Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hin slæmu viðhorf

Mynd af biblíunni

Því er stundum haldið fram að trúarbrögð orsaki ekki slæm viðhorf, til dæmis andstöðu við samkynhneigð, heldur sé trúin einungis átylla sem fordómafullt fólk notar sem farveg fyrir viðhorfin sín. Er það virkilega raunin?

Af hverju er hægt að nota trúarbrögðin?

Í fyrsta lagi er vert að íhuga hvers vegna það væri á annað borð mögulegt að afsaka andstöðu við samkynhneigð með vísun í trú. Ástæðan er sú að sum trúarbrögð eru uppfull af hatri í garð þessa hópa. Noti menn trúna "sem afsökun" fyrir andúð sinni á samkynhneigð er það einmitt vegna þess að trúin er andsnúin henni og fólk hlaut þessi viðhorf í uppeldinu. Gunnar í Krossinum boðaði þetta, Karl Sigurbjörnsson boðaði þetta, íslam boðar þetta og svo má áfram telja.

Trúin er ekki misnotaður sakleysingi heldur eru hugmyndir trúarbragða orsök vandans.

Í Gamla-testamentinu er sagt að það eigi að taka homma af lífi. Í því nýja fordæmir Páll postuli þá karlmenn sem brenna í losta hver til annars. Í Gamla-testamentinu er það athöfnin sem er fordæmd, í því nýja er það hneigðin.

Trúarhugmyndir hafa mótað viðhorf manna og fólk sem alið er upp við boðskap trúarinnar litast af viðhorfunum.

Trúin sem uppruni slæmra hugmynda

Það er óumdeilanlegt að mörg slæm viðhorf og breytni eru til komin vegna trúar.

Vottar Jehóva boða að blóðgjöf sé synd. Meðlimir trúa því. Hópast fólk sem er á móti blóðgjöfum í þetta tiltekna trúfélag til að finna skoðun sinni farveg eða verður fólk andstætt blóðgjöf vegna þess að það er boðað innan trúfélagsins? Myndum við nokkurn tímann halda því sama fram um aðrar skoðanir og hugmyndakerfi:

“Hann notar nasismann bara sem afsökun fyrir gyðingahatri”

Fólk velur sér almennt ekki trúarbrögð. Langfæstir skipta um trú og flestir eru sömu trúar og foreldrar þeirra. Ef fólk veldi sér hugmyndakerfi til að réttlæta þau viðhorf sem það hefur myndu fleiri leita í þau sem passa betur eigin fordómum og víst að fjölbreytni trúarbragða á hverju svæði væri mun meiri.

Sök hinna hógværu

Þeir eru margir sem segja þetta ekki eiga við um hófsama trú, heldur séu það öfgamennirnir sem haldi þessum viðhorfum á lofti, viðhorfum sem hófsamir trúmenn séu fyrir löngu búnir að afskrifa. Hinn hófsami sé enda aðeins upptekinn af öllu því góða sem heimspekingurinn Jesús miðlaði, en skrif annarra, s.s. Páls postula og ritenda Gamla-testamentisins hafi ekkert gildi.

Þeir sem svona tala átta sig ekki á því að sama rit liggur til grundvallar trúarskoðunum beggja. Sjálfir hafa þeir vinsað út það sem illa hljómar, enda eru það almenn og viðtekin siðferðisviðmið samfélagsins sem hafa mótað skoðanir þessa fólks meira en trúarbókstafurinn. Og af því að þeir finna ýmislegt í ritunum sem samræmist góðu siðferði tekst þeim að snúa blinda auganu að öllu því slæma sem þar er að finna.

En svo eru hinir sem engu blindu auga snúa að Biblíunni. Þeir eru sagðir blindir bókstafstrúarmenn, eins kaldhæðnislega og það hljómar. Þyngst í þessu öllu vegur þó að þeir eru að sækja í sama heilaga orðið og hinir sem tínt hafa út það sem þeim líkar, það sem samræmist nútímalegum siðferðisviðhorfum.

Sömu ritningu er haldið á lofti af báðum. Hófsama kirkjan getur ekki skotið sér undan því að sumir meðlima hennar ákveða að lesa og trúa fleiru því en prestarnir tala um í predikunarstólnum.

