Fyrir mörgum er það feimnismál að vera trúleysingi. Víða um heim er trúleysingi hálfgert skammaryrði. Í Bandaríkjunum jafngildir það pólítísku sjálfsmorði að viðurkenna trúleysi sitt. (Aðeins tveir þingmenn í Bandaríkjunum eru opinberlega trúlausir og báðir komnir að endimörkum síns starfsferils.) Trúleysingjar sem láta í sér heyra opinberlega verða oftar en ekki fyrir mjög ósanngjörnu aðkasti. Menn eru kallaðir dónar, lygarar, öfgasinnaðir og oft margt miklu verra.
Þetta gerir það að verkum að flestir trúleysingjar iðka sitt trúleysi í hljóði, og það er í raun bara gott og blessað. En sumir vilja láta í sér heyra. Sumir vilja gagnrýna trúarbrögð og hindurvitni, og sumir vilja veita nauðsynlegt mótvægi gegn boðun. En nær undantekningalaust fá þeir sem láta í sér heyra á sig fáránlega og ósanngjarna stimpla. Einn þreyttasti frasinn er sá að trúlausir séu manna duglegastir við að predika og bera út boðskap sinn. Við nánari skoðun fæst það auðvitað ekki staðist. Hafa ekki örugglega allir séð trúleysingja sjónvarpsstöðina sem sendir út í opinni dagskrá? Nú eða hlustað á trúleysingja útvarpsstöðina? Auðvitað ekki, því þær eru ekki til.
Hvað með ríkissjónvarp allra landsmanna sem sendir út í beinni útsendingu krýningarathöfn æðsta prests trúleysingja? Aftur, þá er hann ekki til. Ríkið hins vegar borgar Þjóðkirkjunni milljarða á hverju ári og styrkir fjölda trúfélaga í hvers kyns trúboðastarf af ýmsum toga. Pistlar örfárra manna (og kvenna) á vefriti blikna í samanburði.
Að trúleysi sé trú er annar örþreyttur frasi sem við trúleysingjar fáum að heyra. Raunar er það alveg óþolandi að þurfa reglulega að svara þessu. Þetta hefur verið rætt svo oft að umræðunni ætti að vera lokið. Rétt eins og að safna ekki frímerkjum er ekki áhugamál, er trúleysi ekki trú. Við höfum engin sameiginleg trúarrit eða kennisetningar sem við förum eftir. Þó við sækjum okkur innblástur í orð frægra trúleysingja, eru þeir hvorki leiðtogar okkar né spámenn.
Það er þó eitt sem sameinar flesta trúleysingja og það er gagnrýnin hugsun. Ef ég pósta þessari mynd á Facebook síðunni minni er ég þá að móðga einhvern?
Er ég að boða einhverja trú? Það eina sem ég er að gera er að benda á að það sé mögulega eitthvað rotið í Páfagarði og menn ættu kannski að staldra við og hugsa uppá nýtt skilyrðislausa hlýðni sína og dýrkun á trúarfígúrum sem eru augljós tímaskekkja í nútíma samfélagi.
Öll trúarbrögð hrynja til grunna um leið og menn beita fyrir sig almennri skynsemi og gagnrýnni hugsun. Ef þú vilt banna mér að pósta myndum eins og þessum á Facebook ertu í raun að segja mér að þú viljir banna gagnrýna hugsun. Og veistu hver vildi líka banna gagnrýna hugsun?
Hitler.
Þetta er nú sennilega létt nóta sem er slegin í lok greinarinnar.
(En við skulum heldur ekki gleyma hver endaði greniar sínar á léttum nótum.)
"flestir trúleysingjar iðka sitt trúleysi í hljóði" hvernig fer sú iðkun fram?
@Albert:
Það er soldið eins og að vera ekki á sjóskíðum. Flestir hafa stundað það.
Svo skiptir maður bara út "vera á sjóskíðum" fyrir "taka kennisetningar trúarbragða alvarlega".
Hljómar mjög svipað utanfrá.
Það er auðvitað oxymoron að halda því fram að trúleysi sé trú. Og það er líka alveg rétt að dogma trúarbragðanna standast auðvitað engin skynsemispróf. En er það alveg örugglega svo að það sem sameinar flesta trúleysingja sé gagnrýnin hugsun? Er það ekki einfaldlega trúleysið sem sameinar trúleysingja, sem síðan eru misgagnrýnir í hugsun?
