Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúboð og börn

2011 er ár uppskerunnar. Þótt hún sé ekki mikil er hún áþreifanleg og eflaust aðeins forsmekkurinn af því sem koma skal. Fyrst er að nefna að borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum 4. október sl. reglur sem banna trúboð í skólum:

Reglurnar fela í sér að trúar- og lífsskoðunarfélög skulu ekki stunda starfsemi sína innan veggja leik- og grunnskóla borgarinnar á skólatíma né heldur á starfstíma frístundaheimila. Þetta á við allar heimsóknir í trúarlegum tilgangi og dreifingu á boðandi efni. Með boðandi efni er átt við hluti sem gefnir eru eða notaðir sem hluti af trúboði, það er tákngripir, fjölfölduð trúar- og lífsskoðunarrit, bækur, hljóðrit, prentmyndir og kvikmyndir.#

Annar mikilvægur áfangi er boðað frumvarp ríkisstjórnarinnar til breytinga á lögum um skráð trúfélög nr. 108/1999, lögum um sóknargjald nr. 91/1987, og hjúskaparlögum, nr. 31/1993.

Með breytingum á ofangreindum frumvörpum er stefnt að því að lífsskoðunarfélög fái sömu heimild til skráningar og trúfélög hafa samkvæmt lögum, með þeim réttindum og skyldum sem skáningu fylgir. Jafnframt verður lagt til að afnumið verði það fyrirkomulag að barn skuli frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess. (Haust) #

Kemst þótt hægt fari

Reynslan af reglunum í Reykjavík verður metin eftir eitt ár og því er mikilvægt að jafnréttissinnar í trúmálum haldi vöku sinni og á hinu háa Alþingi má búast við ramakveini afturhaldsaflanna, sem við þekkjum svo vel. Það verður fróðlegt að sjá hverjir munu berjast fyrir því að ríkisvaldið skrái hvítvoðunga sjálfkrafa í trúfélag og hvort það verður gert undir merkjum sjálfstæðis og andúðar á ríkisafskiptum.

Í baráttunni fyrir hlutlausum skólum í trúmálum og afnámi afskipta ríkisvaldsins af trúarbrögðum fær maður oft á tilfinninguna að ekkert mjakist, allir sofi. En nú eru flestir landsmenn farnir að rumska og sumir jafnvel glaðvaknaðir.

Þegar Vantrú lagði til atlögu við Vinaleiðina af öllum mætti 2006 komu stjórnendur skóla og menntayfirvöld af fjöllum. Nú er almenningur meðvitaður um fjarstæðu þess að boða trú í leik- og grunnskólum. Og þótt trúlausir hafi lengi bent á fáránleika þess að ríkið færi til bókar aðild landsmanna að trúfélögum og skrái börn sjálfkrafa í þau við fæðingu komst ekki skriður á málið fyrr en þessi ósvinna var kærð til Jafnréttisstofu, sem sendi frá sér álit 2008 þess efnis að þessi tilhögun stangaðist á við jafnréttislög. Menn geta kynnt sér umræður á Alþingi 2009 um þetta mál.

Hér fyrir neðan eru nýju reglur Reykjavíkurborgar í heild sinni:

Reglur um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila Reykjavíkurborgar við trúar- og lífsskoðunarfélög

Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar(.pdf) var samþykkt árið 2006. Hún kveður á um að íbúum verði ekki mismunað á forsendum kyns, efnahagsstöðu, uppruna, fötlunar, aldurs eða stjórnmálaskoðana. Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að framförum á sviði mannréttinda hjá borginni og hefur verulegur árangur náðst í auknu kynjajafnrétti, í réttindum samkynhneigðra og málefnum innflytjenda. Mannréttindastefnan kveður einnig á um að borgarbúum skuli ekki mismunað eftir lífs- og trúarskoðunum.

Árið 2007 kom út skýrsla Leikskóla- og Menntasviðs Reykjavíkur um samstarf kirkju og skóla(.pdf). Í hópi skýrsluhöfunda voru fulltrúar frá öllum hlutaðeigandi aðilum; skólastofnunum borgarinnar, Biskupsstofu og Alþjóðahúsi. Ein af meginniðurstöðum hópsins var sú að móta þyrfti skýrar starfsreglur um samskipti trúar- og lífsskoðunarhópa og skóla Reykjavíkurborgar.

Borgarráð samþykkir að eftirfarandi reglur gildi um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar við trúar- og lífsskoðunarfélög:

a) Hlutverk skóla borgarinnar er að fræða nemendur um ólík trúarbrögð og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámskrá og námsefni.

b) Trúar- og lífsskoðunarfélög skulu ekki stunda starfsemi sína innan veggja leik- og grunnskóla borgarinnar á skólatíma né heldur á starfstíma frístundaheimila. Þetta á við allar heimsóknir í trúarlegum tilgangi og dreifingu á boðandi efni[*]. Um almenna kynningu gagnvart foreldrum og börnum á viðurkenndu barna- og æskulýðsstarfi trúfélaga skal fara líkt og með kynningu á hliðstæðum frístundatilboðum frjálsra félagasamtaka.

c) Skólastjórnendur grunnskóla geta boðið fulltrúum trúar- eða lífsskoðunarhópa að heimsækja kennslustundir í trúarbragðafræði/lífsleikni sem lið í fræðslu um trú og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámsskrá og námsefni, og skal heimsóknin þá fara fram undir handleiðslu kennara og vera innan ramma námsefnisins.

