Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kirkjan á engar jarðir

Landslag

Á síðasta ári greiddum við skattborgarar laun biskupa, presta og starfsfólks Biskupsstofu upp á 1405 milljónir. Launagreiðslurnar byggja á samningum sem gerðir voru árin 1907 og 1997 þar sem ríkið tók yfir jarðeignir kirkjunnar gegn því að greiða laun presta ríkiskirkjunnar til eilífðar.

Við getum eytt endalausum tíma í að reyna að verðleggja jarðeignir kirkjunnar sem runnu til ríkisins. Það mun aldrei finnast fullnægjandi svar vegna þess að það er ekki til neitt verðmat og ekki einu sinni listi yfir jarðirnar sem ríkið yfirtók. Leiða má líkur að því að verðmæti jarðanna sé miklu minna en útlagður kostnaður ríkisins til kirkjunnar frá árinu 1907.

Þetta er þó aukaatriði því kirkjan á engar jarðeignir með réttu, hvorki nú né í upphafi 20. aldar.

Það gleymist oft að á tímabilinu frá kristnitöku - einhvern tímann í kringum árið 1000 - fram til ársins 1874, þegar Ísland fékk stjórnarskrá, var ekki trúfrelsi á Íslandi.

Eignamyndun kirkjunnar átti sér stað í skjóli kúgunar og trúarhlekkja. Kirkjan var ekki saumaklúbbur trúaðra heldur valdamikil stofnun sem gerði sitthvað jákvætt fyrir landsmenn en einnig oft margt sem ekki er hægt að verja. Allir landsmenn voru í raun meðlimir í kirkjunni, hvort sem þeir vildu eða ekki.

Gleymum því ekki heldur að siðaskiptin voru afgreidd með afhausun.

Kirkjan á ekki tilkall til jarðanna sem komust í hennar eigu á tímum kúgunar. Jarðirnar tilheyra þjóðinni allri með réttu.

Matthías Ásgeirsson 23.01.2013
Flokkað undir: ( Klassík , Leiðari , Ríkiskirkjan )

Viðbrögð


E.T - 23/01/13 09:25 #

Ekkert flóknara.

Málflutningur kirkjunnar manna um að þessar jarðir sem kirkjan á að hafa átt hafi verið hvað... 17 þúsund milljarða virði. Eða var það 170 þúsund milljarða virði ... það var annaðhvort allavega.

Augljós veruleikafirring í gangi og er aðskilnaður ríkis frá kirkju að öllu leyti nauðsyn og að ég tel aðeins tímaspursmál. Það er jú árið 2013 og trúarbrögðin eru barn síns tíma hér á vesturlöndum. Hlutfall trúlausra í t.d Svíþjóð er gott dæmi um þróunina sem er í rétta átt.

Þeir sem vilja vera í trúarsöfnuði geta auðvitað greitt sína tíund eða sóknargjöld og haldið uppi prestum og öðrum kirkjunnar mönnum, en aðrir geta þá notað fjármuni sína í t.d heimilisútgjöld eða þess vegna góðgerðamál. Það er þeirra ákvörðun. Enginn á að vera neyddur til að greiða gjald til trúfélaga. Vissulega fara þeir fjármunir í dag til ríkissjóðs, en sá sami ríkissjóður greiðir þessu bákni stjarnfræðilegar upphæðir á hverju ári.

Hvað ætli væri hægt að kaupa mikið af tækjum til sjúkrahúsa fyrir ja.. helming af því sem fer til kirkjunnar á hverju ári? Hvernig væri þá að í stað þess að fara í að safna frá blönku fólki sem mætir til kirkju fyrir sjúkragögnum að lækka laun sín? Er nauðsynlegt fyrir presta að fá hærri byrjunarlaun en unglæknar sem hafa setið í skólabekk árum saman? Er nauðsynlegt fyrir biskup að hafa sömu eða hærri laun en forsætisráðherra? Skoðið þetta kæru kirkjumenn áður en þið farið að safna klinki af öryrkjum og ellilífeyrisþegum sem mæta til kirkju á Sunnudögum.