Það er alveg á tæru að gagnrýnin hugsun er það sem helst er sameiginlegt með trúleysingjum.
Í yfirgnæfandi meirihluta tilfella er trúleysinginn fæddur og uppalinn í umhverfi sem meira og minna er gegnsýrt af trú og trúarbrögðum. Ef ekki í hans nánustu fjölskyldu, þá í skólaumhverfi og vina og kunningjahópi.
Í langflestum tilfellum þarf hinn trúlausi að brjótast út úr hefðum og vana, kryfja til mergjar með sjálfum sér allan þann "sannleika" haldið er að honum leynt og ljóst. Án gagnrýnnar hugsunar færi mannskepnan eins og Zombíi í fótspor fyrirrennara sinna og gengi trúnni á hönd.
Eins og orðið "trúleysi" gefur til kynna verður fyrst að koma til trú, því "leysi" eitt og sér er merkingarlaust.
Í heimi lituðum af trú og trúarbrögðum þarf gagnrýna hugsun til verða og vera trúlaus.
Ég er ósammála því að það sé gagnrýnin hugsun sem sameinar trúleysingja og ég er ósammála því að forsenda trúleysis sé gagnrýnin hugsun. Ég held að forsenda trúleysis sé einfaldlega trúleysi, rétt eins og forsenda trúar er einfaldlega trú. Og jafnvel þótt það sé rétt að trúleysingjar beiti almennt gagnrýnni hugsun á trúarbrögð heldur en trúað fólk(sem þarf þó alls ekki alltaf að vera), þá er það gagnrýnin hugsun sem beinist að mjög afmörkuðu viðfangsefni og þarf engan veginn að vera neinn vitnisburður um það hversu gagnrýnir í hugsun menn eru almennt. Ef það er nóg að hafna trúnni á guði til að teljast gagnrýninn í hugsun, þá finnst mér það ekki mjög merkileg gagnrýnin hugsun.
Mér finnst líka frekar vafasamt að gagnrýnin hugsun geti yfirleitt sameinað stóra hópa fólks um eitt né neitt. Í sameiningarferli þvælist slík hugsun nefnilega bara fyrir. Hvort sem um er að ræða fótboltalið, stjórnmálaflokka, forsetaframbjóðendur eða trú eða trúleysi, er það aðallega sameiginleg afstaða sem sameinar fólk, en ekki það hvernig menn hafa tekið hina sameiginlegu afstöðu.
Annars hef ég ekkert út á þennan pistil að setja að öðru leyti. Mér finnst bara rétt að hafa í huga að trú vs trúleysi er ekki það sama og heimskulegt vs. gáfulegt. That´s all :)
Ég er ekki að tala um að gagnrýnin hugsun sameini trúleysingja, enda er það allt annað en að eiga eitthvað sameiginlegt.
Ég hef sterkan grun um að trúleysingjar séu einmitt gagnrýnir í hugsun almennt, ekki bara á trúarbrögð.
Auðvitað eru til undantekningar á öllu, en meginlínan er að mínu áliti sú að gagnrýnin hugsun almennt, og trúleysi fari oftar en ekki saman.
Heimskulegt vs. gáfulegt voru þín orð en ég get svo sem gert þau að mínum.
Rökin fyrir því að trú og trúarbrögð séu andstæður gagnrýninnar hugsunar eru einmitt þau að trúarbrögðin og trúin sem þeim fylgir eru uppfullar af fullyrðingum, sem aðeins er hægt að taka trúanlegar með algerum skorti á gagnrýninni hugsun. Um flestar þessara fullyrðinga gildir að hvergi er að finna svo mikið sem snefil af vísbendingu um að þær séu nokkuð annað en glórulaus skáldskapur. Oftast þarf bara smá skammt af gagnrýninni hugsun til þess að slá þær út af borðinu í eitt skifti fyrir öll.
Pistillinn segir að gagnrýnin hugsun sameini trúleysingja, ég er efins um það jafnvel þótt það sé rétt að meira sé um gagnrýna hugsun meðal trúleysingja en annarra hópa (þótt mig gruni að ýmsir trúleysingjar hafi tilhneigingu til að ofmeta sjálfa sig að þessu leyti).
