Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ásókn í syrgjendur

Mynd af útför

Íslenska ríkiskirkjan er fyrst og fremst trúboðsstofnun. Þetta vill oft gleymast. Það er eitt helsta keppikefli kirkjunnar að boða trú sína og tryggja þannig að meðlimafjöldi hennar haldist hár. Meðlimafjöldi kirkjunnar er grunnurinn að völdum hennar. Í gegnum hann réttlætir hún forréttindastöðu sína; vernd í stjórnarskrá, gríðarlegan fjáraustur úr opinberum sjóðum og aðgang að börnum í opinberum menntastofnunum.

Það þarf varla að minnast á það að meirihlutarökin eru stórgölluð. Í dag er almennt viðurkennt að mannréttindi eru ekki skilgreind útfrá hausatalningum. Samt sem áður virðist ganga illa að koma því til skila hversu óeðlilegt það er að kirkjan gíni hér yfir öllu í krafti meðlimafjölda sem að stórum hluta er tilkominn vegna sjálfkrafa skráningar barna í trúfélög og sinnuleysi þeirra sem ekki er með nokkru móti hægt að segja að séu virkir í ríkiskirkjunni en eru samt skráðir í hana. Jafnvel án þess að geta talist kristnir nema að sú skilgreining sé víkkuð út í það óendanlega.

Út á þetta gerir kirkjan. Og þess vegna er hún óþreytandi í trúboði sínu. Hún smeygir sér inn hvar sem hún sér tækifæri. Baráttan gegn trúboði í skólum er gott dæmi. Syrgjandi ástvinir fólks sem verið er að jarða er ekki óhult fyrir trúboðinu.

Og svo er það annað: Við eigum að boða trú við jarðarfarir. Þá er fólk opið fyrir því að heyra kristinn boðskap. Þá hlustar fólk mjög vel og þarf á því að halda að heyra okkur boða upprisuboðskapinn. Það á ekki að þekkjast að upprisan sé ekki boðuð í hverri einustu jarðarför, upprisuboðskapurinn um að Kristur er upprisinn með okkur í öllu lífinu og tekur við okkur að loknu þessu lífi. #

Svo mælti Sólveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup þann 29. maí. Þetta er glæsilegur boðskapur. Syrgjandi fólk er opið fyrir trúboði. Nýtum okkur það. Ekki láta það trufla okkur að í hópi syrgjenda séu líklega einhverjir af öðrum eða engum trúarbrögðum. Okkar hagsmunir eru of miklir til þess að sýna kurteisi og umburðarlyndi við fólk sem á erfitt um að binda vegna fráfalls ástvinar eða fjölskyldumeðlimar.

Í þessum orðum Sólveigar birtist meint hófsemi ríkiskirkjunnar umbúðalaust. Kirkjan er einfaldlega óþreytandi trúboðastofnun. Það mætti fólk gjarnan hafa í huga þegar það reynir að verja forréttindi hennar og ásælni í aðgang að börnum í skólum.


Mynd fengin hjá Bobbie Hanvey Photographic Archives

Egill Óskarsson 10.06.2013
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Messurýni )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/06/13 10:32 #

Solveig Lára og aðrir ríkiskirkjuprestar þurfa að fara að átta sig á því að á Íslandi fara útfarir fram í kirkjum út af hefð, ekki trúarhita. Ég myndi sjálfur vilja að fólk sleppti því að leita til kirkjunnar en hefðin er sterk.

Margir sem mæta í jarðaför eru ekki kristnir og hafa engan áhuga á að heyra upprisuboðskapinn, þykir hann satt að segja vandræðalegur. Fólk mætir til að kveðja hinn látna og sýna virðingu. Hinn látni á að vera í aðalhlutverki.

Mín reynsla af ríkiskirkjujarðaförum er að feðgarnir Gvuð og Jesús Jósefs séu nær alltaf í aðalhlutverki, hinn látni hálfgert aukaatriði; minningarorð í miðri athöfn og ekkert meira.

Að mínu mati eru kristilegar jarðafarir á Íslandi afskaplega lélegar og löngu tímabært að reyna að endurhugsa þetta. Besta leiðin til þess er að fólk hætti að leita til kirkjunnar. T.d. er hægt að fá Siðmennt til að sjá um útfarir. Siðmennt ætti að leggja metnað í að brjóta upp formið, ekki eltast við þá hefð sem kirkjan hefur skapað.


