Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hin vandræðalega kristni

Mynd af Jesú fljúgu upp í geiminn

Um páskana sagði einn prestur ríkiskirkjunnar, Hildur Eir Bolladóttir, að upprisa Jesú væri í raun það eina “vandræðalega” í kristinni trú og að án hennar væri kristni eflaust talin vera meira “töff”[1]. Hér verður því ekki neitað að það er afskaplega “vandræðalegt” að trúa á upprisu Jesú, en það er frekar mikil bjartsýni að halda að einungis upprisan sé vandræðaleg. Í dag heldur kristið fólk til dæmis upp á það að Jesús flaug upp til himna. Hér eru fleiri dæmi um vandræðaleg atriði í kristinni trú:

Meyfæðingin

Jesús er sagður vera “fæddur af Maríu mey” og það er boðað í tveimur guðspjöllum Nýja testamentisins. Kraftaverk við fæðingar frægra manna voru álíka algeng og upprisur þeirra í fornöld. Svo maður vitni í önnur nýleg ummæli ríkiskirkjuprests:: “Við megum líka muna, að menn hafa tilhneigingu til að endurhanna sögu mikilmenna. Það er eins og endurskrifa þurfi eftirá og eðlisbreyta verði aðdragandasögu stórmennis. Þar er ein skýringin á upphafssögu Jesú. Fleiri atriði koma til skoðunar einnig. Í goðsögum fornþjóða eru til sögur um meyfæðingar goða.” #

Sumir prestar ríkiskirkjunnar “afmeyja” einmitt Maríu[2], og meyfæðingunni er líka neitað í fermingarkveri frá Þjóðkirkjunni.

Fórnardauði Jesú

Samkvæmt aðaljátningu Þjóðkirkjunnar dó Jesús “til þess að sætta föðurinn við oss og til þess að vera fórn”#. Þessi hugmynd um að Jesús hafi verið eins og fórnardýr sem þurfti að deyja til þess að afmá syndir passar engan veginn við hugmyndir okkar um réttlæti, og eiga meira skylt við hugmyndir fornaldarmanna um töframátt blóðs. Nýlega lýsti Þjóðkirkjuprestur þessari hugmynd sem óhuggulegri miðaldahugmynd[3]. Ég er sammála honum.

Djöfullinn og illir andar

Kristnir menn trúa því að það séu til illar andaverur og að þessar verur eigi sér höfðingja, Satan. Í guðspjöllunum er Jesús í sífellu að berjast við illa anda. Jesús rekur illa anda úr flogaveiku fólki og spjallar jafnvel við andana. Það er óvíst hvort að prestar ríkiskirkjunnar trúi þessu almennt, en biskupinn þeirra trúir að minnsta kosti á djöfulinn og prestarnir eru duglegir við að reka illa anda úr húsum. Þessa andatrú tel ég vera miklu vandræðalegri heldur en upprisu Jesú.

Heimsendirinn sem kom aldrei

Ef maður les Nýja testamentið þá sér maður að Jesús, Páll og hinir ýmsu höfundar rita Nýja testamentisins trúðu því að heimsendir væri í nánd. Síðan liðu tvö þúsund ár. Þeir höfðu allir rangt fyrir sér. Trúvarnarmaðurinn og rithöfundurinn C.S. Lewis sagði[4] að vandræðalegasta versið í allri biblíunni væru ummæli Jesú um að “þessi kynslóð” (fólkið sem dó fyrir 2000 árum síðan) myndi sjá heimsendi.

Heimsendatrú kirkjunnar

Tvö þúsund árum síðar er það enn trú kristinna manna að Jesús “mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða”. Ein vandræðalegustu atriðin sem sýnd eru í bíómyndum er þegar einhver bíður á stefnumóti á veitingastað, en enginn kemur. Kristin trú er eins, nema hvað að kristið fólk bíður frá fæðingu til dauða kynslóð eftir kynslóð eftir kynslóð.