Það er til fullt af trúuðu fólki sem hafnar flestum eða jafnvel öllum sillí sögunum úr trúarritningunum, en telur sig samt sem áður tilheyra ákveðnum trúarbrögðum. Fólk leggur allskonar táknrænar merkingar í þessar sögur. Það er ekki endilega til marks um skort á gagnrýnni hugsun. Og það er til fullt af skynsömu fólki sem trúir því að einhver hafi gert kraftaverk (verið "göldróttur") jafnvel þótt engar sannanir séu til um það. Þetta fólk einfaldlega trúir þessum hlutum, jafnvel þótt það temji sér gagnrýna hugsun að flestu öðru leyti.
Ef gagnrýnin hugsun væri nóg til að slá trúarbrögðin út af borðinu væru þau varla svona lífseig, því það þarf sannarlega enga óvenjulega ályktunargáfu til að komast að þeirri niðurstöðu að ritningarnar hljóti að hafa verið skrifaðar af mönnum sem gætu alveg eins hafa verið að skálda. Þegar um trú er að ræða kemur gagnrýnin hugsun málinu sjaldnast við held ég.
Það er ekki meiningin hjá mér að vera með stæla þegar ég bendi á þetta. En ég held að það sé til marks um skort á gagnrýnni hugsun að álykta sem svo trú vs. trúleysi sé hægt að skýra með því að sumir séu bara gagnrýnni í hugsun en aðrir. Mér finnst það leiðinlegt attitúd og held að það sé líka frekar óheppilegt.
Við skulum nú ekki gleyma hver ruglaðist á því að eitthvað sameini tiltekinn hóp, og að tiltekinn hópur eigi eitthvað sameiginlegt.
:-P
En svona í fúlustu alvöru, þá held ég að það sem pirrar marga sé að þeir upplifa okkur sem svo að við séum að setja okkur á háan hest gagnvart þeim.
Manneskjur almennt eru ekki 'forritaðar' af þróun til að leitast eftir sannleikanum, heldur til að 'vinna'. Svo ef ég kem til einhvers og segi honum að eitthvað sem hann trúir sé rangt, þá er automatic viðbragð hans að mótmæla og rífast á móti. Basically af því að það að 'tapa' rökræðu er eitthvað sem mannfólki líkar illa af þróunarfræðilegum orsökum. (sá sem tapar upplifir sig þannig að hann sé kominn skör neðar í goggunarröðinni en sá sem hann tapaði fyrir, og það gera aðrir líka)
Maður á auðvitað aldrei að alhæfa, en þetta hefur einfaldlega verið mín upplifun í samskiptum við trúleysingja, þ.e. að þeir eru flestir mjög skeptískir og gagnrýnir í hugsun. Ætli þetta endurspegilst ekki best í Kjaftæðisvaktinni.
Maður á aldrei að alhæfa vegna þess að allar alhæfingar eru rangar!
:-)
Þess má geta að Hitler notaði mikið af alhæfingum.
Mig vantar sönnun fyrir því að Jesú kristur sé til, eru einhverjar ?
Trúleysi er ekki trú, en öfgatrúleysi er það frá ákveðnum sjónarhóli. Rétt eins og kristnir, íslamistar, heiðnir og hvað sem þessi trúarbrögð öll kallast hafa öfgatrúleysingjar myndað sér ákveðna skoðun í trúmálum sem fátt, ef eitthvað, fær haggað. Rétt eins og trúaðir halda þeir því skýlaust fram að þeirra "trúleysi" sé rétta trúarsýnin þótt þeir geti ekkert sannað í þeim efnum frekar en hinir sem þeir kalla trúaða.
Anti-rökin um að safna ekki frímerkjum sé samt frímerkjasöfnun eiga ekki við frekar en að halda því fram að þeir sem eru ekki í Sjálfstæðisflokknum séu þar með ekki pólitískir.
Menn geta verið niðursokknir í frímerkjasöfn þótt þeir safni ekki frímerkjum sjálfir. Það er líka til fullt af bílaáhugamönnum sem eiga ekki bíl. Það eitt gerir þá samt ekkert að minni áhugamönnum um bíla en þá sem eiga heilt safn af bílum.
Öfgatrúleysingjar eins og þeir sem eru í Vantrú eru gjörsamlega niðursokknir í trú, hugsa um trú, kynna sér trú, lesa um trú, tala um trú, skrifa um trú og andmæla trú annarra hvar sem færi gefst, rétt eins og öfgatrúmenn gera.