Hið veraldlega samfélag

Við höldum því ekki fram að ef engin væru trúarbrögðin í veröldinni þá væru engir hommahatarar. En gleymum samt ekki að trúarbrögðin hafa á öllum tímum upphafið þessi viðhorf undir merki heilags orðs - þetta eru viðhorf guðsins sjálfs.

Í dag stöndum við þannig frammi fyrir því að fólk sem annars væri afslappað í garð þessara mála vílar ekki fyrir sér að slíta sambandi við afkvæmi sín og aðra ættingja og vini sökum þess að trúarhugmyndirnar og vilji guðsins eru þeim mikilvægari en að rækta gott samband við annað fólk. Þeir sem líta á samkynhneigða afkomendur sína sem “syndara” sem þurfi að snúa frá villu síns vegar eru fórnarlömb innrætingar sem um allan aldur hefur gert samfélögin að verri stað en þau þurfa að vera.

Þetta er ekki vont fólk. Þetta er venjulegt fólk á valdi vondra hugmynda.

Samfélag fjölbreytni og friðar

Sem betur fer eru þessi viðhorf þó á undanhaldi og því ber að þakka siðferði sem er í framför sökum þess að samfélagið er óðum að verða veraldlegra. Trúarhugmyndirnar eru á undanhaldi og upp koma kynslóðir sem enga grillu gera sér út af því sem stendur í Biblíunni eða Kóran. Þetta fólk er betur í stakk búið til að fagna fjölbreytni mannlífsins og þess betur umkomið að leggja drög að samfélaginu sem í raun við öll viljum byggja.

Það voru nokkurn veginn allir hommahatarar fyrir örfáum áratugum, enda allir meira og minna aldir upp við boðskap kristninnar hér í okkar heimshluta. Óhætt er að fullyrða að aukin íhlutun veraldlegra viðhorfa samfara auknu menntunarstigi og áherslu á gagnrýnina hugsun sé ástæða þess að samkynhneigð hefur á stuttum tíma uppskorið umburðarlyndi og væntumþykju fjöldans.

Þegar á allt er litið, þá felst engin lausn í því að fordæma fordómapúkana og því síður að hatast við þá. Hinir fordómafullu eru fórnarlömb innrætingar. Við skulum herja gegn hugmyndunum og umfaðma fólkið.


Sjá líka:

Grænsápuguðfræði
Kjörbúðarkristni
“Vondu” kallarnir
Skaðsemi kristindómsins

Upphafleg mynd frá NYC Wanderer og birt með cc-leyfi

Ritstjórn 02.03.2017
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Jóhann - 03/03/17 22:07 #

Djísus kræst hvað þetta er vitlaust.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 04/03/17 11:16 #

Geturðu komið með gagnlegri gagnrýni á þessi skrif þegar það rennur af þér?


Jóhann - 04/03/17 21:01 #

Kíktu á þriðja þátt í annarri seríu Hulla.

Ég myndi giska á að höfundur þessarar greinar sé stelpan með fjólubláa hárið í fótboltaliði Vantrúar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 04/03/17 22:09 #

Ég túlka þetta sem svo að þú getir ekki komið með neitt gagnlegt eða gáfulegt.

Kunnuglegt stef.


Jóhann - 04/03/17 22:18 #

er traktering Hulla á þessu skátastarfi ykkar kunnuglegt stef?

Og hvorki gagnlegt né gáfulegt?

okilydokily.


Jóhann - 04/03/17 22:20 #

...og svo strikar þú yfir þetta svar mitt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/03/17 23:12 #

Jóhann, ég er forvitinn - hvað er svona vitlaust? Geturðu hrakið fyrir mig þá fullyrðingu að trúarhugmyndir skaði fólk og geti leitt það á vafasama stigu, eða ætlarðu að halda fast í "enginn sannur Skoti" í þessu samhengi?


Jóhann - 05/03/17 00:02 #

"Því er stundum haldið fram að trúarbrögð orsaki ekki slæm viðhorf, til dæmis andstöðu við samkynhneigð, heldur sé trúin einungis átylla sem fordómafullt fólk notar sem farveg fyrir viðhorfin sín."

