Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Dauðaklámiðnaðurinn

Á endanum deyjum við öll, vonandi södd lífdaga, sátt í faðmi fjölskyldunnar. Það er ekkert slæmt við dauðann og engan trúleysingja hef ég hitt sem óttast þau tímamót. Auðvitað óttast allir sársauka og óþarfa kvalir á dauðastundinni. Einnig erum við öll ósátt þegar fólk deyr ótímabærum dauða svo ekki sé talað um andlát barna. Það eru einmitt vísindin sem hafa hjálpað okkur að gera dauðann léttbærari og koma í veg fyrir óþarfa dauða. Ekkert annað afl í samfélaginu vinnur annað eins afrek á hverjum klukkutíma.

Hér fléttast inn í slysarannsóknir með tilheyrandi forvörnum og störf björgunaraðila. Því næst eru það læknavísindin sem bæði koma í veg fyrir ótímabæran dauða og líkna óþarfa þjáningar fólks á dauðastundinni. Í heilbrigðu samfélagi eru það svo félagsráðgjafar, sálfræðingar, læknar og hjúkrunarfræðingar sem geta undirbúið fólk og aðstoðað þegar mest á reynir. Hér skiptir öllu virðing fyrir lífinu og réttlát samfélagsleg aðstoð við þann sem deyr og aðstandendur hans.

Hér vildi ég að helst að greinin mín endaði með sérstökum þökkum til allra fagaðila sem bæði koma í veg fyrir ótímabæran dauða og lina andlegar og líkamlega þjáningar. En ástandið er ekki svo gott í okkar samfélagi. Því heill dauðaklámiðnaður veltir hér á landi milljörðum króna á hverju ári og þrífst í skjóli þess hve málaflokkurinn er viðkvæmur. Ég er ekki að tala um útfarastjóra eða líkbílstjóra. Nei, heldur ógeðfelldan hindurvitnaiðnað sem mergsýgur fjármuni fólks í örvæntingu, bæði þann látna sem og aðstandendur hans. Þessi iðnaður er hræðilega uppáþrengjandi og hefur hátt um eigið ágæti.

Mig langar að fordæma mjög harðlega þennan iðnað sem gerir út á erfileika fólks og smýgur sig inn á fórnarlömbin þegar þau eru veikust fyrir, allt frá miðlum og skottulæknum til þjóna trúarinnar. Ekki bara hefur þetta fólk viðhaldið bölvanlegum ranghugmyndum um dauðann, heldur eru orð þess og æði leikþáttur fáránleikans. Gott dæmi um hversu langt þetta fólk gengur í að segja ósatt er að engum miðli né presti ber saman um hvað gerist eftir dauðan. Góða amman er ýmist endurholguð, svífandi hérna megin eða hinum megin, geymd hjá guði, í himnaríki, bíður upprisu holdsins, komin í aðrar víddir, biður að heilsa og líður vel. Allt gegn greiðslu, amen.

Þessi óhugnanlegi iðnaður hefur grafið sig djúpt inn í samfélagið, ýmist í formi sjálftökuhóps sem fer bakdyramegin í fjármuni almennings í gegnum skattakerfið, eða rænir fólk á götum úti. Allt er þetta siðlaust og gert í nafni trúar eða kærleika. Það er ærið verkefni að draga úr mætti dauðaklámiðnaðarins. Þessi iðnaður mun aldrei skammast sín og mun aldrei taka rökum. Eini möguleikinn er að forða fórnarlömbunum frá honum og gera iðnaðinn verkefnalausan. Það er starf hins hjálpsama trúleysingja.

Frelsarinn 22.01.2007
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 22/01/07 10:47 #

Góð og þörf grein, t.d. finnst mér lélegt hve fáir (raunverulegir) valmöguleikar eru þegar kemur að útförum. Það er dapurt að sjá hve mikið kirkjan einokar þennan bransa.

Einnig vil ég minnast á að þegar ég hef talað við fólk um dauðan (gerist nú ekki oft) þá hefur mér oft fundist að þeim mun trúaðra fólk er, þeim mun óttaslegnara virðist það vera við dauðann.

Kannski er þetta ímyndun ein en það væri gaman að sjá einhverja könnun á þessu.