Það er ekki það sem fólk segir heldur það sem fólk gerir sem skilgreinir það. Og félagar í Vantrú, og þeir aðrir sem aðhyllast þann klúbb, eru með trú á heilanum rétt eins og öfgatrúaðir. Þess vegna eru þeir í nákvæmlega sama flokki og "hinir trúuðu" þótt sjónarhornið sé annað.
ps. Og nú verður spennandi að sjá hvort mín skoðun verði flutt á spjallborðið vegna þess að ég "höndla ekki umræðuna". Það væri eftir þeim sem stýra Vantrú og þessu vefriti því staðreyndin er að rétt eins og öfgatrúaðir þá þola þeir ekki harða gagnrýni, ráðast á manninn frekar en skoðun hans eða reyna að eyða því sem hann segir.
Það að hafa áhuga á einhverju er ekki það sama og að trúa því. Nú hefur þú einstaklega mikinn áhuga á Vantrú, þú hugsar um Vantrú, kynnir þér Vantrú (að einhverju leyti að minnsta kosti), lest og skrifar um Vantrú. En samt ert þú ekki meðlimur í Vantrú og munt líklega seint telja þig slíkan.
Alveg á sama hátt geta trúleysingjar kynnt sér trú, lesið um hana og skrifað án þess að verða við það trúaðir eða stunda trúarbrögð. Að sama skapi verður bílaáhugamaðurinn sem ekki á bíl ekki bíleigandi af áhuganum einum saman.
Sem sagt, það stendur ekki steinn yfir steini í röksemdum þínum nú frekar en endranær.
Held að fólk sé heldur að hengja sig á orðinu "sameini" hérna. Á meðan ég tel orðið ekki alveg hentugt þar sem það birtist, hefði betur viljað "einkenni", þá myndi ég halda að höfundur sé að leika sér að hugtökum hér, líkt og að sameinast að trúa einhverju ekki, að iðka það að það trúi ekki o.s.frv.. Kannski bara skot í myrkri.
En það er ekki hægt að taka heitfengni eða ástríðu gagnvart málefni líkt og það sé trúarbragð eða þá trú yfir höfuð, því um leið og þú gerir það er hugtakið trú og trúarbragð orðið merkingarlaust. Svo einhver noti samlíkingu sem varðar sjálfstæðisflokkinn rétt, þá er það ekki trúarbrögð að vera í sjálfstæðisflokknum eða styðja málefni hans í hvaða formi sem það kann að vera trú eða trúarbragð. Af þessum ástæðum er fullyrðingin um að "öfga"trúleysi sé trú röng.
Trúleysi er ekki trú, en öfgatrúleysi er það frá ákveðnum sjónarhóli. Rétt eins og kristnir, íslamistar, heiðnir og hvað sem þessi trúarbrögð öll kallast hafa öfgatrúleysingjar myndað sér ákveðna skoðun í trúmálum sem fátt, ef eitthvað, fær haggað. Rétt eins og trúaðir halda þeir því skýlaust fram að þeirra "trúleysi" sé rétta trúarsýnin þótt þeir geti ekkert sannað í þeim efnum frekar en hinir sem þeir kalla trúaða.
Hérna, nei.
Til þess að teljast trúaður í þeim skilningi sem lagður er í orðið hér í greininni, og reyndar almennt þegar talað er um trú og trúleysi, verður einstaklingur eðli málsins samkvæmt að trúa einhverju.
Það að trúa ekki þessu einhverju gerir einstakling ekki trúaðan, alveg sama hversu miklum tíma hann ver í að kynna sér trú og trúarbrögð.
Viðkomandi tekur afstöðu í trúmálum er líklega það sem þú ert að lýsa.
Ég ætla að vitna í Berg Ísleifsson hér að ofan: " Rétt eins og trúaðir halda þeir því skýlaust fram að þeirra "trúleysi" sé rétta trúarsýnin þótt þeir geti ekkert sannað í þeim efnum frekar en hinir sem þeir kalla trúaða." Tilvitnun lýkur.
Hér klikkar Bergur á grundvallaratriði.
Sönnunarbyrðin er alfarið á herðum trúmannsins. Okkur trúleysingjum ber ekki að sanna eitt eða neitt.
Einfalt dæmi:
Áður en nokkur þekking um tunglið varð til gerði trúleysinginn sér engar grillur um hvað tunglið væri utan þess sem hann gat séð með eigin augum, eitthvað kringlótt sem lýsti af. Hann hafði því ekkert að sanna. Svo kom trúmaðurinn með kenninguna um að tunglið væri úr osti. Er þá ekki rétt að hann sanni það.