Pétur - 10/06/13 13:32 #

Ef þú ert að jarða og vilt ekki blanda trú í ferlið, þá getur þú nýtt þér þá leið sem Siðmennt býður upp á eins og þú bendir svo réttilega á. Ef þú ferð sem gestur í jarðaför til að kveðja og votta virðingu þína fyrir þeim látna, ber þér þá ekki að virða skoðun hans/hennar eða fjölskyldu þess látna.

Þeir sem jarða sig í kirkju og velja að láta prest sjá um jarðaförina eru oftast ef ekki alltaf að virða ósk hins látna. Það hlýtur að vera skoðun þess látna eða fjölskyldu þeirra sem ráða för hvernig útförin á að vera. Eða finnst ykkur að aðstandendur eigi að taka tillit til skoðanna þeirra sem sækja jarðaförina frekar?

Að votta virðingu sína í mínum huga er að bera virðingu fyrir þeim látna. En ekki fetta fingrum út í skoðun þeirra eða aðstandenda sem eru ekki með sömu skoðun og ég.

Flestir ef ekki allir sem ákveða að jarða í kirkju geri ég ráð fyrir að séu að sækja í þá huggun sem fellst í upprisunni. Er eitthvað slæmt við það.

Nú veit ég ekki hvort sá sem skrifar greinina hafi verið sá sem skipulagði jarðaförina eða var eingöngu gestur að votta virðingu sína. Ef þú varst gestur í jarðaförinni, þá sé ég ekki mikla virðingu fyrir hinum látna í þessum skrifum þínum. En ef þú varst aðstandandi sem skipulagðir jarðaförna og þessi orð móðguðu þig, þá er þetta flott gagnrýni og á alveg rétt á sér.

Það hlýtur að vera í höndum þeirra sem eru að skipuleggja kveðjustund hins látna sem ber að gagnrýna svona hluti. Við hin hljótum að þurfa að sýna í orði og verki virðingu fyrir skoðun hins látna og fjölskyldu hans/hennar.

Þú getur ekki ætlast til að borin sé virðing fyrir þér og þínum skoðunum ef hún er ekki gagnkvæm.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/06/13 14:17 #

Pétur, ég held þú sért eitthvað að misskilja þessi skrif. Sá sem mætir í jarðaför er að votta hinum látna virðingu sína. Það efast enginn um það. Það felst ekkert virðingarleysi í því að skrifa vangaveltur um útfarir og þær hefðir sem þeim tengjast. Auk þess er þessi grein skrifuð út frá tilteknum orðum prests, ekki útaf ákveðinni jarðaför.

Þeir sem jarða sig í kirkju og velja að láta prest sjá um jarðaförina eru oftast ef ekki alltaf að virða ósk hins látna.

...

Flestir ef ekki allir sem ákveða að jarða í kirkju geri ég ráð fyrir að séu að sækja í þá huggun sem fellst í upprisunni.

Ég held þú hafir ekki rétt fyrir þér - ég held að þetta sé bara hefð í flestum tilvikum. Kannanir á trúarviðhorfum íslendinga sýna að þeir eru ekkert sérlega trúaðir á upprisu Krists. Af hverju ætti fólk þá að leita í þessa huggun?

Ég held að íslenskar útfarir fari fram í kirkju með þeim hætti sem við þekkjum vegna þess að íslendingar þekkja ekkert annað. Þetta er þó að breytast hægt og rólega.

Þú getur ekki ætlast til að borin sé virðing fyrir þér og þínum skoðunum ef hún er ekki gagnkvæm.

Það er ekki beinlínis borin virðing fyrir þeim sem mæta í jarðafarir ef prestum þykir þetta gott tækifæri til að stunda kristniboð - er það nokkuð? Hér er svo ekki verið að óvirða nokkuð.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 10/06/13 16:28 #

Pétur, finnst þér það ekki frekar ógeðslegt að kirkjan sé að reyna að notfæra sér varnarleysi syrgjandi fólks? Hvað fyndist þér ef við í Vantrú myndum skrifa eitthvað eins og: "Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem á við sárt að binda er opnara fyrir ýmsum boðskap, þess vegna skulum við reyna að hafa upp á fólki sem hefur misst fólk eða hefur nýlega greinst með erfiða sjúkdóma." Mér þætti það ógeðslegt.