Jói - 22/01/07 11:45 #

[Eyddi út hluta athugasemdar - Matti]

Jamm.... Eðli mannsins er jafnan athyglisvert. [eytt] Kæri frelsari ég skil þig að nokkru leiti en mér finnst kanski óheppilegt að bera saman skottulækna,miðla og presta. Skil ekki samlíkinguna. Dauðaklám ? Ert þú með einhverjar sérstakar óskir varðandi þína eigin útför ? [Eytt]


Nanna - 22/01/07 12:11 #

"... sem geta undirbúið fólk og aðstoðað þegar mest á reynir. Hér skiptir öllu virðing fyrir lífinu og réttlát samfélagsleg aðstoð við þann sem deyr og aðstandendur hans."

Þetta segir þú um m.a. félagsráðgjafa og sálfræðinga. En er það ekki líka það sem kirkjunnar menn eru að gera? Undirbúa það fólk, sem hallast að slíkum skoðunum, fyrir dauðann út frá þeim hugmyndum sem það hefur um hann. Að tala um að þetta sé iðnaður sem "gerir út á erfileika fólks og smýgur sig inn á fórnarlömbin þegar þau eru veikust fyrir" - væri ekki alveg eins hægt að segja það um sálfræðingana? Í báðum tilfellum er um að ræða "sáluhjálp", hún er bara sniðin að ákveðnum lífsskoðunum í hvoru tilfelli fyrir sig. Það væri jafn rangt að taka trúarlega sáluhjálp út úr samfélaginu og það væri að taka út sálfræðilega sáluhjálp; með því væri verið að vanvirða lífsskoðanir hluta samfélagsins.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/01/07 12:37 #

Hér er ekki verið að tala um að fjarlægja þetta einn tveir og þrír og skilja trúað fólk eftir í tómarúmi. Það sem okkur liggur helst á hjarta er að efla gagnrýna hugsun svo komandi kynslóðir sjái ekki ástæðu til að halla sér að trúnni. Trúin er bæði óþörf í upplýstu nútímasamfélagi og stórskaðleg í þokkabót.

Sá tími mun koma að trúarbrögðin finnist aðeins á forngripasöfnum, en við reynum eftir mætti að flýta fyrir þeirri þróun, t.d. með greinum eins og þessari.

Ég veit ekki með Frelsarann, en sjálfur ætla ég að sjá til þess að dauði minn og útför fari alfarið fram án aðkomu hindurvitnaboðenda hvers konar. Hindurvitnaboðandi vinir mínir og kunningjar geta að sjálfsögðu verið í ádíensinu en engum mun líðast að hefja upp raust sína til að dásama einhver æðri máttarvöld við þetta tækifæri.


Þorsteinn Ásgrímsson - 22/01/07 13:01 #

Fín grein sem ýtir við hlutum sem maður veltir ekki nægilega mikið fyrir sér. En það var eitt sem stakk mig í þessari grein: "Það er ekkert slæmt við dauðann og engan trúleysingja hef ég hitt sem óttast þau tímamót." Ég held að þó maður óttist ekki það að verða sendur til helvítis í stað himnaríkis eða eitthvað álíka, þá geti trúlausir alveg óttast óvissuna (alveg eins og ekki er hægt að sanna trú er ekki hægt að sanna að ekkert gerist við dauðann og það skapar einmitt óvissu og óvissa er í mörgum tilfellum ávísun á ótta). Einnig geta trúlausir óttast um afleiðingar dauðans, t.d. að eitthvað ákveðið sem þeir hafa stundað eða staðið fyrir (skoðanir, hugmyndir eða annað) verði gleymdar og muni koma afkomendum þeirra illa í framtíðinni. En ef meiningin var að trúlausir óttist ekki sjálfan tímapunktinn að deyja, þ.e. hvað verði um sálina og allt það, þá er ég alveg sammála þér :)


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 22/01/07 13:27 #

Það er örugglega þessi óvissa hjá trúuðum sem skapar þennan ótta. Hjá trúlausum er minna um þennan ótta, ég vil helst ekki fullyrða of mikið um þetta þar til ég sé einhver gögn sem styðja þessa skoðun mína en "for arguement sake" þá skulum við láta þetta standa.

