Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fjármálaráðherra um sóknargjöld

Mynd af peningum

Þann 24. mars síðastliðinn svaraði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur, er varðaði sóknargjöld. Margt í svari ráðherrans hrekur helstu fullyrðingar sem ríkiskirkjan hefur komið með í áróðri sínum um fjármál kirkjunnar.

Sóknargjöld eru framlag

Meðal fullyrðinga kirkjunnar er að sóknargjöld séu einhverskonar félagsgjöld sem innheimt er af ríkinu. Kirkjan hefur undanfarið ásakað ríkið um þjófnað á þessum svokölluðum félagsgjöldum. Fjármálaráðherra bendir réttilega á að það eru engin sóknargjöld innheimt af ríkinu. Sóknargjöld eru framlög úr ríkissjóði:

[E]ngin sérgreind sóknargjöld eru innheimt af ríkinu, hvorki af þeim sem greiða tekjuskatt né þeim sem eru undir skattleysismörkum, heldur eru framlög vegna sóknargjalda greidd úr ríkissjóði af almennu skattfé og öðrum tekjum ríkisins óháð innheimtu tekjuskatts. Þetta kemur m.a. fram í því að framlögin eru greidd úr ríkissjóði þrátt fyrir að um þriðjungur framteljenda greiði engan tekjuskatt til ríkisins.

Ímyndaður stórniðurskurður

Ríkiskirkjan hefur kvartað ítrekað yfir því að niðurskurður hjá ríkisstofnunum eftir hrun hafi komið sérstaklega niður á henni. Að þar hafi verið skorið meira niður en hjá öðrum stofnunum. Þetta er rangt.

Í svari ráðherra kemur í ljós að kirkjan getur vel við unað ef litið er aftur í tímann. Árið 2008 höfðu sóknargjöld hækkað að raunvirði í nánast 20 ár í röð og voru árið 1998 40% hærri að raunvirði en árið 1988:

Þegar litið er til tímabilsins 1988–2008 þá hækkaði sóknargjald á einstakling um 317% að nafnvirði en um tæp 42% á föstu verðlagi.

Vissulega var skorið niður hjá öllum ríkisstofnunum eftir fjármálahrunið 2008. En í tvo áratugi fyrir hrun var kirkjan að fá hærri framlög en henni bar að fá. Séu orð starfsmanna hennar tekin trúanleg þá er ótrúlegt hversu illa ríkiskirkjan stendur fjárhagslega miðað við hversu lengi hún var ofalin af ríkinu.

Sóknargjöld eru nú að raunvirði 10% lægri en þau voru 1988. Þegar á heildina er litið ætti kirkjan að vera í góðum málum. Ef miðað er við þá upphæð sem hún fékk árið 1988, þá virðist kirkjan hafa fengið um það bil 4 ársvirði sóknargjalda aukalega:

Raunvirði sóknargjalda

Hvað á ríkiskirkjan að gera?

Kirkjufólkið ætti að þekkja söguna af veru Jósefs í Egyptalandi. Hann sá fyrir sjö ár með góðri uppskeru og síðan sjö ár með slæmri uppskeru. Ríkiskirkjan hafði á annan tug mjög góðra ára, og hefur núna aðeins haft fjögur slæm ár. Góðu árin notaði hún til að reisa sér stórar kirkjur, vegleg safnaðarheimli, kaupa dýr orgel og safna skuldum, sem og að blása í sókn inní leik- og grunnskóla. Síðustu fjögur ár hefur hún notað til að væla hvað hún á ofboðslega bágt.

Ríkiskirkjan fær alveg gríðarlegt fjármagn hvert ár. Hún hefur í raun ekki efni á að kvarta yfir því fjármagni sem henni er veitt. Engu síður eru gríðarlega margar sóknir stórskuldugar vegna óhæfra stjórnenda. Kirkjan á vissulega í erfiðleikum, en það er ekki ríkinu að kenna. Afglöpin og óráðsían er alfarið hennar.

Það er fyrir löngu komin tími á ríkiskirkjuna að líta innávið, frekar en að skella skuldinni á alla aðra en sjálfan sig. Ef ríkiskirkjan á í fjárhagsvandræðum þá ætti hún að leita annara leiða en að heimta meira frá ríkinu, t.d. safnaðarmeðlimi. Ríkið skuldar henni engan pening.


Sjá nánar:

Hvað eru sóknargjöld?
Ríkið innheimtar ekki sóknargjöld
Sóknargjöld eru styrkir
Er yfirstjórn ríkiskirkjunnar vanhæf?
Bruðl á bruðl ofan
Strategískar ráðleggingar handa Þjóðkirkjunni I: Opnið augun
Strategískar ráðleggingar handa Þjóðkirkjunni II: Rætur vandans
Strategískar ráðleggingar handa Þjóðkirkjunni III: Ráðið ykkur framkvæmdastjóra

Ritstjórn 26.03.2014
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 26/03/14 11:42 #

Mér segir svo hugur að þótt sóknargjöldin yrðu þrefölduð, eða sautjánfölduð, ætti kirkjan samt auðvelt með að finna not fyrir alla peningana -- og þá er ég ekki að hugsa um hjálparstarf.

Þetta minnir aðeins á millistéttina svokölluðu, sem skuldsetur sig eins og hún getur og ef einhvern tímann sér til lands í skuldamálum, þá notar hún tækifærið til að efna til nýrra skulda.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.