Helvíti

Þjóðkirkjan trúir því að þegar Jesús kemur loksins til baka þá muni hann refsa “guðlausum mömmum og djöflum” á þann veg að þeir “kveljist eilíflega”. Þessi hugmynd um að algóður guð sjái til þess að fólk kveljist eilíflega er svo viðurstyggileg í hugum flestra nútímamanna að það eru eflaust ekki nema örfáir ríkiskirkjuprestar sem virkilega trúa þessu. Þeir trúa samt örugglega á einhverja diet-úgáfur af helvíti, sem eru þó alveg nógu vandræðalegar.

Algóður skapari

Samkvæmt kristni þá skapaði guðinn þeirra alheiminn, og það sem meira er, hann er almáttugur og algóður. Þessi trú er í vandræðalega miklu ósamræmi við eðli heimsins.

Í hvert einasta sinn sem hrikalegar náttúruhamfarir eiga sér stað, þá neyðast trúarleiðtogar til að reyna að útskýra þessa vandræðulegu mótsögn. Þegar hundruð þúsundir létu lífið í flóðbylgjunni við Indlandshaf árið 2004, þá var útskýring þáverandi biskups Þjóðkirkjunnar að “Drottinn var í djúpinu”[5] (hvað sem það þýðir) og einn ríkiskirkjuprestur útskýrði þetta á þá leið að stjórnvöld hefði ekki átt að leyfa byggingar við flekamót, og að flóðbylgjan hefði sjálft tekið ákvörðun um að gera þetta þrátt fyrir að guð hafi reynt að sannfæra hana um að gera það ekki! Svipaða sögu er að segja af tilvist sýkla. Hvers vegna í ósköpunum er algóð vera að skapa þá? Eina svarið sem ég hef séð frá prestum er: “Ég veit það ekki.” #

Gamla testamentið

Gamla testamentið er lang-stærsti hluti helgibókar kristinna manna. Nýja testamentið talar svo um guð þess Gamla sem sama guðinn. Jesús vísar óspart í gjörðir þess guðs og segir til dæmis að guð hafi sent flóð og eytt Sódómu og Gómorru #. Guð kristinna manna er guð Gamla testamentisins.

Þessi sami guð stundar fjöldamorð og þjóðernishreinsanir og setur lög sem margbrjóta grundvallarmannréttindi. Flestir kristnir menn skammast sín vafalaust fyrir þetta, og ég held að það sé mjög algengt að fólk einfaldlega afskrifi Gamla testamentið. En samt sem áður eru sagðar sögur í sunnudagaskólum landsins þar sem ýmis illvirki þessa guðs eru dásömuð. Trúmenn ættu að skammast sín fyrir það.

Er þetta allt vandræðalegt?

Það er hægt bæta við listann[6], en mér finnst þetta sýna að upprisa Jesú er ekki það eina vandræðalega í kristinni trú.

Það er erfitt að vita hvort prestar ríkiskirkjunnar trúa þessum atriðum eða ekki. Prestar tala nefnilega lítið um þau, sem sýnir kannski vel hversu vandræðaleg þau eru í þeirra huga. Ég vona samt að við munum fá að heyra skoðun að minnsta kosti eins prests, og að ef Hildur Eir trúir einhverjum af þeim atriðum sem ég taldi upp, þá muni hún fallast á að það sé fleira en eitt “vandræðalegt” atriði í kristinni trú.


[1] "Upprisa Krists er í raun það eina sem er „vandræðalegt“ í kristinni trú, að öllu öðru leyti er kristin trú mjög sýnileg og áþreifanleg og kannski ef að Kristur hefði ekki risið upp þætti hún almennt meira töff." #

[2] Ég geng út frá því að Jesús frá Nasaret hafi orðið til á sama hátt og önnur börn og að í honum hafi verið jafnmörg DNA sett og í öðrum manneskjum, 23 frá hvoru foreldri. - Sigríður Guðmarsdóttir #