Hjá trúlausum er "eftirlífið" endeimis vitleysa, fundið upp af fólki sem sættir sig ekki við dauðann. Það er ekkert sem bendir til þess að það sé til líf eftir dauðann, nákvæmlega ekki neitt. Þannig er maður fyrir löngu búinn að sætta sig við að þetta er eina lífið sem maður á og um að gera að lifa lífinu eins og maður vill.

Margir trúmenn vilja láta viðhorf trúlausra til lífsins sýnast svartsýnt og neikvætt en mér finnst það alls ekki þannig. T.d. er ég ótrúlega þakklátur að eiga lítinn glugga meðvitundar á þessari plánetu og reyni að láta gott af mér leiða. Lífið er svo ótrúlegt kraftaverk og að ég skuli vera lifandi á þessari stundu er ennþá ótrúlegra, því er lífið rosalega mikilvægt og ekki þess virði að sóa í einhverja vitleysu.


Fridrik - 22/01/07 13:49 #

Dauðaklámiðnaður, þetta er frábært orð og lýsir virðuleika þessa iðnaðar vel. Mikilvæg grein.


Þorsteinn Ásgrímsson - 22/01/07 14:54 #

Gleymdi auðvitað að minnast á það að ég er hjartanlega sammála Friðrik um orðið Dauðaklámiðnaður. Þetta er algjört gull af orði og ég hló aðeins of mikið þegar ég las þetta fyrst :D


Guðmundur - 25/01/07 01:49 #

Hvað vitið þið um líf eftir dauðann?? hættið þessum huglægum fullyrðingum, hættið að þykjast vera svona miklir vísindamenn, ég vona að vantrú nái ekki að smjúga sínum skoðunum í átt að almenningi, enda myndi það ekki vera mörgu leyti skárra en hjá prestunum.

Það er skárra að segja að það sé óvíst hvað gerist eftir "dauðann" en að fullyrða um hvað gerist eftir hann þykir mér vera algjör hindurvitni. Og í raun eru helling vísbendingum fyrir líf eftir dauðann. Vogið ykkur að opna hugann, hreinsa tilfinningarnar, sýna hlutleysi og skoðið þær. Þið hljótið að geta það. Þetta vantrúar/debunk fyrirbæri er léleg tíska. Eflaust upptil hópa menn sem hafa ekki stjórn á fordómum sínum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/01/07 04:58 #

Og í raun eru helling vísbendingum fyrir líf eftir dauðann.

Nei, ekkert sem ekki er búið fyrir löngu að hrekja. Ef þú ert að tala um astralflakk út úr líkamanum, reynslulýsingar af ljósi við enda rörsins og samtöl við látna ættingja gegnum miðil, þá stendur ekki steinn yfir steini í öllu því klámi. Það eru náttúrlegar skýringar á þessu öllu, en trúmennirnir þverskallast við að hlusta á slíkt af því að það fer á svig við óskhyggju þeirra. Þeir haga sér að því leýtinu eins og sköpunarsinnar gagnvart þróunarkenningunni.

Það bendir einfaldlega ekkert til lífs eftir dauðann, enda er líf vel útskýrt fyrirbæri og meðvitundin augljóslega afrakstur heilastarfs.

Það er ekki okkar að afsanna fullyrðngar trúmanna um líf eftir dauðann, heldur þeira að sýna fram á það. Efi og gagnrýnin hugsun er bara heilbrigður og góður máti þegar kemur að þessum málum, rétt eins og öllum öðrum.

ég vona að vantrú nái ekki að smjúga sínum skoðunum í átt að almenningi, enda myndi það ekki vera mörgu leyti skárra en hjá prestunum.

Þú óskar þess semsagt að fólk fái áfram að lifa í lygi, lygi sem nærir buddur margra og viðheldur heimsku og fáfræði. Þú vonar að fólk fari ekki að treysta haldgóðum rannsóknarniðurstöðum heldur hími trúgjarnt við þröskuld loddara og svikara. Falleg hugsjón eða þannig...


danskurinn - 25/01/07 10:27 #

Birgir skrifar: ”... líf [er] vel útskýrt fyrirbæri og meðvitundin augljóslega afrakstur heilastarfs.”

