Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vísindi eru verkfæri

Mynd af LHC

Undanfarin misseri hefur umræðan um vísindi verið frekar hávær. Í Bandaríkjunum er mikið rætt um hvort vísindi og trú fari saman og hér á landi hefur mikið verið rætt um t.d. óhefðbundnar lækningar (hér eftir nefnt kukl) og bólusetningar. Mikils misskilnings virðist gæta hjá stórum hópi fólks um hvað vísindi eru í raun og veru.

Öll höfum við aðgang

Vísindi eru ekki eitthvað fyrirbæri sem eingöngu fáir útvaldir hafa einkarétt á, heldur verkfæri. Þetta er besta verkfæri sem við þekkjum til að skera úr um hvort eitthvað sé rétt eða rangt, virkar eða virkar ekki, alveg eins og hamar er besta verkfærið til að reka nagla í spýtu. Hin vísindalega aðferð notast ekki við fyrirfram gefnar niðurstöður og reynir ekki að aðlaga gögnin að þessari niðurstöðu, þvert á móti.

Það fólk sem við köllum vísindamenn er aðeins fólk, sem vinnu sinnar vegna, beitir hinni vísindalegu aðferð til að skera úr um gagnsemi viðfangsefni síns, sama hvort um ræðir jarðfræði, læknis-, eðlis-, eða líffræði og hvað eina annað sem krefst þess að vísindalegri aðferð sé beitt. Í raun beitum við flest vísindalegri hugsun, upp að vissu marki, í okkar daglega lífi án þess að gera okkur grein fyrir því.

Við keyrum ekki drukkin afþví að athuganir og gögn segja okkur að það sé ekki óhætt. Við göngum yfir götur á gangbrautum afþví að athuganir og gögn segja okkur að það sé öruggasta leiðin og svona mætti áfram telja. Þetta finnast okkur svo sjálfsagðir hlutir að við köllum þetta almenna skynsemi.

Að vita um virkni

Í fræðigreinum á borð við t.d. læknisfræði, eðlisfræði og líffræði er hinni vísindalegu aðferð beitt í mismunandi útfærslum, en allar byggja þær á því að fá hlutlausar niðurstöður um hvað sé rétt og hvað virkar. Ég þarf ekki að vita allt um allt til að meta sjálfur hvort ég treysti einhverjum nýjungum í læknavísindunum afþví að ég ber fullt traust til hinna vísindalegu aðferða sem beitt var til að komast að niðurstöðunni. Í þokkabót eru niðurstöðurnar yfirfarnar og endurteknar af hlutlausum aðilum til að staðfesta þær. Hversu frábært er ekki að vita til þess?

Ástæða þess að t.d. kuklarar reyna oft að gera lítið úr vísindum er að þegar þessu verkfæri er beitt á kuklið kemur í ljós að það virkar ekki. Það geta verið einstaka vitnisburðir um ágæti kuklsins, en gögnin tala allt öðru máli. Sama má segja um trúarbrögð, miðla, töfralækna, spámennsku og margt annað.

Vísindi og vanþekking

Við notum þetta verkfæri til að vinsa ónothæfa hluti út. Þetta frábæra verkfæri sem vísindin eru hefur bætt líf okkar og lífsgæði gríðarlega mikið á öllum sviðum allt frá heilsu til tölvutækni og allt þar á milli. Það er því ótrúlegt að enn skuli stór hópur í þjóðfélaginu tala af mikilli vanþekkingu um vísindi og finna þeim allt til foráttu og getur í þokkabót ekki stungið upp á neinum úrlausnum til bóta.

Við megum ekki láta þessar raddir taka umræðuna yfir og verðum að halda ótrauð áfram. Besta forvörnin gegn fordómum í garð vísindanna er að gera fólki grein fyrir því hvernig þau virka. Það væri einnig óskandi að fólk hefði jafn mikinn áhuga á að koma t.d. reglulegu og skilvirku vísindastarfi inn í leik- og grunnskólana eins og sumir vilja koma prestum þar inn.