[3] Þórhallur Heimisson. Mörgu andlit kristninnar. bls 272

[4]C.S. Lewis, The World's Last Night: And Other Essays, bls 98

[5] “Síðast nú er fregnir bárust af hinum skelfilegu náttúruhamförum í Asíu á öðrum degi jóla. Á andartaki brustu undirstöður jarðar og flóðbylgjan æddi með ógnarafli heljar. Ráðgátur þjáningarinnar verða gjarna til að bregða fæti fyrir trúna. Ef Guð er góður, hvers vegna verða þá slíkar hörmungar? Í viðtali við sænskan ferðamann í Tailandi var hann spurður: „Hvernig er ástandið?“ „Eins og í helvíti,“ svaraði hann. „Skelfing og dauði allsstaðar.“ Við játum trú á Drottinn og Guð sem steig niður til heljar. Líka þar er hann, í þeim aðstæðum þar sem svo virðist sem Guð hafi yfirgefið okkur fyrir fullt og allt. „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig!“ hrópaði Drottinn í dauðastríði krossins. „Yfirgefur því aldrei mig eilífur Guð hans vegna,“ játar harmkvælamaðurinn Hallgrímur er hann íhugar það angistaróp. „Hvar var Drottinn?“ spurði maður nokkur hér í kirkjunni fyrir miðja öldina sem leið, er hann stóð yfir moldum eiginkonu sinnar og tveggja dætra. Hvar var Drottin, þegar slysið varð og bíllinn steyptist ofan í flauminn? „Drottin var í djúpinu,“ svaraði hann. Drottinn var í djúpinu. Sú kristna trú sem vorum skírð til og signt hefur lífsskrefin okkar er trú á Guð í djúpinu, í neyðinni, í sorginni. Vatn skírnarinnar sem ausið var yfir kollinn þinn, þá nafn Guðs var lagt yfir þig, minnir á að í bylgjum dauðans er höndin hans hlýja og milda, og lyftir þér inn til ljóss og birtu upprisudagsins.” - Karl Sigurbjörnsson. ”Drottinn blessi þig ... “. Flutt á nýársdegi 2005, við útvarpsmessu í Dómkirkjunni.

[6] Mér dettur til dæmis í hug hugmyndir kristinna manna um erfðasyndina, að þeir borði Jesú og drekki blóðið hans, og sú ótrúlega leiðtogadýrkun að Jesús hafi verið sjálfur guð holdi klæddur.

Mynd fengin hjá: By Waiting for the Word

Hjalti Rúnar Ómarsson 09.05.2013
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Sveinn Þórhallsson - 09/05/13 11:27 #

Væri kristni virkilega meira "töff" án upprisunnar? Og hér stóð ég í þeirri trú að kristni væri hreinlega ekki til án upprisunnar; að þetta væri grundvallarkenning þessara trúarbragða.

Svona án gríns. Hvað er kristni án upprisu frelsarans? Er það bara "hér er sonur Guðs, og hann dó". Búm. Engin von. Ekkert vald yfir dauðanum. Ekkert.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 09/05/13 11:41 #

Í raun er þessi sigur á dauðanum sönnun þess að hinn kristni guð er ekki til. Án dauðans þrifist ekkert líf á jörðinni. Þetta er í dag einföld líffræðileg staðreynd. Mætti kenna smá líffræði í guðfræðideildinni.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 09/05/13 11:59 #

Svo eru það vísindin sem koma í veg fyrir ótímabæran dauða. Eitthvað sem engin bæn getur gert.