Ég held að trúleysi sé oft kallað trú eða "lífsskoðun" er sú að þegar við flokkum manneskju eftir því hvaða trúfélagi hún tilheyrir hlýtur trúlaus manneskja að tilheyra flokknum trúlaus. Þar með er enginn að segja að þessu fylgi eitthvað sem venjulega fylgi trúariðkun.
Spurningin um hvers vegna trúlausir virka stundum eins og þeir séu að tala niður til annara.
"Heimskulegt vs. gáfulegt voru þín orð en ég get svo sem gert þau að mínum."
Hugmyndin um að það sem sameini trúlausa sé gagnrýnin hugsun? Er það ekki svolítið eins kappakstursbílstjórinn sem segir að það sem sameini sína starfsstétt sé fyrst og fremst einstakt hugrekki.
Það er margt sem sameinar trúlausa. Langstærst þar á meðal er t.d það að tilheyra ekki trúfélagi. En þegar trúleysingjanum finnst gagnrýnin hugsun vera helst sameiningartákn sinna skoðanabræðra er ekki skrítið að einhverjum finnist það óþarfa hroki.
"Í langflestum tilfellum þarf hinn trúlausi að brjótast út úr hefðum og vana"
Mikið hefur áreiðanlega verið erfitt að synda á móti hörðum straumi trúarinnar. Þegar ég var í grunnskóla og seinna menntaskóla voru ekki nema allir vinir mínir alveg sammála um hversu fáránleg, sögulega hræðileg og rökfræðilega kölröng trú væri. Við vorum öll alveg gáttuð á því að trúarbrögð væru ennþá til, það gæti enginn mögulega tekið þessu alvarlega. Það þýðir ekki að við höfum verið einhverjir meistarar gagnrýninnar hugsunnar sem börðust gegn viðmiðum samfélagsins.
Persónulega finnst mér orðræða margra trúleysingja vera óþarflega tilfinningaleg. Er einhver sem bannar Siggeiri að birta svona mynd á facebook? Haldið þið að íslenskir prestar geti ekki hlegið að svona húmor?
Er ekki íslenska kirkjan meira bara siðir og venjur? Að grafa ástvini sína í kirkjugarði. Að gifta sig í kirkju. Er hvíti brúðarkjóllinn ekki meira bara venja? Eru margar konur sem eru nauðbeygðar til að giftast í hvítu af trúarlegri sannfæringu, þrátt fyrir að þær hefðu viljað giftast í öðru?
Megatron, sem skrifar hér að ofan segir að vísu lítið nýtt, en þar sem tilvitnanir innan gæsalappa eru í báðum tilvikum hafðar eftir mér langar mig að svara honum. Tilvitnun hans í orð mín:"Heimskulegt vs. gáfulegt voru þín orð en ég get svo sem gert þau að mínum." á að vera dæmi um það hvernig trúleysingjar tala að hans mati niður til annarra.
Skoðum þetta aðeins. Trúað fólk sem heldur því statt og stöðugt fram að til sé guð sem öllu stjórnar og öllu ræður og hafi skapað alheiminn með miðjuna fyrir botni Miðjarðarhafsins fyrir 4000 árum (núna rétt áðan í jarðsögulegu samhengi) á það ekki skilið að rætt sé við það á vitsmunalegum jafnréttisgrundvelli. Flóknara er það nú ekki.
Varðandi seinni tilvitnunina: "Í langflestum tilfellum þarf hinn trúlausi að brjótast út úr hefðum og vana". Með þessu er ég ekki að halda því fram trúleysingjar þarfnist vorkunar, heldur miklu fremur að benda á það hvað hefðir og venjur geta gefið rangar forsendur.
Megatron segir sjálfur: "Er ekki íslenska kirkjan meira bara siðir og venjur?" , og hittir þar naglann á höfuðið. Ef trúarbrögðin snerust bara um guðsruglið værum við sjálfsagt löngu búin að henda þeim eins og hverju öðru úreltu rusli. Það sem festir þau í sessi og gerir þeim kleyft að sjúga til sín milljarða af almannafé er hinsvegar allar hefðirnar og venjurnar sem fólki er farið að þykja vænt um og rugla okkur í ríminu.