Líf er ótrúlega illa útskýrt fyrirbæri. Mörkin milli lífs og dauða eða meðvitundar og meðvitundarleysis eru á hreyfingu. Stutt er síðan "upplýstir" menn álitu að dýr og jafnvel menn af ólíkum kynþáttum væru í raun ekki lifandi eða hefðu ekki vitund eins og þeir sjálfir. Nú á dögum setja sumir mörk meðvitundar þar sem er nægjanlega þroskað taugakerfi. En auðvitað munu þessar skilgreiningar breytast eftir því sem þekkingu okkar fleygir fram. Skárra væra það nú Birgir, ef við værum þegar komnir að endimörkum þekkingar okkar og líf væri í raun vel útskýrt fyrirbæri eins og þú slengir fram sem dæmalausri fullyrðingu. Síðast í dag var frétt i Fréttablaðinu um að danskir vísindamenn teldu að hugsun leyndist víðar en í heilanum. Það fannst mér góð frétt.

Dauðaklámiðnaðurinn er í dýrðlegasta veldinu sínu á hátæknisjúkrahúsum. Þangað sogast mestir fjármunir heilbriðisþjónustunnar þar sem dauðvona fólki er haldið á lífi með lyfjum og hátæknibúnaði fram í rauðan dauðann og ekkert til sparað. Tilgangurinn er óljós. Þetta á í raun ekkert skylt við að læknisfræði eða líkn þjáðum heldur er þetta þjónusta undir ótta fólks við að deyja og hræsni sem oft brýst út sem reiði í stað sorgar. Dauðatrú kristninnar og efnishyggjunnar er dýrkeypt og langdýrust í fyrrnefndri læknisfræði sem einblínir á holdið. Á þessum spítölum voma svo prestarnir eins og hver annar draugagangur aftanúr forneskju og bíða eftir hinu óumflýjanlega, sölumenn dauðans.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/01/07 21:39 #

Stutt er síðan "upplýstir" menn álitu að dýr og jafnvel menn af ólíkum kynþáttum væru í raun ekki lifandi eða hefðu ekki vitund eins og þeir sjálfir.

Ekki veit ég hvaða menn þú átt við hér, en varla hafa þeir verið að enduróma meginstraum vísindamanna.

Skárra væra það nú Birgir, ef við værum þegar komnir að endimörkum þekkingar okkar og líf væri í raun vel útskýrt fyrirbæri eins og þú slengir fram sem dæmalausri fullyrðingu.

Óheiðarlegt. Ég sagði að lífið væri vel útskýrt fyrirbæri og þú ætlar að klína því á mig að hafa haldið því fram að við værum komin að endimörkum þekkingar okkar! Hvernig á andskotanum færðu það út? Hvað vakir fyrir þér með svona skrifum, geturðu ekki bara reynt að tækla það sem ég segi í stað þess að gera mér upp skoðanir til þess að ráðast á?


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 25/01/07 22:42 #

„Síðast í dag var frétt i Fréttablaðinu um að danskir vísindamenn teldu að hugsun leyndist víðar en í heilanum. Það fannst mér góð frétt.“

Var hún kannski af svipuðum toga og fréttin sem þú varst að apa upp um daginn um skyndiákvarðanirnar?


caramba - 26/01/07 08:41 #

"Mig langar að fordæma mjög harðlega þennan iðnað sem gerir út á erfileika fólks og smýgur sig inn á fórnarlömbin þegar þau eru veikust fyrir, allt frá miðlum og skottulæknum til þjóna trúarinnar."

Eru miðlar og skottulæknar fórnarlömb dauðaklámiðnaðarins? Þetta er eiginlega of gott til að vera satt. Þetta minnir mig á ágætan trúleysingja sem krafðist þess á prenti að "grunnfærni" yrði kennd í grunnskólum landsins :)


danskurinn - 26/01/07 09:04 #

Birgir: "Ekki veit ég hvaða menn þú átt við hér, en varla hafa þeir verið að enduróma meginstraum vísindamanna."

Jújú, þetta voru hvítir menn í Afríku og víðar og endurómuðu meginstraum vísindamanna þeirra tíma.

