Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Einelti og trú

Trúarbullur

Þegar ég var strákur og gekk í barna- og grunnskóla var einelti ekki til. Einhverjum krökkum var þó strítt, sumir lamdir, aðrir hunsaðir. Oftast þurfti ekki mikið til að verða fyrir barðinu á hrekkjusvínunum. Gleraugu, óvenjulegt nafn, stam eða önnur líkamleg einkenni dugðu þeim til að eitra tilveru skólasystkina sinna.

Ólíðandi hegðun

Gerendur og þolendur voru ekki fjölmennir og ekki minnist ég þess að þessi hegðun væri rædd neitt sérstaklega í skólanum. Þetta þótti e.t.v. ekki tiltökumál - n.k. þjóðfélagslegur Darwinismi. Til allrar hamingju hefur orðið mikil breyting á því hvernig rætt er um og tekist á við þessa hegðun og hún nefnd sínu rétta nafni. Einelti er ofbeldi sem enginn á að sætta sig við. Ekki þolendur, ekki gerendur, ekki foreldrar, ekki skólarnir og ekki þjóðfélagið.

Margt hefur horft til framfara í eineltismálum og hafa margir skólar tekið upp áætlanir og fræðslu um einelti, m.a. áætlun sem kennd er við Olweus. Góður árangur hefur náðst í mörgum skólum, en reglulega skjóta upp kollinum hryllingssögur af einelti. Víða heyrast því raddir um að menntamálayfirvöld verði hreinlega að skylda alla skóla til að taka á þessum málum með öllum tiltækum ráðum.

Mér þykir ákaflega ólíklegt að þeir sem hafa kynnt sér eineltismál og -umræðu af einhverju viti séu mótfallnir slíkum ráðstöfunum eða reyni að snúa út úr slíkri umræðu með rangfærslum og upphrópunum. Þeir eru trúlega vandfundnir sem mundu mæla skólastjórnanda bót, er heimtar að ráða þessum málum sjálf(ur) en hefur allt í sukki.

Trúarbullurnar

Á sama tíma og þessi umræða fer fram hefur maður gengið undir manns hönd til að verja trúarlega boðun í grunnskólum borgarinnar og talið ófært að komið sé í veg fyrir slíkt með almennum reglum sem skólunum séu settar. Hófsamar tillögur menntaráðs Reykjavíkurborgar til að stemma stigu við trúarlegri boðun í skólum borgarinnar hafa mætt harðri andstöðu sjálfskipaðra siðferðispostula og trúarofstækismanna.

Þeir finna slíkri forsjárhyggju allt til foráttu og hika ekki við að væna þá um illt innræti er mæla tillögunum bót. Jafnframt er er öllum staðreyndum um tillögurnar snúið á haus og hreinlega logið um hvað þær fela í sér. Hér þarf sem sagt ekki að setja skólastjórnendum almennar reglur um hvað er boðlegt.

Boðlegar, ásættanlegar og sanngjarnar reglur

Hvernig má það vera að ef þvinga þarf almennar umgengnisreglur og hegðun upp á skólana með stjórnsýsluvaldi að það sé á einhvern hátt óæskilegt að trúfélögum séu settar reglur um hvað sé ásættanlegt í sömu skólum?

Forvígismenn kristinnar trúar hafa sýnt af sér yfirgang og óbilgirni í leik- og grunnskólum landsins og því löngu kominn tími til að setja þeim almennar umgengnisreglur, líkt og öllum öðrum er starfa með ósjálfráða börnum. Þannig þykir þeim ekki tiltökumál að jaðarsetja einstök börn á skólatíma vegna þess að foreldrum þessara barna hugnast ekki trúarinnrætingin.

Félagsfræðilegar kannanir hafa sýnt að oft er ákveðin hegðun, skoðanir eða atferli talið útbreiddara en það raunverulega er. Trúarhiti íslenskra leik- og grunnskólabarna er stórlega ofmetinn af andstæðingum almennra mannréttinda og mál til komið að þeim séu settar sanngjarnar reglur fyrst þeir haga sér ekki ósvipað og einbeittir eineltisgerendur.

Guðmundur Guðmundsson 09.11.2011
Flokkað undir: ( Gídeon , Hugvekja , Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/11 09:27 #

Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifar í Morgunblaðið í dag.

Það er svo sem engin furða þótt sumir borgarfulltrúar skóla- og menningarráðs borgarinnar hafi ekki haft áhuga á að taka þátt í degi um einelti og hvetji til námskeiða um það efni, því að þeim veitti sjálfum ekki af að sækja slíkt námskeið. Þeir skildu þá kannski sjálfir hvað þeir eru að gera. Þær hreyfingar sem kalla sig Vantrú og Siðmennt hafa lagt þjóðkirkjuna í einelti í langan tíma og varla linnt látum í þeim efnum og kórónuðu það með ályktun fulltrúa þeirra og Margrétar Sverrisdóttur um samskipti kirkjunnar og skólanna nýlega.


Sæmi - 09/11/11 11:22 #

Í tengslum við einelti er áhugavert að skoða eftirfarandi link þar sem fram kemur að í Michigan er heimilt skv lögum að leggja í einelti í nafni trúar eða eins og klausan hljóðar:

This section does not prohibit a statement of a sincerely held religious belief or moral conviction of a school employee, school volunteer, pupil, or a pupil’s parent or guardian.

http://foolocracy.com/2011/11/michigan-anti-bullying-law-allows-exception-for-religious-beliefs-and-moral-convictions/


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 09/11/11 11:31 #

Leggjum við fólk í einelti?


Arnar Sigurður - 09/11/11 11:49 #

Þessi ummæli Guðbjargar eru út í hött.


Jon Steinar - 10/11/11 04:33 #

Þetta er alveg stórfengleg klausa hjá Snótinni. Nú er margmilljarða bákn, sem inniheldur 3/4 þjóðarinnar orðið fórnarlamb eineltis. Jahérna hér. :D Skal nokkurn undra að þetta fólk fái á sig sneiðar annað slagið.


Jón Steinar - 10/11/11 04:38 #

Ég fletti upp mynd af Guðbjörgu Snót á netinu og fyrirgef henni brandarann.


Linda - 10/11/11 21:00 #

Góð grein!

Myndin er samt fullmikill áróður fyrir minn smekk.

Einelti er óháð trúarbrögðum.


trúleysingi - 20/11/11 20:36 #

ég er trúlaus unglingur og hef margoft verið lagður í einelti af ´´Trúuðum,, (Samt ekki lengur) þótt að ég hafi aldrei sagt neitt vont um þá, en samt voru þeir alltaf að segja að ég myndi fara til helvítis.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?