Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gegn boðun hindurvitna

Það kemur fyrir að gagnrýnendur Vantrúar ásaka okkur um öfgar án þess að kynna sér málflutning okkar eða tilgang. Þannig er því jafnvel haldið fram af meintum trúleysingjum að vandinn við Vantrú sé að við krefjumst þess að allir aðrir séu trúlausir! Starfi okkar er líkt við trúboð, góðlátleg mótmæli verða til þess að kverúlantar líkja okkur við Talibana og okkur er jafnvel líkt við fasista í athugasemdum á þessari síðu.

Hugsanlega er við okkur að sakast. Vissulega mætti bæta þessa síðu þannig að auðveldara væri fyrir fólk að afla sér upplýsinga um félagið og fyrir hvað það stendur. Eflaust mætti skrifa betri greinar, vanda málflutning og skerpa áherslur í einhverjum tilvikum. Samt myndi það vafalaust ekki koma í veg fyrir allan misskilning því það virðist sem sumir rembist við að gera okkur upp skoðanir.

Af hverju er Vantrú til? Hvernig stendur á því að hópur trúleysingja stofnar vefsíðu til þess eins að gagnrýna trúarbrögð og önnur hindurvitni í samfélaginu? Hvað er eiginlega að þessu fólki, er það ekki alveg jafn slæmt og trúboðarnir sem ganga í hús og reyna að boða einhverja útgáfu af kristnidómi?

Vantrú er til vegna þess að það vantaði mótvægi hér á landi. Trúarbrögð og önnur hindurvitni eru boðuð af miklum móð. Gagnrýni á hindurvitni er aftur á móti afar sjaldgæf og það heyrir til undantekninga þegar fjölmiðlar nenna að skoða vafasamar fullyrðingar gaumgæfilega.

Þjóðkirkjan fær gríðarlegt fjármagn á hverju ári til þess að troða sínum hindurvitnum út um allt þjóðfélagið. Heljar bransi er í kringum allskonar kukl og fjöldi fólks hefur atvinnu af því að selja öðrum kjaftæði. Vantrúarsinnar láta það ekki trufla sig þó margt fólk hafi kjánalegar hugmyndir. Við gerum okkur grein fyrir því að það er ekki raunhæft markmið að allir hætti að trúa öllu kjaftæði. Markmið Vantrúar er ekki að binda enda á trúarbrögð, banna fólki að dýrka sinn gvuð eða leita til uppáhalds skottulæknis síns - það er augljóslega ekki mögulegt.

Við viljum vissulega banna fólki að selja þjónustu sem það getur ekki staðið við – en fjandakornið, snýst ekki öll neytendavernd um það? Við viljum einnig banna trúfélögum að stunda trúboð í leik- og grunnskólum – en fjandakornið, þarf eitthvað að deila um slíkt?

Það þarf að vera eitthvað mótvægi. Það þarf einhver að nenna að benda á vafasamar fullyrðingar og sýna fram á af hverju þær standast ekki. Ef enginn sinnir því verður ójafnvægi. Þegar fólk kynnir sér hindurvitni er hætt við því að það fái einungis upplýsingar frá þeim sem hafa fjárhagslega hagsmuni af því að selja það tiltekna bull og þeim sem hafa fallið fyrir áróðri þeirra. Vantrúarsinnar hafa enga fjárhagslega hagsmuni af starfi félagsins. Við græðum ekkert á þessu annað en hreina samvisku. Flestir vilja standa hjá og leiða bullið hjá sér í sínu sinnuleysi en sum okkar getum það ekki. Okkur finnst við knúin til að gera eitthvað.

Ef hindurvitni væru ekki boðuð væri Vantrú ekki til. Flóknara er þetta ekki.

Matthías Ásgeirsson 24.09.2007
Flokkað undir: ( Efahyggja , Vantrú )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 24/09/07 10:54 #

Heyr, heyr. Þetta er einmitt kjarni málsins.


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 25/09/07 09:54 #

Flott greining. Furðulegur andskoti að bríksla vantrúuðum að vilja gera heimsbyggðina sömu skoðunnar. (eins og sumir....)

