Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Aðför Guðna Elíssonar að siðanefnd HÍ og Vantrú

Háskóli Íslands

Vegna frétta á Pressunni vill Vantrú svara nokkrum atriðum.

Eins og fram kom í umfjöllun Vantrúar sem Pressan vísar á og vitnar í dró Vantrú kæru sína á hendur Bjarna Randver til baka vegna þess að siðanefnd Háskóla Íslands hafði ekki fengið vinnufrið og ljóst var að sá friður myndi aldrei nást í þessu máli. Fremstur í hópi þeirra sem trufluðu friðinn var Guðni Elísson. Vantrú hefur aldrei óttast úrskurð siðanefndar en fylgismenn Bjarna Randvers hafa gert allt sitt til að koma í veg fyrir að hann verði kveðinn upp. Ljóst er að ef kvörtun Vantrúar hefði ekki haft rökstutt vægi þá hefði siðanefnd verið fljót að vísa málinu frá eða úrskurða um sýknu Bjarna Randvers og stuðningsmenn hans ekki þurft að beita óvönduðum meðulum.

Vantrú minnir á að í glærum Bjarna Randvers var slíkur fjöldi af rangfærslum og ósannindum um félagið að tilgangurinn hlýtur að hafa verið sá að rægja það. Í því samhengi er rétt að benda á að Bjarni Randver starfar fyrir Þjóðkirkjuna.

Lýsingin á tilkomu svokallaðrar sannleiksnefndar er ákaflega vafasöm og má segja að Bjarni Randver sé þar að ásaka rektor um að hafa blekkt Vantrú. Ein af forsendum þess að Vantrú dró erindið til baka var að stofnuð yrði óháð nefnd til að rannsaka sögu málsins, þar með talið tilraunir utanaðkomandi aðila til að hafa áhrif á störf siðanefndar. Því til staðfestingar má benda á minnisblað rektors frá 28. apríl, fyrir fund háskólaráðs og sama dag og Vantrú dró erindið til baka. Vegna þess að siðanefnd hefur tekið kvörtun Vantrúar alvarlega hafa Bjarni Randver og fylgismenn hans ráðist ítrekað á nefndina. Einn formaður nefndarinnar sagði af sér vegna slíkra árása.

Af einstökum ásökunum í greininni má nefna eftirfarandi tilvitnun í Guðna Elísson um meintar árásir Vantrúar á Bjarna Randver: "... þar sem því var m.a. haldið fram að hann hafi í kennslu sinni boðað að allir trúleysingjar séu gyðingahatarar." Guðna Elíssyni er bent á að ef þetta sé satt þá hljóti hann að geta bent á hvar og hvenær þessu var haldið fram.

Því er ennfremur haldið fram að fyrrverandi formaður Vantrúar hafi fengið nemanda utan guðfræðideildar til þess að sitja námskeið Bjarna Randvers í þeim tilgangi að njósna um kennsluna. Það er einfaldlega lygi enda komu glærurnar frá aðila sem fór í námskeiðið í tengslum við nám sitt. Ef Vantrú hefði haft raunverulegan áhuga á því að njósna um Bjarna Randver þá hefði verið minnsta mál fyrir einhvern félagsmann að skrá sig í námskeið hans. Að minnsta kosti tveir meðlimir í Vantrú hafa tekið námskeið í guðfræðideild þrátt fyrir að hafa áður skrifað greinar á vefritið (þar á meðal fyrrverandi formaður félagsins sem fékk hæstu einkunn í sínu námskeiði).

Lýsingar Guðna Elíassonar á því sem fram fór á innra spjallborði Vantrúar eru einfaldlega hreinn og klár skáldskapur. Í téðri grein okkar um þetta mál sagði að stuðningsmenn Bjarna Randvers hefðu "afhjúpað sig algjörlega". Orð þau, sem höfð eru eftir Guðna Elíssyni í Pressunni, hnykkja ágætlega á þessu þar sem hann heldur því blákalt fram að núverandi formaður Vantrúar skilgreini málið sem "heilagt stríð" og "einelti" og Vantrúarmenn liggi yfir því hvernig best sé "að skapa með [Bjarna Randveri] vanlíðan og kvelja hann og þá sem honum tengjast".