Þetta er náttúrulega fram úr hófi heimskulegt.

Nema kannski sem messa yfir veraldlegum sálufélögum.

Hverjir halda því stundum fram að:"...trúarbrögð orsaki ekki slæm viðhorf"?

Og ekki nóg með það heldur halda sumir líka því að fram:"... trúin sé einungis átylla sem fordómafullt fólk notar sem farveg fyrir viðhorfin sín.".

Hver sæmilega skynugur maður hlýtur að sjá að hér er ekki margra kosta völ.

Síðan kemur eitthvað fimbulfamb um að það sé svo miklu betra að vera veraldlegur í sínum skoðunum í einhverri djöfulsins skildagatíð um hvað allt væri betra ef allir væru sama sinnis og stelpan með fjólubláa hárið.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/03/17 00:36 #

Af hverju ert þú búinn að sjá Hulla S2E3? Það eru bara tveir komnir í loftið á RÚV og við verðum að bíða aðeins með stelpuna með fjólubláa hárið.

Þessi grein er skrifuð í beinu framhaldi af því að þessu var haldið fram, enn einu sinni. Ég sé ekki hvað getur verið heimskulegt að bregðast við því sem raunverulega gerist.

En það má svo alveg vera að einhver skildagatíð neðar í greininni sé ekki sæmandi, ég skal gefa þér það.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/03/17 00:44 #

Orðrétt var Facebook-kommentið sem varð kveikja greinarinnar svona. Ég legg þetta fram sem sönnunargagn A í málinu:

Þetta fólk varð ekki hommahatarar vegna trúar sinnar. Það notar trúna sem afsökun fyrir fordómum sínum.


Jóhann - 05/03/17 09:22 #

Hulli er aðgengilegur inná ruv.is


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/03/17 11:32 #

Þetta er ágæt byrjun.

Jóhann heldur að við séum að skrifa grein til að svara sjónarmiði sem enginn aðhyllist.

Birgir sýnir fram á að það er rangt, greinin er innlegg í "alvöru" umræður.

Hulli er aðgengilegur á RÚV.

Gagnlegt fyrir alla.


Jóhann - 05/03/17 14:28 #

Einmitt, það eru hommahatarar sem eru svo óöruggir í hatri sína að þeir taka upp trú.

Hvernig bera trúlausir hommahatarar sig að?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/03/17 15:09 #

Er vandinn sá að þú ert of sammála okkur í þessu máli?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/03/17 22:07 #

Ó, mér sýndist bara fyrsta sería af Hulla vera aðgengileg. My bad, nú fer ég í það að skoða stelpuna með fjólubláa hárið.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/03/17 22:55 #

Búinn að horfa á þáttinn. Hann var frábær, en stelpan með fjólubláa hárið sagði reyndar ekki eitt orð af eigin frumkvæði þarna, hrópaði bara einhver ritúöl með hinum.


Jóhann - 05/03/17 23:18 #

Nákvæmlega Birgir.

Þið eruð bara að berjast við vindmyllur.

Þið eruð þeir einu sem stendur einhver ógn af hugmyndum bókstafstrúaðra um homma.

(Ekki svo að ég hafi minnstu hugmynd um hvernig trúlausir hommahatarar séu bættir fyrir vikið)

En vegna náðar Guðs þá mun ævinlega einhver koma fram í nafni Jésús og skora sigurmarkið ykkar.

Blindandi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/03/17 01:24 #

Þið eruð þeir einu sem stendur einhver ógn af hugmyndum bókstafstrúaðra um homma.

Í fyrsta lagi: Þetta er bölvað kjaftæði, þú þarft að vera eitthvað illa gefinn til að halda þessu fram nú á tímum Trump og kó (hvað heldur þú að hafi komið þessum umræðum af stað?)

Í öðru lagi: Þessi grein fjallar ekki einu sinni um að okkur standi einhver ógn af hugmyndum bókstafstrúaðra um homma. Lærðu að lesa þér til skilnings.


Jóhann - 07/03/17 16:28 #

"Í fyrsta lagi: Þetta er bölvað kjaftæði, þú þarft að vera eitthvað illa gefinn til að halda þessu fram nú á tímum Trump og kó

Í öðru lagi: Þessi grein fjallar ekki einu sinni um að okkur standi einhver ógn af hugmyndum bókstafstrúaðra um homma."