Sjá einnig:


Mynd í boði Master Jack Roger

Reputo 13.11.2013
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Agnar - 13/11/13 14:50 #

Vegna eftirfarandi ummæla í blogggreininni ...

"Það er því ótrúlegt að enn skuli stór hópur í þjóðfélaginu tala af mikilli vanþekkingu um vísindi og finna þeim allt til foráttu og getur í þokkabót ekki stungið upp á neinum úrlausnum til bóta."

... langar mig að spyrja greinarhöfund:

Hvaða "stóra hóp" ertu að tala um nákvæmlega?


Reputo (meðlimur í Vantrú) - 13/11/13 19:03 #

Ja, ég hef svosem ekki prósentuhlutfallið á hreinu en miðað við hversu vel kukl virðast þrífast í samfélaginu hlítur það að kalla á spurningar um vísindalegt læsi þess hóps sem upp á það púkkar. Nú ætla ég ekki að gera öllum það upp að tala niður vísindi, en sá hluti sem gerir það er töluvert hávær. Einnig virðast margir fullkomlega færir um að beita rökhugsun á megnið af sínu daglega lífi en geta algjörlega sneitt það út þegar kemur að málefnum eins og kukli og trúarbögðum.


Agnar - 15/11/13 17:38 #

Ókei, Reputo, segjum að það sé "stór hópur" sem talar af mikilli vanþekkingu um vísindi, finnur þeim allt til foráttu og getur í þokkabót ekki stungið upp á neinum úrlausnum til bóta, sumir færir um að beita rökhugsun á megnið af sínu daglega lífi en geta algjörlega sneitt það út þegar kemur að málefnum eins og kukli og trúarbögðum ... þá er ég með aðra spurningu til þín: Eru hnykklækninar "kukl" samkvæmt þínum skilningi?


Agnar - 15/11/13 17:46 #

*"hnykklækningar" átti þetta að vera hjá mér.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/11/13 19:51 #

Bendi á að hópurinn um Heilsufrelsi hélt fjölmenna ráðstefnu um daginn. Þar var nokkuð "stór hópur" saman kominn sem talaði af vanþekkingu um vísindi, t.d. bólusetningar. Svo má bara kíkja á umræðu síðustu daga á hinum ýmsu vefsíðum - það eru afskaplega margir sem tjá sig þar og setja fram mjög "óhefðbundnar" hugmyndir um vísindi.

Eru hnykklækningar "kukl" samkvæmt þínum skilningi?

Ég skal svara. Margar fullyrðingar hnykklækna eru vafasamar og standast ekki skoðun. Vel má vera að hnykklækningar hafi áhrif á ýmislegt, geti t.d. gagnast sem meðferð við vissum bakverkjum - en fræðin á bak við hnykklækningar er ekki viðurkennd eða vísindaleg - eiginlega er hún afskaplega vafasöm. Hnykklækningar eru stundum hættulegar og því miður nokkur dæmi um fólk sem hefur farið illa úr þeim.

Wikipedia síðan er ágætis byrjun fyrir þá sem vilja kynna sér hnykklæknigar. Ef fólk vill sjá gagnrýni þeirra sem efast um fræðin er ágætt að kíkja á síðuna Chirobase.


Reputo (meðlimur í Vantrú) - 18/11/13 00:39 #

Mér sýnist Matti hafa svarað þessu ágætlega. Ég hef persónulega farið til hnykkjara, fyrir mörgum árum síðan, þar sem látið var braka, að því er virtist, í hverju einasta beini í skrokknum. Mér leið ágætlega nokkrum klukkustundum síðar en þetta gerði ekkert fyrir mig til lengri tíma litið.

Annars þekki ég ekki hnykklækningar og vísindin þar á bakvið nógu vel til að tjá mig sérstaklega um það.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.