Halla Sverrisdóttir - 10/06/13 16:44 #

Það er engu að bæta við það sem fram er komið um orð Sólveigar Láru. Ég vil bara hvetja sem flesta til að kynna sér valkostinn siðræna útför. Ég hef verið viðstödd þrjár slíkar og tók þátt í að undirbúa eina þeirra og get því vottað að Siðmennt leggur mikla vinnu og vandar sérlega vel til verka við þessar athafnir. Þessar athafnir voru allar mun fremur í anda þess sem verið var að kveðja en nokkur kirkjuleg útför hefði getað verið. Veraldlegar, eða siðrænar, útfarir eru svo nýtt fyrirbæri í íslenskri menningu að það eru alls ekki allir sem átta sig á því að þetta standi til boða, en ég er ekki í vafa um að þetta á eftir að aukast mjög næstu árin.


Asta Norrman - 10/06/13 18:00 #

Petur. sl ár hef ég þurft að skipuleggja 2 jarðafarir i kirkju. Eg er ekki kristin, en þar sem þeir einstaklingar sem verið var að jarða, voru kristnir, var ekki um annað að ræða en að hafa útförina í kirkju. Ég sem dóttir þeirra hefði þó helst af öllu viljað sleppa kristniboðinu. Maður er oft ekki í standi til að eiga í útistöðum undir svona kringumstæðum, heldur heldur kjafti þó svo maður upplifi andlega nauðgun.


Pétur - 11/06/13 15:14 #

Ásta Norman - Ég vil byrja á að votta þér samúð mína og út frá þínum aðstæðum á þessi gagnrýni rétt á sér.

Matti - upplifun okkar beggja á ástæðum þess að fólk jarðar í kirkju er greinilega ekki sú sama. En það er ekkert slæmt við það, fjölbreytileikanum ber að fagna.

Halla - Það er mjög gott ef að þeir sem eru að kveðja ástvini sína finni þá leið sem hentar þeim best og því fagna ég því ef Siðmennt getur uppfyllt þá þörf.

Hjalti Rúnar - Ég upplifi þetta ekki svona en við þurfum auðvita að bera virðingu fyrir þeim sem eru að kveðja ástvini sína og reyna að átta okkur á hvað þau eru að sækjast eftir. Enga síður í mínum huga þegar fólk sækir í kirkju til að jarða og biður prest um að sjá um athöfnina, þá tel ég þau vera að leitast eftir jarðaför sem byggist á trú. Við erum á öndverðu meiði hérna en ég skil vel þína nálgun og er sammála því að aðgát er þörf í nærveru sálar. (Vona að þú takir ekki þessu stinnt upp, þó að ég noti þessi orð)

Ég held að við verðum ekki alveg sammála hvernig þessu ber að hátta. Ég tel að þegar verið er að jarða í kirkju og prestur sér um athöfnina, þá verði trú og boðskapur hennar alltaf þungamiðjan í orðum prestsins. Það þýðir ekki að það sé aðalatriðið í athöfninni, heldur er það hefð, skoðun og starf prestsins sem gerir það að verkum. Þetta er eitthvað sem allir ættu að vita og því á það ekki að koma á óvart.

Presturinn þarf enga síður að bera virðingu fyrir bæði þeim aðstandendum sem skipuleggja útförina sem og óskum hins látna ef þær eru til staðar. Þetta verður alltaf vandmeðfarið og erfitt að gera öllum til geðs.

Þessi gagnrýni og skoðanna skipti eru góð og gild að mínu mati. Vonandi koma þau að notum fyrir þau sem lesa þetta.

Ég kveð að sinni, eigið góðan dag.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 11/06/13 15:46 #

Presturinn þarf enga síður að bera virðingu fyrir bæði þeim aðstandendum sem skipuleggja útförina sem og óskum hins látna ef þær eru til staðar. Þetta verður alltaf vandmeðfarið og erfitt að gera öllum til geðs.

Nákvæmlega. En þessi grein fjallar um það að prestar líta á jarðafarir sem tækifæri til þess að boða trú. Það er það sem ég er að gagnrýna, ekki það prestur tali útfrá trúarlegum nótum í jarðaför í kirkju.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 11/06/13 16:05 #

Ég upplifi þetta ekki svona en við þurfum auðvita að bera virðingu fyrir þeim sem eru að kveðja ástvini sína og reyna að átta okkur á hvað þau eru að sækjast eftir

Pétur, ég held að það sé frekar líklegt að þeir einstaklingar sem Solveig er að tala um eru ekki að sækjast eftir trúboði. Skoðum ummælin hennar:

Við eigum að boða trú við jarðarfarir. Þá er fólk opið fyrir því að heyra kristinn boðskap. Þá hlustar fólk mjög vel og þarf á því að halda að heyra okkur boða upprisuboðskapinn.

