Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvaða einelti?

Eins og frægt er orðið hefur félagið Vantrú lagt Bjarna Randver Sigurvinsson (BRS), stundakennara og nemanda við Háskóla Íslands, í einelti. Sjálfur hefur stundakennarinn neyðst til þess að grípa til varna. Við skulum, til fróðleiks, skoða í hverju hið meinta einelti fólst og hvernig kennarinn varðist.

Hið meinta einelti

Eftir að hafa fengið upplýsingar um að í námskeiði við Háskóla Íslands væri fjallað um Vantrú með ansi sérstökum hætti áskotnuðust félaginu glærurnar sem BRS notaðist við þegar hann fjallaði um félagið og trúleysi. Ákveðið var að að senda erindi til siðanefndar HÍ þar sem félagsmönnum þótti á sér brotið.

Eitt helsta hlutverk siðanefndar er einmitt að fjalla um slík mál. Vantrú tók vel í allar sáttatillögur sem lagðar voru fram í málinu auk þess sem að félagið sýndi siðanefnd ríkan samstarfsvilja. Auk kærunnar ákvað félagið að fjalla um glærurnar á vefriti sínu.

Í ofangreindu felst allt „eineltið“ sem Vantrú beitti stundakennarann.

Varnir kennarans við „eineltinu“

Varnir BRS við þessu heiftarlega ofbeldi þurftu augljóslega að vera harðskeyttar. Öllum sáttum sem siðanefnd og aðrir leituðust við að ná í málinu var hafnað.

Stuttu eftir að siðanefnd hóf að vinna í málinu fékk BRS Guðna Elísson (GE), kennara við Hugvísindasvið HÍ, með sér í lið.

GE kom á fundi innan HÍ þar sem lögð var fram tillaga þar sem ráðist var á störf siðanefndar og formanns hennar. Tveir formenn störfuðu í siðanefnd á þeim tíma sem málið var til umfjöllunar og hafa þeir báðir þurft að þola árásir vegna þess. Gríðarleg pressa var sett á siðanefndina af BRS og stuðningsmönnum hans, með GE fremst í flokki.

Þegar um hálft ár var liðið frá því málið hófst varð BRS sér úti um stolin gögn af lokuðu spjallvef Vantrúar. Þar var um að ræða trúnaðargögn; einkasamræður meðlima félagsins sín á milli sem fram fóru í algjörum trúnaði. Þjófnaðurinn á gögnunum hefur verið kærður til lögreglu.

Dreifing trúnaðargagna

Stundakennarinn nýtti þjófstolnu gögnin óspart sem vörn í málinu. Þeim hefur verið dreift víða, bæði innan og utan HÍ. Þetta gerði BRS þó ekki fyrr en eftir að hann hafði meðhöndlað gögnin þannig að þau hentuðu þeirri mynd sem hann vildi draga upp af félaginu og félagsmönnum.

Að lokum hafa BRS og stuðningsmenn hans ítrekað farið í fjölmiðla með málið. Má þar nefna Pressuna, Morgunblaðið og, nú síðast, Kastljós. Í öll þau skipti var notast við skrumskælingu af þjófstolnu trúnaðargögnunum eins og ekkert væri sjálfsagðara. Slíkt er augljóst brot á lögum.

Í þessu máli hefur BRS ekki bara látið sér nægja að verjast siðanefndarkærunni, sem hefði þó átt að vera aðalatriðið. Þvert á móti hefur aðalatriðið verið að reyna að koma höggi á félagið Vantrú og einstaka félagsmenn. Meðlimir í félaginu hafa þegar fundið fyrir því, en trúnaðargögnin virðast hafa fengið mikla og nánast kerfisbundna dreifingu um háskólasamfélagið og víðar.

Nokkur von um sátt?

Kröfur Vantrúar voru ekki miklar. Félagið vildi að sýndur yrði skilningur á umkvörtunarefnum sínum og að tryggt yrði að bragarbót yrði gert á. Hvort að um formlega áminningu yrði að ræða var ekki aðalatriðið.

Það er fráleitur hugarburður Bjarna Randvers að félagið hafi viljað útiloka hann frá kennslu. Enda er erfitt að sjá hvernig sættir í málinu myndi þýða slík málalok. Sættir sem Vantrú var alltaf tilbúin til að fallast á en ekki kennarinn og hans fólk.

Ef dómar vegna ritstuldar duga ekki til að útiloka menn frá kennslu er erfitt að sjá hvernig sættir í þessu máli hefðu átt að koma því til leiðar.

