Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hættuleg fæðing Jesú

Jesú og Jói

Ég held að margir trúmenn og prestar átti sig á því að sögurnar af fæðingu Jesú eru mjög hættulegar fyrir trú þeirra. Ríkiskirkjupresturinn Guðrún Karlsdóttir virðist bjóða hættunni heim í nýlegri jólapredikun, þar sagði Guðrún þetta:

Augljósa helgisagan

Jólaguðspjallið er helgisaga.

Jesús fæddist á þeim tímum þegar hreinar meyjar fæddu mikilvæga menn, valdamikla menn. Fæðingasögur mikilmenna voru prýddar ævintýraljóma. Þannig var það t.d. með fæðingasögur Alexanders mikla og Platóns en sögurnar voru sérstaklega ævintýralegar þegar um fæðingu konunga var að ræða.

Kannski er skýringin sú að þegar fólk vildi sýna að menn hefðu sögulega köllun þá þyrfti að sýna að þeir hefðu haft sérstöðu frá upphafi.

Sagan af því þegar María mey fæddi son er með öðrum orðum ekki alveg einstök fyrir fæðingasögur þess tíma. Sagan um fæðingu Jesú, er saga um fæðingu konungs.

Þegar guðspjallamennirnir Markús og Lúkas skrifa guðspjöllin þá segja þeir söguna af fæðingu Jesú Krists eins og fólk sagði sögur af fæðingum konunga. Þeir voru einnig undir sterkum áhrifum hebresku spámannanna. Jesaja spámaður hafði spáð fyrir um það hvernig unga konan yrði barnshafandi og myndi fæða son sem fengi nafnið Immanúel – sem þýðir, Guð er með okkur (Jes. 7.14)

Þetta er auðvitað hárrétt hjá Guðrúnu, fæðingarfrásagnirnar eru augljóslega helgisögur. Á þessum tíma gerðust víst alls konar stórkostlegir hlutir við fæðingu merkra manna, og ekki bara konunga. Það er engin ástæða til að halda að sögurnar af fæðingu Jesú séu sannar, en að allar hinar sögurnar séu helgisögur.

En hvers vegna er svo hættulegt að viðurkenna þetta?

Litla hættan

Það voru ekki bara sagðar helgisögur af fæðingum þessara merku manna. Þeir framkvæmdu víst líka kraftaverk, alveg eins og Jesús gerir í guðspjöllunum. Sumar þessara sagna eru meira að segja svo líkar sögunum af kraftaverkum Jesú, að einhverjar þeirra síðarnefndu eru hugsanlega byggðar á hinum fyrrnefndu. [1] Ef Guðrún og aðrir trúmenn sem viðurkenna að fæðingarfrásagnirnar eru helgisögur ætla að vera samkvæmir sjálfri sér, þá hljóta þeir að viðurkenna að það sama á við hérna. Sögurnar af kraftaverkum Jesú eru bara helgisögur, eins og sögurnar af konungunum og heimspekingunum.

Guðrún fellst eflaust á þetta, en afleiðingarnar eru enn hættulegri.

Stóra hættan

Þessir merku menn áttu ekki bara ævintýralega fæðingu og líf. Endalok sumra þeirra voru líka mjög líkar endalokum Jesú. Í elsta guðspjallinu, Markúsarguðspjalli, finnst lík Jesú ekki og engill tilkynnir að hann hafi risið upp frá dauðum.

Apollóníus frá Týana hverfur er hann gengur inn í hof og um leið heyrist kór syngja: „Flýttu þér frá jörðinni, flýttu þér til himna“, hann birtist síðan einum lærisveina sinna [2]. Líkami stofnanda Rómarborgar, Rómúlus, á að hafa horfið og vegna þess ályktuðu menn að hann hefði verið gerður að guði, hann birtist síðan vini sínum á vegi. [3] Sagan af himnaför Jesú er alls ekki einsdæmi.

Ef að sögurnar af fæðingu Jesú eru helgisögur, eins og allar hinar ævintýralegu fæðingarfrásagnirnar, og ef kraftaverkasögur Jesú eru helgisögur, eins og allar hinar ævinrýralegu kraftaverkasögurnar, hvers vegna er þá ekki eðlilegt að álykta að sögurnar af ævintýralegum dauða og upprisu Jesú eru ævintýrasögur, eins og allar hinar sögurnar af dauða annarra merkra manna?

Lúkas og Matteus áttu ekki erfitt með að skálda upp heilu sögurnar í kringum fæðingu Jesú. Matteus segir meira að segja frá því að við dauða Jesú hafi hellingur af mönnum risið upp frá dauðanum. Af hverju ættum við ekki að draga þá ályktun að saga um tóma gröf og engli sem tilkynnir um himnaför Jesú sé líka helgisaga, eins og allar hinar sambærilegu sögurnar?

Ef Guðrún, og þeir sem viðurkenna að fæðingarfrásagnirnar eru helgisögur, ætla að vera samkvæmt sjálfum sér, þá sé ég ekki hvernig þau geta dregið aðra ályktun.