Bara smá pæling. Finnst þessi PR söfnun kirkjunnar vera hálf aumkunarverð í ljósi gráts kirkjunnar og gnístran tanna eftir niðurskurðinn, en allar ríkisstofnanir þurftu að fara í að skera niður. Hörð mótmæli kirkjunnar sýndu og sönnuðu hvað þessi stofnun gengur út á.


Halla Sverrisdóttir - 23/01/13 10:08 #

Er ekki kominn tími til að kæra þennan samning fyrir einhverjum, á grundvelli stjórnsýslulaga eða laga um vanrækslu í starfi (ráðherra) eða bara einhverra laga sem hljóta að vera til um það að gera stórfelldar fjárskuldbindingar fyrir hönd íslenskra skattborgara um óákveðinn tíma á fullkomlega óljósum forsendum? Það væri áhugavert að láta á þennan samning reyna fyrir dómi. Ég veit bara ekki hvaða dómi, getur einhver gefið mér einhverja hugmynd um það?

Eins og sjá má af þessu kommenti er ég ekki sérlega vel að mér um stjórnsýslulög eða rétt minn sem borgari gagnvart rétti stjórnvalda til að gera skuldbindingar fyrir mína hönd!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/01/13 10:27 #

Þaðer víst erfitt að kæra samning sem Alþingi hefur samþykkt.

Smugan birtar í dag grein um samninginn og kirkjujarðirnar.


Karl Hólm - 23/01/13 13:37 #

Það er útilokað að kirkjan geti eignað sér jarðir sem hún hefur náð undir sig með svikum og lygi um einhverja syndaaflausn og eilífa himnavist.


Jon Steinar - 24/01/13 17:36 #

Það er spurning hvort samningurinn feli í sér stjórnarskrárbrot og jafnvel brot á annari löggjöf. Fyrir mér er þetta einfalt. Á grunni upplýsingalaga þarf að biðja um lista yfir þessar jarðir og verðmat á þeim. Hann er ekki til og var ekki frammi þegar samningur var gerður. Menn samþykktu bara út í loftið að greiða allan rekstrarkostnað kirkjunnar ótímabundið. Uppgefinn grundvöllur var yfirskyn. Í öllum öðrum tilfellum væru menn búnir að missa völd og æru og jafnvel fá fangelsisdóm. Þetta eru hrein fjársvik. Það er grundvöllur fyrir stefnu, enginn vafi á því. Hvar er ríkisendurskoðun í þessum díl? Sáu þeir ekkert óeðlilegt við þetta?


Svanur Sigurbjörnsson - 26/01/13 00:48 #

Fjárfestingasukkið og nýfrjálshyggjan gaf okkur IceSave árið 2008 sem enn vofir yfir okkur. Hin evangelísk-lútherska kirkja á grunni þeirrar kaþólsku gaf okkur ChristSave árið 1907 sem var svo endurlífgað árið 1997. Þessi tvö Save eiga það sameiginlegt að vera afkvæmi stjórnarparsins xD og xB. Hið þriðja er svo auðvitað FishQuotaSave með sambærilegum kræsingum fyrri forréttindahópa. Hvenær ætli það verði algert Egual-People-Save í þessum málum?


Einar Jón - 02/03/13 18:14 #

Þurfa þeit ekki að sanna að þeir hafi staðið við sitt, og að seljandinn hafi fengið himnavist í skiptum fyrir jörðina?


Bjartur Thorlacius - 15/02/21 18:34 #

Jón Steinar, það stemmir tæplega, því greiðslur til kirkjunnar voru takmarkaðar, fyrst við kristnisjóð, og svo við Kirkjujarðasjóð. Þegar þeir voru upp urnir þá ákvað Alþingi einhliða, með lögum, að greiða meira til Þjóðkirkjunnar. Þeim lögum er hægt að breyta, eins og hverjum öðrum fjárlögum.


Bjartur - 15/02/21 18:38 #

Breytir þar engu hvort að sjóður heitir Prestlaunasjóður eða annað.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?