Þetta er tvennt fer afskaplega illa saman, gott ef þetta er ekki bara mótsögn.

Þú ert ekki í Trump-landi, sendu erindið þangað.

Þetta er svona eitthvað:

"I believe in this and it´s been tested by research, that he who fucks nuns will later join the church.

...og bjargræðið felst í Vantrú:

"Við skulum herja gegn hugmyndunum og umfaðma fólkið." (Stelpan með fjólublá hárið)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/03/17 16:32 #

Þetta er tvennt fer afskaplega illa saman, gott ef þetta er ekki bara mótsögn.

Þetta er langt frá því að vera mótsögn, lestu eða hugsaðu betur.

Þú ert ekki í Trump-landi, sendu erindið þangað.

Umræðan, sem verið er að bregðast við með þessum skrifum, er í "Trump-landi". Heimurinn er í "Trump-landi" um þessar mundir.

Þú aftur á móti er í einhverju tómu tjóni eins og alltaf, kemur hingað inn með læti, stæla og ekki vott af hugsun.


Jóhann - 07/03/17 17:48 #

Voðalegt væl er þetta í herskáum trúleysingja.

Hvert er fagnaðarerindi ykkar?

Af hverju ætti trúleysingi að umfaðma hommahatara?

Þið eruð bara enn og aftur að gotta ykkur uppá náungakærleika Jésu.

Voða góðir gæjar.

Annars er Hulli með þetta...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/03/17 08:43 #

Af hverju ætti trúleysingi að umfaðma hommahatara?

Það er útlistað í greininnni. Trúaðir hommahatarar eru fórnarlömb innrætingar og mun vænlegra að ná þeim út úr þeim hugusnarhætti með kærleika og aðstoð fremur en berja á þeim.

Þú hefur annað hvort ekki lesið greinina hér að ofan eða ekki skilið hana.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/03/17 08:45 #

Bendi á greinina Orrusta frjálsrar hugsunar í þessu samhengi. Stelpan með fjólubláa hárið skrifaði hana líka.


Jóhann - 08/03/17 21:23 #

Jæja, mér finnst þessi úlistun kjánaleg.

Og ég botna ekkert í því á hvaða siðferðilegum grunni stelpan með fjólubláa hárið þykist standa.

Væntanlega eitthvað um tóm og hendingu, ef að líkum lætur.

Kannski er næsta skref að skipuleggja heimsókn vantrúaðra til Jóns Vals þar sem trúleysingjar knúsa hann og umfaðma.


Jóhann - 08/03/17 21:34 #

...eða eins og ágætur maður sagði eitt sinn:

"Kristilegu kærleiksblómin spretta

í kringum hitt og þetta"


Jóhann - 08/03/17 23:31 #

Ég álpaðist til að kíkja á grein þína um orrustu frjálsar hugsunar.

Þar rakst ég á þetta:

"Kæru Krossarar og aðrir hvítasunnumenn!

Sjáið þið ekki að í stað þess að fyrirlíta þá sem ykkur hefur verið kennt að séu á valdi djöfulsins, þá eigið þið að snúast gegn foringjum ykkar? Sjáið þið ekki að forstöðumennirnir fylla hugi ykkar af heimskulegum ranghugmyndum til að hafa af ykkur fé og sanna lífsgleði? Sjáið þið ekki hvað þeim gengur til? Og sjáið þið ekki hættuna sem felst í þessu siðlausa atferli þeirra?"

Þú ert sannkallaður predíkari, Birgir!

Þú ættir að stofna söfnuð.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/03/17 07:38 #

Hver segir að ég hafi ekki stofnað söfnuð? :)

En í alvöru talað, þá hafa þessi hvatningarorð mín ekkert með það að gera að ég safni um mig hirð. Ég er að mælast til þess að fólk losi sig úr viðjum allra hirða og söfnuða og byrji að hugsa gagnrýnið og sjálfstætt. Til þess þarf engan söfnuð.