Kannski trúir Guðni þessu en þetta er illmælgi og rógur. Sannleiksgildi þessara óra hans er jafnmikið og hinna að Vantrú og siðanefnd HÍ hafi átt "náið samstarf" "í að knésetja Bjarna Randver" eða að ætlun okkar hafi verið að "leggja hann og Guðfræði- og trúarbragðadeild að velli". Þetta er þvættingur. Þess má geta að gögnin sem Guðni vitnar í og túlkar svo ævintýralega eru stolin og þeir sem þau nota eru þjófsnautar (eða þjófar). Formaður siðanefndar og lögfræðingur Háskóla Íslands hafa fengið að skoða þessar umræður og rannsóknarnefnd mun fá sama aðgang.

Menn spyrja sig hvernig Bjarni Randver hafi fengið aðgang að gögnum af innra spjalli félagsins en við getum ekkert fullyrt um það hvort fleiri aðilar innan Þjóðkirkjunnar eða HÍ hafi komið þar nálægt. Það vakna þó vissulega upp slíkar spurningar þegar maður sem starfar fyrir kirkjuna kemst í slík trúnaðargögn.

Starfsmenn siðanefndar, sér í lagi báðir formenn hennar, forráðamenn Guðfræði- og trúarbragðadeildar, lögmaður og rektor Háskóla Íslands ásamt fleirum geta allir vitnað um að Vantrú reyndi alla tíð af fremsta megni og margítrekað að leysa málið með einhvers konar sátt eða samningi, ekki síst Bjarna Randvers vegna.

Við kvörtum ekki undan því að Pressan fjalli um málið þó nýjasta fyrirsögnin sé afar villandi og ærumeiðandi. Ekkert hefur verið haft samband við Vantrú við vinnslu fréttanna þriggja en ítarlega rætt við þá sem tengjast hinni hlið málsins.

Okkur hefði þótt eðlilegt að Pressan hefði haft samband við okkur vegna fréttaflutnings síns. Um leið bendum við öllum sem ræða við Bjarna Randver og Guðna Elísson um þessi mál að spyrja þá alltaf, þegar þeir vitna í það sem Vantrúarfólk á að hafa sagt, hvar og hvenær þau orð hafi fallið.

Mynd af aðalbyggingu frá Étienne Ljóni Poisson

Ritstjórn 11.05.2011
Flokkað undir: ( Háskólinn , Tilkynning )

Viðbrögð


Nemandi við HÍ - 11/05/11 09:18 #

Eftir að hafa lesið þessar greinar ykkar og þrjár fréttir Pressunnar hlýt ég að spyrja: Hefur Pressan einhver tengsl við guðfræðideild HÍ eða aðila málsins?

Fréttir Pressunnar virðast frekar áróðurskenndar, sérstaklega fyrirsögn þeirrar nýjustu. Eins og þið bendið á er skrítið að ekkert sé rætt við ykkur. Pressan má eiga það að vitnað er í grein ykkar um málið. Það verður áhugavert að sjá hvort Pressan vinnur eitthvað úr þessari grein.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/05/11 09:29 #

Ég veit ekki til þess að Pressan hafi tengsl við guðfræðideild. Fréttastjórinn var (er?) guðfræðinemi en maður hlýtur að treysta því að hann sé fagmaður þrátt fyrir þessa nýjustu fyrirsögn.

Í frétt Pressunnar kemur fram að Guðni Elísson hefur sent bréf til nemenda námskeiðsins til að safna vitnisburðum um kennslu Bjarna Randvers um Vantrú.

Það skýtur skökku við því Guðni Elísson barðist gegn því að siðanefnd Háskólans skoðaði ópersónugreinanlegar prófúrlausnir nemenda námskeiðsins. Ég hefði haldið að prófúrlausnir gæfu betri mynd heldur en vitnisburðir fólks löngu eftir atburð (kennslu).

Svo virðist sem Guðni Elísson telji það sitt hlutverk að rannsaka og dæma í þessu máli (án þess þó að ræða við Vantrú). Til hvers þarf Háskóli Íslands eiginlega siðanefnd þegar skólinn hefur Guðna?


Lesandi - 11/05/11 11:02 #

"[Æ]tli guðfræðiáhuginn hafi ekki komið bara með aldrinum, þegar maður reynir að leita svara við dýpri spurningum en bara þessum veraldlegu," útskýrir Steingrímur [Sævarr Ólafsson, ristjóri Pressunnar]sem hefur alið manninn undanfarna daga í Bóksölu stúdenta og sankað að sér hvers kyns heimspekiritum og trúfræðibókum. Hann segist jafnframt vera trúaður og fari því inn í námið á bæði sagnfræðilegum- og trúarlegum forsendum.

http://www.visir.is/article/20090112/LIFID01/65377949/-1

Og nóg hefur alla vega verið skrifað um presta á Pressunni.

http://www.pressan.is/search.aspx?type=0&catID=111&SearchString=prestur

Mér þykir það afar líklegt að Steingrímur Sævarr sé hreinlega kominn í "stríðið" og berjist með guðfræðideildinni þar sem hann nam.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 11/05/11 11:24 #

Það er magnað að orðið prestur komi 12.000 sinnum fyrir á pressan.is. Til samanburðar kemur það ekki nema 386 sinnum fyrir á vantru.is.