Þessi grein er mjög góð samantekt.


mofi - 09/05/13 13:13 #

Gaman að fá svona blog efni til að skrifa um en ég gerði grein sem gerir heiðarlega tilraun til að svara þessum punktum, sjá: Er kristin trú vandræðaleg?


sigmundur - 09/05/13 22:02 #

Takk fyrir góda um fjöllun Vantrúarmen :-) Thad er eitt í thesum bibliu sögum sem ég ekki fæ skilid , thad er talad um ad Jesus hafi fórnad sér fyrir syndir mannana sydir theira Adam og Efu ef mér skjátlast ekki . Fornin er mér rád gáta hverju fórnadi Jesus ef hann svo situr vid hlid Gvuds og dæmir lifendur og dauda . En eitt ef hann er Gvud thad er ad sega hann Jesus thá er thetta fáranlegast fórn sögunar ad fórna sjálfum sèr fyrir sjálfan sig fyri enhverja alræmda synd sem hann bjótil sjálfur .


mofi - 12/05/13 09:02 #

Fórn Krists er ekki fórn fyrir Guð sjálfan heldur er hún til að réttlæta það að syndarar sem samkvæmt lögmálinu eiga skilið að deyja þurfa ekki að deyja. Það sem kannski hjálpar að skilja þetta er að þetta snýst ekki bara um mannkynið heldur líka um aðrar verur. Það verða tveir hópar af fólki í dómnum, báðir hóparnir eiga samkvæmt lögmálinu skilið að deyja en einn hópurinn fær eilíft líf og ástæðan sem Guð getur gefið íbúum himinsins er að Hann borgaði gjaldið fyrir það fólk. Sömuleiðis hafa íbúar himinsins áhyggjur af því að hleypa fólki sem hefur logið, stolið og jafnvel myrt inn í himnaríki en vegna þess að þessi hópur hefur valið hlíðni við Guð þá er Guð sjálfur að ábyrgjast að þetta fólk sé raunverulega gott fólk.
Vonandi útskýrir þetta að minnsta kosti hvernig ég skil fórn Jesú.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/05/13 10:49 #

Sorry Halldór - þetta útskýrir ekki neitt :-)

Fórn Krists er ekki fórn fyrir Guð sjálfan heldur er hún til að réttlæta það að syndarar sem samkvæmt lögmálinu eiga skilið að deyja þurfa ekki að deyja.

Af hverju eiga þeir skilið að deyja? Er það ekki Gvuð sjálfur sem ákveður það?

Sömuleiðis hafa íbúar himinsins áhyggjur ...

Veistu, þetta er eiginlega mjög vandræðalegt :-)


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 12/05/13 13:23 #

já, þetta er frekar vandræðalegt Mofi..

ástæðan sem Guð getur gefið íbúum himinsins er að Hann borgaði gjaldið fyrir það fólk

Er hann ekki almáttugur, gat hann ekki bara ákveðið þetta sjálfur án þess að borga eitthvert gjald fyrir??


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 14/05/13 11:23 #

en ég gerði grein sem gerir heiðarlega tilraun til að svara þessum punktum, sjá: Er kristin trú vandræðaleg?

Mofi byrjar á því að grínast með himnaferð Jesú með því að vísa á myndband af sjónhverfingamanni svífa með hjálp víra. Mofi, þú trúir því að Jesús hafi í raun og veru flogið, er það ekki?

Þetta segir hann varðandi meyfæðinguna:

Núna fer maður að halda að það sem guðleysingjum finnst vera vandræðalegt eru kraftaverk. Það sem er vandræðalegt við þetta tiltekna kraftaverk er að það er augljóslega síðari tíma helgisaga. Of það eru ekki bara guðleysingjar sem sjá það, í greininni vísaði ég til presta og fermingarkver frá ríkiskirkjunni.

Ég held að það þurfi litlu að bæta við útskýringar Mofa á tilganginum með fórnardauða Jesú í þessum athugasemdahala.

Mofi vísar á þriggja tíma viðtal við einhvern mann sem (af skjáskotinu að dæma) "var valinn af Satan til að breiða út dáleiðslu". Jahá.

Ég sé Mofa ekki beinlínis svara heimsendapunktinum og náttúruhamfarapunktinum. Jann er sammála því að helvíti er mjög vandræðalegt.

