Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Slökkt á spádómskertinu

Hið svokallaða spádómakerti á að minna fólk á þá spádóma sem eiga að hafa ræst við fæðingu Jesú[1]. Hins vegar ætti kristið fólk að íhuga það hvort það væri ekki viturlegt að skipta um nafn, þar sem meintu spádómarnir standast ekki við gagnrýna skoðun.

Í fæðingarfrásögn Matteusarguðspjalls er vísað í fimm meinta spádóma sem höfundur guðspjallsins telur að hafi ræst í atburðum tengdum fæðingu Jesú. Í þessari grein verða þeir skoðaðir í þeirri röð sem þeir koma fram í frásögninni og við munum komast að því að spádómarnir eru ýmist teknir úr samhengi, eru misskildir eða eru einfaldlega ekki til.

Fyrir hvern er Immanúel?

Allt varð þetta til þess að rætast skyldi það sem Drottinn lét spámanninn boða: „Sjá, yngismær mun þunguð verða og fæða son og lætur hann heita Immanúel,“ það þýðir: Guð með oss. (Mt 1.22-23)

Þetta er vísun í Jesaja:

Þess vegna mun Drottinn sjálfur gefa yður tákn. Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel. (Jes 7.14)

Ef maður les sjöunda kafla Jesaja, þá sér maður að þetta vers getur ekki átt við fæðingu Jesú. Í byrjun kaflans er sagt frá því að Akas er konungur í Júdeu og að tveir konungar ógna ríki hans, Peka Ísraelskonungur og Resím Aramskonungur (Jes 7.1). Þar næst segir guð Akasi að biðja um tákn (Jes 7.10-11). Akas segist ekki biðja um tákn því hann vilji ekki freista guðs (Jes 7.12). Þá segir Jesaja að guð muni gefa tákn, fæðingu barns sem mun heita Immanúel (Jes 7.14). Jesaja segir okkur síðan meira um þetta barn:

Áður en sveinninn hefur lært að hafna hinu illa og velja hið góða verður mannauðn í landi þeirra tveggja konunga sem þú óttast. (Jes 7.16)

Þannig að samhengið sýnir að táknið, fæðing barnsins, var fyrir Akas konung. Þetta getur þar af leiðandi ekki verið spádómur um fæðingu einhvers sjöhundruð árum eftir dauða Akasar.

Hvað með Betlehem?

Og hann [Heródes] stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: „Hvar á Kristur að fæðast?“ Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum: Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ert þú síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.“ (Mt 2.4-6)

Þetta er vísun í Míka:

En þú, Betlehem í Efrata, ein minnsta ættborgin í Júda, frá þér læt ég þann koma er drottna skal í Ísrael. (Míka 5:1)

Þrátt fyrir að höfundur guðspjallsins telji þennan spádóm þýða að messías eigi eftir að fæðast í Betlehem, þá virðist það ekki vera rétt túlkun. Orðið sem er þýtt sem „ættborg“ þýðir bókstaflega „þúsund“ og vísar oft í biblíunni til ættflokks[2], en hvergi til borgar. Ef maður klárar versið, skoðar samhengið, þá er augljóslega verið að ræða um ætterni messíasar, ekki fæðingarstað hans:

[Æ]tterni hans vera frá umliðinni öld, frá fortíðar dögum. (Míka 5.1)

Ef maður leitar í biblíunni að einhverjum ættuðum frá Betlehem, þá rekst maður á Ísaí:

Ég [guð] sendi þig til Ísaí frá Betlehem því að ég hef valið mér einn af sonum hans til að verða konungur. (1Sam 16.1)

Sonur Ísaí er auðvitað Davíð konungur. Þannig að það er verið að spá því að messías verði afkomandi Davíðs, ekki að hann muni fæðast í borginni Betlehem[3].

En kristnir menn trúðu því greinilega að messías ætti að fæðast í Betlehem. Hins vegar er ekki vitað hvort Jesús fæddist þar eða ekki. Í elsta guðspjallinu, Markúsarguðspjalli, er nefnilega aldrei minnst á Betlehem og Jesús er sagður koma frá Nasaret. Ef við skoðum fæðingarfrásagnirnar í Lúkasar- og Matteusarguðspjalli, þá sjáum við að höfundarnir beita mismunandi aðferðum til þess að láta Jesús fæðast í Betlehem, en vera samt frá Nasaret. Í Matteusarguðspjalli virðast Jósef og María eiga heimili í Betlehem, ekkert er minnst á ferð frá Nasaret, og þegar fjölskyldan kemur frá Egyptalandi ætlaði Jósef að fara aftur til Betlehem, en ákveður að fara „til Galíleubyggða eftir bendingu í draumi“ (Mt 2.22) og síðan „settist hann þar að í borg sem heitir Nasaret“ (Mt 2.23). Það er undarlegt að Jósef þurfi að setjast að í Nasaret og fá bendingu um að fara þangað í draumi ef hann átti heima þar.

