Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kuklfrelsi

Kukl-auglýsing

Fyrr í þessum mánuði voru nýstofnuð samtök, Heilsufrelsis, með kynningarfund á Grand Hótel Reykjavík. Baráttumál þessara samtakanna eru innleiðing kukls í heilbrigðiskerfinu, lögleiðing þess að kuklarar geti gefið fólki alvöru lyf og margt fleira. Kíkjum nánar á hvað þessi samtök standa fyrir.

„Lækningafrelsi“

Félagið berst fyrir því sem það kallar lækningafrelsi. Þau telja það vera ósanngjarnt að „vestrænar lækningaaðferðir“ (læknavísindi) hafi forréttindastöðu gagnvart „heildrænum og óhefðbundnum meðferðum“ (kukli) í heilbrigðiskerfinu.

Til þess að laga þetta óréttlæti á að hefja „opinbera kennslu á Íslandi á sviði heildrænna náttúrulækninga“. Það á að losa um þær hömlur að „starfsemi hins opinbera heilbrigðiskerfis miðist nánast eingöngu við vestrænar lækningaaðferðir.“ Þetta á að koma í veg fyrir það að fólk sé „þvingað til að leita á náðir vestrænna lækninga”.

Aðalgallinn við þessa afleitu hugmynd er sá að „heildrænar og óhefðbundnar meðferðir“ virka ekki. Þar sem að kuklið hefur annað hvort ekki verið rannsakað almennilega eða þá að það hefur beinlínis verið sýnt fram á að það virkar ekki.

Á meðan þessar aðferðir eru annað hvort ósannaðar eða afsannaðar þá er ekkert vit í því að kenna þetta í læknisfræði og nota þetta í heilbrigðiskerfinu. Sannleikurinn er sá að ef það tekst að sýna fram á almennilega virkni einhverra þessara aðferða, þá eru læknavísindin galopin fyrir þeim. Annars ekki.

„Lyfjafrelsi“

Tengt „lækningafrelsinu“ er það sem félagið kallar „lyfjafrelsi“. Samtökin vilja breyta lögum sem takmarka aðgang almennings að „lækningajurtum og fæðubótarefnum á þeim forsendum að þau séu lyfjavirk“. Einnig eiga kuklarar að fá meira „frelsi til að ávísa jurtum, remedíum og fæðubótarefnum í samræmi við sína fagkunnáttu.“

Nú er það auðvitað mjög pólitísk spurning hve stranga löggjöf við viljum hafa í sambandi við skottulækningar. Ætti það til dæmis að vera löglegt að kuklarí út í bæ sé að selja vatn eða sykurpillur („remedíur“) sem lækningu á krabbameini? Á að leyfa kuklara út í bæ að selja lyf sem geta drepið fólk? Eins og nýleg frétt um hættuleg fæðubótarefni sýnir, þá er ástæða fyrir því að það er reynt að passa upp á það hvaða lyf fólk tekur.

„Efnafrelsi“

Annað baráttumál samtakanna er „efnafrelsi“.

Undir þeim flokki fellur meðal annars barátta gegn bóluefnum. Samtökin vilji upplýsa almenning um „skaðsemi eiturefna“ í bóluefnum. Það er auðvitað sjálfsagt að upplýsa fólk um hættueiginleika bóluefna, en raunin er sú að bólusetningar bjarga mannslífum, og almenn andstaða við bólusetningar er ein allra hættulegasta ranghugmyndin í kuklheiminun.

Eins er félagið á móti „eiturefnum“ í matvælum. Það eru nú flestir á móti því að bjóða fólki upp á eitraðan mat, en í tilfelli Heilsufrelsis er ekki endilega andstæða við alvöru eiturefni, heldur er átt við efni eins og MSG og aspartam. En það hefur verið margoft sýnt fram á að þessi efni eru ekkert hættulegri en annað krydd.

„Ræktunarfrelsi“

Þegar kemur að „ræktunarfrelsi)“ þá virðist minna fara fyrir frelsisást Heilsufrelsisfélaga. Þau vilja einfaldlega banna erfðabreytt matvæli og hafa „strangt eftirlit“ með þeim sem rækta ekki lífrænt.

Ruglfrelsi

Öll þessi baráttumál (og þau eru fleiri) kunna að virðast frekar lauslega tengd, en það má í raun segja að þetta sé allt hluti af ákveðinni heimsmynd sem er algeng meðal kuklara á Íslandi.

Í heimi þeirra orsakast sjúkdómar ekki af sýklum, heldur ójafnvægi í „lífskraftinum“. Þar eru meðferðir ekki metnar með niðurstöðum vandaðra vísindarannsókna, heldur er stuðst við reynslusögur eða fúsk-rannsóknir. Tækniframfarir eru litnar hornauga (þrátt fyrir að þau njóti auðvitað öll ávaxta þeirra), en allt „náttúrulegt“ og „lífrænt“ er sjálfkrafa talið vera besti valkosturinn.

Þessu fólki er auðvitað frjálst að trúa því sem það vill, en það væri stórhættulegt skref aftur til miðalda ef farið væri eftir markmiðum þessa félags. Okkar eina krafa er sú að vísindaleg vinnubrögð ráði för þegar kemur að heilsu fólks. Ekki kerlingabækur og hjáfræði. Því að það mun ekki gagnast neinum nema þeim sem eru að reyna selja ruglið. Segjum nei við kjaftæði.


Mynd fengin hjá Paul Sedra

Ritstjórn 11.11.2013
Flokkað undir: ( Bólusetningar , Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Elín Sigurðardóttir - 11/11/13 10:40 #

Þetta er áhugaverð síða heilsufrelsi.is. Tók þetta þaðan:

Notkun kemískra lyfja fer stöðugt vaxandi. Ef fram heldur sem horfir, stefnir í að mörg vestræn samfélög standi ekki undir þeim kostnaði, sem aukinni notkun fylgir. Að baki framleiðslu kemískra lyfja standa gríðarlega fjársterk lyfjafyrirtæki, sem fjármagna rannsóknir á eigin framleiðslu. Því miður hafa fyrirtækin stundum einungis kynnt þær niðurstöður, sem eru hagstæðar lyfjafyrirtækinu. Það er gríðarlega erfitt fjárhagslega fyrir þá, sem rannsaka náttúrulyf að gera sambærilegar rannsóknir, hvað varðar stærð og annað, sem gerir þær gildar í heimi vísindanna. Á þeim grundvelli eru rannsóknir á náttúrulyfjum rakkaðar niður af vísindasamfélaginu, enda eru miklir hagsmunir í húfi.


Hjörvar - 11/11/13 19:40 #

Nú spyr kannski eins og asni, en hvað nákvæmlega þýðir "kemískt efni", það sem ég les út þessu er efnafræðilegt efni og er ég engu nær hvað nákvæmlega er átt við með því.

Elín, homopatíubransinn veltir fleiri hundruð milljónum á hverju ári og hefur vel ráð á því að láta gera rannsóknir á sínum vörum.


Hjörvar - 11/11/13 19:42 #

Milljónum dollara átti það að vera


Elín Sigurðardóttir - 11/11/13 22:53 #

Langar líka að benda á góða grein e. Jórunni Sörensen í Morgunblaðinu 31. janúar 2001:45 um tækniframfarir og val einstaklingsins.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?