Hún er að segja að það eigi að boða fólkinu kristna trú af því að það er "opið fyrir því að heyra kristinn boðskap". Ég geri ráð fyrir því að hún sé ekki að segja að það þurfi að boða fólki sem er þegar kristið kristna trú.

Hún er að segja pent að kirkjan eigi að notfæra sér sorg fólksins. Það er sorglegt.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 11/06/13 23:50 #

Þetta er hluti af dauðaklámiðnaðinum.


Sævar - 14/06/13 20:04 #

Lágkúra ykkar í Vantrú opinberast algjörlega í þessari umfjöllun. Hreinn sóðaskapur. Fársjúkt fólk og gerið ykkur engann veginn fyrir eigin brenglun.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 14/06/13 20:06 #

Þú mátt endilega útskýra fyrir okkur í hverju lágkúran, sóðaskapurinn og sjúkleikinn birtist, Sævar.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 15/06/13 17:56 #

Vígslubiskup talar um jarðarfarir sem tilvalin tækifæri til að boða trú þar sem fólk er móttækilegt fyrir boðskapnum eftir ástvinamissi.

Við bendum á að það sé fáránlegt viðhorf og sú gagnrýni þykir "lágkúra" og "sóðaskapur" auk þess að gera mann "fársjúkan" og "brenglaðan".

Got to love the internet.


petur - 15/06/13 20:16 #

Haukur - Getur ekki verið að hún sé að benda á það augljósa. Þeir sem sækjast eftir að halda jarðafarir í kirkju vita að þeir eru að fara heyra boðskapinn um upprisuna og mögulega getur það huggað þau í sorg sinni. Ég get engan veginn skilið þessi ummæli á þann veg sem þú lýsir. Það er í sjálfum sér ekkert óeðlilegt við það, enda erum við ekki sömu skoðunar þegar kemur að trú/trúleysi.

Þau lýsingarorð sem þú/þið notið um þá sem eru ekki á sama máli og þið, finnst mér mjög óviðeigandi og ekki til þess fallin að auka hróður ykkar. Stundum þegar ég les athugasemdir frá ykkur, þá upplifi ég eins og þið hafið fundið einhvern sannleika sem sum (mörg) okkar sjáum ekki og það er eins og hann gefi ykkur rétt til að úthúða og hæða þau sem ekki eru ykkur sammála.

Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði í fyrstu athugasemd minni.

Þú getur ekki ætlast til að borin sé virðing fyrir þér og þínum skoðunum ef hún er ekki gagnkvæm.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 16/06/13 00:29 #

Getur ekki verið að hún sé að benda á það augljósa. Þeir sem sækjast eftir að halda jarðafarir í kirkju vita að þeir eru að fara heyra boðskapinn um upprisuna og mögulega getur það huggað þau í sorg sinni.

Nei, hún er að tala um trúboð. Það að boða trú. Ef Sólveig meinar eitthvað annað þá notar hún undarlegt orðalag til að koma því á framfæri. Það er svo engin að agnúast út í það að fólk leiti í trú í sorg. Ef Sólveig meinar eitt

Þau lýsingarorð sem þú/þið notið um þá sem eru ekki á sama máli og þið, finnst mér mjög óviðeigandi og ekki til þess fallin að auka hróður ykkar. Stundum þegar ég les athugasemdir frá ykkur, þá upplifi ég eins og þið hafið fundið einhvern sannleika sem sum (mörg) okkar sjáum ekki og það er eins og hann gefi ykkur rétt til að úthúða og hæða þau sem ekki eru ykkur sammála.

Við leyfum okkur að tala á gagnrýnin hátt um trúarbrögð og hindurvitni. Ef þú berð saman málflutning okkar við það sem almennt gerist í opinberri umræðu þá held ég að við séum langt í frá í hópi þeirra dónalegustu eða orðljótustu.

Þú getur ekki ætlast til að borin sé virðing fyrir þér og þínum skoðunum ef hún er ekki gagnkvæm.

Einmitt. Þetta virkar í báðar áttir.


