Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skaðsemi kristindómsins

Það er nokkuð algengt, þegar við seggirnir byrjum að tala um skaðsemi trúarinnar í samfélagi okkar, að andmælendur grípi til skotarökvillunnar og beri upp á okkur að vera aðeins að gagnrýna einhverja vonda kalla um leið og við komum ekki auga á hve hinn kristni boðskapur sjálfur sé þroskaður og fallegur. Af þessu tilefni langar mig til að taka saman nokkur atriði þar sem engir vondir kallar koma við sögu, heldur er vísað beint í boðskap kristindómsins sjálfan.

  • Í aldaraðir gekk boðskapur kirkjunnar út á að sætta fólk við eymd sína í stað þess að virkja það til að útrýma henni. Þetta eymdardekur, eins og meistari Þórbergur kallaði það, er að finna í kenningum Nýja testamentisins, þar sem upphafin er sú hegðun að vera síðastur allra og þjónn allra, erfiðara er fyrir ríkan mann að komast í himnaríki en fyrir úlfalda að komast gegnum nálarauga o.s.frv. Lúther svermdi líka mikið fyrir eymdinni og volæðinu, því launin á himnum fyrir vesöldina hér voru ríkuleg.

  • Í hinu misskipta velferðarsamfélagi nútímans, er gylling vellíðaninnar, gegnum Calvin-smitaðan kristindóm, kjörin til að koma í veg fyrir að fólk sé of mikið að hræra í þjóðfélagsskipaninni. Fólk er gert upptekið að eigin sælu í ástarsambandi sínu við guðdóminn og loforðið um sæluna þegar sloppið er burt úr þessum mengaða táradal. Þessi Calviníska útgáfa kristninnar tröllríður öllu í nútímanum, enda byggja hinir fíladelfísku söfnuðir á þeim hugmyndum að velgengni sé tákn um velþóknun guðsins.

  • Trúarfróuninni vilja hinir kristnu að viðhaldið sé með stöðugri ástundun. Hún er bæði dýr og tímafrek. Þessum tíma og peningum væri betur varið í eitthvað gagnlegra. Allar þessar flóknu og glysmettuðu athafnir eru í eðli sínu frumstæðar og vísa í lægra menningarstig en gerist almennt í samfélaginu. Í raun felst því mikið frelsi í því að þurfa ekki að ástunda slíka afkáralega hegðun, að ekki sé talað um tíma- og fjársparnaðinn.

  • Kristin trú ber þann boðskap samkynhneigðum að tilfinningar þeirra séu syndsamlegar. Því er talið nauðsynleg fyrir þá að iðrast ástar sinnar og samlífis til að öðlast náð guðsins.

  • Kristin trú innrætir öllum mönnum að þeir skuli burðast með sektarkennd sökum tilfinninga og hugrenninga sem hverjum manni er eðlilegt að hafa. Útrás kynhvatarinnar og greddufantasíur eru skýrt dæmi. Þú skalt enda ekki girnast eiginkonu náunga þíns því þá hefurðu drýgt hór í hjarta þínu.

  • Biblían er karlmiðað rit og viðheldur hugmyndum fylgjenda sinna um að konan sé óæðri karlinum. Þetta sést vel á tilvitnuninni í boðorðið hér að ofan, en einnig er karlinn sagður höfuð fjölskyldunnar og að konan skuli þjóna honum. Jafnréttisfjas Þjóðkirkjunnar í nútímanum er ekki í neinu samræmi við boðskap kristindómsins, enda komu framfarirnar ekki úr þeirri átt þegar þær loks komu.

  • Í kristnum hugmyndaheimi er efinn óæskilegur og jafnvel synd sem mönnum ber að uppræta úr hugarfylgsnum sínum. Með slíku hugarfari er hamlað framförum og framþróun.

  • Kristindómurinn heldur á lofti bábiljum um illa anda og valda þær ranghugmyndir enn eymd og kvöl í flestum samfélögum þar sem hann er við lýði.