"Ég sagði að lífið væri vel útskýrt fyrirbæri og þú ætlar að klína því á mig að hafa haldið því fram að við værum komin að endimörkum þekkingar okkar! "

Ég er ekkert að klína neinu á þig og held engu fram um þínar skoðanir. Ég segi aðeins að lífið sé ekki vel skilgreint. Menn eiga í vandræðum með það. Þú ætti frekar að reyna svara efnislega ef þú telur raunverulega að lífið sé svo vel skilgreint. Að auki tel í að dauðaklámiðnaðurinn sé í sínu dýrðlegasta veldi inni á hátæknisjúkrahúsum þar sem menn þykast hafa unnið gott verk ef líf dauðvona fólks er framlengt um nokkra daga og jafnvel aðeins nokkrar mínútur. Kostnaður heilbrigðisþjónustinnar pr einstakling fer að stærstum hluta í að halda fólki á lífi síðustu daga, vikur eða mánuðina sem það á eftir ólifað. Notagildi þessarar þjónustu er augljóslega ekki hagstætt fyrir sjúklinginn sjálfan. Betra hefði verið að verja stærri hluta kostnaðarins í þjónustu fyrir einstaklinginn á meðan hann var yngri, með lífið framundan og við þokkalega heilsu.


caramba - 26/01/07 14:55 #

[athugasemd færð á spjallið - Matti]


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 27/01/07 13:41 #

Er ekki hægt að kæra þetta dauðaklámsiðnaðarhyski? Þetta er alveg á grensunni.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/01/07 18:53 #

Jújú, þetta voru hvítir menn í Afríku og víðar og endurómuðu meginstraum vísindamanna þeirra tíma.

Og hvaða tímar voru það? Miðaldir? Voru þetta vísindakenningar eða bara tigátur sem settar voru fram í vísindsamfélaginu?

Ef þetta voru vísindakenningar, er þá búið að afsanna þær? Getur verið að þær standi enn? Getur kannski verið að þær séu jafnvel ótrúlega snjallar? Getur verið að meðvitundin sé aðeins til staðar í heilastórum öpum eins og okkur, en restin af lífverunum séu í raun meðvitundarlausir róbótar?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/01/07 18:59 #

Ég meina, við sjálf þurfum ekki annað en drekka okkur í blackout til að ráfa um, tala við fólk og framkvæma ýmsa verknaði gersamlega án þess að meðvitund komir þar nokkuð við sögu. Ef sá möguleiki er gerlegur okkur mönnunum er þá nokkuð mjög líklegt að t.d. flugur eigi sér meðvitund og sjálfsupplifun? Er ekki megnið af lífheiminum bara í blakkáti þegar upp er staðið?


Ingi - 27/02/07 14:47 #

Málið er að við vitum ekki 100 % hvað gerist eftir dauðan, allavega flest okkar. Þannig að við getum ekki útilokað né fullyrt neitt. Við lifum í algjöru þekkingarlesi og óvissu gagnvart dauðanum. Lífið verður þannig áhætta þar sem við vitum ekki neinar forsendur. Sumir halda því fram að við dauðan hverfi vitund okkar einfaldlega og það getur verið rétt.Það er rökréttast og ekkert annað verið sannað. Hvort sem fólk fulyrðir líf eftir dauða eða ekki er bæði jafn hrokafullt og heimskulegt. Dauðinn er okkur æðri í þeim skilningi að þeir sem hann þekkja eru ekki til frásagnar. En þrátt fyrir allt munum við komast að þessu.


FellowRanger - 01/03/07 20:24 #

Sammála og ekki sammála? Ég er fullkomlega sammála því að kirkjan nærist á syrgjandi fólki og fjármálum þess, en dauðinn er, líkt og kynhneigð, óskyljanlegur. Náttúran er flókin og óþekkt svo ég hef opinn huga gagnvart því. Aðrar víddir? Miðilsrugl um dauðar ömmur? Veit ekki, en tvífæddur Messías sem gekk á vatni um leið og hann breytti því í vín? Held nú ekki. Jésús Jósefsson er stærsti þorpari sem uppi hefur staðið og ruglað fólk gleypti við því. Ég á bágt með að trúa því að siðmenntað og upplýst fólk í dag lifi enn í eldgamalli lygi og rembist eins og rjúpan við staur að viðhalda þeirri lygi, mér þykir nóg komið hjá Þjófkirkju Íslands og lýsi yfir stríði. Ég vil líka vitna í Iron Maiden úr laginu "For the Greater Good of God" af disknum "A Matter of Life and Death". Stutt og laggogtt:

"Religion has a lot to answer for"

Kristnin þá sérstaklega. Friður út.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.