Í þessari frásögn fæðist Jesús sem sagt í Betlehem af því að fjölskyldan hans átti heima þar, en endar í Nasaret vegna þess að óvinveittur aðili stjórnar Betlehem.

Í Lúkasarguðspjalli búa Jósef og María hins vegar í Nasaret (Lk 2.4) og fara til Betlehem eingöngu vegna þess að Jósef þarf að fara þangað til þess að láta skrá sig í manntalinu (sem er mjög ótrúlegt[4]). Eftir skráninguna snúa þau aftur „til borgar sinnar Nasaret“ (Lk 2.39).

Í þessari frásögn fæðist Jesús sem sagt í Betlehem af því að fjölskyldan þurfti að fara þangað vegna manntals, en endar í Nasaret vegna þess að fjölskyldan hans átti heima þar.

Í ljósi þess að frásagnirnar eru svona mótsagnakenndar, þá er spurning hvort Jesús hafi í raun og veru fæðst í Betlehem. Það er hugsanlegt að kristnir menn hafi séð spádóminn um Betlehem og talið að Jesús hlyti að hafa uppfyllt þennan spádóm. Höfundar þessara tveggja guðspjalla gerðu síðan tvær mismunandi tilraunir til þess að láta Jesú uppfylla túlkun þeirra á spádóminum.

Hver er sonurinn?

Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur. Það átti að rætast sem Drottinn lét spámanninn segja: „Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.“ (Mt 2.14-15)

Þetta vísar til Hósea:

...og kallaði son minn frá Egyptalandi. (Hós 11.1)

Ef maður les þetta vers hins vegar í samhengi, þá sér maður að sonurinn getur engan veginn verið Jesús:

Þegar Ísrael var ungur fékk ég ást á honum og kallaði son minn frá Egyptalandi. Þegar ég kallaði á þá hlupu þeir frá augliti mínu, færðu Baölum sláturfórnir og skurðgoðum reykelsi. (Hós 11.1-2)

Sonurinn er augljóslega Ísraelsþjóð og „kallaði son minn frá Egyptalandi“ vísar til goðsagnarinnar um brottför Ísraels úr Egyptalandi, en ekki til Jesú.

Hvers vegna grætur Rakel?

Þá sá Heródes að vitringarnir höfðu gabbað hann og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri en það svaraði þeim tíma er hann hafði komist að hjá vitringunum. Nú rættist það sem Jeremía spámaður hafði sagt fyrir um: „Rödd heyrist í Rama, harmakvein, beiskur grátur. Rakel grætur börnin sín, hún vill ekki huggast láta, því að þau eru ekki framar lífs.“ (Mt 2.16-18)

Þetta vísar til Jeremía:

Svo segir Drottinn: Rödd heyrist í Rama, harmakvein, beiskur grátur. Rakel grætur börn sín, hún vill ekki huggast láta vegna barna sinna því að þau eru ekki framar lífs. (Jer 31.15)

Ef maður skoðar samhengið, þá sér maður að það er verið að fjalla um herleiðingu Ísraelsmanna til Babýlon, framhaldið er:

Svo segir Drottinn: Hættu að gráta, haltu aftur af tárum þínum því að þú færð umbun erfiðis þíns, segir Drottinn: Þeir snúa aftur heim úr landi fjandmannanna. Niðjar þínir eiga von, segir Drottinn, því að börn þín koma aftur heim til lands síns. (Jer 31.16-17)

Seinna í bókinni vísar Jeremía til Rama sem áfanga á leiðinni til Babýlon (Jer 40.1), þannig að Rama er fínn staður fyrir ímyndaðan grátur Rakelar. Hérna er augljóslega ekki verið að spá einhverjum fjöldamorðum á börnum við fæðingu messíasar.

Hvar er Nasareinn?