[1] Vespasíanus keisari á að hafa læknað blindan mann með munnvatni sínu, alveg eins og Jesús gerir. Í greininni Spit in Your Eye eftir Eric Eve í NTS eru sögurnar bornar saman. Kraftaverkasaga um Pýþagóras, þar sem hann veit hver tala veiddra fiska er er hugsanlega fyrirmynd af einni birtingarsögu Jesú (Jóh 21.1-11)þar sem að tala veiddra fiska kemur fram, en hefur engan tilgang í þeirri sögu.
[2] Sjá Æfi Apollóníusar eftir Fílostratos
[3] Sjá til dæmis Plútark, Rómúlus 27.


Sjá einnig:

Ekki sama Jón og séra Jesús
Slökkt á spádómskertinu
Ímyndaðir andstæðingar upprisunnar

Hjalti Rúnar Ómarsson 26.02.2011
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Messurýni )

Viðbrögð


Baldur Kr - 26/02/11 11:01 #

So what?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/02/11 11:19 #

Baldur, þér finnst ef til vill meint upprisa Jesú ekki mikilvæg, en ég er nokkuð viss um að þetta sé eitt af grundvallarkenningum kristinnar trúar.


Þórður Grétarsson - 26/02/11 14:50 #

Trúabragðahöfundar verða nú seint taldir til frumlegra manna. Venjulega var farið í næsta hrepp, tekið afrit af trúarbrögðunum þar og svo þýtt og staðfært þegar heim var komið. Kristindómurinn er engin undantekning frá þessu.


Halli - 26/02/11 14:54 #

En geta helgisögur ekki verið sannar?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/02/11 15:25 #

Halli, gætirðu útskýrt hvað þú átt við? Að hvaða leyti er t.d. sagan um upprisu/himnaför Apollóníusar sönn?


Einar Þorn - 27/02/11 10:44 #

Kristur er ritkokteill úr heiðni um keisara rómar er var m.a. titlaður frelsarinn smurði og konungur konunganna af þegnum sínum.

Og guðspjöllin eru nýju fötin hans.

Amen................................Ra


Jon Steinar - 27/02/11 20:25 #

Halli, orðið helgisaga er þýtt sem Legend á Ensku í flestum orðabókum, einnig Myth, þótt það sé frekar goðsögn, sem er þó aðeins áferðarmunur.

Það væri engin ástæða til að taka því fram að eitthvað sé goðsögn eða helgisaga, ef um væri að ræða .þekktar staðreyndir.

Einkenni slíkra sagna eru yfirleytt ólíkindalegir eða absúrd atburðir og yfirnáttúrulegar hendingar.

Þú verður bara að gera það upp við þig hvort þú trúir þeim eða ekki. Ráðlegg þér þó að hafa líkindi hverrar sögu í huga.


JohannV - 01/03/11 14:13 #

Er sanngildi sögunnar um fæðingu Jesú hættuleg kristinni trú? Ein og sér þá held ég hún njóti enn góðs af þeirri tímasettningu sem henni er tileinkuð (jólunum)

En sem söguleg staðreynd er erfitt, ómögulegt jafnvel að kyngja henni, eins og flest öðru sem sagt er frá í hinni "góðu" bók.

Ég velti því fyrir mér, hvernig eiga prestar/kirkjan að aðlagst breyttri heimsmynd, þar sem Biblíunna er ekki hægt að taka bókstaflega?

P.S. (Kató gamli) flott að fá vísanir í heimildir.


Kristján (meðlimur vantrú) - 04/03/11 01:37 #

Mér finnst svo ótrúlegt hvað fólk er fullkomnlega sátt við kjaftæðið sem það kvittar fyrir (og borgar), þó sannanir gegn því liggi beint fyrir nefi þeirra. Hef nú lent í nokkrum sem eru sterk trúaðir, en þegar ég bendi þeim á hvaða kjaftæði þeir eru að styðja fæ ég bara, "og hvað?", eins og það breyti engu hvaða bull þetta sé, þetta sé bara hefðin og því eigi engu að breyta. Svo fara brjálæðisleg læti af stað í hvert skipti sem það á að skera einhvers staðar niður hjá hinu opinbera á meðan milljörðum er hent í að halda uppi einhverri hefð sem hefur lítið ef nokkurt notagildi fyrir samfélag okkar! Ég hef ekki einu sinni blótsyrði sem ég get hent fram hérna sem hafa ekki einhverja bévítans vísun í skrudduna!!! Ands.. nei, helví.. nei djöf.. fjand.. æji fokk it!!!


Svavar (meðlimur í Vantrú) - 05/03/11 02:57 #

Kristján, þú hefur auðvitað orðið fokk sem þú notaðir meira að segja sjálfur. ;)

Hér eru fleiri sem þú getur notað: http://www.indopedia.org/Listoffictionalcursewords.html


Kristján (meðlimur vantrú) - 14/03/11 01:49 #

Takk fyrir þetta Svavar;)

Gekk reyndar hálf illa með vefsíðuna sem þú vísaðir á. Vandamál mitt er með íslensk blótsyrði, það er að vísu fullt af þeim en það fór bara í taugarnar í mér að ég skyldi ekki hafa hugmyndarflug eða þá íslenskukunnáttuna (þrátt fyrir að vera innfæddur) til þess að beita öðrum orðum en þau sem vísuðu á trúarleg fyrirbrigði.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.