Pétur - 16/06/13 09:10 #

Egill - Allar athafnir sem kirkjan sér um er trúboð í einhverju formi. Því skil ég ekki af hverju þið eruð að reyna að taka þessi orð hjá vígslubiskupi og láta eins og hún sé að fremja einhverja dauðasynd. Allar samkomur á ykkar vegum sem eru opinberar eru til þess að bera á torg skoðun ykkar, það er ekkert óviðeigandi við það. Þetta vita allir sem sækja samkomur á ykkar vegum.

Í mínum huga er trúboð mjög eðlileg nálgun í athöfnum sem eru stýrðar af prestum og haldnar í kirkju. Hvernig þú berð þig svo að í athöfninni ætti síðan að vera háð virðingu fyrir þeim látnu og ástvinum. Það þýðir ekki að þú verðir ekki með trúarstef(boðun) í athöfninni.

Að þið skulið vera gagnrýnin á trúarbrögð og hindurvitni er hið besta mál. Það þurfa allir á gagnrýni að halda. En sú taktík sem þið notið nær ekki eyrum þeirra sem hún ber að ná til vegna þeirra nálgunar sem ég upplifi frá ykkur.

Stundum þykir mér gagnlegt að lesa gagnrýni frá ykkur, hún fær mann til að horfa á skoðun sína og endurmeta hana. (Hér á ég ekki við að trúin sé í hættu hjá mér en hvernig ég ber mig að í trúnni.)

Ég gagnrýni oft fólk sem er trúað þegar málfutningur þeirra er komin út fyrir öll velsæmismörk. Mér finnst þið oft ekki alltaf en oft vera á sama stað og þau. Nálgun ykkar er svipuð, ef þú ert ekki sömu skoðunnar og við, þá má hæðast að þér og úthúða þig og stundum virðist enginn mörk á því hvað má segja og gera.

Í mínum huga er fólk sem er trúlaust alveg eins og þeir sem trúa. Það er öðruvísi nálgun á lífinu en það eru bæði skemmd epli og heilbrigð epli í körfunni hjá báðum. Það verða aldrei allir trúaðir eða trúalausir. Öll umræða um slíkt er tímasóun að mínu mati. Ég ber virðingu fyrir trúlausum og trúuðum en stundum get ég ekki borið virðingu fyrir gjörðum þeirra, hvort sem það er í orðum þeirra eða verkum.

Ég er að endurtaka mig og það þýðir yfirleitt að skoðun mín nær ekki nógu vel í gegn núna. Ég ætla því að láta þetta nægja í þessari umræðu.

Lifið heil og njótið dagsins.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/06/13 09:39 #

Þau lýsingarorð sem þú/þið notið um þá sem eru ekki á sama máli og þið, finnst mér mjög óviðeigandi og ekki til þess fallin að auka hróður ykkar.

Hvaða lýsingarorð eru það Pétur?

Það eina sem mér finnst óviðeigandi í þessari umræðu eru ummæli Sævars.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 16/06/13 09:45 #

Allar athafnir sem kirkjan sér um er trúboð í einhverju formi. Því skil ég ekki af hverju þið eruð að reyna að taka þessi orð hjá vígslubiskupi og láta eins og hún sé að fremja einhverja dauðasynd.

Pétur, þegar Solveig segir þetta, þá er hún ekki bara að hugsa um að "allar athafnir kirkjunnar séu trúboð í einhverju formi":

Við eigum að boða trú við jarðarfarir.

Hún er að segja prestum að notfæra sér líkræðuna til að boða trú, af því að fólk er svo "opið" þá.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 16/06/13 22:12 #

Mér þykir þú túlka þessi orð hennar á mjög undarlegan hátt. Þegar maður segir að eitthvað "eigi) ekki að þekkjast" hlýtur maður að ganga útfrá þeirri forsendu að það þekkist. Þ.e. að það trúboð sem hún er að tala um eigi sér EKKI stað við allar jarðarfarir. Svo það getur varla verið sama trúboðið og það sem felst í eðli og umgjörð athafnarinnar heldur eitthvað annað og meira en það.

Á þennan hátt þykir mér túlkun þín missa marks. Þarna talar vígslubiskup um trúboð í mun þrengri og sértækari merkingu en þeirri sem þú eignar orðum hennar. Hún er að tala um það sem Á að vera en ekki það sem er.

Annars er þér það fullfrjálst að ræða um tón okkar og aðferðafræði á spjallborðinu þar sem almenn umræða á sér stað.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.