Haldið áfram með þennan lista hér að neðan. Þetta er aðeins það sem mér datt í hug í fljótu bragði. Og hinum sem verja vilja þetta ómögulega hugmyndakerfi er velkomið að benda mér á hvernig þessi atrið eru mistúlkuð af mér og geta skemmt sér við að útlista það að þetta sé allt í raun handaverk vondra kalla.

Birgir Baldursson 10.09.2005
Flokkað undir: ( Klassík , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 10/09/05 01:42 #

Kristni er alltaf að reyna að blanda hindurvitnum í umræðum um siðferði.


danskurinn - 10/09/05 09:31 #

Misskipting er vandamál sem er til staðar í öllum þjóðfélögum, óháð trúarbrögðum. Fólk hrifsar hiklaust til sín lönd og lífsgæði á kostnað hinna. Réttlætingin birtist í ýmsum myndum, allt frá hreinu ofbeldi til vel falinna hugmynda um niðurbælingu á trúarlegum forsendum. Minnst ber á þessu vandamáli á norðlægum slóðum þar sem jöfnuður er mestur. Allt vel upplýst fólk veit þó vel að hamingjan er ekki fólgin í veraldlegum auði og ríkidæmi.

Fólk er yfir höfuð upptekið af ástarsambandi sínu við auð sinn og völd og jafnvel útliti sínu. Það er eins og fáir hafi lesið söguna um nýju fötin keisarans eða ekki skilið söguna. Hugmyndir fólks um að veraldleg velgengni sé tákn um réttlæti og eigin verðleika er í raun það sem tröllríður nútímanum. Fullyrðingar um að Calvinísk útgáfa kristninnar tröllríði öllu í nútímanum eru sérkennilegar og í engu samhengi við staðreyndir sem blasa við. Hver var annars þessi Calvín? Er það einhver víntegund?

Sektarkenndin er einn af þessum eiginleikum sem skilur manninn frá öðrum dýrategundum. Ekkert annað dýr burðast sektarkennd því önnur dýr eru á valdi eðlishvata sinna. Þessi sérstaki eiginleiki manskepnunnar er ekki afleiðing af innrætingu kristindómsins heldur hluti af þróun sem kirkjan hefur ekkert með að gera. Kirkjan nýtir sé þessa eiginleika til að reyna stýra hegðun fólks en hún hefur ekki skapað þá.

Jafnrétti kynjanna er minnst í þeim löndum þar sem kristin kirkja hefur engin eða lítil áhrif. Sú staðreynd getur þó ekki orðið réttlæting á óréttlæti sem viðgengst annarsstaðar. Jafnrétti kynjanna byrjar í samlífi karls og konu. Á meðan karlinum er fullnægt kynferðislega en konunni ekki verður ekki til neitt jafnrétti í raun.


Ormurinn - 10/09/05 10:49 #

[blockquote]Jafnrétti kynjanna er minnst í þeim löndum þar sem kristin kirkja hefur engin eða lítil áhrif. Sú staðreynd getur þó ekki orðið réttlæting á óréttlæti sem viðgengst annarsstaðar. Jafnrétti kynjanna byrjar í samlífi karls og konu. Á meðan karlinum er fullnægt kynferðislega en konunni ekki verður ekki til neitt jafnrétti í raun.[/blockquote]

Jafnrétti kynjanna er mest þar sem fátækt er minnst og menntun hvað best.


danskurinn - 10/09/05 13:48 #

Ormurinn skirfar: "Jafnrétti kynjanna er mest þar sem fátækt er minnst og menntun hvað best."

Það eru alltaf sömu löndin sem er verið að tala um. Fátækt er minnst og menntun jafnbest í kristnum löndum norður Evrópu. Kannski er þetta staðreynd vegna þess að kirkjan á þessum slóðum hefur ekki sömu pólitísku völdin og hún hefur annarsstaðar.


Snær - 10/09/05 23:26 #

Ég veit ekki hvort þú hafir tekið eftir því, Danskurinn, en mörg af best menntuðustu "kristnu" löndum í Evrópu hafa allt að því yfir helming íbúa trúlausa (samkvæmt skoðanakönnunum vill meirihluti þeirra ekki láta kalla sig "aþeista", jafnvel þó þeir játi það að trúa ekki á nokkurn guð.)


danskurinn - 11/09/05 01:40 #

Snær skrifar: "...mörg af best menntuðustu "kristnu" löndum í Evrópu hafa allt að því yfir helming íbúa trúlausa.."