1) Ok, trúleysi er í mínum huga lífsskoðun. Sammála? Flott! Hjá mörgum er þetta afstaða um að yfirnáttúrlegir hlutir séu ekki til. Síðan má rífast um það hvort að afstaða til yfirnáttúrlegra hluta sé trú en í rauninni er þetta yfirleitt bara rifrildi um hvernig fólk hugsar um og skilgreinir "trú" (trú á eitthvað yfirnáttúrlegt eða einfaldlega afstaða í trúmálum).
2) Atheism vs. Agnosticism skiptir máli finnst mér! Ég ætla að láta hér við sitja í bili með þennan punkt...
3) Það má auðveldlega deila um hvort raunveruleg gagnrýnin hugsun sé virkilega eitthvað sem trúlausir eiga frekar sameiginlegt með hvor öðrum... en það er allt önnur umræða.
@Benjamín, varðandi fyrsta punktinn:
Þetta hljómar allt saman skynsamlega hjá þér og ég get verið sammála þessum staðhæfingum. Vandamálið sem felst í slíkum rökfærslum, þ.e.a.s. að skilgreina hugtök nákvæmlega og vel (sem er fínt) en ólíkt hvernig þau eru skilgreind í daglegu tali (jafnvel þótt sú "skilgreining" sé óljós og loðin), og gerir þær jafnvel óheiðarleg, er að ekki er hægt að ræða niðurstöðurnar við aðra án skilgreiningarinnar. Jafnvel þegar skilgreiningin er tekin fram er mikil hætta á að dags daglegi skilningurinn slæðist með.
Ég get samþykkt að nota orðið "trú" um eitthvað sem ég myndi kannski kalla eitthvað eins og "afstöðu til trúar á yfirnáttúru" í einhverjum rökræðum og komist að sameiginlegri niðurstöðu um það að ég, skv. þessari skilgreiningu, búi yfir einhverri "trú". Gott og vel. En viðmælandi minn er engu að síður að ljúga blákalt ef hann segir einhverjum í kjölfarið að ég sé trúaður.
Þá er spurning hvort það þjónaði einhverjum tilgangi að nota orðið "trú" í þessari merkingu, annan en að flækja málin og blekkja (eða "vinna" rökræðuna). Ég er farinn að halda ekki.
@gös
Já, ég er persónulega farinn að aðhyllast lífsskoðunar hugtakið í umræðum um hvar trúleysingar standa en á sama tíma þá er það ekki fullkomið hugtak. :)
@gös
Já, ég er persónulega farinn að aðhyllast lífsskoðunar hugtakið í umræðum um hvar trúleysingar standa en á sama tíma þá er það ekki fullkomið hugtak. :)
Mér finnst lífsskoðunarhugtakið einfaldlega alltof víðfemt til þess að trúleysi eitt og sér geti talist lífsskoðun. Trúleysi felur ekki í sér eitthvað hugmyndakerfi sem viðkomandi gengst undir eins og lífsskoðanir (t.d. húmanismi) gera.
Það tók ekki langan tíma að sannreyna Godwin's Law á þessum þræði, og það hugsanlega full oft og full snemma (þ.e. í lok pistils) :)
Reductio ad Hitlerum er eitthvað sem ég tel að allir þenkjandi menn ættu að forðast eins og heitan eldinn. Málefnaleg umræða án Hitler er ánægjulegri en ella.
Guð blessi ykkur. Djók!
Sæll Maggi.
Það er rétt hjá þér, þetta var nú meira til gamans gert og til að koma þessum leiðindum frá strax :)
Trúleysi er trú , sú trú að það sé siðferðilega rangt að vera trúaður. Það er ekki hægt að vera algjörlega trúlaus.
Trúleysi er trú og það er ekki hægt að vera algjörlega trúlaus. Ég er engu nær!
Nú vill svo til að ég tel mig trúlausan og hef gert um nokkurt skeið. En aldrei hefur mér dottið það í hug að það sé siðferðislega rangt að vera trúaður. Satt best að segja held ég að það heyri til algjörra undantekninga að trúleysingjar aðhyllist slíka skoðun. En mikið væri það vel af þér gert ef þú gætir vísað á svona eins og 2-3 dæmi um slíkan málflutning svo ég geti fordæmt slíkt með þér.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Eiríkur Kristjánsson (meðlimur í Vantrú) - 03/07/12 09:44 #
Veistu hver líkti líka andstæðingum sínum við Hitler?
Hitler.