Finnur - 11/05/11 11:54 #

"..dró Vantrú kæru sína á hendur Bjarna Randver til baka vegna þess að siðanefnd Háskóla Íslands hafði ekki fengið vinnufrið og ljóst var að sá friður myndi aldrei nást í þessu máli."

En þið hafið greinilega ekki dregið kæruna til baka í þeim tilgangi að loka málinu.

Afhverju ekki að láta siðanefnd klára sitt verkefni, og hefja umræðu í kjölfarið?

Það að draga kæruna tilbaka og fara síðan af stað með samsæriskenningar hljómar ekki mjög sannfærandi.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 11/05/11 12:36 #

Við biðum árangurslaust í 15 mánuði ! eftir niðurstöðu siðanefndar. Margir hefðu gefist upp fyrr.

Ástæður þess að erindið var dregið til baka hafa verið tíundaðar hér.

Formaður nefndarinnar sagði af sér vegna atgangs stuðningsmanna kennarans og næsti formaður hafði lýst yfir að hann hyggðist gera það líka, af sömu ástæðu. Þessi leið var fullreynd.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/05/11 14:05 #

Það að draga kæruna tilbaka og fara síðan af stað með samsæriskenningar hljómar ekki mjög sannfærandi.

Hvaða samsæriskenningar eru það? Hér erum við að bregðast við fréttum á pressan.is og leiðrétta rangfærslur sem þar koma fram. Hver er samsæriskenningin?

Við drógum kæruna einmitt til baka til þess að loka málinu. Þar með er ekki sagt að við munum taka því þegjandi þegar menn segja ósatt um þetta mál og félagið almennt.


Finnur - 12/05/11 01:39 #

"Hvaða samsæriskenningar eru það?"

Sú kenning ykkar að siðanefnd komi aldrei til með að fá vinnufrið til að skera úr um kæruna.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/05/11 08:19 #

Það er ekki samsæriskenning heldur ályktun dregin af því hvernig stuðningsmenn Bjarna Randvers hafa hagað sér í þessu máli.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 12/05/11 08:26 #

Sumir læra af reynslunni, aðrir ekki.


Arnar Guðlaugsson - 12/05/11 08:31 #

Þessi pressan.is er löngu hætt að vera fréttavefur, þetta er orðið nýtt b2. Ekkert þar að finna annað en fyndin video af youtube og "Óli Tynes style fréttamenska" um skrýtna hluti sem gerast úti heimi en hafa ekkert vægi á líf okkar.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 12/05/11 09:03 #

Það má kannski nefna sem dæmi að Vantrú hefur aldrei gert athugasemdir við hæfi siðanefndarmanna. Á móti minnir mig að fylgismenn Bjarna Randvers hafi viljað dæma alla, eða flesta nefndarmenn vanhæfa. Meðal þess sem var nefnt sem ástæða fyrir meintri vanhæfni var að einn nefndarmaður hafði kennt óbreyttum félagsmanni í Vantrú.


Finnur - 12/05/11 10:47 #

"Það er ekki samsæriskenning heldur ályktun dregin af því hvernig stuðningsmenn Bjarna Randvers hafa hagað sér í þessu máli."

Hvort sem það er kenning eða ályktun, þá teljið þið ykkur vita betur en stjórnendur háskólans.

Rétt staðfesting á því sem ég hef haldið fram um ykkur, að þið standið í raun ekki fyrir neitt annað en eigið ágæti.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/05/11 10:54 #

Hvort sem það er kenning eða ályktun, þá teljið þið ykkur vita betur en stjórnendur háskólans.

Við höfum, ólíkt þér, rætt þetta mál við stjórnendur skólans.

Rétt staðfesting á því sem ég hef haldið fram um ykkur, að þið standið í raun ekki fyrir neitt annað en eigið ágæti.

Óskaplega ertu bitur út í Vantrú.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 12/05/11 11:00 #

Teljum okkur vita betur en stjórnendur Háskólans? Um hvað ertu eiginlega að bulla, maður?