Hvað merkir það?


Snær - 11/09/05 10:19 #

Það merkir það að ummæli þín voru ekki með öllu rétt, a.m.k. ekki samkvæmt minni sín á málið.


danskurinn - 11/09/05 14:37 #

Hvaða ummæli voru ekki rétt?


Ágúst - 11/09/05 23:56 #

Það er nokkuð algengt, þegar við seggirnir byrjum að tala um skaðsemi trúarinnar í samfélagi okkar, að andmælendur grípi til skotarökvillunnar og beri upp á okkur að vera aðeins að gagnrýna einhverja vonda kalla um leið og við komum ekki auga á hve hinn kristni boðskapur sjálfur sé þroskaður og fallegur.

Hér er líklega um að ræða nokkuð algenga veilu og er líklega ekki sérstök fylgni við þann genagalla sem leiðir af sér kristna trú.

Það merkir það að ummæli þín voru ekki með öllu rétt, a.m.k. ekki samkvæmt minni sín á málið.


Ágúst - 12/09/05 00:05 #

Sú tilhneiging og sá veikleiki að draga menn í dilka og meta þá og skoðanir þeirra út frá því, í hvaða hópi þeir lenda (hlutdrægnin), er ekki eingöngu bundin við kristna menn.


Ágúst - 12/09/05 00:19 #

Ég vil bæta því við að ég get ekki rekið augun í persónulegar skoðanir, eða afstöður, dansksins af skrifum hans, heldur virðist hann vera að telja upp staðreyndir. Ef ég hef rétt fyrir mér, þá er komið hér upp dæmi sem er í ætt við skotarökvillunnar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/09/05 01:03 #

"Ágúst", þetta er undarlegt eintal. Þú virðist mistúlka skotarökvilluna, a.m.k. á hún alls ekki við um það dæmi sem þú tiltekur.

Ég vil bæta því við að ég get ekki rekið augun í persónulegar skoðanir, eða afstöður, dansksins af skrifum hans, heldur virðist hann vera að telja upp staðreyndir.

Nei, það er vissulega erfitt að finna persónulegar skoðanir dansksins í skrifum hans. Menn gera þó tilraunir til þess og reyna að gagnrýna það sem þeir ná að festa hönd á.

Athugasemdir þínar (allar þrjár) eru aftur á móti út úr kú, tengjast umræðunni ekki á nokkurn máta og ég sé ekki alveg hver tilgangurinn með þeim er. Var að skoða þær athugasemdir sem þú hefur sent inn á Vantrú og þær virðast allar eiga þetta sameiginlegt.

Vil biðja þig að reyna að leggja eitthvað til málanna eða láta það eiga sig að senda inn athugasemdir.


danskurinn - 12/09/05 04:27 #

Ef við eigum að ræða um skaðsemi kristindómsins verður að gera það í samhengi nútíðar og fortíðar. Það er augljós staðreynd að lífsgæði og jöfnuður er mestur í þeim löndum sem eru kristin (les lútersk og calvínísk). Það er samt ekki augljós staðreynd að kristnin sjálf eigi heiðurinn af þessum lifsgæðum, en við verðum að halda til haga staðreyndum og forðast að láta persónulegar skoðanir eða tilfinningar lita um of greiningu okkar á umhverfinu. Það er vel hægt að vera sammála greiningu Birgis um skaðsemi kristindómsins og viðurkenna á sama tíma að almenn lífsgæði eru samt sem áður best í þeim löndum þar sem kristin kirkja er þjóðkirkja. Það er hins vegar erfitt að vera sammála greiningu Birgis en afneita þeirri forystu sem hinar kristnu þjóðir hafa í lífsgæðum og almennum jöfnuði. Til þess að gera það þyrfti umræðan að snúast um hvort þau lífsgæði sem við teljum alla jafna vera eftirsóknarverð séu eins eftirsóknarverð og við trúum eða viljum trúa.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.