Misskilningurinn gæti legið í því að fólk getur ekki séð fyrir sér hugmyndafræði án praktískrar tengingar. Mér fannst hugleiðing Sam Harris um trúleysi ferlega sniðug. Trúleysi er í raun ekki hugmyndafræði. Ekki frekar en fyrirbæri á borði við "ekki-stjörnufræði" eða "ekki-efnafræði". Enginn maður hefur vakanað á morgnanna uppfullur af hugmyndum um "ekki-jarðfræði"

Trúleysi er í rauninni ekki hugmyndafræði heldur röklegt viðbraðg við órökrænum hugmyndum....


Sigurður Karl Lúðvíksson - 28/09/07 13:31 #

Það er eiginlega mjög undarlegt að vantrú og aðrir trúleysingjar verður fyrir meiri aðkasti og nafnahrópunum vegna einnar heimasíðu og örfárra (alltof fárra) viðtala, heldur en kirkjan, sem treður trúnni ofan í kokið fólki, helst börnum, hvar sem hún kemur því við. Er það kannski vegna þess að fólk er orðið vant því, eftir nokkur árhundruð af slíkri meðferð, og bregst því við með þessum hætti?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 28/09/07 14:53 #

Ég veit ekki hvað veldur - en þetta verður stundum dálítið hvimleitt.

Sérstaklega þegar gagnrýnendur koma með blaður eins og við á Vantrú gerum ekki greinarmun á trú og trúarbrögðum! Heldur fólk virkilega að við séum ekki búin að pæla dálítið í þessum málum síðustu fjögur ár?


Sigurður Karl Lúðvíksson - 28/09/07 17:22 #

Ég fæ nú oft á tilfinninguna að fólki bregður þegar það áttar sig á í samtali við trúleysingja, að sá ótrúaði er búinn að pæla miklu meira í trúnni en sá trúaði, og veit jafnvel miklu meira um hana. Það er oft þannig, en auðvitað ekki alltaf (set þetta svona inn til að vera ekki vændur um alhæfingar :) )


Hólmfríður Pétursdóttir - 26/05/09 22:45 #

Matthías, þakka þér fyrir heiðarleg svör. Ég hef líka reynt að vera eins heiðarleg og ég mögulega get.

Samt er það sennilega mér að kenna að ég hef einblínt um of á það í málflutningi ykkar sem ég er að mikluleyti sammála, sem er um jafna stöðu allra gagnvart þjónustu hins opinbera,eins og ég held að hafi komið fram í málflutningi mínum (þó ég sé ekki sammála ykkur um fjármál kikjunnar)

Ég geri nú ekki ráð fyrir að þið haldið til haga skoðunum ykkar helstu viðmælenda,en ég man varla hvað ég hef skrifað og geri enga kröfu um að vera í hópi helstu.

Ég gerði mér bara ekki grein fyrir því að þið lituð á trú sem hindurvitni og hefðuð það að markmiði að vinna gegn boðun trúar almennt, sem ég hefði átt að vera búin að fatta.

Ég hef sem sagt byggt allt mitt líf á hindurvitnum samkvæmt skilgreiningu þinni.

Ég svaraði í rauninni tvisvar sömu athugasemd þinni hjá Svavari því ég var búin að gleyma þeirri fyrri.

Ég tek trú mína mjög alvarlega, og finnst Jesús Kristur undirstaða lífs míns.

Það er von að þú skildir ekki hvað ég var að reyna að segja.

Ég virði ykkur og ykkar málflutnng en ég hlýt líka að hafa sama rétt til að verja það sem er mér eitt og allt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/05/09 23:24 #

Athugasemd Hólmfríðar er framhald af athugasemdum á bloggi séra Svavars.

Ég hef sem sagt byggt allt mitt líf á hindurvitnum samkvæmt skilgreiningu þinni.

Ég vona að þú hafir ekki byggt allt þitt lif á hindurvitnum. Mér þætti það sorglegt.


Hólmfríður Pétursdóttir - 27/05/09 00:33 #

Þetta kalla ég fyrsta flokks agnostískt svar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/05/09 00:51 #

Ef þú hefur "byggt allt líf þitt" á kristinni trú, þá hefur þú byggt það á hindurvitnum.

Ég hef bara ekki nokkra trú á því að þú (eða nokkur annar) hafir gert það.


Hólmfríður Pétursdóttir - 27/05/09 00:58 #

Þarna skjátlast þér hrapalega. Ég tek áhættuna, því það sem þú kallar hindurvitni er fyrir mér það eina sem er öruggt. Það hefur ekkert að gera með mikið vit eða lítið. Lítið sem ekkert með tilfinningar að gera, en allt með ákvörðun og trú að gera.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.