóttuga konu til að úthugsa þá leiðir sem Móðir Teresa fór til að búa til ímynd sína.


marri J - 13/11/03 23:43 #

ég hef lítið um þess grein að segja en ég hef tekið sérstaklega eftir því á þessum ágæta vef hversu hræðilega röksemdarfærslu tækni Jón Ómar notar ásamt öðrum pro-kristnum, amk þegar miðað er við þá einstaklinga hérna sem eru á móti trú. Ég mæli sterklega að þið ykkar sem viljið verja trú ykkar hérna ættuð að taka svo sem eitt námskeið í röksemdarfærslu eða ræðumensku ef ykkur gefst kostur á. ps, áhugaverður vefur hérna. ég hefði líka persónulega gaman af því ef þeir hérna sem skrifa pistla gætu tekið fyrir önnur trúarbrögð en þau allra stæðstu, því múslimar, kristnir og gyðingar trúa allir á sama guðinn (samkvæmt biblíuni og kóraninum) hvernig væri nú að reyna að rakka andatrú en búddisma niður, já eða hinduisma (kanski of auðvelt skotmark með vegna stéttarskiptingar) og jafnvel ásatrúnna ef þið eruð alveg vissir um að öll trú sé af hinu ílla

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.