Loks skammast Mofi sín ekkert fyrir það að guðinn hans hafi framið þjóðernishreinsanir og fyrirskipað að konur sem voru ekki hreinar meyjar á giftingarnóttunni skyldu grýttar. Sorglegt að sjá hvað kristni getur farið illa með fólk :(


Siggi - 26/05/13 19:52 #

Besta við Vantrú og Siðmennt að kristnir einstaklingar verða enn sannfærðari um hvað það er gott að vera kristinn. Það er líka svo gott við kristni að menn hafa frelsi til að velja hvort þeir trúi eða ekki. Fólk með hugarfar Vantrúar og Siðmenntar getur aldrei skilið Biblíuna ekki það að fólk í Vantrú eða Siðmennt sé verra en annað fólk eða kristnir betri. Mér finnst bara svo sorglegt að þeir skilja hana aldrei þrátt fyrir að lesa hana. "Sjáandi sjá þau ekki og heyrandi heyra þau ekki" það er þeirra val. Munu reyndar skilja við ævilok en þá of seint :-(.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 26/05/13 22:44 #

Það er líka svo gott við kristni að menn hafa frelsi til að velja hvort þeir trúi eða ekki

Einmitt. Valkosturinn 'trúðu eða þú ferð til helvítis' er eiginlega skilgreiningin á frjálsu vali.


Siggi - 27/05/13 18:25 #

Það er greinilegt að þú hefur látið aðra segja þér hvað stendur í Biblíunni. Helvíti er ekki til eingöngu mannatilbúningur. Lestu sjálfur.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 27/05/13 18:36 #

Svo er alveg hugmynd að þú lesir sjálfur, Siggi, það segir hvergi í greininni að helvíti sé skilgreint í biblíunni, heldur er verið að fjalla um kristna trú og vísað í skoðun þjóðkirkjunnar.

Lesa fyrst, rífa svo kjaft ef tilefni er til...


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 27/05/13 18:37 #

Fólk með hugarfar Vantrúar og Siðmenntar getur aldrei skilið Biblíuna ekki

Siggi, það væri gaman að fá að vita að hvaða leyti ég skil ekki biblíuna.

Helvíti er ekki til eingöngu mannatilbúningur. Lestu sjálfur.

Í Nýja testamentinu er talað um Gehenna, og það er víst staður 'eilífs elds'. Á íslensku er þetta oftast þýtt sem 'helvíti'


Siggi - 27/05/13 19:46 #

Það er engin kristin trú án Biblíunnar. Hjalti Rúnar lestu Lúk 12.49. Hví er Biblían svona eftirsótt út um allan heim og ásókn vex í hana á hverju ári meðal upplýstra manna og kvenna? Hún fer t.d eins og eldur í sinu um ríki múslima þótt dauðadómur liggi við sem og í Kína. Hefur ekkert með trúfélög og kirkjudeildir að gera. Máttur hennar er það mikill að þrátt fyrir að gáfaðasta fólk heims (Vantrúarfélagar t.d) geri allt sem þeir geti til að sporna við því. Þið vinnið sem bestu kristniboðar því fólk sannfærist enn frekar um kristni þegar það les greinar ykkar. Takk Vantrú.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 27/05/13 20:22 #

Hjalti Rúnar lestu Lúk 12.49.

Siggi, þú verður að koma með eitthvað meira en þetta.

Ég held að útbreiðsla kristni hafi lítið með einhvern töframátt biblíunnar að gera.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 27/05/13 22:56 #

Siggi, þú byrjar kannski á að sannfæra Vatikanið og páfann um að helvíti sé ekki til, og þú sért þeim fremri í lestri og túlkun biblíunnar fyrir hönd kristinna, þetta sé tómur misskilningur hjá kristnum söfnuðum sbr. http://www.visir.is/vatikanid-leidrettir-misskilning-pafa-trulausir-fara-til-helvitis/article/2013130529187


Benni - 29/05/13 08:20 #

[Athugasemd færð á spjallið - Hjalti]