Það voru einmitt stjórnendur Háskólans sem voru komnir í meiri háttar vandræði út af þessu upphlaupi.

Þegar það liggur fyrir að önnur siðanefndin í málinu komi til með að losna upp án þess að geta fjallað um málið og að ekkert lát er á stanslausum áróðri og ólátum ákveðins hóps starfsfólks háskólans þá er nokkuð ljóst að siðanefnd kemur ekki til með að fá frið í þessu máli. Hún hefur ekki fengið frið í 15 mánuði og ekkert bendir til þess að það hefði breyst.

Málið var komið í algjöran hnút og við ákváðum að skera á hann með þessum hætti gegn því m.a. að ferill málsins yrði skoðaður af óháðum aðilum.

Hættu nú að gaspra um eitthvað sem þú veist ekkert um.


finnur@celinbros.com - 12/05/11 12:04 #

"Við höfum, ólíkt þér, rætt þetta mál við stjórnendur skólans."

Og voru stjórnendur háskólans sammála ykkur í því að besta lausnin sé að þið dragið kæruna tilbaka?


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 12/05/11 12:45 #

Já.


Finnur - 12/05/11 13:40 #

Ég hef þá líklega vanmetið ykkur, fyrst stjórnendur háskólans viðurkenna að þið vitið betur.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 12/05/11 13:43 #

Æ, góði besti hættu þessum skætingi.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 11:05 #

Finnur væri þá ekki fyrsti maðurinn til að vanmeta Vantrú.

Nýjasta útspil órólegu kennaranna í HÍ er að bera "gögn málsins" í Fréttablaðið í von um að geta brenglað myndina enn frekar en orðið er. Sami pistill er birtur á visir.is en án eftirfarandi tilvitnunar í rektor HÍ:

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, vill ekki tjá sig efnislega um mál Bjarna og Vantrúar meðan á þessu ferli stendur. Spurð um áhrif málsins á andann í skólanum svarar Kristín: "Þetta er stór stofnun og það er ekkert óeðlilegt í svona umhverfi að fólk hafi sterkar og skiptar skoðanir. Það eru mörg erfið mál sem þarf að leysa og þetta er eitt af þeim."

Þórður Harðarson, formaður siðanefndarinnar, hefur hlotið talsverða gagnrýni vegna framgöngu sinnar í málinu. "Þetta er bara önnur hlið málsins og hann nýtur míns fyllsta trausts," segir Kristín.

Þórður Harðarson var skipaður formaður núverandi siðanefndar HÍ síðasta sumar - eftir að hann hafði sagt af sér vega atlögu órólegu kennaranna í okkar máli. Sá formaður sem tók við okkar máli hugðist líka segja sig frá málinu vegna atgangs sömu manna.

Það mega vera mikil býsn ef Vantrú hefur tekist að vefja þessum vammlausu mönnum um fingur sér og nota sem strengjabrúður í ofsóknum og einelti á hendur kórdreng með geislabaug.

Staðreyndir málsins koma í ljós og þá eiga margir eftir að verða hissa og skammast sín sáran fyrir að hafa látið glepjast af fordómum og illmælgi manna á villigötum.


Hanna Lára (meðlimur í Vantrú) - 01/06/11 12:18 #

Háskóli Íslands er opinber stofnun og upp að vissu marki ætti það sem háskólinn fjallar um að vera opinbert. (Eina undantekningin væri persónulegir hagsmunir einstaklinga)

Ríkiskirkjan er einnig opinber stofnun og ætti að lúta sömu reglum um gegnsæi og aðgengi að stefnu og hugmyndafræði (ef einhver er).

Félagið Vantrú er EKKI ríkisrekin stofnun, né heldur þiggur félagið sporslur úr ríkishítinni. Þetta er samastaður fólks sem á það sameiginlegt að berjast gegn hindurvitnum og koma á einhverri skynsemi í málefnum sem varðar "það sem augað fær ekki greint né eyrað heyrir".

Að ætlast til þess að spjall Vantrúar sé gert opinbert, er jafn fáránlegt eins og að halda að opinber stofnun lifi einungis sjálfri sér og þurfi engum að standa skil á orðum sínum og gerðum.

Þeir sem starfa við Háskóla Íslands sem og þeir sem starfa innan ríkiskirkjunnar gerðu rétt í að muna að þeir eiga að vera að vinna fyrir þjóðfélagið en ekki öfugt, - a.m.k. þar til okkur hefur tekist að fá ná fram vilja yfir 70% þjóðarinnar: AÐSKILNAÐ RÍKIS OG KIRKJU.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.