Egill Óskarsson 06.12.2011
Flokkað undir: ( Háskólinn )

Viðbrögð


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 06/12/11 17:29 #

Vantrú svarar fyrir sig @ mbl.is


Benjamín - 06/12/11 18:32 #

Takk fyrir þetta innlegg í umræðuna í dag. Gott að sjá einhliða umfjöllun um hina hliðina á þessu máli.

Það sem mér leikur forvitni á er að ef að meðlimur Vantrúar hefur veitt Bjarna aðgang eða afrit af umræðunum frá lokaða spjallinu, er það þá brot af hálfu Bjarna?


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 06/12/11 18:36 #

Nei, líklega ekki. En dreifing þeirra gagna til þriðja aðila gæti talist lögbrot.

Og já, auðvitað er þessi umfjöllun einhliða. Vantrú er hins vegar ekki fjölmiðill og um félagið gilda ekki jafnræðisreglur eins og gilda t.d. um RÚV.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 06/12/11 19:24 #

Ég get ekki annað en varað almenning að gera minnstu tilraun til að gera athugasemdir við kennslu hjá kennurum HÍ sem starfa samhliða í verkefnum fyrir biskupstofu. Þá má fólk eiga von á að fá yfir sig lögfræðing biskupstofu ásamt vel útfærðri pr. fjölmiðlaárás. Viðbrögðin minna mjög viðbrögð költ samfélaga. Þau eru í raun rannsóknarefni fyrir óháðan trúarbragðafræðing.


Jóhann - 06/12/11 22:07 #

Kjarni þessa máls í dag er þessi:

Gerðar voru athugasemdir við kennslu og framgögnu kennara við Háskóla Íslands. Skólinn reyndist ófær um að fjalla um erindið og leiða málið til lykta.

Hvort Bjarni Randver talaði illa um Vantrú eða hvort félagar í vantrú hnýttu í Bjarna Randver er orðið að aukaatriði í stóra samhenginu.


Marinó Muggur - 07/12/11 00:21 #

Er vantrú að fara frammá ritskoðun á umfjöllun um sjálfa sig? Hljómar soldið kunnulega enn úr allt annarri átt... Ég skil orð kennarans að vilja ekki leita sátta því í því felst að hann hafi gerst brotlegur. Svo er hér skrifað um ægilegan þjófnað á gögnum þar sem einstaklingur er niðurnýddur á lokuðusvæði á veraldarefnum. (sjá umræðu um upplýsingavernd wikilíks)

Hvað telur vantrú að sé hæfilegt akademískt tjáningafrelsi? Og hver er ábyrgð nemandi við rökhugsun?


G2 (meðlimur í Vantrú) - 07/12/11 00:31 #

@Marino Muggur

Ef þú kemur þessari athugasemd frá þér á óbrjálaðri íslensku er e.t.v. hægt að svara þér. Hvað meinar þú eiginlega?


J-Bob - 07/12/11 04:59 #

@G2

Íslenskan hjá Marínó er fín og spurningar hans og komment skýrar. Ekki fela þig á bak við eitthvað svona bull.


J-Bob - 07/12/11 05:18 #

Var að lesa greinina á mogganum. Verð nú að segja að þó það kunni að vera að upphaflega kæran hafi mögulega haft eitthvað til sín þá hefur framganga meðlima Vantrúar og léleg vinnubrögð siðanefndar algjörlega varpað skugga á það allt saman. Ég vona að þið farið nú að átta ykkur að fólk er þreytt á svona öfgum og að þið grafið gjörsamlega undan sjálfum ykkur með svona framgöngu. Þetta kallast víst að skíta upp á bak.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 07/12/11 08:08 #

Nei Vantrú er ekki að fara fram á ritskoðun eða stýringu á umfjöllun um sig. Við höfðum efasemdir um að þessi tiltekna umfjöllun um okkur stæðist siðareglur HÍ og akademíska standarda. Hér er hægt að skoða hvað málið snerist um: http://www.vantru.is/haskolinn/

Og J-Bob. Hvaða framganga meðlima Vantrúar? Ertu að meina tilvitnanir í einstaka meðlimi frá því áður en kæran var lögð fram? Eða ertu að meina það sem slitið er úr samhengi úr umræðum á lokuðu vefspjalli?


Guðbjörn Jónsson - 07/12/11 09:47 #

Tvennt finnst mér vanta í þessa umfjölluun ykkar svo hún fái skýran trúverðugleika. Það er í fyrsta lagi að þið birtið glærurnar frá kenaranum, sem þið nefnið og hins vegar að þið birtið bréf ykkar til siðanefndar og önnur samskipti við háskólann. Annars gat ég ekki skilið kastljós þannig að kæra Vantrúar væri stóra atriðið í málinu. Ekki var hægt að skilja umfjöllunina öðruvísi en sem harða gagnrýni á vinnubrögð siðanefndar HÍ.