Þar settist hann að í borg sem heitir Nasaret en það átti að rætast sem spámennirnir sögðu fyrir um: „Nasarei skal hann kallast.“ (Mt 2.23)

Vandamálið við þennan spádóm er að hvergi í Gamla testamentinu er sagt að hann skuli kallast Nasarei. Það hafa komið fram tilgátur um það að þetta sé orðaleikur og vísi til orða sem hafa sömu samhljóða og Nasarei í hebresku (nzr). En höfundur Matteusarguðspjall tengir þennan meinta spádóm klárlega við borgina Nasaret og því er hvergi spáð í Gamla testamentinu að messías eigi að koma þaðan.

Er hægt að bjarga spádómunum?

Þegar maður skoðar þessa meintu spádóma um fæðingu Jesú, þá sér maður fljótlega að höfundar ritanna sem vísað er í höfðu aðra merkingu í huga en þá sem höfundur Matteusarguðspjalls telur vera þarna. Trúmenn trúa (auk höfundar Matteusarguðspjalls) því hugsanlega að auk hinnar augljósu merkingar hafi textarnir falda merkingu frá guði. Gallinn við þá hugmynd er auðvitað sú að merkingin á að vera falin, það er engin leið til þess að sjá hana beint úr textanum. Með þessari aðferð er hægt að sjá spádóma um allt mögulegt fyrst maður hefur stóra bók eins og biblíuna til þess að taka vers úr samhengi [5]. Það að trúmenn þurfi að vísa til meintra falinna spádóma sýnir hins vegar fram á að það vantar alvöru spádóma sem fæðing Jesú á að hafa uppfyllt.


[1] „Þetta kerti minnir okkur á þá spádóma sem lesa má í Biblíunni um komu Jesú. Löngu áður en Jesús fæddist hafði verið spáð fyrir um fæðingu hans. Í Gamla testamentinu má lesa um frásagnir spámannsins Jesaja (Js 7.14, Js 9.2, 6)“ - þjóðkirkjupresturinn Guðný Hallgrímsdóttir).
[2] Sjá til dæmis eftirfarandi vers:
Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð....(Jes 60.22)
Gídeon svaraði honum: ...Sjá, minn ættleggur er aumasti ættleggurinn í Manasse, og ég er lítilmótlegastur í minni ætt. (Dóm 6.15)
Þessir voru tilnefndir af söfnuðinum, höfðingjar yfir ættkvíslum feðra sinna. Voru þeir höfuð Ísraels þúsunda. (4. Mós 1.16)
[3] Meira um þetta í greininni: Betlehem: The Messiah‘s Birthplace?
[4] Sjá Opið bréf til Karls Sigurbjörnssonar
[5] Hérna eru til dæmis tuttugu „faldnir spádómar“ sem sýna fram á að Napóleón hafi verið messías.

Hjalti Rúnar Ómarsson 21.12.2007
Flokkað undir: ( Jólin , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Gestur Svavarsson - 21/12/07 09:31 #

Góðan dag.

Þetta er ágætt grein, takk fyrir hana. Hins vegar eru túlkanir hér jafn vel / illa rökstuddar og margt annað sem ég hef séð. Ég hef reyndar afar litlar forsendur til þess að benda á rangfærslur í röksemdafærslu, ef einhverjar eru. Ég á við að ég geri ráð fyrir að hægt sé að túlka, með textafræðilegum (fílólógískum) aðferðum biblíutexta og aðra tengda texta á ýmsan hátt. Þannig þurfa þeir sem kjósa að túlka þessa texta á "hefðbundinn" hátt að vera meðvitaðir um möguleika á annarri túlkun, eða ef þeir vilja ganga lengra, hafna henni. En það er auðvitað mjög gott.

Hins vegar spyr maður sig hér, eins og annars staðar hvort að bókstafs(van)trú henti til þess að setja efasemdirnar fram? Er alttaf hentugast að nota aðferðir þeirra sem eru á öndverðum meiði?

Ég vil bara nota tækifærið og þakka fyrir þessa stórgóðu síðu. Og svo óska ég auðvitað öllum gleðilegra jóla.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 21/12/07 18:21 #

Hins vegar eru túlkanir hér jafn vel / illa rökstuddar og margt annað sem ég hef séð.

Hvað af þessu finnst þér illa rökstutt?


Haukur Ísleifsson - 21/12/07 21:18 #

Gleðileg jól.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.