d) Heimsóknir á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga á skólatíma grunnskóla skulu eiga sér stað undir handleiðslu kennara sem liður í fræðslu um trú og lífsskoðanir, samkvæmt gildandi lögum og aðalnámskrá. Þar sem ekki er sérstaklega getið um vettvangsheimsóknir leikskólabarna á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga sem lið í fræðslu um trú og lífsskoðanir í aðalnámskrá leikskóla er eðlilegt að miða fjölda slíkra heimsókna við það sem fram kemur í aðalnámskrá grunnskóla til að gæta samræmis milli skólastiga.

e) Þess verði gætt við allar heimsóknir til og frá grunnskóla vegna fræðslu um trú og lífsskoðanir að nemendur fylgist með en séu ekki þátttakendur í helgisiðum og athöfnum, og að þær séu ekki vettvangur fyrir innrætingu eða dreifingu á boðandi efni.

f) Skólayfirvöld beini því til trúar- og lífsskoðunarfélaga að þau skipuleggi fermingarfræðslu og barnastarf með það að leiðarljósi að það hvorki trufli lögbundið skólastarf um skemmri eða lengri tíma.

g) Þær stofnanir borgarinnar sem hafa starfandi áfallaráð tryggi að samráð verði haft við foreldra/forráðamenn þeirra sem áfallið snertir áður en fagaðilar eru fengnir til stuðnings. Í nærsamfélagi leik-og grunnskóla getur verið um að ræða sérfræðinga, fulltrúa trúar- eða lífsskoðunarfélaga eða aðra fagaðila. Helgistundir sem tengjast viðbrögðum við áfalli skulu að öllu jöfnu fara fram utan skólatíma.

h) Sígildir söngvar, dansar, leikir og handíðir sem teljast hluti af gamalgrónum hátíðum og frídögum þjóðarinnar halda sessi sínum í árstíðabundnum skemmtunum og starfi frístundaheimila, leik- og grunnskóla. Jólasálmar og helgileikir tengdir jólum falla hér undir.

Til grundvallar þessum reglum liggur sá vilji að tryggja rétt barna til þátttöku í skólastarfi óháð þeirri trúar- og lífsskoðun sem þau alast upp við. Upplýst fræðsla um kristna trú, trúarbrögð heimsins, lífsskoðanir, siðfræði, heimspeki og íslenska menningu, er mikilvæg í öllu starfi skóla borgarinnar. Trúarleg innræting og boðun tiltekinna lífsskoðana á þar ekki heima. Það er á hendi foreldra að ala börn sín upp í þeirri trúar- og lífsskoðun sem þeir kjósa. Um það munu starfsmenn Reykjavíkur standa vörð samkvæmt mannréttindastefnu borgarinnar og þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist.

Rísi ágreiningur um túlkun þessara reglna úrskurðar Skóla- og frístundasvið í þeim efnum. Skóla- og frístundasviði er jafnframt falið skipa nefnd sem meti reynslu af reglunum innan eins árs frá setningu þeirra og leggi mat á álitamál sem upp kunna að koma. Um setu í nefndinni verði m.a. leitað til mannréttindastjóra, fulltrúa úr skóla-, foreldra- og háskólasamfélaginu auk fulltrúa trúar- og lífsskoðunarfélaga.

[*] Með boðandi efni er átt við hluti sem gefnir eru eða notaðir sem hluti af trúboði, það er tákngripir, fjölfölduð trúar- og lífsskoðunarrit, bækur, hljóðrit, prentmyndir og kvikmyndir. #(.pdf)

Ritstjórn 06.10.2011
Flokkað undir: ( Skólinn , Vísun )

Viðbrögð


G2 (meðlimur í Vantrú) - 06/10/11 14:40 #

Það verður fróðlegt að sjá hverjir munu berjast fyrir því að ríkisvaldið skrái hvítvoðunga sjálfkrafa í trúfélag ....

Ég sé, ég sé ...... Árna Johnsen!


Sveinn Þórhallsson - 06/10/11 14:57 #

Hvað er að frétta af því að fólk utan trúfélaga borgar hærri skatta en fólk sem tilheyrir trúfélögum? Hefur eitthvað verið unnið markvisst gegn því?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 06/10/11 15:11 #

Fín umfjöllun um skráningarmálið á mbl.is.


Jón Ferdínand - 09/10/11 14:55 #

Sáuð þið viðtalið við gídeon gaurinn í fréttunum um daginn þegar fjallað var um þessi nýju lög? Þar lét hann út úr sér frasa eins og: ''Börnin munu fá biblíuna sína, með einum eða öðrum hætti'' og ''við höfum fulla trú á því að við komust í kringum þessi lög'' Sumir hreinlega vita bara ekki hvenær þeir eru búnir að tapa!


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 09/10/11 15:53 #

Í sjálfu sér er ekkert að því að börn fái nýja testamentið. Bara svo lengi sem það er með samþyki foreldra og fari ekki fram innan opinberra stofnanna.


ólöf - 14/10/11 09:03 #

er ekki trúleysi boðun á vissri trú útaf fyrir sig? :) ekki það að ég hafi lesið mér mikið til um síðuna ykkar... http://www.youtube.com/watch?v=AqnEGu8VF8Y&feature=share


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 14/10/11 09:30 #

Ólöf, ef maður stundar trúleysisboðun, þá er maður ekki að boða trú, heldur trúleysi ;)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.