Gangið á Guð vegum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/12/11 09:52 #

Það er í fyrsta lagi að þið birtið glærurnar frá kenaranum, sem þið nefnið

Við birtum allar glærurnar á sínum tíma (sjá vísanir neðst í færslu).

birtið bréf ykkar til siðanefndar og önnur samskipti við háskólann

Í þessari færslu er bréf okkar til forseta guðfræðideildar. Bréf til siðanefndar og rektors voru mjög svipuð held ég (sama gagnrýni á glærur).

Hvaða önnur samskipti okkar við HÍ telur þú eiga erindi til almennings?


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 07/12/11 09:54 #

Guðbjörn, skoðaðu það sem við höfum þegar birt um málið.

http://www.vantru.is/haskolinn


Harpa Hreinsdóttir - 07/12/11 12:06 #

Ég bendi á að kennarinn umræddi á höfundarétt á glærunum og Vantrú hefur því brotið höfundaréttarlög með því að birta þær án leyfis hans. Af því ykkur er svo í mun að farið sé að lögum reikna ég með að þið takið ábendingunni fagnandi ;)


caramba - 07/12/11 12:24 #

Það er ýmislegt í máli vantrúarmanna sem mér sem ókristnum en trúuðum manni finnst nauðsynlegt að verði rætt í fullri hreinskilni. Þýðing Reynis á Dawkins var gott innlegg og hefði átt að vekja meiri umræðu um valdastrúktúra viðtekinna trúarbragða. En sú illmælgi og beiskja sem einkennir skrif sumra ykkar, að ekki sé talað um vanþekkingu og hreina heimsku þess háværa minnihluta, sem stundum stingur hér upp ófrýnilegum kollinum, hefur skaðað alla umræðuna. Þið ættuð einfaldlega að viðurkenna þetta og hætta að sprikla í snörunni, hún herðir bara meira að.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 07/12/11 12:37 #

Þar sem að á glærunum eru birtar höfundarréttarvarðar ljósmyndir, sumar hverjar eftir meðlimi Vantrúar, er ég nú ekki viss um að höfundi glæranna sé umhugað um höfundarrétt.


Jon Steinar - 07/12/11 15:18 #

http://helgi-ingolfsson.blog.is/blog/helgi-ingolfsson/#entry-1209885


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/12/11 18:09 #

Ég skil orð kennarans að vilja ekki leita sátta því í því felst að hann hafi gerst brotlegur.

Það get ég líka alveg skilið. Það felst viss áfellisdómur í sáttum.

En að Bjarni hafi þá ekki leyft siðanefnd að komast að niðurstöðu í málinu, fyrst hann er svona viss um að ekkert sé að glærunum, heldur þyrla upp moldviðri og neita að tala við nefndina, það bendir til þess að hann viti upp á sig skömmina þegar kemur að þeim (glærunum).


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 07/12/11 18:47 #

Er ekki rétt munað hjá mér að síðustu sáttahugmyndir hafi gengið út á að gleyma þessu máli og tryggja faglega umfjöllun um trúleysi í framtíðinni? Nokkuð sem Vantrú samþykkti (kannski ekki allir sáttir) en "lið" kennara hafnaði.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/12/11 18:50 #

Jú, það er rétt munað. Í síðustu sáttahugmynd fólst að Vantrú myndi draga málið til baka og að unnið yrði að riti um trúleysi á Íslandi á 20. öld (minnir mig). Vantrú átti ekki að fá eina krónu eins og ranglega var haldið fram í fjölmiðlum. Þessi hugmynd kom að ég held frá guðfræðideild. Stuðningsmenn Bjarna Randvers komu í veg fyrir hana þrátt fyrir að þessi leið hefði ekki leitt til neins "dóms" yfir Bjarna.

Stuðningsmenn BRS mega gjarnan koma með skýringu á þessu.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 07/12/11 19:21 #

Það yrði fróðleg skýring.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 07/12/11 20:03 #

Ástæðan fyrir því að ekki náðist sátt er að ríkiskirkjan og ákveðin stjórnendakjarni hennar bregst við eins og költ. Viðbrögðin eru mjög sambærileg og hjá vísindakirkjunni: Engar mögulegar sættir eða viðræðugrundvöllur í ferlinu. Fórnarlambaleikrit, píslavottakomplexar og hræðsla við mótaðilann. Einn dýrasti biskupstofulögfræðingur bæjarins, þjófstolin gögn, óeðlileg söfnun persónuupplýsinga og massífur ofbeldisfullur pr. áróður. Þessi viðbrögð eru mjög merkileg og verðugt verkefni fyrir alvöru trúarbragðafræðing til að rannsaka.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.