Siggi - 29/05/13 22:16 #

Valgarður. Páfinn og Vatikanið er ekki kristindómurinn. Búnir að sýna það fyrir löngu. Fólkið er kristindómurinn þar á meðal þú hvort sem þér líkar betur eða verr. :-D Sá sem les og rannsakar sjálfur er hinn kristni í raun. Ekki einhver þmt hinar ýmsu kirkjudeildir sem koma óorði á kristna trú. Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá. Segir það ekki margt?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 29/05/13 23:32 #

Þetta er nú orðið svolítið vandræðalegt hjá þér Siggi :)

Biblían er rosalega merkileg (að þínu mati) og þú kyngir öllu hatrinu, illskunni og mótsögnunum... og færð út eitthvað sem þú einn virðist skilja.

Því það er ekki bara páfinn og vatikanið sem boða einhvers konar helvíti, heldur vel flestir kristnir söfnuðir, þar með talið íslenska þjóðkirkjan...

Þannig að, ef ég skil þig rétt, þá er biblían rosalega merkileg bók sem er undirstaða kristninnar. En (nánast) allir söfnuðir sem byggja á henni eru að missilja hana??

PS. á meðan ég man, greinin sem þú ert að gera athugasemdir við heitir "Hin vandræðalega kristni" ekki "Hin vandræðalega biblía"


Siggi - 30/05/13 15:05 #

Valgarður. Þú hefur greinilega eins og margir ekki skilið Biblíuna. Eða um hvað hún fjallar. Þú velur bara af handhófi eitthvað sem virðist í fyrstu illska eða hatur. Gamla Testamentið fylgir vegna spádómanna þar.Það er ákveðinn kjarni þar sem síðan opinberast í því nýja. Það eru engar mótsagnir í Biblíunni ef þú lest hana gaumgæfilega. Hún er kærleikur en ekki illska. Fulltrúar hinna ýmsu söfnuða geta ekki tjáð sig fyrir hönd megiþorra kristins fólks. Það getur einungis sá sem les hana sjálfur og rannsakar. Vel flestir kristnir eru mér sammála um þetta. það er enginn maður kristinn nema hann lesi og kunni Biblíuna allvel þó það sé í raun ævistarf að lesa hana aftur og aftur. Enginn reifari sem maður les si svona. Það er engann veginn hægt að alhæfa um Biblíuna nema hafa lesið hana alla og skilið. Ekki láta einhvern t.d. ofstækismann úti í bæ segja þér um hvað hún fjallar og rífa úr samhengi.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 30/05/13 15:26 #

Mig grunar að misskilningurinn sé þinn, það er nóg af dæmum um illsku, hatur, mannvonsku og mótsagnir.. og ekkert samhengi sem afsakar eða réttlætir það. Það er beinlínis vandræðalegt að fylgjast með þegar fólk er að reyna að túlka sig fram hjá þessum ófögnuði.

Helvíti í einhvers konar mynd er klárlega skilningur flestra (en kannski ekki allra) kristinna söfnuða, hvað svo sem óskhyggjan reynir að segja þér. Fulltrúar megin þorra kristinna söfnuða geta að sjálfsögðu tjáð sig um hvernig þessir söfnuðir skilja biblíuna.

Þá stendur eftir að þessi stórmerkilega bók (að þínu mati) er misskilin (að þínu mati) af flestum þeim söfnuðum sem byggja á henni.

En það er verra að þú sýnir nú ekki mikinn lesskilning sjálfur, þú sendir inn athugasemdir um grein um kristni og lætur eins og greinin fjalli um biblíuna.

Kannski væri rétt að óska eftir annarri grein "hin vandræðalega biblía", Hjalti?

Svo er alltaf þessi möguleiki - þó mér sýnist að þér þyki hann langsóttur - að þetta sé einfaldlega samansafn ólíkra, mótsagnakenndra og sundurlausra rita - skrifuð af fáfræði, stundum góðum vilja, stundum ekki - og eftir standi hinn undarlegasti grautur af jákvæðum hugsjónum, tómri þvælu, staðlausum stöfum, skemmtilegum sögum, langdregnum ritum.