Taktu eftir því að þegar ég hvet menn til að snúast gegn foringjum sínum, þá er ég ekki að hvetja til heiftar eða vopnaskaks, heldur rökræðu:

Og þá er ég ekki að tala um hernað og vopnaskak. Slíkar aðgerðir, fyrir utan að vera skemmandi og deyðandi, eru ekki áhrifaríkar. Nei, það sem ég er að tala um er vitundarvakning sem gerir fólki kleift að hafna boðskap kúgara sinna í rökræðu. Kennivald sem enginn trúir lengur á hlýtur sjálfkrafa að hrynja til grunna.

Það er vel hægt að snúast gegn fólki án þess að sýna því óvild.

Og hvað Jón Val áhrærir, þá ber ég ekkert nema velvilja til þess manns. Hugarfarslegir feilar hans og meinbugir eru þess eðlis að hann þyrfti einmitt að eignast fleiri vini úr röðum gagnrýnenda sinna, ekki óvini.

Óvináttan sundrar og forherðir menn. Ef við nálgumst þá sem gagnrýna okkur með opnum hætti er von til þess að við getum breyst og þroskast.

Sjáðu þetta myndband.


Jóhann - 11/03/17 00:08 #

Vel mælt Birgir.

Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá.


Nonni - 11/03/17 00:28 #

Andstaða trúaðra við normaliseringu samkynhneigðs lìfsstíls er hjóm eitt í samanburði við ofsóknir, hatur og fordæmingu guðleysingja gagnvart kristnu fólki.

Svo er oft á tíðum fyndið að fylgjast með sumum guðleysingjum normalisera útbreiðslu Íslam í nafni trúfrelsis og mannréttinda, hugmyndafræði og stjórnkerfi sem alla jafna álítur samkynhneigða og guðleysingja réttdræpa.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/03/17 01:16 #

Say what?

Ég ofsæki ekki kristna. Ég hata þá ekki. Ég fordæmi þá ekki almennt, aðeins þau illu verk sem þeir fremja.

Ég er hér til að rökræða, uppfræða og sannfæra. Ég hvet til gagnrýninnar hugsunar og þess að menn yfirgefi heimskuleg og hættuleg hugmyndakerfi. Ef kristnir líta á það sem ofsóknir, hatur og fordæmingu þá verður bara að hafa það.


Jóhann - 11/03/17 02:04 #

Ef guð er til þá er hann hvorki bara kristinn eða múslimi.

Né heldur búddisti. Eða ásatrúar.

Ef hann er ekki til þá má einu gilda hvað hann er talinn vera.

En vissir þú Birgir að nú er búið að sýna vísindalega fram á að þegar kórar eru búnir að syngja nokkur lög, þá slá hjörtu allra í takt?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/03/17 23:20 #

Máttur listarinnar. Ég hef ekki heyrt um þetta og hef ekki hugmynd um hvort þetta sé rétt. En fallegt er það engu að síður.

Ef "guð" er til þá er hann trúlaus. Hvað ætti hann svo sem að trúa á. Ef "guð" er til þá líkjast trúleysingjar honum mest allra.


Jóhann - 14/03/17 22:40 #

Hér er þetta:

https://www.google.is/webhp?sourceid=chrome-instant&ion=1&espv=2&ie=UTF-8#q=choir+synchronized+heartbeat&*

Í ævisögu Þórbergs segir frá því þegar séra Árni Þórarinsson gerði grín að verðandi Dómkirkjupresti með því að vitna í prófmessu hans sem guðfræðings, en þar hafði hann haldið því fram að: "Jésús hefði verið mikill trúmaður."

En vitanlega eru trúleysingjar næstir guði.


Jón Valur Jensson - 01/05/17 01:06 #

Jæja, það er ekkert annað, Jóhann!!

Ég ætla reyndar ekki að gera lítið úr gildi krítískrar hugsunar og "hypothetical doubt" sem leiðar í sannleiksleit vísindanna.

En mér sýnist að ykkur Birgi veiti ekki af því að skoða ofangreint mál upp á nýtt í ljósi orða Jesú frá Nazaret til lærisveina sinna, um þær mundir sem mission hans var að verða lokið: http://biblian.is/Biblian/Default.aspx?Book=42&Chap=14

Valete!

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?