Með sömu nálgun getur þú túlkað hvaða rit þannig að það merki það sem þér hentar. En það breytir ekki því hvað stendur í viðkomandi riti.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 30/05/13 15:48 #

það er enginn maður kristinn nema hann lesi og kunni Biblíuna allvel

Þá eru afskaplega fáir kristnir á Íslandi.

Það eru engar mótsagnir í Biblíunni ef þú lest hana gaumgæfilega.

Reyndar er fullt af mótsögnum í henni.

Kannski væri rétt að óska eftir annarri grein "hin vandræðalega biblía", Hjalti?

Tjah, eitt atriðið hérna var "Gamla testamentið". Og vandræðalegu atriðin þar sem ég bendi á eru þessi: "Þessi sami guð stundar fjöldamorð og þjóðernishreinsanir og setur lög sem margbrjóta grundvallarmannréttindi."


Benni - 31/05/13 08:33 #

"Þessi sami guð stundar fjöldamorð og þjóðernishreinsanir". Hjalti rúnar. Þú ert væntanlega að tala um Guð fariseanna, semsagt gamla testamenntið. Ef svo er, þá hefur þú svo sannarlega lög að mæla. En þeir höfnuðu friðarboðskapi Krists og gera enn. Hvort sem að Guð sé til eða ekki, eða að þetta séu allt lygasögur skiptir ekki nokkru máli. Þær eru og munu vera. Heldurðu að gyðingarnir hætti bara að trúa á tora (gamla testamenntið) ef við þurkum bara út kristni.


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 31/05/13 12:52 #

Er það ekki sami guðinn? Eða dó fyrri og einhver annar tók við? Hef ég misskilið biblíuna í öll þessu ár?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 31/05/13 16:21 #

Benni, kristið fólk trúir því almennt að guð Gamla testamentisins sé guðinn þeirra. Jesús guðspjallanna og höfundar Nýja testamentisins eru líka alltaf að vitna í það.


Benni - 03/06/13 14:37 #

Guð gamla testamenntisins er Guð hinnar útvöldu þjóðar. Guð nýja testamenntisins stendur öllum til boða, það var boðskapur Krists. Það gátu farisearnir ekki þolað, því að þeirra messías er stríðsmaður en ekki friðarboði. Ég mæli eindregið með að þið lesið The controversy of Zion eftir Douglas Reed.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 03/06/13 15:50 #

Benni: Jesús og höfundar Nýja testamentisins tala í sífellu um Jahve, guð Gamla testamentisins, sem guðinn þeirra.

Jesús guðspjallanna er ekki beint friðarboði, hann talar um að hann eða guð muni henda andstæðingum sínum í eldsofn.

Og já, farísearnir voru örugglega illmenni eins og maður sér í teinkimyndum, hötuðu Jesú af þí að hann boðaði frið. Einmitt.


Benni - 03/06/13 22:38 #

Ef Kristur var ekki til, af hverju heldur þú þá að Gyðingarnir sem eru að ræna palestínu af bæði kristnum og muslimum, hati Krist. Hefurðu kynnt þér hvað stendur í Talmudanum. Martin Lúter gerði það. Hann sagði líka að það væri nóg að lesa bara tora til að afhjúpa áætlanir trúvillinganna.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 03/06/13 23:36 #

Þó svo að gyðingar tryðu því líka að Jesú hafi verið til "sannar" ekki að hann hafi verið til (eða breytir nokkru um líkurnar) - ekki frekar en að kristnir skuli trúa því.

En veistu, ég geri jafnvel ráð fyrir að Gyðingar myndu nú ásælast þetta land hvort sem er. Mig minnir meira að segja að þeir hafi gert það fyrir áætlaða daga Jesú.

En... ekki láta söguna þvælast fyrir þér.


Benni - 04/06/13 23:13 #

[Athugasemd færð á spjallið. Haltu þessari umræðu áfram þar ef þú vilt. - Hjalti]

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.